Saturday, June 26, 2004

Sendið mér góða strauma
Ég er að fara í hina hræðilegu útilegu eftir allt of fáa klukkutíma. Held að mér hafi tekist að ná saman því allra nauðsynlegasta. Mér hryllir samt við tilhugsunina að eiga að vera í tjaldi í viku. Ég veit að þetta er fáránlegt. Ég er ekki að fara inn á öræfi. Mér er meira að segja sagt að það sé búð í plássinu og það tekur ekki nema einn og hálfan tíma að keyra heim. Ég er að reyna að hafa þetta hugfast. Think happy thoughts, think happy thoughts.
Hafið mig í huga þegar þið leggist í hlýju rúmmin ykkar á kvöldin, það eru ekki allir sama hafa það jafn gott. Remember me.

|

Thursday, June 24, 2004

Ég þarf að kynna mér fugla
Ef þetta er ekki öruggt merki þess að ég er að verða gömul. Ég er farin að hafa áhuga á ótrúlegustu hlutum sem vöktu ekki einu sinni athygli mína áður.
Nú eru fuglar farnir að vekja áhuga minn. Ég var á flakki við leirvogana í Mosfellsbænum núna seinnipartinn. Þar er töluvert fuglalíf, enda leirurnar gott svæði til fæðuöflunar.
Ég er mjög hrifin af öndum. Hef reyndar alltaf verið það bara með öðrum hætti. Andrés Önd og Daffi hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi. Í vor sat ég lengi og horfði á tvo steggi eltast við eina kollu. Það var alveg dýrlegt að sjá. Í dag aftur á móti sá ég árangurinn af þessum tilburðum. Mér þykir alveg merkilegt að sjá að andakollur synda margar saman með ungana sína. Auðvitað var nærvera mín ekki vinsæl. Það var líka önnur sem hljóp lengi á undan mér og dró vængina eftir götunni til að draga mig frá ungunum sínum. Ég sá reyndar hvar þeir hentust út af veginum og út í gróðurinn en ákvað að valda ekki meira uppnámi en ég hafði þegar gert.
Ég er ekki hrifin af kríum. Þetta eru reyndar glæsilegir fuglar og vígalegir. Ég þoli bara ekki þetta garg í þeim og þegar þær stinga sér niður að hausnum á manni. Í dag fór ég ekki eitt andartak út af veginum en samt sem áður var ég með hóp af þessum helv... æpandi fyrir ofan hausinn á mér með reglulegum dýfum. Hef reyndar heyrt að aðrir fuglar verpi oft nálægt kríum til að njóta verndar. I still don't like'em.
Tjaldurinn vekur líka áhuga minn. Þurfti að snarhemla um daginn því einn ákvað að trítla yfir götuna og kippti sér ekkert upp við litla burrann minn.
Því miður þekki ég ekki fugla nógu vel til að þekkja nöfnin á þeim almennt. En það er ekki nóg. Ég vil vita meira. Ég vil fá að vita hvernig þeir hegða sér og þar fram eftir götunum. Hegðunarmynstur dýra er nefnilega stórskemmtilegt. Ég get eitt endalausum tíma í að fylgjast með þeim.

