ÞRJÁR VIKUR!!!
Ég dreif mig í krabbameinsskoðun í dag, í fyrsta skipti á ævinni. Það var ekki jafn hræðilegt og ég hafði haldið. Svo þegar skoðun var lokið var mér tilkynnt að ef eitthvað væri að yrði haft samband við mig innan þriggja vikna annars ekki. Það þýðir að ég þarf að bíða milli vonar og ótta til 18. nóvember. Hélt að þeir gætu bara látið mig vita eftir helgi eða eitthvað.
Ég kveið nokkuð fyrir þessari fyrstu heimsókn, þótt eldri systur mínar væru búnar að útlista þetta fyrir mér. Fór í sturtu í hádeginu og hrein nærföt. Ekki það að læknirinn myndi sjá nærfötin. Ég bursta líka tennurnar áður en ég fer til tannlæknis. Gat einu sinni ekki gert það og baðst innilegar afsökunnar á því. Hann hló bara og sagði að það væri ekkert mál, það væru alls ekki allir sem burstuðu tennurnar áður en þeir kæmu. Ha!
Þótt að ég sé alltaf í hreinum nærfötum hreinlætisins vegna, og þeirrar einföldu staðreyndar að það er bara ógeðslegt að vera í óhreinum nærfötum, þá leynist sú hugsun að það sé betra að vera í hreinum nærfötum ef eitthvað kæmi fyrir. Eins og þegar maður liggur fyrir dauðanum á bráðamótökunni og þeir eru að klippa utan af manni fötin til að reyna að bjarga manni þá hendi þeir manni út ef nærfötin séu skítug. Auðvitað ekki. En ég get sagt ykkur það að þegar góð vinkona mín lenti í alvarlegu bílslysi og lá upp á bráðamótöku að blæða út og læknar og hjúkrunarfólk á fullu að reyna að bjarga henni og þurftu meðal annars að klippa af henni fötin þá læddist þessi litla hugsun inn hjá henni. "Guð minn góður! Allt þetta fólk á eftir að sjá mig nakta." Já, það er skrítið hvernig maður er gerður. Þegar á hólminn er komið erum við ekki að hugsa einhverja stórkostlega hluti eða bíða eftir ljósinu við förum hjá okkur.
Í öðrum fréttum er það helst að ég er búin að fara með kerruna í skoðun. Hún fékk endurskoðun. Svo ég brunaði með hana beint aftur á verkstæðið og tilkynnti þeim að það þyrfti að strekkja á bremsunum. Ég hefði vissulega getað orðið virkilega fúl og verið með dónaskap og leiðindi en ég ákvað að gera það ekki. Í staðinn brosti ég bara og spurði hvort þeir myndu ekki bara kippa þessu í liðinn ef ég skildi kerruna eftir. Ég á að tala við þá eftir helgina. Ég hef komist að því að öll viðskipti ganga mun betur ef ég er róleg og yfirveguð og kem bara vel fram við viðkomandi, hvort sem hann hafi klúðrað einhverju hrikalega eða ekki. Fólk bregst bara mun betur við og gerir meira fyrir mann ef maður ef bara almennilegur.
Ég er meira að segja byrjuð að færa húsgögn og gera ráðstafanir með það sem á að fara hjá múttunni fyrir breytingarnar, þótt smiðurinn sé ekki búinn að koma og taka niður millihurðina svo ég geti rifið niður tréklæðningu á einum veggnum áður en málararnir koma. Svo ég er í raun komin á undan áætlun. Ég held að mér hafi bara tekist að gera allt sem ég ætlaði að gera í þessum mánuði, þrátt fyrir svartsýni og sjálfsvorkunn.