Minning
Saga frá Reykjavík 1983-2004
Sleipnir frá Breiðabólsstað 1989-2004
Glöggir lesendur hafa kannski áttað sig á að ég er hestamaður. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að tala sem minnst um það á þessu bloggi, bæði til að leyna mínu rétta nafni og gerði auk þess ráð fyrir að flestir hefðu ekki mikinn áhuga á að lesa um hross. Ég hef ekki verið í skapi til að blogga mikið undanfarið og eftirfarandi er ástæða þess. Eftirfarandi færsla er til minningar um ofangreind hross. Þeir sem hafa ekki áhuga eða umburðarlyndi til að leyfa mér að úthella sorgum mínum um þessa ferfættu einstaklinga er bent á að lesa ekki lengra.
Laugardagurinn 11. september 2004 verður seint gleymdur.
Ég svaf illa nóttina áður. Yfirvofandi atburðir voru ofarlega í huga og ég átti erfitt með að hvílast. Það stóð til að fella Sögu og Sleipni. Þetta var ekki skyndi ákvörðun. Síðustu tvö ár hafa leynt og ljóst stefnt að þessum degi. Ákvörðunin var fyrst formlega orðuð í byrjun þessa sumars. Ég var samt ákveðin í að ekkert yrði gert fyrr en í haust og undir niðri var ég að vona að það þyrfti ekki að koma til þess strax. Þegar ég kom svo heim frá Noregi var hins vegar ljóst að þetta var ekki umflúið. Saga var orðin hölt og Sleipnir var enn stokkbólginn og hafði ekki sýnt neinn bata í sumar. Ég vissi hvað ég þyrfti að gera og fór í að samstilla gröfumann og dýralækni.
Ég mun aldrei gleyma því þegar ég sá Sögu fyrst. Það var í byrjun árs 1993. Ég hafði loksins safnað nægum peningum til að láta drauminn rætast, drauminn um að eignast hest. Mamma hafði tekið sig til og hringt á nokkra staði og hitt á almennilegan eldri mann sem var tilbúinn til að hjálpa okkur að finna fyrir mig hest. Nokkrum dögum eftir áramótin hringdi hann og sagðist vera með leirljósa hryssu sem hann hélt að gæti hentað. Ég fór upp í Víðidal að skoða hana. Þegar ég kom inn í hesthúsið sá ég hana ekki strax en allt í einu leit hún upp fyrir stallinn. Þetta var ást við fyrstu sín. Hún var lítil leirljós, blesótt og loðin eins og og bangsi eins og öll hross á þessum árstíma. Ég prófaði hana tvisvar sinnum og það var nóg, ég vissi að vildi fá þessa hryssu. Samt hafði ég alltaf séð fyrir mér stóran, svartan hest þegar ég var að láta mig dreyma um fyrsta hestinn minn. Leiðir okkar lágu saman upp frá þessu og ég vissi fljótt að þær myndu gera það þar til dauðinn myndi aðskilja okkur.
Hún var blíð og góð í allri umgegni og lét ekki mikið yfir sér þar sem hún stóð í stíu. Út í gerði virkaði hún ekki mikill bógur heldur og reyndi að forðast átök eftir fremsta megni. Man eitt sinn þegar ég varð að setja hana í gerði með ókunnum hestum eftir reiðtúr til að leyfa henni að velta sér. Hún hljóp hring eftir hring til að forðast hin hrossin og stoppaði alltaf fyrir framan mig með bænarsvip í augum. Það endaði með því að ég fór inn í gerði og stóð hjá henni meðan hún velti sér.
Þegar komið var á bak var allt annað upp á teningnum. Hún var mikið viljahross og hlífði sér aldrei. Hún var háreist og hágeng og vakti eftirtekt þar sem hún fór. Ólíkt flestum íslenskum hrossum hafði hún ekki tölt hvað þá skeið. Það kom aldrei að sök. Brokkið var ásetugott og hún gat brokkað á öllum hraða. Flest hross sem fylgdu henni voru komin upp á stökk áður en hún sleppti brokkinu. Hún stikaði líka ótrúlega á feti og gat stungið hross af á fetinu einu saman. Allir sem fengu að prófa hana voru yfir sig hrifnir hvort sem þeir voru algjörir viðvaningar eða þaulreyndir tamningamenn. Fáir höfðu kynnst öðrum eins vinnuvilja en fundið um leið til öryggis því aldrei reyndi hún að setja af sér knapa.
