Thursday, September 30, 2004

Thank you darling
Var komin inn í svefnherbergi, reyndar ekki upp í rúm þegar ég heyrði undarlegt kattarvæl. Vissi að það væri eitthvað í gangi. Kem fram og þá situr gamla konan með mús í kjaftinum, mjög stolt. Ok, man ekki til þess að hún hafi veitt neitt í nokkur ár. Fyrsta hugsun var, ætli hún sé dauð og önnur ég verð að ná henni.
Gamla var svo ánægð með bráðina að hún leggur hana niður. Fyrsta athugun, It's alive. Önnur athugun, er eitthvað hér við hendina til að taka hana upp. Ég geri örvæntingarfulla tilraun til að tæma bréfpoka úr apótekinu til að grípa músina í en er of sein. Hún nær að skríða undir sjónvarpsófann. NEI!!!
Ég stekk til og gríp næsta lampa til að lýsa undir sófann en sé ekkert. Næst dreg ég hann fram og legg hann á bakið. Skoða botninn gaumgæfilega með lampann í hendinni en sé ekkert. Það er fullt af stöðum sem músin getur skriðið inn í og drepist ef hún slösuð. Ef hún er óslösuð þá er nóg fyrir hana að éta á gólfinu.
Ég dæsi þreytulega, enn sitjandi á gólfinu. Gamla skilur ekkert í þessum látum eða vanþakklæti og töltir fram að fá sér að éta.
Æðislegt. Ég vona að þessir heimiliskettir geti gert gagn og náð þessari mús í nótt. Annars finnst hún dauð við tækifæri. Ég ætla í það minnsta ekki að eyða nóttinni í þetta. Vona bara að ég verði ekki vakin með breakfest in bed í fyrramálið.

|

Wednesday, September 29, 2004

Ég er nú svo aldeilis kjaftstopp og hlessa...not
Jón Steinar orðinn hæstaréttardómari og Sleggjunni hent í kuldan fyrir að vera ekki sætur og sammála. Það átti auðvitað enginn von á þessu.
Það er kannski það versta. Við áttum ekki von á þessu, við VISSUM að þetta myndi gerast. Við vissum líka að það væri ekkert sem við gætum gert til að koma í veg fyrir þetta. So why bother.
Mér finnst þetta nú reyndar pínu gróft, ekkert mikið, bara pínu. Svo ég var að spá hvort það væri stemmari fyrir andspyrnuhreyfingu Íslands sem hefði það markmið að hrekja ríkisstjórnina frá völdum?
Áhugasamir geta skráð sig í gegnum kommentakerfið.

Annars læðist stundum að mér sá grunur að veikindi Davíðs eigi eftir að fella hann áður en yfir líkur. Hversu mikið goody twoshoes er maður þegar maður getur ekki einu sinni óskað þess?

|

Monday, September 27, 2004

I'm shit out of luck
Ég er andvaka.
Þetta er þriðja eða fjórða nóttin í röð. I've lost count.
I'm catching up on watching shitty movies.
Það er gott að ég er svo glötuð að vera M12 áskrifandi þannig að ég fæ bíórásina frítt í kaupbæti. Nú get ég eytt nóttunum í að glápa á hana.
Þetta er hræðilegt. Eftir að ég svaf í tvo sólarhringa þarna fyrir helgi þá næ ég ekki að rétta sólarhringinn af.
Sagði við "tvibbann" að ég væri í samúðarverkfalli. "Tvibbinn" er kennari. Fór með "tvibbanum" og minni frænku að kaupa playstation 2 tölvu handa þeirri síðar nefndu. Keypti í leiðinni prenthylki í prentarann, svona ef ég skyldi drullast til að skila verkefnum, það er ef mér verður ekki sparkað út eftir þessa löngu fjarveru. Sá ísskáp sem mig langar í, það er munur að vera svona ríkur, not!
En nú er ég að missa úr Joy ride, þeirri frábæru ræmu.