|

Deep Purple
Já, ég fór á tónleikana í gær þrátt fyrir flensuskrattann. Mæli reyndar ekki með því. Gaman að standa í þvögu rennblautur af hita-svita, vera að þorna upp og óttast yfirlið.
Þegar ég og "tvibbinn" mættum voru Mánar byrjaðir að spila. Þekki þá hljómsveit ekki neitt enda heyrðist mér að þeirra eina plata hafi komið út 1971. Voru samt alveg ágætir. Tóku lög með Uriha Heep (þetta er örugglega rangt skrifað) sem var fínt þar sem ég þekkti ekkert af þeirra lögum nema eina smellinn þeirra. One hit wonders.
Síðan tók við allt of löng bið áður en aðal bandið kom á svið. Mér fannst þetta farið að vera dónalega löng bið en ok.
Þeir gömlu stóðu sig ótrúlega vel. Hljómborðsleikarinn var minn maður. Hann tók nokkur þekkt lög af öllum tónlistargerðum og endaði svo með góðri frammistöðu á Ríðum, ríðum. Rekum yfir sandinn. Flottur, hvort sem hann gerir þetta í öllum löndum eða ekki.
Þar sem ég er frekar lágvaxin, 160cm, þá sá ég ekkert voðalega mikið af "goðunum". Svo í staðin stundaði ég mannlífsrannsóknir við þetta tækifæri. Aðal töffararnir á staðnum voru gömlu rokkararnir. Þá á ég við þessa sem hafa fyrir löngu síðan tekið á móti sínum rétta aldri, búnir að ganga inn í önnur hlutverk lífinu. Orðnir foreldrar og fyrirvinnur. Hafa ekki fengið að njóta þess að "fíla" rokkið síðustu tuttugu árin því börnin æptu: "Oooo, pabbi!!! Þú ert svo hallærislegur." Þarna stóðu þessir gömlu rokkarar, bæði karlar og konur, í hversdags klæðnaði sem hefði ekki gefið til kynna hvert þeir væru að fara. Nutu tónlistarinnar með dreymið blik í augum og nikkuðu höfðinu aðeins í takt við tónlistina. Þetta lið fannst mér flott.
Því miður voru ekki allir svona "cool". Reyndar var liðið á fertugsaldri flest í góðu lagi. Ekki alvöru rokkarar, heldur þeir sem hlustuðu á rokkið nokkrum árum seinna en kunnu að meta góða tónlist. "Tvibbinn" fellur í þennan flokk, ég var í raun bara félagsskapur.
Síðan voru það þeir sem eru búnir að vera virkir rokkarar síðustu 30-40 árin. Það er ekki lífstíll sem fer vel með fólk og ef nútíma læknavísindi kæmu ekki til væri þetta fólk löngu hrokkið upp af.
Grúppíur eldast ekki vel. Ég veit ekki alveg hvað þær sjá þegar þær horfa í spegil en það getur ekki verið það sama og við hin. That's just sad.
Þá komum við að konunni sem ég hélt lengi vel að væri sú hallærislegasta á svæðinu. Í gallabuxum og vesti yfir röndóttan bol, æ greyið. Þarna var hún með fylgisvein sem var í það minnsta 10 árum yngri. Hún reyndi hins vegar að haga sér eins og hún væri fimmtán og þá á ég ekki við eins og fimmtán ára stelpur láta núna heldur eins og hún hefur látið þegar hún var fimmtán, hvenær sem það var. Hún hins vegar mjög meðvituð um sjálfa sig og sína hegðun sem olli því að þetta var enn verra en ella.
Hallærislegasta fólkið voru hins vegar hjón um sextugt. Greinilega vel stæð. Æ, þið þekkið týpuna. Líklega í einka rekstri. Hafa hlaupið eftir tískunni alla tíð. Hann var með stofulitað hár. Hún með sítt ljóst hár til að líta út fyrir að vera yngri. Þarna voru þau í designer gallabuxum og svörtum leðurjökkum að dansa. Þvílíkt "in the groove". Með hálshreyfingar, axlalyftur og hársveiflur.
En ég er semsagt búin að heyra Smoke on the water live. Gaman af því þótt ég sé þrjátíu árum of sein.

|

Tuesday, June 22, 2004

Ljóta helvítið
Ég er búin að vera með flensu núna í viku. Er að verða gjörsamlega grænmygluð af þessu. Hósta og hósta. Búin að vera meira og minna raddlaus og get ekkert rifist. Hef enga orku til að blogga. Síðan þarf ég sennilega að fara degi fyrr í þessa blessaða útilegu en ég hélt eða næsta sunnudag. HJÁLP!!!