Hún var fyrsti hesturinn minn. Hún var fyrsti hesturinn sem ég járnaði. Hún gaf mér fyrsta folaldið, þótt það hefði verið slysafang sem reyndist ekki líkjast móður sinni mikið og endaði í tunnu eftir að hafa bæði slasað mig og litla bróður. Ég reyndi ítrekað að fá undan henni annað folald en allt kom fyrir ekki og hún fyljaðist ekki aftur.
Fyrir einum þremur árum fór ég að verða vör við það að hún væri eilítið að hlífa öðrum framfæti. Ári seinna varð hún hölt á afturfæti og við skoðun kom í ljós að hún var orðin spöttuð. Hún fór á útigang árið eftir og var í góðu yfirlæti með fylfullum hryssum og tryppum. Í fyrra reyndi ég að taka hana inn en fljótlega varð hún aum á framfætinum. Hún fór aftur á útigang og eyddi vetrinum í góðra vina hópi. Í sumar var hún svo á beit með öllum vinunum sem hafa bæst í okkar hóp síðustu árin. En í lok sumars var hún orðin hölt undir sjálfri sér og farin að liggja mikið. Loforðið sem ég hafði gefið henni var að hún fengi að lifa meðan hún fóðraðist og stæði undir sjálfri sér.
Sleipni kynntist ég seinna. Ég sá hann fyrst þegar hann var fimm vetra og eigandi hans var tólf ára stelpa. Ég var sautján á þeim tíma og vakti hvorugt þeirra sérstaka althygli mína. Það átti eftir að breytast.
Stelpan fór að eiga í vandræðum með Sleipni á næstu þremur árum. Hann þroskaðist og reyndist skapmikill viljahestur sem hentaði ekki óhörnuðum unglingi með litla reynslu. Stelpan var svo búin að fá annan hest sem hentaði betur og þessi skapmikli hestur fékk skiljanlega minni athygli. Hann var samt greinilega kelinn og mannblendinn og óskaði iðulega eftir athygli í hesthúsinu. Ég var á þeim tíma með mína hesta í sama húsi. Ég klappaði honum oft létt á hausinn þegar ég gekk framhjá honum en spáði ekki mikið meir í hann. Það var ekki fyrr "tvibbinn" kom með mér í hesthúsið eitt sinn og stóð lengi og klappaði þessum blíða hesti sem ég fór að spá í hann.
Svo fór um sumarið að ég var með hestana mína í sömu girðingu og stelpan, sem nú var orðin fimmtán ára og ég hafði áttað mig á því um veturinn og sumarið að þarna var að vaxa úr grasi áhugaverður einstaklingur sem ég var farin að spjalla meira við. Við höfðum báðar elst og þroskast frá því að við vorum 12 og 17. Þegar ég var 17 ára hvarflaði ekki að mér að tala við 12 ára krakka. Hún sagði mér svo þarna um haustið 1997 að hún ætlaði að losa sig við Sleipni, hún réði ekkert við hann. Þegar hér var komið var klárinn farinn að vekja áhuga minn og það varð úr að ég keypti hann þarna um haustið.
Það gekk mikið á veturinn ´97-´98. Sleipnir gerði tvennt undir manni, lullaði og rauk. Ég komst fljótt að því að það var borin von að fara í reiðtúr með öðrum. Í heilan mánuði fórum við tvö í reiðtúr í vetrarmyrkrinu. Hver einasti reiðtúr var barátta. Barátta um stjórnina milli mín og hans. Oft mátti ekki á milli sjá hvort okkar var þreyttara og sveittara eftir reiðtúrana. Eftir því sem á leið varð okkur báðum ljóst að hér mættust stálin stinn og hvorugt okkar myndi hafa vinninginn. Endaði með því að við fórum samningaleiðina. Eftir mánuðinn var hann farinn að brokka frá húsi. Eftir mánuð í viðbót fór hann að detta inn í tölt. Alltaf gekk okkur best þegar við vorum tvö ein. Fyrstu árin höfðu önnur hross mikil áhrif á Sleipni og þá gaf ég eftir og hann fékk að ráða gangtegundinni og ég hraðanum. Seinustu árin var ég farin að fá að stjórna hvoru tveggja upp að vissu marki en enginn gat nokkurn tímann neytt Sleipni til neins. Ég hafði það alltaf á hreinu að ég stjórnaði því aðeins að hann leyfði mér það.
