Thursday, March 29, 2007

Ok, það er bara ekkert að gerast
Það gengur bara mjög vel hjá tamningardömunni með hryssurnar. Þriðja tamningarhrossið í húsinu, sem er ábyrgð bró'a, er búið að fara í tvo reiðtúra og hefur staðið sig mjög vel. Ég er svo búin að sinna reiðhryssunum mínum mjög vel undanfarna daga og ekki frá því að þær hafi sýnt einhverjar framfarir líka.
Eftir að ég fór að vera duglegri að gera eitthvað, svona almennt, þá hef ég borðað minna en ég var farin að gera á tímabili. Missti mig ekki í eitthvað brjálað át en ég var orðin óþarflega hrifin af bakaríinu.
Því miður þá tilheyri ég hestamannafélaginu sem öll umræðan er búin að vera um í tenglsum við nektardans á karlakvöldi. Ég er ekki ánægð. Er ekki hrifin af nektardans yfir höfuð en að íþróttafélag skuli hafa hann sem skemmtiatriði finnst mér bara alls ekki við hæfi. Ekki bæta viðbrögð formannsins úr. Mig langar að til segja mig úr félaginu í mótmælaskyni en mér finnst það eiginlega of mikið vesen sem kemur líklega ekki til með að skila neinu. Það er slæmt þegar maður treystir sér ekki lengur til að berjast fyrir skoðunum sínum.
Mikið hryllilega eru allar konur sem birtast í auglýsingum horaðar. Hvað þarf til að þetta fari að breytast? Er ekki nóg að fyrirsætur séu farnar að detta niður dauðar á sýningarpöllunum.

|

Sunday, March 25, 2007

Öll él styttir upp um síðir
Ég missti kjálkann niður á bringu og var næstum búin að keyra út af þegar ég var á leið í gegnum hesthúsahverfið nú í lok vikunnar. Haldiði að tamningardaman hafi ekki bara verið í reiðtúr á Ísold. Svo þegar ég hitti hana í hesthúsinu eftir reiðtúrinn kom í ljós að hún hafði bara skellt sér í reiðtúr eftir eitt skipti í gerðinu á Ísold og farið í reiðtúr á Röskvu strax eftir að hafa prufað hana í gerðinu. Þær voru svo þægar og góðar og vel undirbúnar að það var ekki eftir neinu að bíða. Mikið rosalega var ég ánægð, ég bara brosti allan hringinn. Svo fyrst að blóðþrýstingurinn hækkaði aðeins við þetta ánægju skot, skellti ég mér á Áru í gerðinu og svo daginn eftir í reiðtúr bæði á Áru og Glóey. Það var svo reyndar úrhellis rigning allan laugardaginn svo við bró'i fórum samferða í hesthúsið og tókum í sameiningu hesthúsið mitt og húsið þar sem hann er með hest, því eigandinn flaug niður stiga en slapp með nokkur spor í olnbogann en það þýðir að hann verður að taka það rólega næstu tíu daga.
Sjónvarpið kom einnig úr viðgerð á föstudaginn. Bilunin kom auðvitað ekki fram meðan það var á verkstæðinu en það var rykhreinsað og eitthvað fleira smotterí. Það alla vega virkar í bili. Áður en ég fór aftur með gamla sjónvarpið inn á herbergi ákvað ég að nota þessa nýfundnu orku og taka aðeins til og breyta. Já, ég er að verða þrítug og er enn með "herbergi".
Ég vona að nú sé að koma bjartari tíð með blóm í haga.

