Monday, March 21, 2005

Líknarmorð
Það var auðvitað að "pro-life" sinninn Bush myndi setja lög til að koma í veg fyrir að þessi blessaða kona myndi deyja. Það væri óskandi að hann myndi hugsa meira um fólk sem er gangandi um á jörðinni en það sem er á fósturskeiði eða lifandi dautt.
En þetta er í raun útidúr. Smá Bush-bashing.

Annars veit ég ekki alveg hvað mér á að finnast um þetta mál. Ég er almennt hlynt því að fólk sem er svona heilaskaðað fái bara að deyja drottni sínum á náttúrulegan hátt. Oftast er þó um tilfelli að ræða þar sem viðkomandi er tengdur við öndunarvél. Mér finnst það liggja í hlutarins eðli. Ef þú hefur ekki andað án aðstoðar véla í fleiri mánuði eða ár, þá ertu í raun dauður.
Það á ekki við hér. Það sem um er að ræða er að taka næringarslöngu. Það þýðir í raun að hún væri svelt í hel. Það finnst mér ekki hljóma vel. En þá komum við að öðru. Yrði hún vör við að hún væri að svelta? Ef ekki, þá segir það okkur kannski mest um það hversu heilasköðuð hún er.

Svo er annað. Af því sem mér skilst eru eiginmaður hennar og fjölskylda séu á öndverðu meiði. Hann vill að hún fái að deyja, lái honum hver sem vill eftir 15 ár. En fjölskyldan vill að henni verði haldið "lifandi".
Átti ekki að fara að koma á einhverri skráningu hér á landi fyrir þá sem vilja? Var það bara í sambandi við líffæragjafir eða get ég líka tekið fram hvað ég vil láta gera í svona tilfellum? Þetta er ekki ákvörðun sem ég vil að aðstandendur mínir þurfi að taka eða koma sér saman um ef ég skildi liggja eins og grænmeti upp á spítala. Myndi mjög gjarnan vilja geta haft skráð opinberlega hver minn vilji væri í svona málum. Þetta ætti að vera mín ákvörðun.

|

Sunday, March 20, 2005

Kveðja til Kólgu
Kólga
Fyrir rúmum þremur vikum staðfesti dýralæknir það sem mig var farið að gruna. Hún Kólga mín, sökum aldurs, var komin með skemmdir í sinum og kvíslböndum á framfótum. Þessi skaði er óafturkallanlegur. Það er lítil meðferð til við þessum kvilla og persónulega finnst mér ástæðulaus að standa í slíkri meðferð þar sem hrossin verða ekki verkjalaus fyrir vikið. Ég hringdi því í Sláturfélag Suðurlands á Selfossi. Hún verður sótt í fyrramálið.

Ég fékk Kólgu gefins núna í haust. Ég vissi að þar sem hún er fimmtán vetra að þessi áhætta væri fyrir hendi. Þar sem það er töluverð fyrirhöfn og annars eins kostnaður fólgin í því að fella og grafa hross, þá geri ég það ekki nema við hross sem hafa fylgt mér lengi. Hún verður þess vegna því miður að fara í sláturhúsið.

Ég hef sent nokkur hross í sláturhúsið og nokkuð færri felt og grafið. Hins vegar hef ég komið mér upp ákveðinni lokaathöfn sem öll hross fá. Kólga fékk hana í kvöld. Lokaathöfnin er fólgin í því að ég dreg undan skeifurnar og snyrti hófana. Bursta hrossið vel og vandlega í síðasta sinn og greiði í gegnum fax og tagl.

Í kvöld fór ég að velta fyrir mér hvers vegna ég geri þetta. Ef ég tryði á eftirlíf eða guð gæti það verið til að þau fari vel hirt á eilífu beitilendurnar. Líklegasta skýringin er náttúrlega að ég sé að kveðja. Þetta er það síðasta sem ég get gert fyrir þau. Ég vil líka að það sjáist þegar þau mæta örlögum sínum að það hafi verið hugsað um þau. Þau hafi skipt einhvern einhverju máli.

