Wednesday, September 14, 2011

Formaður húsfélags eða húsvörður?
Mér var troðið í starf formanns húsfélagsins. Það var eiginlega ekki hjá því komist því meðaldur íbúa húsins er frekar hár, leigjendur í einhverjum íbúðum og aðrir eru með mér í stjórninni.
Það hefur verið leiðinlega mikið að gera hjá mér sem formanni ekki síst vegna þess að margir virðast halda að sem formaður þá eigi ég líka að sjá um alls konar viðhald sem fellur til. Nú síðast var það stíflaður vaskur.
Nú tel ég mig femínista (aka. jafnréttissinna). Það fór svolítið fyrir brjóstið á mér að það var eini karlmaðurinn undir sextugu í húsinu sem ætlaðist til þess að ég losaði stífluna svo hann gæti skúrað þvottahúsið. Nú finnst mér í góðu lagi að hann skúri en ég skildi ekki alveg hvernig hann gat beðið konu um að losa stífluna fyrir sig. Það var ekki flókið mál. Það þurfti að skrúfa í sundur vatnslásinn og hreinsa úr drulluna. Vatnslásinn var þar að auki úr plasti og ég gat skrúfað hann í sundur með höndunum. Mér hefði fundist allt í lagi að losa stífluna fyrir hvern sem er af eldri íbúm húsins eða ef það hefði verið kona sem hefði beðið mig um það. Það pirraði mig að fullfrískur fertugur karlmaður skildi ekki geta gert þetta sjálfur.
Ég hef nú alltaf vitað að ég væri ekki fordómalaus en þetta kom mér svolítið á óvart. Ég þarf greinilega að bæta eigin þankagang þegar kemur að jafnrétti.

|

Friday, August 12, 2011

Allt úrskeiðis
Það gekk ekkert upp þetta sumarið.
Strákurinn sem ætlaði að taka Glaum og reyna að sýna hann slasaði sig og gat ekki tekið hann. Það þýddi lítið að finna einhvern annan því að Glaumur missti skeifu og braut upp úr hófnum á sér og þar með dóu allir draumar um síðsumarsýningu. En stráknum líst ágætlega á Glaum og stefnan að hann taki hann í vetur og sýni næsta vor. Hann var ekki jafn hrifinn af Gabríel og er allt svolítið í lausu lofti með hann. Það kemur í ljós.
Gleði, systir fyrrnefndra drengja, var ekki að beita vinstri afturfæti rétt og fór í alsherjarskoðun og myndartöku en ekkert kom í ljós. En þegar haldið var áfram að þjálfa hana fór hún að verða hölt. Hún var skoðuð aftur en ekki var hægt að skera úr um hvað væri að hrjá hana. Þannig að hún var sett út í frí og verður skoðuð aftur í haust.
Embla kom inn í staðinn og fór í þjálfun. Hún er ekkert til að hrópa húrra fyrir. Daman er frekar löt. Hún er reyndar circa 100 kílóum of þung, það hjálpar víst ekki. Hún er samt fallegri og ganghreinni en móðir sín. Við sjáum hvað gerist í vetur.
Hefring er reyndar búin að vera í þjálfun í allt sumar og gengur vel. Hún er bara efnileg daman. Gangur laus og fótalyfta góð. Hún virðist reyndar vera klárhryssa. Ég hélt að hún yrði alhliða og fyrir svona dýrkanda alhliðahrossa eins og mig eru þetta pínu vonbrigði. En ef hún fær 9 fyrir tölt þá kvarta ég ekki.
Ljósið í myrkrinu er samt að það fæddust bara hryssur þetta vorið. Þær hafa fengið nöfnin Hrafnhetta, Ísól, Þyrnirós og Garún.

|

Thursday, May 19, 2011

Glaumur frá Reykjavík
Hann Glaumur fór í byggingardóm í vikunni og fékk: 8 haus, 8 háls og herðar, 8 bak og lend, 8.5 samræmi, 8 fótagerð, 7 réttleiki, 8 hófar og 7 prúðleika eða samtals 7.98. Ég er bara nokkuð sátt. Auðvitað hefði hin eftirsótta átta verið æskilegri. En nú stendur til að fara með drenginn í frekari þjálfun og reyna við fullan dóm á síðsumarssýningu.