|

Sunday, September 26, 2004

Er ekki að standa mig í þessum snyrtivörubransa
Var að lesa nornirnar einu sinni sem oftar. Þar kom fram að konur eigi að eiga 437 hluti á baðherberginu. 437!!!
Þar sem allt sem nornirnar segja er að sjálfsögðu satt og rétt þá fór ég að kíkja í baðherbergisskápinn. Ok, ég á ekki 437 hluti þar inni, hvað þá að ég gæti komist nálægt því að nefna 437 hluti sem ættu heima á baðherberginu.
Fann nú samt meira en ég bjóst við. Dró fram bodylotion sem fyrrverandi tilvonandi tengdamamma gaf mér ein jólin. Makaði því á mig nokkrum sinnum áður en ég var dregin í heimsókn. Það er nú reyndar ágæt lykt af því þótt ég sjái engan mun eftir að hafa notað það. Rennur svona dót út? Fann líka einhverja bodyscrup prufu sem hafði fylgt með. Ekki frá því að hún hafi virkað pínu. Það var örugglega eitthvað fleira í þessu en ég nennti ekki að leita að því.
Á reyndar enn eyemakeup remover. Þurfti að fjárfesta í því fyrir nokkrum árum. Vá, ætli það séu ekki komin fjögur ár. Vinkona mín var að læra förðun og notaði okkur vinkonurnar sem módel í náminu. Ég mætti náttla eins og bjáni og gerði mér ekki grein fyrir því að ég yrði svo bara send heim með allt jukkið í andlitinu. Þegar ég var búin að nudda í smá tíma með vatni og sápu og varð bara rauðeygð í ofan álag tölti ég út í apotek og bað um eitthvað til að fjarlægja þetta. Notaði þetta sem sagt einu sinni og á það enn.
Ákvað að nota tækifærið og plokka þessi nokkru hár sem eru á milli augnbrúnanna. Prufaði einu sinni að toga í hár annarsstaðar á augabrúninni. Þvílíkur sársauki. Skil það dæmi bara ekki. Ef ég rýni mjög vel í spegilinn þá er ég með aðkenningu að yfirvaraskeggi. Prufaði að toga í það. Ef þetta fer eitthvað að aukast þá verð ég frekar þekkt sem skeggjaða konan.
Ég á hins vegar litla hvíta bómullareitthvað. Fannst það alveg brilliant til að sótthreinsa á mér andlitið þegar ég fæ reglulegu bólurnar mínar. Jæja, allt í lagi. Ég fæ ekki mikið af graftar bólum lengur, meira bara aukning á fílapensum.
Þegar ég er að sótthreinsa litlar skurfur með spritti þá er ég alveg hætt að nenna að vera með einhverja bómullarhnoðra. Er bara yfir vaskinum og helli yfir. Dáldið sárt í nokkrar sekúndur en það er skárra en að fá sýkingu og læti.
Þá fer það nú að verða upptalið, nema auðvitað tannbursta og svoleiðis. Á reyndar rafmagnstannbursta sem ég keypti í einhverju bríeríi. Ég er bara svo sick að ég enda alltaf í hálftíma törn þegar ég nota hann. Svo gaman að alveg stífbóna tennurnar. En ég bara nenni því ekki á hverju kvöldi. Tannholdið þolir það heldur ekki.
Þetta tekur bara allt of mikinn tíma. Allt of mikið viðhald. Tók þá ákvörðun að standa ekki í þessu. Ef maður bara lætur aldrei sjá sig vel til hafðan þá hefur fólk engan samanburð. Gerir ekkert og fólki finnst maður bara líta út eins og alltaf. Þetta er vítahringur sem maður á aldrei að byrja á. Just be a natural beauty and don't do shit.

|

Saturday, September 25, 2004

Oh, what the hell. Ég er búin að koma upp um mig hvort sem er svo ég ætla bara að segja ykkur meira hrossatengt. Það er það eina sem er að gerasta hjá mér anyways.

Ég er að fara í framkvæmdir einu sinni enn. Það er alltaf hægt að breyta og bæta. Undarlegt þótt viðhorfið heima hjá mér hafi lengi vel verið, if it doesn't smell it don't bother me, þá hefur óreyða í the horsyhouse alltaf farið í taugarnar á mér. Var ásökuð um að vera spúlsjúk síðasta vetur og fólk farið að forða sér þegar ég byrjaði að vefja ofan af vatnsslöngunni. Þetta bara fór í taugarnar á mér. Það var bara shit every were and I mean real shit. Svo þegar voraði tók ekki betra við. Innréttingarnar eru orðnar gamlar og úr timbri. Gamalt timbur sem hefur marinerast í mörg ár upp úr hlandi og skít og svo fúnað í ofan á lag er heaven fyrir pöddur. Og um leið og það byrjaði að hlýna voru þær út um allt. Ákvörðunin var tekin. Gamla timbrið færi út og nýtt timbur og/eða plast inn. Bara eitthvað úr nógu miklum eiturefnum sem pöddurnar þyldu ekki og ég gæti spúlað af hjartans list.
Svo er ég búin að fara á milli staða að skoða hitt og þetta og gera verðsamanburð. Síðan fæ ég auðvitað nýja hugmynd reglulega og þá verða ég að reikna upp á nýtt o.s.frv. Ég er búin að innrétta rúmlega 6 fm2 kaffistofuna svo oft að bráðum verð ég búin að finna leið til að koma þar inn 20 manns án þess að nokkur snerti gólfið.
En áður en hægt er að setja nýtt inn verður að rífa það gamla út. Ég og kúbeinið sem ég fjárfesti í fyrir nokkrum árum erum sko best buddies. Vogarafl er eitt það stórkostlegasta sem er til. Ég reif niður um daginn hallærislega hálfvegginn sem skipti stóru kaffistofunni minni í kaffistofu og hnakkageymslu og var ekki þetta litla ánægð. Nú í dag ákvað ég aðeins að rífa niður af veggnum inn í hesthúsinu, bara svona til að sjá hvað væri undir. Það eru jú að koma mánaðamót og bráðum get ég farið að versla. Undirlagið kom á óvart og nú er alveg ljóst að ég verð að rífa meira niður til að geta tekið endanlega ákvörðun um veggklæðningu. En ég er farin að hallast að plastinu sem bílaklæðningafyrirtækið flytur inn og ég þarf að sérpanta. Er þetta ekki intresant?