Ég á alltaf erfitt með að farga hrossum. Þótt ég hafi aldrei gert það nema vegna þess að eitthvað sé að. Það er bæði dýrt og kostnaðarsamt að eiga 300+kg gæludýr. Ég get ekki haldið uppi gömlum og slösuðum hrossum bara vegna þess að ég vilji ekki farga þeim. Auk þess sem mér finnst það ekki forsvaranlegt að láta þessi grey kveljast til að friða mína samvisku.

Reyndar á ég eitt 300+kg gæludýr, Röskvu. (Ég er nefnilega að reyna að halda því fram að öll hin séu eitthvað annað en gæludýr, jehh right.) Ég var að íhuga að senda hana með Kólgu en hún fékk gálgafrest þegar litli bróðir slasaðist. Varð hvort sem er að senda ótamda hestinn hans á útigang og hún fór með þangað í staðinn.

|

Friday, March 18, 2005

Verst af öllu
Verst af öllu er í heimi
einn að búa í Reykjavík.
Kúldrast uppi á kvistherbergi
í kulda og hugsa um pólitík.
Vanta félagsskap og finnast
fólkið líta niður á þig.
Elda sjálfur, vita að veslings
vömbin er að gefa sig.
Troðfullt allt af tómum flöskum.
Táfýlan að drepa þig.

Laumast heim eitt kvöld með konu,
kanna hennar innstu rök.
Æfa fyrir neðan nafla
náttúrunnar glímutök.
Losa það sem þarf að losa.
Þukla eins og venjan er.
Leikinn við að ljúga og brosa,
látast elska, verða ber.
Sýna allar æfingarnar.
Eina kvöldstund gleyma sér.

Vita að þegar vaknar aftur
verður allt jafn tómt sem fyrr.
Konan sér í fötin flýtir,
fer í burtu. Lokast dyr.
Þú ert einn í þínu rusli,
þessi stund er óðar gleymd.
Sólin inn um gluggann gægist,
glottir yfir þinni eymd.
Þessi nótt úr þínum huga
þurrkuð út og mun ei geymd.

Þannig einn af öðrum líður
ógnarlangur dagur hjá.
Glingrað oft við öl um nætur,
einsemd þannig gleyma má.
Þyrfti víst að þvo og hreinsa,
þyrfti margt að gera við,
ekkert þér úr verki verður,
vesöldin á hvora hlið.
Ef þú gætir flutt þú færir.
Ferlegt mjög er ástandið.

Verst af öllu er í heimi
einn að búa í Reykjavík.
Kúldrast uppi á kvistherbergi
í kulda og hugsa um pólitík.
Vanta félagsskap og finnast
fólkið líta niður á þig.
Elda sjálfur, vita veslings
vömbin er að gefa sig.
Troðfullt allt af tómum flöskum.
Táfýlan að drepa þig.

|

Thursday, March 17, 2005

Skítablogg
Ég hafði mig með herkjum í hesthúsið í þessu líka rok-rassgati. Á veðrið ekkert að fara að batna?

Mér til mikillar ánægju þá var búið að moka úr taðþrónni. Það var orðin heljarinnar fjallganga að koma skít í þrónna. Hefur aldrei verið svona vel troðið í hana. Gröfugæjinn var búinn að bregðast mér nokkrum sinnum. Svo þegar ég setti honum úrslitarkostina í gær kom í ljós að bílinn var bilaður. Ég hafði þá samband við annan sem hafði skilið nafnspjaldið eftir í hurðarfalsinu hjá mér. Það er ekki erfitt að fá menn í vinnu, þeir banka bara upp á hjá mér. Þessi hafði auðvitað séð sér leik á borði, oftroðin þróin blasti við allt og öllum. Svo ég hringdi í hann í gær. Hann hélt nú að það væru tveir bílar af skít í þrónni sem hefði tvöfaldað verðið. Ég var nú ekki að samþykkja það. Er nú búin að moka skít í þessa þró núna í rúm tvö ár og það hefur aldrei þurft tvo bíla til að tæma hana. Enda þurfti bara að taka einn bíl en reyndar er aðeins eftir. Ég þarf hins vegar aðeins að laga til í henni. Þessir menn virðast ekki átta sig á því að það þarf að komast með hjólbörur fullar af skít í þrónna oftar en einu sinni.