|

Saturday, June 12, 2004

Útilega
Þannig er mál með vexti að ég er að fara í útilegu í lok mánaðarins. Ég er hins vegar ekki mikið fyrir útilegur. Foreldrar mínir voru búnir að koma sér vel fyrir og hættir að basla þegar ég kom loksins í heiminn. Þannig að þegar ég var dregin um landið þvert og endilangt þá gistum við á litlum sveitahótelum. Ég hef því litla sem enga reynslu af því að þurfa að liggja í tjaldi í lengri tíma og þurfa að hafa alla búslóðina í skottinu.
Eftir að ég komst til vits og ára þá hef ég brugðið undir mig betri fætinum annað hvert ár og farið á landsmót. Þetta krefst þess að liggja í tjaldi í nokkra daga. Þetta hefur ekki verið stórmál hingað til. Ég hef yfirleitt fengið að fylgja með einhverjum öðrum sem eru vanir útilegum og eiga allt til alls. Hef jafnvel fengið að gista í tjaldvögnum í fíneríi eða í það minnsta haft aðgang að aðstöðunni þótt ég hafi sofið í kúlutjaldi úr Rúmfatalagernum. Enda hef ég yfirleitt ekkert mætt á svæðið fyrir en um helgina eða kannski fimmtudegi.
Nú bregður svo við að ég verð að vera mætt á fyrsta degi, mánudegi, og vera alla vikuna því ég þarf að fylgja einum keppandanum. Hins vegar mun traust vinkona mín ekki mæta með tjaldvagninn fyrr en fyrsta lagi á miðvikudegi eða fimmtudegi. Nú eru góð ráð dýr. Það er ekkert sérstaklega spennandi að vera í einu litlu kúlutjaldi með enga aðstöðu. Ég held líka að ég komi til með þurfa eitthvað fleira en plastdiskinn og glasið sem ég keypti um árið.
Ég hef sem sagt nú í vikunni gert mikla leit að útilegubúnaði og komist að því að þetta er dýrt dæmi og viðamikið ef vel á að vera. Ég er reyndar nokkuð ánægð með árangurinn hingað til. Stærsta vandamálið er auðvitað viðunnandi tjald. Kúlutjaldið er bara ekki að gera sig. Eftir mikla leit og mikinn samanburð kemur Rúmfatalagerinn aftur og enn einu sinni best út. Þar get ég fengið tjald sem á að vera 3-4 manna, ég er nú ekki alveg að sjá það, ódýrara en það kostar að leigja sambærilega græju frá Tjaldalandi í eina viku. Það verður líklega ofan á að fjárfesta í einu slíku. Ég var búin að sjá mjög sniðugan bakpoka út í Sverige með öllum mataráhöldum fyrir fjóra á um 2000kr íslenskar. Mjög sniðugt þar til ég sá það í hendi mér að mér yrði ekki hleypt um borð í flugvélina með alla þessa hnífa í handfarangri. En stundum kemur eitthvað betra upp í hendurnar á manni. Esso var að kynna nýja safnkortið sitt um daginn og kom þá í ljós að ég átti yfir 2000 punkta. Hef reglulega fengið yfirlit frá þeim sem hefur jafnharðan farið í ruslið. En svo vildi til að sambærilegur bakpoki með öllum nauðsynjum átti að kosta 4990kr krónur nema að notaðir væru 1000 safnkortspunktar og þá myndi hann kosta 0kr. Ég á núna þennan fína bakpoka með öllum græjum.
Held að eftir þetta sumar muni ég verða fær í flestan sjó þegar það kemur að útilegum.

