Sunday, October 29, 2006

Ekki svo veik
Ég slapp betur en ég bjóst við frá þessari flensu. Þetta reyndist vera sólarhrings magaveiki. Ældi bara einu sinni. Það er alveg stórkostleg miðað við mínar venjulegu pestir. Ef ég byrja á annað borð að æla þá er ég yfirleitt að í 3-5 sólarhringa.
Ég var því nokkuð brött í gær og dreif mig í hesthúsið. Varð bara nokkuð ágengt við tiltektirnar. Þarf bara að fara byrja á kaffistofunni. Kvíði fyrir því. Veit ekki hvað gerðist þar inni. Algjör hörmung.
Annars er ekkert að gerast, frekar en venjulega.

|

Friday, October 27, 2006

Djöfull!!!
Alveg hryllilega slöpp. Held að ég hljóti að vera fá einhverja andskotans flensu. Frábært. Nú fer öll helgin í þetta. Það er einmitt það sem mig langar, liggja drulluslöpp í rúminu.
Fór í gær upp í hesthús að reyna þrífa dálítið. Hefði átt að vera löngu búin að þessu. Hvað var ég að gera í allt sumar? Það kemur svo mikið ryk af spæninum og heyinu. Var í þvílíku hóstakasti í allt gærkvöld. En ég er þá alla vega byrjuð. Hálfnað er verk þá hafið er. Geri líklega ekki mikið um helgina.
Ætla að vorkenna sjálfri mér svolítið í kvöld.

|

Monday, October 23, 2006

Brrrrr, það er kominn vetur
Ég ætlaði að skjótast í klippingu í morgun. Hárgreiðslustofan er í göngufjarlægð svo ég skellti mér bara í peysu og hljóp út. Guð, hvað það var kalt. Ég sá eftir því að snúa ekki við og ná mér í yfirhöfn. En ég komst í klippinguna án þess að verða úti á leiðinni. Þvílíkur munur eftir klippinguna. Nú nær hárið mér ekki lengur niður að mitti heldur er 10cm fyrir ofan mitti. Nei, ég var ekkert að breyta um hárgreiðslu. Það var bara orðið þunnt í endana. Ekki að hárgreiðslukonan reyndi ekki. "Viltu styttur eða strípur eða viltu að ég noti sléttujárn á það?" Nei, takk. Ef ég hefði ætlað í einhverja major hárgreiðslu hefði ég ekki fengið tíma klukkan níu um morguninn.
Vinkona mín er komin með dagsetningu á það hvenær hún hættir með videoleiguna. Síðasti dagurinn minn er á miðvikudaginn. Svo ég er bara ógeðslega löt og horfi á video milli þess sem ég afgreiði viðskiptavini. Ekki segja neinum.
En ég er að spá í hvort ég eigi að taka inn tvö hross í vikunni. Þyrfti að henda þeim út í nokkra daga meðan ég væri út í Noregi en það er allt í lagi. Ég er nebbla að fara til Noregs 15-20 nóvember. Fór í hesthúsið í gær að kíkja svona á hvað þyrfti að gera fyrir veturinn. Fór aðeins að vesenast í niðurföllunum. Tókst að setja allt á flot. Ég er náttla snillingur. Vona að það hafi farið niður, hehe. Kíki á það á morgun.
Annars er ekkert að frétta. Ekkert að gerast. Það verður gott að hætta á videoleigunni. Það er alveg vonlaust að vera vinna innan um allt þetta nammi. Ég get ekki staðist freistinguna. Það er ekkert selt að borða þarna og á sex tímum langar mig í eitthvað að narta og það er auðvitað nóg af nammi. Það er annað hvort það eða kaupa sér pizzu. Það er pizzustaður við hliðiná. Veit ekki hvort er verra.