Því miður var ekki bara búið að fjarlægja skít í dag.
Þegar ég kom inn á kaffistofuna var alveg ljóst einn kötturinn hafði ekki nennt út að gera þarfir sínar. Þetta er ekki í fyrsta sinn. Bíðið bara þar til ég næ í hnakkadrambið á viðkomandi. Nú var ég ekki að finna uppsprettu þessarar ógeðfeldu lyktar. Gerði dauðaleit inn á kaffistofunni. Loks ákvað ég að tékka í kringum málningardósirnar í horninu undir bekknum. Dró þær allar fram í einu, þær standa á plasti, greip svo í pokann með litlu dósunum og AAAAAaaaarrrggg!!! Ég stökk upp með mjúka kattaskítsdrullu á puttanum. Ég er nú almennt ekki viðkvæm. Hef þurft að þrífa upp kattaskít og ælu oftar en ég kæri mig um að muna. En þetta var bara viðbjóðslegt. Ég stökk til og greip eldhúspappír til að þurka skítinn af puttanum. Rauk svo til og hennti skítnum út í taðþró. Pokinn fór í ruslið með spónaplastinu inn í hlöðu. Næst voru það svo blautklútarnir með sótthreinsi sem fóru vandlega um fingur mína. Ég var samt með æluna í hálsinum í hálftíma á eftir.

|

Wednesday, March 16, 2005

Það er ekkert að gerast
Ég er voðalegt lonlyheart í hesthúsinu. Verð það víst kannski næsta vetur líka. Verð líklega að fara að kynnast nýju fólki. Veit ekki hvort ég nenni því. Ætti kannski bara að venja mig á það sem fyrst að vera sérvitur einbúi.

Fór með Jósefínu í blóðprufu á mánudaginn. Þar kom í ljós að hún er með mjög dökkt blóð. Það er víst ekki ávísun á gott þótt ég hafi ekki fengið neina nánari útskýringu á því. Hún er allavega hvorki með sykursýki né nýrnabilun. Dýralæknirinn talaði samt um að ég ætti að fara að búa mig undir að kveðja hana með vorinu eða í sumar. Vona að hún verði þokkalega hress þar til frost fer úr jörð.

Smiðurinn þurfti ekki á aðstoð minni að halda um helgina. Ég er ekkert sár. Hann á eftir að koma í það minnsta einu sinni enn í hesthúsið. En það er voðalegt smotterí. Búin að henda öllum afgöngum og kotið er bara orðið snyrtilegt. Ég meira að segja þreif kaffistofuna um daginn. Ekki nenni ég að ríða út í þessum kulda.

Fór með bílinn í dag og lét skipta um kúplingu. Það var svon ÁÁÁááááiii!!! Það verður grjónagrautur í matinn út mánuðinn. Finnst ekki vera kúpling núna. Finn varla fyrir neinu þegar ég stíg niður. Á það að vera þannig? Hefur ekki verið þannig. Það var kannski vegna þess sem þurfti að skipta.

Fór við annan mann að versla páskaföndur fyrir saumklúbbinn. Slepptum okkur alveg, verður ógjó flott. Já, ég hef töluvert vit á föndri, ekki segja það nokkrum manni. Keyptum allar gerðir af eggjum. Líka venjuleg hænuegg, svo er bara að blása. Hef ekki gert það síðan í barnaskóla. Það verður skrautlegt.