Sleipnir var ólíkur Sögu að mörgu leyti. Hann var stór og mikill vexti. Fagurjarpur með litla stjörnu. Önnur hross virtu hann og létu vera. Hann hafði gaman af að leika sér við önnur hross en enginn efaðist um að hann var fremstur meðal jafningja. Það var ununn að binda tryppi og aðra vitleysinga utan á hann. Hann dró önnur hross á eftir sér áreynslulaust og ef þau gerðu þau mistök að reyna bíta hann eða annað þvíumlíkt þá gerðu þau það aðeins einu sinni.
Hann varð fljótlega minn aðal reiðhestur ásamt Sögu og hélt þeim sessi alla tíð. Það tók tíma að venja þau saman í reið. Ef ég reið öðru og teymdi hitt var ég fyrst á milli staða. Ég þurfti aftur að byrja að ríða ein út til að venja þau af þessari samkeppni en með tímanum urðu þau góðir vinir.
Fyrir þremur árum byrjaði Sleipnir að rífa undan sér framfótaskeifurnar eins og hann fengi borgað fyrir það. Ég lét ítrekað skoða hann en aldrei fannst neitt að. Hann var því löngum í fríi síðustu tvö árin. Ég tók hann inn eftir áramót í ár og í tvo mánuði hafði hann ekki rifið undan sér. Ég vonaði innilega að þessum hremmingum væri nú loks lokið. Svo var því miður ekki. Fljótlega eftir að hann var járnaður upp reif hann undan sér. Ég sló undir hann aftur og fór í reiðtúr. Það var síðasti reiðtúrinn okkar. Hann varð haltur í reiðtúrnum. Ég fór með hann til dýralæknis sem fann aðeins litla bólgu og ráðlagði nokkra daga frí. Tveimur dögum seinna var hann stokkbólginn á báðum framfótum. Nú fékk hann lengra frí og bólgueyðandi lyf en allt kom fyrir ekki. Svo hann fór í ítarlegri skoðun og niðurstaðan var kvíslbandabólga, algengt vandamál í hágengum viljahestum. Hann var sprautaður með lyfi til að reyna að minnka skaðan og átti að fá langt frí.
Þegar ég kom svo heim frá Noregi var hann enn mikið bólginn og hlífði sér greinilega. Eftir að hafa kynnt mér kvíslbandabólgu betur komst ég að því að hann myndi aldrei verða sami hestur.
Því tók ég þá erfiðu ákvörðun að það væri kominn tími til að láta þessi stoltu hross fara á fund feðra sinna. Þótt ég vissi að þetta væri það eina rétta var þetta erfið tilhugsun. Þetta voru þau hross sem kenndu mér mest. Þau vígðu mig inn í sinn heim og gerðu mig að þeim hestamanni sem ég er í dag. Þeirra síðasta verk var svo að gera slíkt hið sama fyrir litla bróður.
Á laugardaginn voru við svo fjögur mætt upp í girðingu, ég, "tvibbinn", stelpan, sem nú hefur verið góð vinkona mín undanfarin ár og litli bróðir. Það var búið að taka gröfina fyrr um morguninn og við biðum eftir dýralækninum. Þetta var langur og erfiður tími þótt þetta hafi líklega ekki verið nema 15-20 mínútur. Dýralæknirinn gaf þeim sitthvora róandi sprautuna. Síðan voru þau sprautuð með banasprautunni, Saga fyrst svo Sleipnir. Það var sárt að sjá þau falla og við grétum öll. Síðan voru þau lögð saman til hinnstu hvílu. Mér fannst huggun í því.
Síðustu dagar hafa verið erfiðir. Ég hef verið framtakslaus og lystarlaus. Ég er í sorg. Ég missti tvo af mínum bestu vinum. Ég veit að dýrafólk skilur þetta betur og aðrir skilja þetta alls ekki. Ég er allavega búin að kveðja þau núna en ég mun aldrei gleyma þeim.