Thursday, February 19, 2009

Eitthvað sem bara mér tekst
Ég er komin með tannpínu. Sem er í sjálfu sér ekki merkilegur hæfileiki. Nema hvað, ég er með tannpínu í tönn sem er bæði rótfyllt og með krónu og ætti þar með að vera steindauð!!! Svo ég er líklega með einhverja sýkingu og þarf því að fara á pensilín. Ef það virkar ekki veit ég ekki hvað verður gert næst. Tönnin rifin úr? Ég vil ekki hugsa svo langt.

|

Friday, February 13, 2009

Hross daginn út og inn
Ég er voðalega dugleg að dröslast á bak, hvernig sem viðrar. Suma daga fer ég nú reyndar ekki á allt, það var fyrst kalt og svo hvasst. En ég fer á bak á hverjum degi og ekkert stendur meira en einn dag í einu.
Ég held að ég þurfi að fá tannlækni (dýralækni) til að kíkja á tennur. Hjá Hlé losnar ekki ein "barnatönn" þótt nýja tönnin sé komin upp. Gamla tönnin liggur bara föst inn í góminn á honum. Hann var með tvær svona tennur en önnur losnaði sjálf. Ég er búin að vaða upp í hann nokkrum sinnum og reyna að losa þetta, í eitt skiptið með töng, en ekkert haggast þetta. Það er reyndar dálítið erfitt að halda í tunguna með annari hendinni og reyna að losa tönnina með hinni. Hann er ekkert voðalega sáttur við þessa meðferð og stendur því ekki kyrr á meðan. Annars er alveg ótrúlegt hvað hann líður mér þetta. Dagur sýnist mér líka með eitthvað undarlega tönn. Hjá honum er hins vegar eins og það sé önnur tönn fyrir neðan hina, þetta er ysta tönnin í gómnum. Var bara sjá þetta um daginn því ég fór að kíkja upp í tryppin eftir að ég sá þetta hjá Hlé.
Það gengur annars alveg ótrúlega vel með tryppin í reið. Gleði er farin að tölta formlega, ekki bara svona rétt dilla sér meira en fet hraða, hún er farin að stíga hægt tölt. Dagur er líka farin að tölta en hann er leiðinlega linur á brokkinu. Ég bölva sjálfri mér fyrir að hafa ekki látið setja hann á tíur í síðustu járningu. Ég er að hugsa um að draga fram þyngingar þangað til hann verður járnaður næst. Ég gat heldur ekki stillt mig lengur um að prófa formlega töltgírinn á stóðhestunum, Hlé og Glaum. Þeir hafa nú dottið í það af og til sjálfir. Glaumur tók betur í það en Hlér. En ég er nú bara búin að prófa einu sinni og það var í dag.
Ég er ekki frá því að það sé eitthvað að smella í hausnum á Áru. Hún er búin að ná því að hanga ekki í taumnum á feti, svona nokkurn veginn. Mér hefur alltaf fundist að næsta skrefið sé að hún geri það á brokki, hún gerir það svona stundum og stundum ekki. Stóra vandamálið er hins vegar höfuðburður á tölti. Hún teygir hausinn upp og fram og liggur í taumnum. Í staðin fyrir að hanga endalaust á brokki ákvað ég að fara beint af fetinu upp á tölt. Það gekk nú bara svona la, la. Ég fór nú bara að verða pínu bjartsýn á þetta mál. Ég ætla alla vega að halda áfram á þessari braut.
Síðan er Ísold auðvitað bara yndisleg. En ég verð nú líklega taka hana í smá fimiæfingar. Svona til að gera gott betra.