Humm... verð víst að fara að moka skít núna. Ef ég geri það ekki, gerir enginn annar það.

|

Saturday, March 12, 2005

Voða lítið um að vera
Já, það er voða rólegt þessa dagana. Ekki frá neinu markverðu að segja. Svo ég ætla bara að segja ykkur frá ómerkilegum hlutum í staðin.

Ég er voða mikið ein að dinglast í hesthúsinu. Litli bróðir enn í hálskraga og verður eitthvað áfram.
Jæja, ég varð því að taka á honum stóra mínum og sjá um þjálfun á hrossunum. Við Gríma erum í góðum gír. Hún er bara búin að grennast töluvert, ólíkt mér. Hugsa reyndar að ég myndi leggja töluvert af ef ég þyrfti að hlaupa um með hana á bakinu. Þið þurfið nú samt ekkert að vorkenna henni neitt ógurlega, ég hef mikla samkennd með litlum og sætum, of þungum konum/kvendýrum, það er ekkert verið að ofreyna hana.
Ég er komin í svaka þjálfun að sitja grófa brokkið hans Dropa í hálf-léttri ásetu. Hætt að fá mjóbaksverki og allt. Dropi er keppnisgræjan, litli bróðir hefur voða áhyggjur. Bað lærimeistarann að fara á hann til að vera viss um að gamla konan (ég) væri nú ekki að klúðra neinu.
Er búin að ná ágætis sáttum við Áru. Ára er nú sérstakt dæmi. Lítur út eins og krakka-prakkari. Með ekkert fax, alveg eins og reittur hænurass. Dáldið sérstök í skapinu. Þegar henni mislíkar þá öskrar hún. Hún hleypur um eins og hún sé með gorma undir löppunum. Hvers vegna er verið að eiga svona gætuð þið spurt. Jú, við skötuhjú (ég og litli bróðir) erum alveg viss um að hún eigi eftir að verða rosa græja. Hún er með miklar og flottar hreyfingar og góða fótalyftu. Það er bara spurning að fá hana til að gera eitthvað af viti. Við eigum hana saman. Dílinn var að ég sæi um húsnæði og fóður og litli bróðir um tamningu og þjálfun. Svo fengi hann að keppa á henni og ég fengi að rækta undan henni.
Anyway. Litli bróðir víst búinn að vera eitthvað slæmur í hálsinum í vetur. Svo hann hefur verið svolítið slappur við að ríða út. Svo daman er búin að standa inni og safna orku. Ég andaði því djúpt, setti hjálm á hausinn á mér og fór með dýrið út í gerði. Þar lét ég hana hlaupa úr sér mestu vitleysuna áður en ég skreiddist á bak. Það gekk nú alveg þokkalega. Daginn eftir lagði ég aftur á, setti hjálminn á hausinn á mér, svitnaði, titraði og skalf með hjartað í buxunum. Nú var að fara í reiðtúr. Ég hékk í taumunum og tautaði í sífellu, róleg...róleg. Er ekki alveg viss hvort ég var að tala við hana eða sjálfan mig. En það gekk og ég hef orðið brattari með hverjum reiðtúr.

Ég veit að þið verðið spennt fyrir þessu. Einn kötturinn í hesthúsinu var með drullu. Líklegasta útskýringin fyrir drullu í annars heilbrigðum ketti eru ormar. Svo ég fór og fékk ormalyf. Hann var svo elskulegur að skíta svo þar sem ég rakst á skítinn og þá voru dauðir ormar í honum. Ég ákvað að það væri best að hreinsa þá alla kettina þar sem þeir búa í miklu nábýli. Fékk eitthvað voða fínt ormalyf í töflum. Það vakti ekki mikla lukku. Hef aldrei lennt í öðrum eins slagsmálum. Ég er öll í litlum sárum á höndunum eftir klær og tennur. Var nú viss um að einn myndi flytja út eftir aðfarirnar. En hann var enn á svæðinu í dag og virðist hafa fyrirgefið mér.

|

Monday, March 07, 2005

Metrosexual
Litli bróðir skrapp til Köben í síðasta mánuði. Þar notaði hann tækifærið og verslaði sér föt. Það er ekki hægt að neita að drengurinn er mjög stylish og mun betri dresser en ég nokkru sinni. Hins vegar greip ég andann á lofti þegar hann mætti með svona "manbag". "Djöfulinn drengur!!! Ertu kominn með handtösku?" "Hvað er að þér? Þetta er í tísku." Ég gat víst ekki neitað að ég hafði heyrt það.