Síðan fór ég og kíkti á stóðið. Fíflið mitt sem var gelt fyrir fjórum árum heldur enn að hann sé stalioner og er alveg harður á því að nýji gæjinn fái ekki að vera með. En þar sem hross eru hópsálir þá reynir þessi nýji að komast inn í hópinn. Stelpurnar eru hins vegar svo uppteknar af því að vera í stóðmeraleik að þær mega ekkert vera að þessu. Það eru semsagt þrjár fullorðnar konur. Þar af er ein með böddu frá því í sumar og önnur á tveggja vetra dóttur í hópnum. Svo eru tvær unglingsdömur. Þær hafa sko engan áhuga þessum fíflum sem eru löngu búin að missa manndóminn og eru með einhvern rembing um yfirráð sem þeir hafa ekki hvort sem er. Var orðin svo vot í fæturna að ég nennti ómögulega að vera redda þessu í dag. Lausnin er einföld. Drengirnir verða bara teknir til hliðar og látnir dúsa tveir saman. Ég sver það, það leka tár þegar stóðið er tekið af þeim. Vitið svo til. Þessir bjánar verða orðnir bestu vinir áður en veturinn er úti. Ég gæti setið út í móa klukkutímunum saman að horfa á þetta samlíf sem lýtur flóknum reglum. Náttúran lætur ekki að sér hæða.

|

Tuesday, September 21, 2004

Ú, ú, ú. Verð að segja ykkur eitt.
Ég læddist út í skjóli myrkurs áðan og prófaði þetta nýja dæmi sem er að slá í gegn. Er búin að rekast á hópa af fólki sem eru að læra stafagöngu þegar ég hef verið í litlu heilsubótagöngunum mínum með "tvibbanum". Tvibbanum fannst þetta nú alveg fáránlegt fyrirbæri og var búin að stoppa mig af áður. En í kvöld fórum við frekar seint út og svo er farið að dimma miklu fyrr. Svo ég tók með mér stafina sem ég fékk lánaða um daginn og prufaði dæmið. Leið alveg eins og asna og reyndi að láta fara sem minnst fyrir mér og fela mig bakvið "tvibbann" við öll tækifæri. En viti menn, eftir því sem leið á var ég bara farin að get the hang of it. Nú bíð ég bara spennt eftir að sjá hvort ég fái harðsperrur eða eitthvað. Verst að ég þarf sennilega að bíða í tvo daga, nú í seinni tíð er eins og það taki skrokkinn miklu lengri tíma að fatta að ég hafi verið að gera eitthvað.

|

Leiðinlegasta auglýsing EVER
Landsbankinn á heiðurinn af því að hafa látið gera leiðinlegustu auglýsingu sem um getur. Ef þið eruð í einhverjum vafa um hvaða auglýsingu er átt við þá er það af sjálfsögðu þessi ömurlega kjaftaauglýsing þar er verið að tala um einhver lífeyrisréttindi og eitthvað fleira krapp sem enginn á nokkurntímann eftir að sjá.
Ekki nóg með það heldur tókst þeim að búa til séríu með sama stíl og eru þessar auglýsingar hver annari verri. Best þykir mér þó þegar eitt kerlingarfíflið er að tala við vinkonur sínar og segir "og ef ég dey. Nei í alvöru stelpur ef ég dey þá...". EF þú deyrð? Það er ekkert EF. Það er alveg 100% öruggt og vel það að þú átt eftir að detta niður dauð einn daginn og þeimur fyrr þeimur betra. Þú ert nú bara rétt dræp fyrir það eitt að hafa leikið í þessari auglýsingu.
Ég skipti um stöð í hvert einasta sinn sem þessi auglýsing birtist á skjánnum og ef ég er ekki nógu fljót að finna fjarstýringuna þá hleyp ég fram frekar en að þurfa að horfa á þessa hörmung. Hún er mannskemmandi.

|

Kerlingar og Tupperver
Ég veit að ég farin að endurtaka mig en so what.
Var að spjalla við "tvibbann" um daginn um kerlingar. "Tvibbinn" hafði verið fastur í félagskap kerlinga og líkaði miður. Svo við vorum að bera saman reynslu okkar af þessu leiðindafyrirbæri, kerlingum.
Svo það sé alveg á hreinu er hugtakið kerling algjörlega óháð aldri og kyni, þótt en sem komið er sjá stór meirihluti kerlinga kvenkyns. Það er frekar erfitt að reyna að lýsa kerlingu í orðum, þetta er meira svona dæmi sem þú þekkir þegar þú stendur frammi fyrir því.
Eitt eftirminnilegasta skiptið sem ég var föst í hópi kerlinga var þegar mér var boðið á Tupperver kynningu.
Ég hef hvorki fyrr né síðar lennt í öðru eins. Þarna kom ég alveg grunlaus um hvað væri í vændum. Vinkona mín úr saumaklúbbnum hafði boðið mér á kynninguna líkt og öllum öðrum úr saumaklúbbnum. Þarna voru líka slatti af öðrum vinkonum hennar sem ég hafði lítið hitt áður. Kerlingar eru sem sagt mjög hrifnar af Tupperver. Þeim finnst þetta alveg stórkostlegt fyrirbæri. Plastdollur sem kosta frá rúmlega 1000kr. stykkið. Það hægt að safna mörgum línum og eiga mismunandi plastdollur undir alla skapaða hluti. Ég var nú ekki alveg að skilja þetta. Þá sjaldan sem mig vantar plastdollu þá get ég keypt þær fyrir nokkra hundraðkarla út í búð. Nei, nei, nei, það var sko ekki það sama. Tupperver plastdollur eru með lífstíðarábyrgð og allt saman. Flestar plastdollur verða því miður til löngu eftir að ég og allir sem ég þekki verða löngu dauðir, hvort sem það eru tupperver eða ekki. Og hvað á svo að gera við allar plastdollurnar þegar kerlingin er dauð? Ég er að hugsa um að koma með brilliant hugmynd fyrir Tupperver fyrirtækið. Hvernig væri að búa til Tupperverdollu í fullri líkamsstærð þannig að það sé hægt að grafa kerlingarnar í stórri plastdollu og hægt að setja allar hinir plastdollurnar með henni. Og þar geta þær legið saman, kerlingin og dollurnar í einni stórri, loftþéttri plastdollur með svona snúningskífu ofan á þar sem hægt er sjá hvenær dollunni var holað niður?

