Monday, June 08, 2009

Er að fara að sleppa
Þá er komið að því að fara að sleppa hrossunum. Enda er ég farin að vera frekar framlág á morgnana. Get ekki beðið eftir því að fá að sofa út. Það var líka orðið ljóst að mútta væri ekki tilbúin til að flytja upp í bústað fyrr en ég væri búin að sleppa og ég vil fara að komast upp í bústað. Ég byrjaði því á því að færa tryppin upp á Kjalarnes. Ég ætla að sjá hvernig gengur að hafa þau bara upp í fjalli í sumar. Þannig að ég vildi vera búin að koma þeim upp eftir og sleppa þeim upp í fjall áður en ég kæmi með reiðhrossin. Þetta gekk bara vonum framar. Þau létu öll ná sér og mýla út í haga, átti nú svo sem von á því, en svo létu þau bara teyma sig út úr haganum og upp á kerru eins og ekkert væri sjálfsagðara. Meira að segja Úlfur litli var ekki með nein mótmæli. Hann hefur heldur betur lært síðast, blessaður karlinn. Held að það séu ekki margir með 1, 2 og 3v tryppi sem eru svona auðveld í meðförum. Sú eina sem var með einhver mótmæli var hún Kvika þegar hún sá á eftir tveimur yngstu börnunum sínum. Skil nú ekki hvað hljóp í hana. Hún hefur nú ekki kippt sér mikið upp við brotthvarf þeirra hingað til.
Svo fara reiðhrossin upp eftir á morgun. Ætla að hafa þau upp á Kjalarnesi þar til um mánaðar mótin. Þá vona ég að það verði komin nægur hagi upp í bústað til að hafa þau þar fram til loka ágúst. Þá ætti haginn upp á Kjalarnesi vonandi að duga sem haustbeit fyrir þau öll. Var að reyna að fá leigt stykki upp á Kjalarnesi sem hefur ekki verið beitt í einhver ár. Það tókst því miður ekki. Frúin vildi leigja mér en eiginmaðurinn ekki. Ég ætla samt að vera með augun opin fyrir öðrum stykkjum. Það er betra að hafa of mikla beit en og of litla. Í fyrra varð ég að byrja að gefa út í nóvember. Þetta kemur bara í ljós.
Ég er búin að vera að setja Hlé (þessi sem var geltur um daginn) út með hinum hrossunum. Honum hefur bara samið ágætlega við alla. Hryssurnar voru allar í látum þegar ég byrjaði að setja hann út með þeim. Ég vissi það ekki fyrr en þær voru allar mígandi utan í hann. Ísold var svo frek að hún lamdi hann ef hann sinnti henni ekki og ef hann var of lengi að koma sér að verki lamdi hún hann líka. Hann mátti helst ekki sinna hinum hryssunum heldur. Þannig að það var alveg brjálað að gera hjá honum og ég vissi ekki hvort ég ætti að vorkenna honum eða ekki.
En þegar ég segi að allar hryssurnar væru í látum þá á ég við Áru líka sem fór undir Glaum í maí. Þannig að hún er ekki fylfull. Mig grunaði að það yrði eitthvað vesen með hana. Fegin að ég fór ekki að eyða einhverjum pening í að koma henni undir sýndan hest. Hún er sennilega stein geld.
En gamanið er rétt að byrja þótt ég sé að fara að sleppa. Næst þarf ég svo að fara með Kviku og Glóey í sónar. Ef Kvika er ekki fylfull þarf hún að fara aftur til hestsins og ég vil ná í fyrra gangmál sem byrjar 15. júní.
En ef það verður ekkert bloggað svo vikum skiptir á næstunni þá er ég líklega flutt upp í bústað.

|