Nú spyrjið þið, sérstaklega litli bróðir, væntanlega hver er tilgangurinn með þessari frásögn. Jú, ég er um það bil að játa ákveðna fordóma sem ég er ekki stolt af.
Þrátt fyrir að trúa því staðfastlega að fólk eigi að fá að vera það sjálft og ekki vera bundið við fyrir fram ákveðnar kynjaímyndir, þá á ég stundum erfitt með mig. Undir sumum kringstæðum langar mig að segja, "Hættu þessu væli og hegðaðu þér eins og karlmaður."

Það fór oft ógurlega í taugarnar á mér hvað minn fyrrverandi gat verið mikil pempía. Var alltaf með hanska við allt, meðan ég notaði ekki hanska við neitt. Ég fékk stundum að heyra, "Það eru ógeðslegar á þér hendurnar. Geturðu aldrei notað hanska? Þú skalt ekki halda að þú komir upp í rúm svona." Ég meina vá. Þótt ég hafi verið með málningarslettur á höndunum. Ég þvoði á mér hendurnar, þetta voru hreinar málningarslettur.

Smiðurinn góði þurkar yfir verkfærin sín eftir að hafa unnið í hesthúsinu. Það er víst ekki hægt að fara með hrossaskít inn til annars fólks. En það kemur svipur á hann þegar hann þarf að fara inn í stíurnar og stíga í hrossaskít. Mér finnst hann vera pempía.

Ég skammast mín samt fyrir að hugsa svona. Mér finnst allt í lagi að ég vaði í alla skapaða hluti en þoli ekki karlmenn sem gera það ekki. Ok, of strangt að orði kveðið að ég þoli það ekki, er ekki voða hrifin. Finnst það fráhrindandi. Þetta gengur þvert á það sem ég sagði hér að ofan.

Það er erfitt að vera ekki eins open minded og ég vil vera. Er að reyna að taka þessa metrosexual menn í sátt. Ég get bara ekki gert betur í bili.

|

Friday, March 04, 2005

Christ!!! og dagurinn er ekki búinn.
Ég áttaði mig á því í gærkveldi, þegar ég var á leið í saumklúbb sem ég hafði gjörsamlega gleymt þar til ég sá tilkynninguna um hann á netinu, að dagurinn í dag yrði hræðilega langur.

Ég þurfti að vera mætt með bílinn á verkstæði fyrir átta. Það átti að skipta um höggdeyfa sem ég fékk athugasemd við þegar ég fór með hann í skoðun í ágúst. Það hefur hingað til ekki verið hægt að líta í áttina til bílsins án þess að það kostaði tugi þúsunda. Í ljósi þess var ég ekkert að flýta mér með bílinn í viðgerð. Á þessum tíma byrjaði að koma vond lykt af bílnum, svona brennt gúmmí smell, þegar ég var að draga hestakerruna. Mér var bent á að það væri líklega kúplingin svo ég bað um að láta athuga hana í leiðinni. Aldrei þessu vant var bílinn til í hádeginu og átti viðgerðin að kosta 15.000kr. Kúplingin hafði verið athuguð. Auðvitað gat ég ekki fengið nein svör af viti hjá þessu blessaða þjónustuveri frekar en fyrri daginn.
Þegar ég kom svo að sækja bílinn og náði að tala við karlinn í verkstæðismótökunni komst þetta nú allt á hreint. Kúplingin er orðin mjög slitin. Þarf fljótlega að skipta um hana. Og hvernig veit ég hvenær það er? Þegar ég sit föst einhversstaðar því ég get ekki sett bílinn í gír? "Ja, það fer eftir því í hvað er verið að nota bílinn. Þegar kúplingin fer að snuða mikið þarf að skipta um hana. Ef þú ert mikið að draga kerrur fer hún mjög hratt. Nú ertu að draga mikið kerrur og er komin lykt? Þá er best að drífa bara í því. Það kostar 60.000kr." Það hlaut eitthvað að vera. 15.000kr var bara of gott til að vera satt. Svo ég fékk nýjan tíma fyrir það.