|

Monday, October 16, 2006

Hringinn í kringum landið
Þá hef ég lagt að baki 1360km á fjórum dögum, raunar þremur því ég tók einn dag í frí. Ég keyrði hringinn í kringum landið með viðkomu á Kárahnjúkum og Aðaldalnum.
Ég lagði af stað á fimmtudaginn. Eitthvað var ég sein á fætur svo ég var ekki að leggja af stað úr bænum fyrr 10:30. Var rosa brött fyrst til að byrja með. Kom við og kíkti á litlu graddana mína, sem líta mjög vel út by the way. Stoppaði svo í Vík til að taka bensín og taldi að það myndi duga mér til Djúpavogs. Þegar ég kom fram hjá Jökulsárlóni keyrði ég inn í þvílíka rigningu. Hefði ég farið út úr bílnum hefði ég líklega drukknað. Ég var með rúðuþurkurnar á mesta hraða og höfðu þær varla undan. Eitthvað stressuðu þurkurnar mig á þessum hraða og ég var farin að keyra óþarflega hratt. Endaði með því að ég var orðin langeyg eftir Djúpavogi því ég var á síðasta bensíndropanum. Ég náði samt að sjá hreindýr á beit niður við sjó og svani í hundraða vís áður en ég komst á Djúpavog. En ég komst á Djúpavog án þess að þurfa að ýta bílnum, sem betur fer. Ég var komin með verki í axlir, bak og höfuð þegar hér var komið en það er ekkert apótek Djúpavogi svo ég gat ekki linað þjáningar mínar. Ég lagði því af stað í hálfrökkrinu með hausverk á fjallveginn Öxi sem átti að stytta leið mína á Kárahnjúka um 100km. Vinkona mín ætlaði að segja mér til vegar eftir því sem þyrfti í gegnum símann. Þegar ég var komin yfir Öxi og ætlaði að fá nánari upplýsingar þá var ekkert símasamband. Svo ég ákvað að taka stefnuna á Egilsstaði, eftir vegaskiltum, og vona það besta. Það hafðist allt saman og ég komst að afleggjaranum að Kárahnjúkum seint og síðar meir. Brekkan þar upp gefur brekkunni upp í Kviknehögda lítið eftir, svona fyrir þá sem þekkja þar til. Ég keyrði svo ein í myrkrinu þar til mér birtist allt í einu Kárahnjúkastífla. Þá þurfti ég að bíða þar til að ég yrði sótt, því ég mátti ekki keyra inn á vinnusvæðið. En það fór allt vel og þegar ég loksins kom í hús, í vinnubúðum Landsvirkjunar á Kárahnjúkum, beið eftir mér kvöldmatur og huggulegheit.
Á föstudeginum var svo farið með mig í skoðunarferð um vinnusvæðið. Ég fékk að sjá stífluna frá báðum hliðum og verður að segjast að stíflan er mun smartari á bakhliðinni, þessari sem við fáum aldrei að sjá í sjónvarpinu. Bakhliðin er hlaðin úr grjóti enda er víst stíflan mest megnis úr jarðvegsefni svo það gæti reynst erfitt fyrir hann Ómar að saga skarð í hana. Ég fékk líka að fara niður í göngin sem hafa verið grafin þarna út um allt. Meira að segja þar sem vatnið rann á meðan að verið var að reisa stífluna. Ég fór nú ekki neitt að skoða það sem fer undir vatn en það sem sést frá stíflunni er nú ekki merkilegt. Gljúfrin eru öll fyrir neðan stífluna svo þau fara ekki undir vatn.
Ég lagði svo frekar seint af stað frá Kárahnjúkum en náði niður á Egilsstaði fyrir sex, sem var eins gott því ég aftur komin með hausverk og það er apótek á Egilsstöðum svo ég gat linað þjáningar mínar í það skiptið. Ég keyrði svo í kolnaðar myrkri yfir í Aðaldalinn. Ég fór reyndar aðeins ranga leið en ég komst á leiðarenda og fór í raun ekkert lengri leið svo það var allt í lagi.
Á laugardeginum var svo bara afslöppun og notalegheit. Fór aðeins til Húsavíkur í verslunarleiðangur með "Tvibbanum", það varð nú að vera nóg til að borða.
Á sunnudeginum brunaði ég svo í bæinn.

|

Wednesday, October 11, 2006

Hringavitleysa
Þá ætla ég að leggja land undir hjól og fara hringinn á nokkrum dögum. Búin að skipuleggja förina og tilkynna komu mína. Ég legg af stað í fyrramálið, bruna alla leið á Kárahnjúka. Þar hitti ég fyrir vinkonu mína og fæ að gista hjá henni. Á föstudeginum ætla ég svo að skoða stærsta mannvirki á landinu og næsta nágrenni. Þegar líður á daginn keyri ég svo yfir í Aðaldalinn og dvel þar fram á sunnudag hjá "Tvibbanum". Ég hef ekki farið norður í heimsókn síðan ég fór þangað í ágúst 2005 þegar "Tvibbinn" flutti. Ég er nú ljóta systirin. Ég kem svo heim á sunnudeginum.

|

Monday, October 09, 2006

Er ég skrítin?
Ok, skrítnasta fólk sem ég hef séð er í hestamennskunni. Svona tannlausir sveitalubbalúðar, eins og er gert grín að, eru í alvörunni til, ég hef séð þá. En það er líka skrítið fólk á götum úti og á videoleigunni. Hvað gerir fólk skrítið? Jú, undarlegur klæðaburður, hártíska sem fer því engan veginn, ganga um með lambúshettu og hjólahjálm með hökureimina allt of herta eins og einn sem ég sá í dag. Það hvarflaði allt í einu að mér hvort ég væri skrítin. Ég geng nú ekki beinlínis um í nýjustu tísku. Ég er líka með minn náttúrlega háralit og með jafnsítt hár, yfirleitt með fléttu. Ég er hrifin af hettupeysum, lopapeysum, vinnuskyrtum og þægilegum skóm. Þið mynduð segja mér ef ég væri skrítin, er það ekki?