|

Monday, February 09, 2009

Útigangurinn og Ára
Ég gef útiganginum mínum of mikið, ég veit það. En ég þarf að fara daglega þegar það er frost til að vatna þeim og ég bara get ekki horfst í augu við þau þegar heyið er búið. Það er ég get ekki látið þau standa heylaus í einn tvo daga. Því þegar ég kem til að vatna þeim og heyið er búið þá er ég elt á röndum og beðið eftir að ég gefi þeim að éta. Það er allt á kafi í snjó og þau ná ekki að kroppa neitt annað. Það er greinilega meira að bíta hjá þeim en ég hélt því að rúllan endist lengur þegar það er snjólaust.
En árangurinn lætur ekki á sér standa. Ég held að útigangurinn minn hafi aldrei verið svona feitur. Ég er með eitt folald, sem gengur enn undir hryssunni, eitt tryppi á öðrum vetri og tvö á þriðja og þau eru öll svo feit að ég finn ekki eitt einasta rifbein, með góðu móti þ.e.a.s. ef ég nudda voða fast finn ég fyrir einhverju en þau eru þá yfirleitt orðin hálf móðguð út í mig. Fullorðnu hryssurnar þrjár eru líka vel feitar. Ég vona innilega að það sé folald þarna inn í Grímu einhvers staðar, hún er eins og stór snjóbolti með lappir. Það sér nú ekki högg á vatni á henni Kviku heldur þótt folaldið gangi enn undir henni en hún hefur nú aldrei tapað aukakílóum af óþörfu. Merkilegast finnst mér nú samt að horfa á hana Glóey. Ég held að ég hafi bara aldrei séð hryssuna svona feita, ekki einu sinni þegar hún var fylfull. Ég segi það ekki, það er gott að hún fóðrist vel, komin á nítjánda vetur.
Það gengur alveg þræl vel í útreiðunum. Öll tryppin sína sínar bestu hliðar og gamla konan (ég) er greinilega að venjast álaginu og er ekki dauð öll kvöld. Ég er reyndar farin að fara fyrr að sofa en það er nú bara eðlilegt að þurfa lengri beautysleep þegar maður er farinn að eldast.
Og svo er það hún Ára. Daman sú er það frekasta, þráasta kvikyndi sem ég hef fyrir hitt. Hún ætlar ekki að gefa sig. Eftirgjöf og slökun finnast ekki í hennar orðaforða. Hennar viðbrögð við öllu er að reygja hausinn upp, leggjast í taumanna og rjúka af stað. Hún verður grautfúl þegar hún á að gera einhverjar fimiæfingar, eins og að víkja til hægri eða vinstri undan fæti eða bara bakka. Hún lætur sig ekkert muna um það að strunsa í þver öfuga átt við það sem hún á að gera, helst á fullri ferð, jafnvel þótt það þýði að hún endi ofan í skurð eða á næsta hesti. Ég beit það í mig í dag að nú skildi hún hlýða, með góðu eða illu og þetta góða var fljótt að fara út um gluggann, við, leiðrétting, ég er búin að reyna það svo oft. Við vorum á feti 90% af tímanum, í reiðtúr, og daman var löðrandi sveitt þegar við komum í hlað. Það gekk svo mikið á að fólk var farið að spyrja hvort hún væri tamningartryppi og hvort ég þyrfti hjálp. Það var meira en lítið undrandi þegar ég sagði að hún væri tíu vetra og þetta væri bara frekja. Það er greinilegt að konur eiga ekki að ríða skapmiklum hrossum og alls ekki sýna hörku af neinu tagi. Ekki það að ég hafi verið að berja hana eða neitt, ég var ekki einu sinni með písk, hann gerir bara illt verra. Viðbrögðin hjá henni eru alveg nógu ofsafengin án þess að ég sé nú að bæta písk inn í málið líka. En það var greinilegt að eitthvað fannst fólki ekki passa, annað hvort að kona væri á svona erfiðu hrossi eða að kona ætlaðist til að hrossið hlýddi. Ekki misskilja, það var enginn að skamma mig eða hneykslast, það var meira svona undrandi. Er ekki meirihluti nemenda á hrossabraut á Hólum kvenfólk? Heldur fólk virkilega að konur þurfi aldrei að beita sér á baki? Ég veit að það er lífseig goðsaga og konur séu svo "lagnar og blíðhenntar" en í alvöru!!! Í öllum stóðum og samskiptum hrossa, hvort sem er við önnur hross eða menn, þá er einhver leiðtogi og ef þú ert hann ekki þá er hrossið leiðtoginn. Það kemur yfirleitt ekki vel út í reið. Ég er nú ekki viss um að Ára sé búin að samþykkja að ég sé leiðtoginn, alla vega í reið. En merkilegt nokk, þá er eins og ekkert hafi í skorist um leið og ég fer af baki. Ég er hennar besti vinur og á að klóra henni á hausnum og knúsa. Hún er nú ekki alveg í lagi þessi elska. Eða eins og ég hef oft sagt með nafnagiftina, Ára. "Hún hefur einstæða útgeislun sem ekki öllum er gefið að sjá."

|