|

Monday, September 20, 2004

Er alveg að fara að lenda
Mesti pirringurinn er liðinn hjá. Í staðinn er ég orðin þreytt. Sé alltaf fyrir mér eldfjall sem þennst út með miklum látum og spýr svo út úr sér glóandi hrauninu með ógurlegum sprengikrafti. Á eftir sígur það svo niður um helming og hóstar út nokkrum svörtum reykbólstrum. Það er ég.
Hér áður fyrr gat ég verið grautfúl í lengri tíma en í seinni tíð hreinlega nenni ég því ekki. Það er ógurleg orkueyðsla og bitnaði verst á mér sjálfri. Hættan er liðin hjá, kannski tveir þrír litlir reykbólstrar eftir en svo verð ég komin niður á jörðina.

Eitt af mörgu sem fór í taugarnar á mér síðustu daga var morgunútvarpið. Ætlaði sko heldur betur að fara að hella úr skálum reiði minnar yfir því. Þetta hann segir hún segir á Létt. Svo allt í einu lifnaði lítil týra í hausnum á mér. Var ég ekki búin að röfla yfir þessu áður? Nú þurfti ég að hugsa og var næstum farin að renna yfir gamlar færslur þegar ég mundi það. Meiri tónlist, minna á milli eyrnanna. Það var það sem ég sagði. Alltaf verið að spila einhverjar ömurlegar auglýsingar með þeim þar sem þau eru að tala um titrara og eitthvað fleira kynlífstengt. Er það, það eina sem þau geta talað um?
Það og annað sem ég sá í dag kom mér til að hugsa. Í dag lennti ég fyrir aftan bíl sem fór undarlega hægt á vinstri akrein. Ég kom á fullri ferð og lennti beint fyrir aftan og það var annar bíl við hliðiná svo ég varð að bíða meðan aðrir fóru yfir á hægri fyrir aftan mig. Og hvað haldið þið að fólkið hafi verið gera? Þetta var par sem var að slefast og ákvað að gera það á vinstri akrein á tuttugu. Ég var ekki ánægð. Það fór meira í taugarnar á mér að þau væru á tuttugu en "ástaratlot" á almannafæri fara líka í mínar fínustu. Fyrir hverjum er þetta fólk að reyna að sanna að það sé svo happy? Margir segja um samkynhneigða að þeim sé alveg sama svo framalega sem "þeir séu ekki að troða sinni kynhneigð upp á aðra". Kynhneigð skiptir mig ekki máli, þoli bara ekki þegar fólk er að neyða mig til að taka þátt í þeirra kynlífi. Ef það fær eitthvað kikk út úr því að láta horfa á sig getur það bara fengið einhvern sem hefur áhuga til að glápa á. Ég hef það bara ekki.
Í framhaldi af því fór ég að hugsa um hvernig við dæmum fólk eftir kynlífi. "Sá sem heldur framhjá er skíthæll og á allt slæmt skilið." Þetta var sagt í sjónvarpsþætti sem ég sá í gær. Myndi auðvitað ekki vilja láta halda framhjá mér en nú samt ekki sammála þessari fullyrðingu. Mér er alltaf ósjálfrátt illa við lausláta karlmenn og tala nú ekki um ef þeir hreykja sér af "afrekum" sínum. Í sumar læddist sá grunur að mér að undir ákveðnum kringumstæðum hafi ég verið umkringd af "bunch of virgins". Ég var The dirty old woman á staðnum. Það var dálítið undarleg upplifun, ekki að það hafi í sjálfu sér skipt máli, en mér datt það í hug.
Er kynlíf mikilvægt? Held að margir myndu segja já en það er vel hægt að lifa án þess. Samt vorkenni ég ósjálfrátt fólki sem er orðið fertutg og hefur aldrei stundað kynlíf, með öðrum. Og já, það er til fertugt fólk sem hefur ekki stundað kynlíf. Samfélagið leggur mikla áherslu á kynlíf, samt er fullt af fólki sem hefur ekki stundað kynlíf svo mánuðum og jafnvel árum skiptir. Er þetta ekki þversögn?
I have to think about this. Svona áður en ég get tjáð mig meira.

|

Sunday, September 19, 2004

Nú er ég búin að fá yfir mig nóg og vel það

Ég var oft sökuð um það hérna áður fyrr að hafa ekki beðið um hjálp við hlutina og vaða í allt ein. Svo ég ákvað að taka mig á í mannlegum samskiptum og biðja annað slagið um aðstoð. Ég hef talið að ég sé yfirleitt boðin og búin til að hjálpa fólki ef það biður mig um aðstoð. Núna undanfarið hefur mér hins vegar liðið eins og litlu gulu hænuni. Það nennir enginn að skera kornið en allir vilja eta kökuna. Og ekki nóg með það heldur vill það segja mér hvernig kakan á að vera líka. WELL. Þeir sem vilja fá ákveðna tegund af köku skulu bara gjöra svo aðstoða við kökugerðina frá A-Ö og taka þátt í kostnaði eða bara taka þegjandi við þeirri sneið sem að þeim er rétt.
Ég kæri mig heldur ekki um það að það sé endalaust verið að draga orð mín í efa. Meira að segja þegar ég læt mína skoðun í ljós í umræðum þá hef ég endalaust rangt fyrir mér og er "alltaf svo dómhörð". Ég hef alltaf haft ákveðnar skoðanir. Ég kynni mér staðreyndir, dreg ályktun og mynda mér skoðun. Ég virði það alveg að fólk hafi aðrar skoðanir en ég en ef það ætlast til að ég skipti um skoðun er eins gott fyrir það að leggja fram einhverjar staðreyndir sem geta orðið til þess að ég geti myndað mér nýja skoðun. Þú ert alltaf svo dómhörð er ekki staðreynd sem ég tek til greina. Þið verðið að vera frumlegri en það. Ef þið getið ekki þolað konu með ákveðnar skoðanir skuluð þið bara fara eitthvað annað, ég ætla ekki að fara að breytast í einhverja undirlægju til að ykkur líki við mig. Þetta er pakkinn eins og hann kemur.