|

Wednesday, May 04, 2011

Einn verkur í einu
Ég er búin að vera slæm í bakinu í allann vetur. Bara orðin gömul og feit og slitin. Ég hef líka verið slæm í olnboganum á vinstri handlegg. Fékk svona svipað í hægri handlegg fyrir einum eða tveimur árum, ekkert hægt að gera, bara hvíla handlegginn. Það er svolítið erfitt þegar maður þarf að moka skít á hverjum degi, svo ég hef bara verið að bíða eftir að sleppa hrossunum svo ég geti hvílt mig.
Jæja, eins og ég sagði hér fyrir neðan þá datt ég á hausinn og rifbeinsbraut mig og lenti illa á vinstri olnboganum. Meðan ég var að drepast í rifbeininu og með risa mar á olnboganum þá fann ég ekkert til í bakinu og mjög lítið í olnboganum. En um leið og það fór að komast í lag þá fékk ég tak í bakið og aftur verki í olnbogann.
Svo pælingin er þessi? Meðtekur heilinn bara einn verk í einu?

|

Wednesday, April 27, 2011

Hvað gerðist eiginlega?
Var að lesa gamlar bloggfærslur hjá mér og margar hverjar bara þrælskemmtilegar. Svo fór ég allt í einu yfir í leiðinlegar upptalningar á því sem ég var að gera í hesthúsinu. Og loks hætti ég alveg og fór á facebook. Bara gengur ekki. Ég ætla að vona að ég nái aftur gömlum töktum.
Ég ætla að byrja á gömlu umkvörtunarefni, útvarpinu. Ég hlusta mikið á útvarpið, aðallega í bílnum, og ég keyri enn mikið. Ég hlusta á bylgjuna. Þar er spiluð tónlist við mitt hæfi og fréttir á hverjum klukkutíma. Því miður þykir hlátur gott útvarpsefni á bylgjunni. Útvarpsmenn hlægjandi eins hross í tíma og ótíma. Verstur af öllum er Hemmi Gunn. Ekki mikið skárri er einhver dama sem er kölluð Svansí. Útvarpsmenn hlægjandi eins og fífl af léglegum einkabröndurum er ekki gott útvarpsefni.

|

Tuesday, April 26, 2011

Eitt ár, einn mánuður og einn dagur
Sem ég lét þetta blogg sitja óhreyft.
Mikið búið að gerast í hestamennskunni. Hlér seldist síðasta haust, til að vera barnahestur. Held að hann hljóti að vera ánægður með lífið og tilveruna. Hann lítur alla vega vel út. Hef séð hann í hverfinu.
Það gekk allt á afturfótum síðasta árið. Þjálfarinn sveik mig þegar á reyndi. Eins og það væri ekki nóg kom hóstapestin víðfræga fljótlega í kjölfarið. Ég sökk í andlega ládeyðu og hlóð á mig aukakílóum. Sat uppi með þrjá stóðhesta sem þurfti að koma fyrir. Það reddaðist samt. Ég fékk líka meðeiganda að Gabríel svo ég losnaði við kosnaðinn af honum.
Er búin að vera með sex hross á húsi í vetur. Varla druslast á bak. Erfitt þegar maður er bæði andlega og líkamlega þungur.
Lét gelda Viktor og sé ekki eftir því, hann var bara ekki stóðhestsefni. Hann er samt flottur með þetta síða fax, meðan hann stendur kyrr.
Loksins þegar ég var að komast af stað varð ég fyrir óhappi. Ég var upp í Líflandi að versla spónaköggla, fóðurbæti og saltsteina. Ég var að ná í kassa af tveggja kílóa saltsteinum og gætti ekki að mér. Það var eitthvað drasl á gólfinu sem ég tók ekki eftir og ég flaug á hausinn með kassann í fanginu. Það tók mig þó nokkurn tíma að ná andanum því ég lenti á kassanum með neðstu rifin og þindina. Fyrst til að byrja með var mér aðallega illt í olnboganum sem ég lenti á líka en þegar leið á daginn kom annað og verra í ljós. Ég hafði rifbeinsbrotnað. Það var hræðileg vika sem tók við en ég hef verið að skána jafnt og þétt en þetta hefur tekið tíma og auðvitað hefur ekki verið riðið mikið út á meðan.