|

Saturday, October 07, 2006

Hestar, video og kjötát
Fór seinnipartinn á föstudaginn og kíkti á hestana mína á Kjalarnesinu. Það var mjög upplífgandi. Ég var knúsuð, sleikt og nöguð. Þetta eru ákaflega blíð og yndisleg hross sem ég á. Ég á fjórtán hross, ég veit ekki hvað ég á að gera við öll þessi hross. Ef ég ætla að halda áfram að rækta hross þá verð ég að selja eitthvað en hvað? Mér finnst alveg hræðileg tilhugsun að selja eitthvað af þeim. Ég er orðin allt of viðkvæm.
Það var ömurlegt sjónvarp í gærkvöldi, föstudag. Ég ákvað því að fara á videoleigu, samkeppnisaðila, og tók tvær af vinsælustu myndunum í dag, 16 blocks og Prime. Bruce Willis stendur sig alltaf vel í spennumyndum og það er í sjálfu sér ekkert hægt að kvarta yfir myndinni sem slíkri. En þetta er hvorki sérlega frumleg eða sérstök mynd, en ég bjóst svo sem ekkert við því. Þannig að hún stóð í raun undir væntingum. Hins vegar var Prime mikil vonbrigði. Mér fannst hún auglýst sem gamanmynd en það fer nú lítið fyrir því. Hef á tilfinningunni að þeir hafi í raun ekki alveg vitað hvort þeir ætluðu að gera gamanmynd eða alvarlega mynd um samskipti eldri konu og yngri manns. Myndin endar því á því að vera hvorugt og í raun ekki neitt. Þetta er ekki einu sinni rómantísk gamanmynd. Mæli ekki með henni.
Ofan á allt saman varð ég svo andvaka. Leit síðast á klukkuna 3:30 í nótt. Vaknaði samt klukkan 10 í morgun, mjög ánægð með það. En ég var náttla að leita að einhverju til að glápa á, í kassanum. Horfði á X-files. Þátturinn gerðist í sveitahéraði þar sem nautgriparækt var stunduð. Það var atriði þar sem var verið að reka naut inn í sláturhús. Ég fékk alveg sting. Ég þoli ekki neitt orðið. Það hvarflar að mér oftar og oftar að hætta að borða kjöt. Það gengur gegn minni sannfæringu eins og ég hef nefnt áður. Ég tel að við eigum að hugsa vel um húsdýr og aflífa/slátra þeim svo á fljótlegan og sársaukalausan hátt. Ég tel ekki neitt vit í því að hætta að borða kjöt og fara halda húsdýr sem gæludýr. Hins vegar myndi ég gerast grænmetisæta mjög snögglega ef ég þyrfti að slátra þeim sjálf. Við buðum stóru systur og litlu frænku í mat síðustu helgi og höfðum lambalæri. Mig langaði í lambalæri en ósjálfrátt fór ég að hugsa um allar ærnar sem ég hafði keyrt framhjá sem stóðu einar út á túni því lömbin voru farin í sláturhús.
Ég hef alveg gleymt að nefna hana Kolfinnu í öllu þessu röfli mínu. Kolfinna er enn einn kötturinn sem við áttum. Ég var svo upptekin af öllum þeim sem hafa dáið að ég gleymdi að nefna þá sem týndist. Kolfinna týndist í nóvember síðastliðnum. Ég hef samt ekki gleymt henni. Ég fer mjög reglulega inn á kattholt.is til að gá hvort hún hafi fundist. Það liggur við að ég fari að gráta í hvert skipti sem ég fer þarna inn. Allar þessar kisur sem einhver hefur átt og kærir sig ekki lengur um. Það er verið að henda út læðum með litla kettlinga. Hvernig er þetta hægt? Mig langar endalaust að taka að mér einhverja ketti.
Hvers vegna er ég svona viðkvæm? Þetta versnar bara og versnar. Ég fer yfirum á endanum ef ég kem mér ekki upp harðari skráp.