|

Saturday, September 18, 2004

Ekki enn sofnuð
Þetta gengur allt eitthvað mjög illa.
Ákvað að kíkja aðeins nýja idolið mitt. Það er sem sagt Hugh Jackman. Fyrir þá sem þekkja ekki nafnið er það sá sem lék Wolverine í X-men myndunum. Ekkert smá flottur.
"Tvibbinn" bennti mér á áhugaverða staðreynd um daginn, það að Hugh er svipuð týpa og gamla idolið mitt sem er Clint Eastwood, og áður en þið farið að vera með stæla þá á ég við þegar hann var yngri ekki í núna eftir að hann varð sjötugur.
Ég hefði alveg tekið fyrir það að ég ætti einhverja sérstaka týpu þar til nú. Hef aldrei verið að falla fyrir sérsökum týpum. Hef nú aldrei verið að falla neitt mikið yfir höfuð en það er annað mál.
En það er greinilegt að hávaxnir, dökkhærðir og vöðvastæltir ná athygli minni. Að minnsta kosti á hvíta tjaldinu.

Eru þetta ekki áhugaverðar færslur. Nú er mér nú bara hreinlega farið að leiðast. Ætla í alvöru að fara að hundskats upp í rúm.

|

Allt ómögulegt
Eirðarlaus og pirruð. Get ekki hugsað mér að fara að sofa en er samt að verða þreytt. Vildi gjarnan vakna snemma á morgun til að koma einhverju í verk en sé ekki fram á það úr þessu.
Ætti kannski að reyna að hafa upp á Sivari og bjóða honum félagsskap. Missery loves company.
Er haustið myrkrið að fara í mann eða hvað er í gangi. Hef enga þolinmæði fyrir fólk. Vantar að komast í líkamlega vinnu. Brjóta allt og bramla og byggja upp á nýtt með góða tónlist í botni.
Búin að bryðja verkjatöflur, eitthvað allt og veikt en ég tók auðvitað bara stærri skammt, en það hjálpaði, sérstaklega með hausverkinn. Veit ekki alveg hvort maður ætti að reyna að verða sér út um uppers eða downers, kannski bæði, annað til að lyfta lundinni og hitt til að róa pirringinn.
Ætla að reyna að hlunkast í rúmmið núna og vonast eftir að sofna. Það er svo ömurlegt sjónvarp á öllum stöðvum að það er engin hemja. Versta sjónvarpsdagskráin er alltaf á föstudögum og laugardögum. Hef enga trú á að sé sú eina sem á ekkert líf.
Það er lágskýjað á þessum bæ.

|

Pirruð pirruð pirruð...
Ég átti ágætan dag og ætti að vera þokkalega sátt við lífið og tilveruna en ég er pirruð.
Er með aðkenningu að hausverk og er farin að fá í mjöðmina sem er undanfari að brjósklosverknum, I just hate that.
Það sannaðist að ég hafði rétt fyrir mér í dag. Ætti að vera ánægð með það en er það samt ekki. Fer almennt í taugarnar á mér þegar er verið að draga orð mín í efa. Ég er ekki vön að halda fast í einhverja vitleysu og hefði haldið að fólk sem þekkir mig ætti að vera farið að vita það. En vinir og vandamenn eru samt sem áður enn að ergja mig með endalausum efasemdum. Og hvernig er það? Má ég ekki hafa rangt fyrir mér einstaka sinnum líka?
Ég geri yfileitt meira gagn en ógagn og þætti betra að ef fólk er ekki tilbúið til að hjálpa mér að það láti mig þá bara vera.
Ég er vön að bjarga mér. Það tekur mig kannski lengri tíma þegar ég er ein en ég redda mér.
Átti kærasta sem var sífellt að efast um getu mína og var svo alltaf voða hissa þegar það kom á daginn að ég gæti komið hlutunum í verk. Ég verð reið þegar það er komið þannig fram við mig.
Ég geri það sem ég vil, þegar ég vil og eins og ég vil.
Hel heldur áfram sinni reið og þeir sem vilja mega slást í hópinn en þeir sem reyna að hindra mína för skulu vera tilbúnir að taka afleiðingunum.
Ég öskra ekki oft en þegar það gerist heyra það allir og nú er ég byrjuð að urra.
YOU HAVE BEEN WARNED

|

Thursday, September 16, 2004

Minning

Saga frá Reykjavík 1983-2004
Sleipnir frá Breiðabólsstað 1989-2004

Glöggir lesendur hafa kannski áttað sig á að ég er hestamaður. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að tala sem minnst um það á þessu bloggi, bæði til að leyna mínu rétta nafni og gerði auk þess ráð fyrir að flestir hefðu ekki mikinn áhuga á að lesa um hross. Ég hef ekki verið í skapi til að blogga mikið undanfarið og eftirfarandi er ástæða þess. Eftirfarandi færsla er til minningar um ofangreind hross. Þeir sem hafa ekki áhuga eða umburðarlyndi til að leyfa mér að úthella sorgum mínum um þessa ferfættu einstaklinga er bent á að lesa ekki lengra.