|

Still alive
Fór á facebook og ætlaði að láta það duga í staðinn fyrir að blogga. Það eru jú allir á facebook. Það er bara of takmarkað tjáningarform. Ætla því að reyna að endurvekja bloggið mitt. Lofa engum kraftaverkum en ég reyni.

|

Thursday, March 25, 2010

Mikið búið að gerast
Ég veit nú ekki hvort nokkur fylgist með þessu bloggi mínu en ef svo er þá biðst ég velvirðingar á því að hafa ekki skrifað lengi.
Ég gafst upp á honum Degi mínum og sendi hann í sláturhús. Ég nenni ekki að ríða lullbrokk, lulltölt og svo hreint lull og hann sýndi litlar framfarir á gangi. Auk þess var geðslagið ekki með honum heldur. Hann notaði öll tækifæri til að hendast til hliðar og út af veginum ef hann gat. Þegar ég reyndi svo að nota hann til að kenna Hlé að teymast varð fýlan slík þegar hann þurfti að hægja á sér til að Hlér fylgdi að hann endaði á því að fara að hrekkja mig. Svona vitleysu nenni ég ekki lengur og ekki hvarflar að mér að selja nokkrum manni svona hross. Þetta er samt alltaf erfið ákvörðum og finnst mér alltaf sárt að láta hross fara.
Í staðin tók ég inn Ísold. Hún er alveg svakalega feit eftir að hafa staðið í heyi með fylfullum hryssum og tryppum. Ekki vantar samt viljan í litla dýrið. Teymingarkennsla Hlés hefur tekið miklum framförum eftir að hún kom inn enda varla til samvinnuþýðara og betra hross en þessi elska.
Glaumur hefur heldur betur tekið við sér og er kominn aftur í þjálfun. Ég var að ríða honum sjálf um tíma og finnst mér hann alveg þrælskemmtilegt hross. Hef mikla trú á þessum hesti. Hvort sem hann er efni í stóðhest eða keppnishest.
Gabríel og Viktor fóru báðir í tamningarprófið og stóðu sig með prýði. Þeir voru svo settir í frí áður en það yrði haldið áfram með frekari þjálfun, svona tvær vikur eða svo. Viktor var hins vegar orðinn svo frekur í umgegni að ég ákvað að hann hefði ekki gott af meira fríi og prófaði hann í fyrsta skipti í gær. Það vantar vissulega vilja eins og búið var að segja mér. Það er ekki stefnt með hann í dóm í vor þar hann var ekki að sýna neina rosa takta. Ég er samt ekki tilbúin að afskrifa drenginn alveg. Mér finnst búa mikið í klárnum og ef viljinn myndi aukast held ég að þetta gæti orðið feikna hestur. Ég er alveg til í að gefa honum annað ár. Hann er nú ekki að verða nema 4v. Þetta er líka algjör töffari með topp niður á nasir og fax niður á bóga og eru margir búnir að koma og spyrja um hann.
Ungu hrossin á útigangi létu mig fá nett hjartaáfall í gær. Það var ekki rafmagn á girðingunni og hefur ekki verið lengi. Hliðið fyrir traktorinn er allt of langt og það hafði hálf lagst á hliðina. Það er frost að fara úr jörð og eitthvað gengið til staurarnir þannig að það var ekki nógu strekkt. Eitthvað þótti þeim heyið sem var eftir hjá þeim orðið of hrakið eða eitthvað þannig að þau fóru yfir hliðið. Æðislegt að hafa laus hross rétt við þjóðveg 1. Gömlu konurnar stóðu hins vegar eftir og skildu ekkert í þessum stælum. Það var því auðvelt að reka þau aftur inn eftir að góðir grannar létu mig vita að þau væru komin út. Og þau fengur nýtt hey og rafmagnið var sett á. Vonandi verða þau til friðs.
Ég læt þetta duga í bili.

|