|

Thursday, October 05, 2006

Dúdúdúdúdúdúdúdú
Þótt ég sé ekkert búin að vera að blogga þá ligg ég ekkert og velti mér upp úr þessu fyrrverandi dæmi. Ég er bara búin að vera busy little bee.
Fór í saumaklúbb á miðvikudaginn og bíó á fimmtudaginn. Fullt að gera á videoleigunni. Ekki gaman. Ég var alveg búin að gleyma hvað afgreiðslustörf eru leiðinleg. Ég hefði aldrei tekið þetta í mál ef það hefði verið matur eða ís þarna. Nenni því dæmi ekki. En litla kisan sem vinkona mín fékk sér, þessi sem rekur videoleiguna, datt út um glugga á fjórðu hæð. Ótrúlegt nokk, þá lifði hún af. Hún reyndar fótbrotnaði og þar sem hún var fædd með kviðslit þá versnaði það og hún þurfti að fara í aðgerð fyrr en stóð til. Það þurfti að passa litla dýrið og ég tók auka vakt á videoleigunni svo hún gæti verið heima. Annars er vinkona mín að hætta með videoleiguna. Langar að fá 9-5 vinnu og frí um helgar. Skil það vel. Ég kem ekki til með að sakna aukavinnunar. Held að ég sé algjört letidýr þegar á reynir.
Annars ætla ég að vara ykkur við því að vera með frekju og dónaskap við afgreiðslufólk á videoleigum. Það fer allt í tölvuna. Ó já. Þegar við sláum inn kennitöluna ykkar koma upp allar upplýsingar um ykkur, líka komment um hvernig þið hegðið ykkur. Það er stundum erfitt að halda andlitinu meðan afgreiðslu stendur. Þessi tuðaði yfir þessu eða hinu... Þessi er nöldrari... Þessi er ókurteis... Þessi er dóni... Langar lýsingar á samtölum og hegðun. Já, nú er rétti tíminn til að verða paranoid. Það stendur líka stundum að einhver sé góður kúnni ofl. En þið sjáið ekki á tölvuskjáinn, þið vitið ekkert hvað stendur um ykkur. Ég mæli bara með að þið hegðið ykkur vel, það getur haft mikil áhrif á hvernig þjónustu þið fáið.

|

Monday, October 02, 2006

Guð, hvað ég hef verið blind
Ég er ekki vön að viðurkenna að ég sé mannleg og geri mistök en nú er ég svo fúl og hneyksluð af sjálfri mér að ég verð að rasa út um það.
Fyrrverandi hringdi í mig bæði föstudag og laugardag til að röfla eitthvað í mér og endaði svo á því að vilja fara á sunnudeginum að gefa hryssunni og folaldinu, sem ég endalaust búin að vera tala um, ormalyf. Ég ákvað því að nota tækifærið og drífa í því.
Ef ég hef ekki nefnt það áður, þá er fyrrverandi marg búinn að fara í meðferð vegna áfengisdrykkju og misnotkunar á læknadópi. Hann er sem sagt kominn á fullt í neyslu á þeim enn og aftur. Hann er búinn að vera að hringja í mig, greinilega vel dópaður, og væla í mér hvað hann eigi bágt og hann ætli að reyna að fara í meðferð og hvað eina. Ég sagði að þetta væri ekki mitt vandamál og ég ætlaði ekki að skipta mér að þessu. Hins vegar var ég farin að vorkenna honum og farin að spá hvort ég ætti eitthvað skipta mér að þessu. Þvílík heimska.
Í gær fer ég svo að sækja hann til að fara í Melasveitina. Þegar ég mæti svo á svæðið þá er bróðir hans einmitt að koma. Ég varð því vitni að mjög skemmtilegu samtali milli þeirra sem var alveg til þess að koma mér í gott skap. Það hafðist svo að ná hryssunni og folaldinu og gefa þeim ormalyf. Þá þurfti hann endilega að koma við hjá fólkinu sem er með hryssuna í hagagöngu. Allt þetta tók náttla töluverðan tíma. Svona þar sem ég var undir niðri að reyna hafa hryssuna af honum og klukkan orðin töluvert margt þá ákvað ég að bjóða honum upp á hamborgara. Hann blaðraði endalaust allan tímann meðan við vorðum að borða eins og hann hafði raunar gert allan daginn. Þá kom allt í einu upp úr dúrnum að hann hafði verið að bryðja læknadóp allan tímann sem við vorum saman. Svo var hann ofsalega hissa að ég skuli ekki hafa vitað það. Nei, ég hefði ekki verið með honum ef ég hefði vitað það. Þetta endaði náttla ekki vel og ég hreytti út úr mér kjaftasögu sem ég hafði heyrt, christe. Þegar ég kom svo heim þá hringdi vinur minn í mig til að segja mér að fyrrverandi hefði hringt í hann til að vita hvaðan þessi kjaftasaga væri komin. Það var allt sem ég þurfti.
Hvernig gat ég nokkru sinni verið svona vitlaus? Ég áttaði mig á því að ég lét þetta fífl kenna mér um allt sem aflaga fór í okkar samskiptum. Að ég hafi látið fara svona með mig. Að ég hafi nokkurn tímann verið svona ung og vitlaus. Aldrei aftur. Hann getur étið það sem úti frýs. Ég læt ekki fara svona með mig.

|