Laugardagurinn 11. september 2004 verður seint gleymdur.
Ég svaf illa nóttina áður. Yfirvofandi atburðir voru ofarlega í huga og ég átti erfitt með að hvílast. Það stóð til að fella Sögu og Sleipni. Þetta var ekki skyndi ákvörðun. Síðustu tvö ár hafa leynt og ljóst stefnt að þessum degi. Ákvörðunin var fyrst formlega orðuð í byrjun þessa sumars. Ég var samt ákveðin í að ekkert yrði gert fyrr en í haust og undir niðri var ég að vona að það þyrfti ekki að koma til þess strax. Þegar ég kom svo heim frá Noregi var hins vegar ljóst að þetta var ekki umflúið. Saga var orðin hölt og Sleipnir var enn stokkbólginn og hafði ekki sýnt neinn bata í sumar. Ég vissi hvað ég þyrfti að gera og fór í að samstilla gröfumann og dýralækni.

Ég mun aldrei gleyma því þegar ég sá Sögu fyrst. Það var í byrjun árs 1993. Ég hafði loksins safnað nægum peningum til að láta drauminn rætast, drauminn um að eignast hest. Mamma hafði tekið sig til og hringt á nokkra staði og hitt á almennilegan eldri mann sem var tilbúinn til að hjálpa okkur að finna fyrir mig hest. Nokkrum dögum eftir áramótin hringdi hann og sagðist vera með leirljósa hryssu sem hann hélt að gæti hentað. Ég fór upp í Víðidal að skoða hana. Þegar ég kom inn í hesthúsið sá ég hana ekki strax en allt í einu leit hún upp fyrir stallinn. Þetta var ást við fyrstu sín. Hún var lítil leirljós, blesótt og loðin eins og og bangsi eins og öll hross á þessum árstíma. Ég prófaði hana tvisvar sinnum og það var nóg, ég vissi að vildi fá þessa hryssu. Samt hafði ég alltaf séð fyrir mér stóran, svartan hest þegar ég var að láta mig dreyma um fyrsta hestinn minn. Leiðir okkar lágu saman upp frá þessu og ég vissi fljótt að þær myndu gera það þar til dauðinn myndi aðskilja okkur.
Hún var blíð og góð í allri umgegni og lét ekki mikið yfir sér þar sem hún stóð í stíu. Út í gerði virkaði hún ekki mikill bógur heldur og reyndi að forðast átök eftir fremsta megni. Man eitt sinn þegar ég varð að setja hana í gerði með ókunnum hestum eftir reiðtúr til að leyfa henni að velta sér. Hún hljóp hring eftir hring til að forðast hin hrossin og stoppaði alltaf fyrir framan mig með bænarsvip í augum. Það endaði með því að ég fór inn í gerði og stóð hjá henni meðan hún velti sér.
Þegar komið var á bak var allt annað upp á teningnum. Hún var mikið viljahross og hlífði sér aldrei. Hún var háreist og hágeng og vakti eftirtekt þar sem hún fór. Ólíkt flestum íslenskum hrossum hafði hún ekki tölt hvað þá skeið. Það kom aldrei að sök. Brokkið var ásetugott og hún gat brokkað á öllum hraða. Flest hross sem fylgdu henni voru komin upp á stökk áður en hún sleppti brokkinu. Hún stikaði líka ótrúlega á feti og gat stungið hross af á fetinu einu saman. Allir sem fengu að prófa hana voru yfir sig hrifnir hvort sem þeir voru algjörir viðvaningar eða þaulreyndir tamningamenn. Fáir höfðu kynnst öðrum eins vinnuvilja en fundið um leið til öryggis því aldrei reyndi hún að setja af sér knapa.
Hún var fyrsti hesturinn minn. Hún var fyrsti hesturinn sem ég járnaði. Hún gaf mér fyrsta folaldið, þótt það hefði verið slysafang sem reyndist ekki líkjast móður sinni mikið og endaði í tunnu eftir að hafa bæði slasað mig og litla bróður. Ég reyndi ítrekað að fá undan henni annað folald en allt kom fyrir ekki og hún fyljaðist ekki aftur.
Fyrir einum þremur árum fór ég að verða vör við það að hún væri eilítið að hlífa öðrum framfæti. Ári seinna varð hún hölt á afturfæti og við skoðun kom í ljós að hún var orðin spöttuð. Hún fór á útigang árið eftir og var í góðu yfirlæti með fylfullum hryssum og tryppum. Í fyrra reyndi ég að taka hana inn en fljótlega varð hún aum á framfætinum. Hún fór aftur á útigang og eyddi vetrinum í góðra vina hópi. Í sumar var hún svo á beit með öllum vinunum sem hafa bæst í okkar hóp síðustu árin. En í lok sumars var hún orðin hölt undir sjálfri sér og farin að liggja mikið. Loforðið sem ég hafði gefið henni var að hún fengi að lifa meðan hún fóðraðist og stæði undir sjálfri sér.
Sleipni kynntist ég seinna. Ég sá hann fyrst þegar hann var fimm vetra og eigandi hans var tólf ára stelpa. Ég var sautján á þeim tíma og vakti hvorugt þeirra sérstaka althygli mína. Það átti eftir að breytast.
Stelpan fór að eiga í vandræðum með Sleipni á næstu þremur árum. Hann þroskaðist og reyndist skapmikill viljahestur sem hentaði ekki óhörnuðum unglingi með litla reynslu. Stelpan var svo búin að fá annan hest sem hentaði betur og þessi skapmikli hestur fékk skiljanlega minni athygli. Hann var samt greinilega kelinn og mannblendinn og óskaði iðulega eftir athygli í hesthúsinu. Ég var á þeim tíma með mína hesta í sama húsi. Ég klappaði honum oft létt á hausinn þegar ég gekk framhjá honum en spáði ekki mikið meir í hann. Það var ekki fyrr "tvibbinn" kom með mér í hesthúsið eitt sinn og stóð lengi og klappaði þessum blíða hesti sem ég fór að spá í hann.