|

Thursday, March 22, 2007

Með lífsmarki en bara rétt svo
Það er svo mikil andleg ládeyða í gangi að mig furðar að ég skuli vera með púls. Ég geri ekki neitt. Eyði sem mestum tíma í sófanum fyrir framan sjónvarpið eða í rúminu. Og nú er meira að segja það orðið vandkvæðum bundið. Helvítis sjónvarpið bilaði. Það er búið að sýna þessa bilun nokkrum sinnum í gegnum árin. Hljóðið dettur út og ekki er hægt að framkvæma neitt með fjarstýringunni. Það hefur verið hægt að halda því gangandi í nokkra daga með því að slökkva á því þegar bilunin kemur fram og kveikja svo aftur. En það hættir að virka og þá er það sent í viðgerð. Bilunin hefur hins vegar ekki komið fram þegar á verkstæðið er komið og sjónvarpið sent til baka. Þá hefur það virkað án bilana í mánuði og jafnvel ár og síðan byrjar vesenið aftur. Og nú er tækið komið enn og aftur á verkstæði. Ég ætla að hringja á eftir og athuga hvort bilunin hafi gert vart við sig. Á meðan höfum við gamla tækið hans afa, sem ég veit ekki hvort sé nær tvítugu eða þrítugu, en það virkar!!! Gallinn er hins vegar sá að það er ekki hægt að horfa á DVD í því. Þannig að þegar er leiðinlegt sjónvarp verð ég að grafa upp gamlar videospólur sem hafa ekki verið notaðar í lengri tíma. Ég gæti kannski reynt að finna mér eitthvað að gera en það myndi kosta meiri blóðþrýsting þannig að það kæmi blóð til heilans meðan ég væri í uppréttri stöðu en það gerist ekki svo ég líð fljótt út af aftur og ofan í sófann.
Það er alveg ógeðslegt veður og þar sem líkaminn er á lágmarks afköstum þessa dagana er alveg útilokað að fara í reiðtúr. Ég hreinlega gæti orðið úti á milli húsa vegna kulda og ef hrossin myndu hrökkva eitthvað til myndi ég hrökkva alla vega af ef ekki upp af. Þannig að fröken Ára, sem er orkubomba per exelans, er búin að standa í alla vega viku án hreyfingar. Það verður svoooo gaman að fara á hana þegar og ef ég lifna við aftur. Hins vegar er tamningardaman farin að taka tryppin og ég er svo ánægð með það. Ég myndi líklega brosa af ánægju en það bara of mikil áreynsla. Ég veit ekki hvernig ég fer að því að moka út daglega. Ég var næstum því hætt við að moka út hjá folöldunum á sunnudaginn, ég geri það vikulega, en tilhugsunin um að þurfa að gera það seinna, og moka þá miklu meira, hélt mér gangandi. Það er eins gott að ég verði búin að safna nægri orku fyrir næsta sunnudag.
Ég get varla beðið eftir að kosningar gangi í garð. Og hvers vegna? Jú, ég get ekki hlustað á þetta rifrildi enda laust sem er bæði í sjónvarpi og útvarpi. Skil ekki hvað er svona flókið og erfitt fyrir fólk að ákveða hvað það ætlar að kjósa. Ég persónulega hef ekki skipt um skoðun síðan fyrir fjórum árum og ætla kjósa sama flokk og þá. Ég nebbla fylgist með því sem er að gerast í þjóðfélaginu, alltaf, í staðin fyrir að hlusta á einhverjar hástemmdar yfirlýsingar korteri fyrir kosningar. Og þar sem ég er enn mest sammála sama flokki og síðast þá ætla ég að halda mig við hann í þetta sinn.
Síðan er það umræðan klám og vændi. Ég hef margar og miklar skoðanir á þessu máli en hef alveg látið það eiga sig að vera að viðra þær. Ég hef bara ekki andlegt þrek til að vera að standa í deilum um þessi mál. Sérstaklega ekki þar sem er alveg ótrúlega mikið af heimsku fólki sem getur ekki rökrætt þetta heldur er með niðrandi skítkast við þá sem eru ekki sammála þeim. Ég legg því aðeins fram eina spurningu og ef þið svarið henni neitandi þá eruð þið sammála mér og ef þið svarið játandi þá eruð þið ósammála mér. Þið getið svo sjálf hugsað hvaða rök liggja fyrir svarinu, ég hef engan áhuga á að ræða þetta neitt meir að svo stöddu. En spurningin er þessi:
Ef þú ættir dóttur, og nú skalt þú sjá hana fyrir þér litla, sæta og saklausa circa tveggja ára gamla, hefur enn ekki sagt að hún hati þig eða fyrirlíti en er samt allt í einu orðin lítil manneskja, gætir þú hugsað þér að þessi saklausa litla sál verði vændiskona eða klámmyndastjarna þegar hún verður stór?