|

Thursday, June 10, 2004

Einstakir vinir Skjás eins
Vilt þú verða einstakur vinur Skjás eins?
Ef þú ferð í Djúpu laugina og kynnist tilvonandi maka þínum og þið giftið ykkur og látið sýna frá brúðkaupinu í Brúðkaupsþættinum Já. Síðan verður framtíðar heimili ykkar gerð góð skil í Innlitútlit og að lokum komið þið fram í Fólki með Sirrý þar sem þið berið sálu ykkar og hjónabandsvandamál, verðið þið einstakir vinir Skjás eins.
Ef þið skráið ykkur í allann pakkann fáið þið góðan afslátt af öllum vörum í brúðkaupið og þegar þið gerið upp húsnæðið. Af þessu loknu verðið þið einstakir vinir Skjás eins og fáið einstök tilboð í einstökum verslunum, auk sértilboða.
Vertu einstakur vinur Skjás eins, þar sem allir eru einstakir.*


*Einstakir vinir Skjás eins eru í boði Símans.

|

Wednesday, June 09, 2004

Andrés Önd
Sú mikla heiðursönd á víst 70 ára afmæli í dag. Af því tilefni var rætt við 27 ára gamlar systur sem eru búnar að vera áskrifendur af Andrésblöðum á íslensku frá upphafi eða 1983. Það er gott að vita að ég er ekki sú eina sem uppfyllir ofantalin skilyrði.

|

Wednesday, June 02, 2004

Hej fra Sverige.
Fermingin gekk mjög vel í alla staði, utan einn. Þó að ég sé yfirlýstur trúleysingi þá sá ég ekki fram á annað en að taka fullan þátt í athöfninni þar sem kirkjan var ekkert yfirfull af fólki. Það var bara verið að ferma tvær íslenskar stúlkur, af íslenskum presti í návist íslendinga og að mér skilst eins svía sem slysaðist til að kvænast íslenskri konu. Ekki að það fari neitt í mig að taka þátt í trúarathöfnum, þar sem ég er ekki trúuð hafa þær í raun enga merkingu fyrir mig og ég get alveg leikið með. Svo þarna var ég ákaflega skyldurækin og hóf upp raust mína til að svara prestinum (enginn kór) og syngja sálma þegar "tvibbinn" minn byrjar að flissa eins og bjáni. Ég gat auðvitað engann veginn haldið lagi undir þessum kringumstæðum og ákvað að bíta fast saman til að skella ekki upp úr enda á fremsta bekk. En allt kom fyrir ekki og ég frussaði út úr mér kæfðum hlátri. Allt undir vökulu auga fermingarbarnsins. Ég er svo góð fyrirmynd. Sem betur fer virtist enginn hafa tekið eftir þessu þar til fermingarbarnið stökk á okkur að athöfn lokinni og kallaði okkur heiðingja fyrir framan prestinn. Það reyndar skipti ekki miklu máli því eftir veisluna mun það mann grey forðast okkur "tvíbura" systur eins og vítis loga. Held að við höfum eitthvað gengið fram af honum, og við sem vorum bara að vera við í öllu okkar veldi?
Nú er kominn miðvikudagur og mörgum kannski spurn hvað ég sé enn að gera í Sverige. Nú stóra systir þurfti á námskeið og fannst alveg upplagt að ég og múttan myndum vera aðeins lengur til að passa börnin. "Tvibbinn" var löglega afsakaður og fór heim strax á mánudeginum. Það er ekki það að þetta eitthvað biggy, þetta hefði bara mátt vera á öðrum tíma, en no matter. Stóru systur fannst samt alveg upplagt að ég notaði tækifærið og notaði bílinn meðan hún væri í burtu. Mér tókst fyrir eitthvað kraftaverk að keyra hana á lestarstöðina í morgun og komast aftur beina leið heim. Það gekk ekki alveg svona vel að fara að sækja myndirnar sem hún bað mig að ná í. Við skulum bara láta nægja að segja að ég sé búin að skoða bæinn MUN betur en ég ætlaði mér. Ég komst samt heim aftur. Ég þarf samt líklega að leggja snemma á stað á morgun til að sækja hana á lestarstöðina.

|