Svo fór um sumarið að ég var með hestana mína í sömu girðingu og stelpan, sem nú var orðin fimmtán ára og ég hafði áttað mig á því um veturinn og sumarið að þarna var að vaxa úr grasi áhugaverður einstaklingur sem ég var farin að spjalla meira við. Við höfðum báðar elst og þroskast frá því að við vorum 12 og 17. Þegar ég var 17 ára hvarflaði ekki að mér að tala við 12 ára krakka. Hún sagði mér svo þarna um haustið 1997 að hún ætlaði að losa sig við Sleipni, hún réði ekkert við hann. Þegar hér var komið var klárinn farinn að vekja áhuga minn og það varð úr að ég keypti hann þarna um haustið.
Það gekk mikið á veturinn ´97-´98. Sleipnir gerði tvennt undir manni, lullaði og rauk. Ég komst fljótt að því að það var borin von að fara í reiðtúr með öðrum. Í heilan mánuði fórum við tvö í reiðtúr í vetrarmyrkrinu. Hver einasti reiðtúr var barátta. Barátta um stjórnina milli mín og hans. Oft mátti ekki á milli sjá hvort okkar var þreyttara og sveittara eftir reiðtúrana. Eftir því sem á leið varð okkur báðum ljóst að hér mættust stálin stinn og hvorugt okkar myndi hafa vinninginn. Endaði með því að við fórum samningaleiðina. Eftir mánuðinn var hann farinn að brokka frá húsi. Eftir mánuð í viðbót fór hann að detta inn í tölt. Alltaf gekk okkur best þegar við vorum tvö ein. Fyrstu árin höfðu önnur hross mikil áhrif á Sleipni og þá gaf ég eftir og hann fékk að ráða gangtegundinni og ég hraðanum. Seinustu árin var ég farin að fá að stjórna hvoru tveggja upp að vissu marki en enginn gat nokkurn tímann neytt Sleipni til neins. Ég hafði það alltaf á hreinu að ég stjórnaði því aðeins að hann leyfði mér það.
Sleipnir var ólíkur Sögu að mörgu leyti. Hann var stór og mikill vexti. Fagurjarpur með litla stjörnu. Önnur hross virtu hann og létu vera. Hann hafði gaman af að leika sér við önnur hross en enginn efaðist um að hann var fremstur meðal jafningja. Það var ununn að binda tryppi og aðra vitleysinga utan á hann. Hann dró önnur hross á eftir sér áreynslulaust og ef þau gerðu þau mistök að reyna bíta hann eða annað þvíumlíkt þá gerðu þau það aðeins einu sinni.
Hann varð fljótlega minn aðal reiðhestur ásamt Sögu og hélt þeim sessi alla tíð. Það tók tíma að venja þau saman í reið. Ef ég reið öðru og teymdi hitt var ég fyrst á milli staða. Ég þurfti aftur að byrja að ríða ein út til að venja þau af þessari samkeppni en með tímanum urðu þau góðir vinir.
Fyrir þremur árum byrjaði Sleipnir að rífa undan sér framfótaskeifurnar eins og hann fengi borgað fyrir það. Ég lét ítrekað skoða hann en aldrei fannst neitt að. Hann var því löngum í fríi síðustu tvö árin. Ég tók hann inn eftir áramót í ár og í tvo mánuði hafði hann ekki rifið undan sér. Ég vonaði innilega að þessum hremmingum væri nú loks lokið. Svo var því miður ekki. Fljótlega eftir að hann var járnaður upp reif hann undan sér. Ég sló undir hann aftur og fór í reiðtúr. Það var síðasti reiðtúrinn okkar. Hann varð haltur í reiðtúrnum. Ég fór með hann til dýralæknis sem fann aðeins litla bólgu og ráðlagði nokkra daga frí. Tveimur dögum seinna var hann stokkbólginn á báðum framfótum. Nú fékk hann lengra frí og bólgueyðandi lyf en allt kom fyrir ekki. Svo hann fór í ítarlegri skoðun og niðurstaðan var kvíslbandabólga, algengt vandamál í hágengum viljahestum. Hann var sprautaður með lyfi til að reyna að minnka skaðan og átti að fá langt frí.
Þegar ég kom svo heim frá Noregi var hann enn mikið bólginn og hlífði sér greinilega. Eftir að hafa kynnt mér kvíslbandabólgu betur komst ég að því að hann myndi aldrei verða sami hestur.
Því tók ég þá erfiðu ákvörðun að það væri kominn tími til að láta þessi stoltu hross fara á fund feðra sinna. Þótt ég vissi að þetta væri það eina rétta var þetta erfið tilhugsun. Þetta voru þau hross sem kenndu mér mest. Þau vígðu mig inn í sinn heim og gerðu mig að þeim hestamanni sem ég er í dag. Þeirra síðasta verk var svo að gera slíkt hið sama fyrir litla bróður.
Á laugardaginn voru við svo fjögur mætt upp í girðingu, ég, "tvibbinn", stelpan, sem nú hefur verið góð vinkona mín undanfarin ár og litli bróðir. Það var búið að taka gröfina fyrr um morguninn og við biðum eftir dýralækninum. Þetta var langur og erfiður tími þótt þetta hafi líklega ekki verið nema 15-20 mínútur. Dýralæknirinn gaf þeim sitthvora róandi sprautuna. Síðan voru þau sprautuð með banasprautunni, Saga fyrst svo Sleipnir. Það var sárt að sjá þau falla og við grétum öll. Síðan voru þau lögð saman til hinnstu hvílu. Mér fannst huggun í því.
Síðustu dagar hafa verið erfiðir. Ég hef verið framtakslaus og lystarlaus. Ég er í sorg. Ég missti tvo af mínum bestu vinum. Ég veit að dýrafólk skilur þetta betur og aðrir skilja þetta alls ekki. Ég er allavega búin að kveðja þau núna en ég mun aldrei gleyma þeim.