|

Friday, March 16, 2007

Eitt og annað og ýmislegt
Í kvöld hljóp ég inn í Hagkaup í Skeifunni á leiðinni heim úr hesthúsinu. Það er í sjálfu sér ekki merkilegt en mér fannst það sem ég sá á leiðinni út dálítið sérstakt. Þar sat kona í hjólastól, í andyrinu, reykjandi, að senda sms og þurfti að nota stækkunnargler til að sjá hvað hún var að gera. Mannlífið er margbreytilegt.
Ég varð mjög hneyksluð yfir fréttum af tannheilsu barna. Enn og aftur spyr ég, hvar eru foreldrar þessara barna? Þeir eru alla vega ekki að sinna starfi sínu sem foreldrar. Það þurfti að draga allar barnatennurnar úr sex ára gamalli stúlku því þær voru skemmdar niður í rót. Það er víst að verða mjög algengt að tennur í börnum séu skemmdar niður í rót. Svo er verið að kenna því um að endurgreiðsla frá tryggingarstofnun sé orðin svo lítil að efnaminni foreldrar hafi ekki efni á að fara með börnin til tannlæknis. Fyrirgefðu!!! Ég ætla ekki að mótmæla því að ég skil ekki hvers vegna tannheilsa er ekki talin jafn mikilvæg og önnur heilsa og fellur ekki undir sömu endurgreiðslu og annar læknakostnaður. Hins vegar er mjög auðvelt að komast hjá því að fá skemmdar tennur. Það þarf bara að bursta þær tvisvar á dag. Það er á ábyrgð foreldra að passa upp á að börn þeirra bursti tennur og raunar þurfa börn aðstoð við það fyrstu árin. Tannbursti og tannkrem er ekki dýrt og ef þú hefur ekki efni á því, þá hefur þú ekki efni á að eiga börn. Ef barnið þitt er með skemmdar tennur niður í rót, og er ekki með einhvern alvarlegan tannsjúkdóm, þá ert þú ÓHÆFT FORELDRI!!!
Illa upp alin börn eru að gera mig gráhærða þessa dagana. Eftir að það kom snjór aftur eru þessi illa innrættu kvikyndi byrjuð aftur og enn einu sinni að kasta snjóboltum í gluggana hjá okkur. Bæði er þetta mjög hvimleitt fyrir taugarnar auk þess sem það er marg búið að brjóta hjá okkur rúður. Þau skammast sín ekki einu sinni þótt ég standi og horfi á þau. Það gerir í raun illt verra að bregðast við á einhvern hátt. Ég verð að flytja úr bænum. Ég er gjörsamlega búin að gefast upp á svona miklu nábýli við annað fólk. Ég á eftir að snappa einhvern daginn og fara út og berja einhvern. Ég bara þoli ekki svona tilitsleysi og vanvirðingu gagnvart öðru fólki.
Ég veit ekki hvað það þurfa margir að deyja í umferðinni til að fólk fari að keyra almennilega. Eins og ég hef marg oft sagt þá keyri ég í Mosfellsbæinn og til baka á hverjum degi. Svona tvisvar til þrisvar í viku verð ég vitni að ofsaakstri, yfirleitt á leiðinni heim. Fólk keyrir á ótrúlegum hraða. Notar vegaaxlir til að fara fram úr hægra megin. Skipta um akreinar án þess að það sé í raun pláss til þess. Bara alveg ótrúlegt aksturslag hvernig sem á það er litið. Það dóu yfir 30 manns í umferðinni í fyrra. Heldur þetta fólk að það sé ódauðlegt? Ég veit að ég er það ekki. Vinsamlegast ekki keyra svona í nálægt við mig.