|

Sunday, September 05, 2004

Ekki bara gömul og grá heldur væmin líka
Eins og iðulega um helgar lá ég eins og klessa fyrir framan kassann í gærkvöldi þegar gemsinn pípaði til að gefa til kynna að ég hefði fengið sms. Ég var nú hálf undrandi enda orðið áliðið og flestir sem senda mér sms væru líklega við sömu iðju og ég á þessum sama tíma. Hvað gat verið svona merkilegt? Jú, þetta var svona keðju sms (sem ég eyði iðulega samstundis) nema hér var verið að hvetja fólk til að kveikja á kerti til minningar um alla þá sem létust í gíslatökunni í Rússlandi. Mér fannst nú væmnin farin að keyra úr hófi fram og hvarflaði ekki að mér að senda þessi skilaboð áfram.
Hins vegar get ég ekki neitað að þetta mál allt saman fór mjög illa í mig frá því að ég heyrði um þetta fyrst í fréttunum. Það var vitað mál að yfirvöld myndu aldrei fara eftir kröfum þeirra og þetta gæti bara endað á einn veg, eins og það gerði.
Það er skemmst frá því að segja að það logaði kerti út í glugga hjá mér í gær.

|

Thursday, September 02, 2004

Orðin gömul og grá...
Dagarnir eru orðnir svo langir að ef ég er á annað borð helst vakandi eftir kvöldmat þá hef ég ekki orku til að gera neitt annað en að horfa á sjónvarpið. Talandi um það svona í framhjáhlaupi, þá er stóra sjónvarpið aftur í viðgerð, er með gamalt frímerki sem er orðið 20 ára. Ég segi aftur því að það fór í veðgerð fyrir rúmu ári síðan og þá henntaði því ekki að sýna bilunina meðan það var í viðgerð og kom aftur heim í sama ástandi, hljóðið dettur út eftir hag. Nú var ég semsagt að hringja í verkstæðið og bilunin hefur ekki komið fram á þessum þremur dögum svo það verður sent heim seinnipartinn, líklega óviðgert. Uuurrrr!!!
Það sem ég ætlaði hins að deila með ykkur gerðist síðasta laugardag. Ég var setja bensín á litla burrann minn, sem er í raun ekki frásögum færandi, nema hvað. Þar sem ég stóð í norðan-garranum og beið eftir að þessir tæpu 60 lítrar rynnu í tankinn sá ég allt í einu mína eigin spegilmynd í glerinu fyrir teljaranum. Yfirleitt væri þetta að sjálfsögðu ánægjulegt augnablik en núna var ég eitthvað píreygð og skrítin á svipinn og milli augbrúnanna var greinileg gribbuhrukka. Ég hef nú reyndar séð hana áður en núna var hún eitthvað óvenju djúp og áberandi. Ég byrjaði að setja upp hin ýmsu svipbrigði en helvítis hrukkan fór ekki neitt. Ég fetti og bretti á mér andlitið sem mest ég mátti en allt kom fyrir ekki, þarna var hún. Mér tókst loks að losna við hana með að lyfta augbrúnunum og enninu og ýta eyrunum aftur, ég get hreyft eyrun, hæfileiki sem ég erfði frá afa en það er önnur saga. Þetta undarlega svipbrigði var hins vegar mjög asnalegt og óþægilegt og engin leið að halda því. Ég reyndi að róa mig niður og innra mónólógið fór strax í gang. "Þetta er allt í lagi, BÓTOX!!!, þetta er eðlileg þróun, BÓTOX BÓTOX!!!, það er miklu betra að eldast með reisn, BÓTOX BÓTOX BÓTOX!!!" Þegar hér var komið small blessunarlega í bensíndælunni til merkis um það að litli burri væri búin að fá nóg í bili. Ég stökk af stað inn á bensínstöðina til að borga fyrir bensínið og reyndi að skilja eftir þessa hræðilegu rödd sem öskraði hástöfum "BÓTOX BÓTOX BÓTOX" og þessa asnalegu spegilmynd með djúpu gribbuhrukkuna. Ég ætla aldrei aftur á þessu asnalegu bensínstöð.
Núna þegar ég fer inn á illa lýsta baðið mitt, set ég augabrýrnar og ennið upp og eyrun aftur og þegar ég horfi í spegilinn er ekki til grátt hár á höfði mínu og ekki ein einasta lína í andlitinu. And life is wonderful again.

|