|

Thursday, March 15, 2007

Ekki svo slæmar fréttir og góðar fréttir
Gríma fór loksins í myndatöku og það er komið í ljós hvað er að. Hún hefur fengið högg á hvarfbeinið. Það beinið fyrir ofan neðstu liðamótin í fætinum. Það sést á myndinni að það er að gróa en hún er enn lítilega hölt og svona áverki tekur 6-8 mánuði að jafna sig. Þannig að henni verður ekki riðið þetta árið. Þannig að þetta eru ekki svo slæmar fréttir og góðu fréttirnar eru þær að þetta grær.
Það eru fleiri góðar fréttir. Tamningardaman kom í dag og ætlar að byrja eftir helgina, jibbí!!!

|

Sunday, March 04, 2007

Í draumaheimum
Ég var eitthvað voða mikið að vorkenna sjálfri mér í gær. Ég var náttla hálf handlama auk þess sem það kom úrhellis rigning þegar ég kom upp í hesthús. Ég nennti engan veginn að fara á bak. Mitt í þessari eymd og volæði fékk ég sms frá Noregi. Bró'i skellti sér nebbla til Noregs í vikuferð. Þau höfðu farið í sleðaferð og það eina sem vantaði var mig. Ooooo, hvað ég hefði verið til í að vera þar. Mér fannst bara ekki nógu skynsamlegt að fara núna. Bæði stutt síðan að ég fór síðast og frekar mikið vesen að fara frá hesthúsinu. En þegar ég sveif inn í draumalandið í gær fór ég í sleðaferð í skóginum. Með húfu niður í augu, undir hlýju teppi með rauðar kinnar. Síðan borðuðum við yndislega villibráð sem bráðnaði í munni. Eftir það settumst við, við arininn og töluðum frá okkur allt vit fram eftir kvöldi. Síðan sofnaði ég með bros á vör.

|

Friday, March 02, 2007

Ég er snillingur, SNILLINGUR!!!
Smiðurinn hefur loksins tíma til að klára að klæða sumarbústaðinn og þá vantar meira bárujárn. Ég fór að sækja það í dag og keyra upp í bústað. Ég var að kaupa tíu plötur, 235cm að lengd. Þær voru það þungar að það þurfti þrjá unga karlmenn til að setja þær í skottið á bílnum. Ég hafði svo sem ekki áhyggjur af því að ná þeim út aftur. Ég hef staðið í þessu áður og gengið stórslysalaust. Ég dreg bara bunkann út úr skottinu og sleppi svo þegar hann pompar niður. Þetta tókst ekki alveg í dag. Þegar plöturnar voru af fara að detta niður áttaði ég mig allt í einu á því að miðað við hvernig ég stóð þá myndu plöturnar lenda ofan á löppunum á mér. Ég ákvað því á síðustu stundu að halda í hinn endan á plötunum þótt mig grunaði að skellurinn yrði óþægilegur. Hann varð verri en mig grunaði. Plöturnar runnu einhvern veginn til í vinstri hendinni á mér og skildi eftir sig blóðug sár á fjórum fingrum. Við þetta missti ég auðvitað takið og plöturnar skullu á vinstra lærið á mér. Það var vont en ekki nærri því sárt og húðskafningarnir á fingrunum. Ég þurfti svo að keyra vel blóðug og tilfinningarlaus í hendinni niður í mosó, ég var nebbla að fara í hesthúsið. Kom við í apótekinu og keypti plástur, sáravatn (það svíður ekki undan því) og grisju til að þrífa á mér fingurna. Að þessu loknu var ég með sex plástra á fingrunum. Þumalinn slapp sem betur fer. Ég ákvað að ég væri engin manneskja til að fara að hanga í taumum á hrossum svo það fengu allir frí. Nú lítur þetta út eins og ég hafi farið með skrælara á fingurna á mér. Þetta á eftir að vera gaman næstu daga.

|