Fór svo í hesthúsið. Þar sem ég þarf að sinna öllu ein, buhu.
Var nú ógjó dugleg og fór með brjáluðu bínu í gerðið. Það er hross sem er komið á mínar hendur meðan litli bróðir er að jafna sig. Síðan fór ég á Grímu mína sem ákvað að vera ógeðslega leiðinleg við mömmu sína.

Þá dreif ég mig heim til að eta. Siðan þarf ég vera mætt núna eftir hálftíma í reiðtímann. Þar verð ég búin klukkan níu. Þá þarf ég að drífa mig heim og skrúbba af mér mesta skítinn því ég er að fara í Loftkastalann klukkan ellefu að sjá "Ég er ekki hommi." Hefði bara átt að vera heima að glápa á Idol og eta nammi. En nú verð ég að drífa mig svo ég verði ekki of sein.

|

Thursday, March 03, 2005

Raunveruleikaþættir
Ég er hrifin af mörgum raunveruleikaþáttum, ekki öllum en mörgum. Einhverra hluta vegna hafa skilaboðin verið þau að það sé eitthvað lákúrulegt að vera hrifin af raunveruleikaþáttum. Og ég, eins og líklega margir, hef hálf skammast mín fyrir þá staðreynd að vera hrifin af þeim.

Þvílíkt rugl!!!
Ég hef verið svo upptekin af því að þetta sé eitthvað lákúrulegt sjónvarpsefni að ég hef alveg litið framhjá staðreyndum málsins. Raunveruleikaþættir hafa verið uppáhalds sjónvarpsefni manna frá því að sjónvarpsútsendingar hófust. Hér áður fyrr kölluðum við þetta bara gameshows eða leikjaþætti og spurningaþætti. Fólk að svara spurningum og leysa þrautir til að vinna peninga. Hvað er það annað? Með bættri tækni, fjölbreyttari áhorfendahóp og meiri peningum hafa þættirnir þrósast í takt við tímann. Ég myndi ekki nenna að horfa á fólk snúa lukkuhjóli eða standa í sjónvarpsstúdíói og svara spurningum. Ég er líka búin að fá leið á gettu betur.

Nei, héðan í frá ætla ég að horfa leikjaþættina mína með góðri samvisku. Ég er ekki hrifin af Bachelor enda var ég ekki mjög spennt fyrir djúpu lauginni á sínum tíma. Bachelor er bara stærri útgáfa að stefnumótaþáttum sem hafa tíðkast lengi. Það er í raun leit að "veruleikaþætti" sem er ekki bara stærri og viðmeiri útgáfa af gamaldags leikjaþætti.

|

Tuesday, March 01, 2005

Hesthús til sölu
Selst með öllum hrossum, reiðtygjum og innanstokksmunum.
Nei, ekki alveg.

En eftir daginn í gær þá væri það freistandi.
Það var hringt í mig til að segja mér að það væri allt komið á flot einu sinni enn. Mig langaði að garga. Þegar ég kom upp í hesthús þá kom í ljós að Röskvu hafði tekist að skrúfa frá skolkerfinu aftur þrátt fyrir að ég væri búin að taka kranann af.
Langar einhvern í 300+kg hund? Kann fullt af kúnstum.
Sem betur fer var vatnið ekki farið að flæða upp um niðurföllin í fremri stíunum að þessu sinni.

Eins og þetta væri ekki nóg...
Þá hringdi litli bróðir í mig. Hann hafði fengið þetta líka netta tak í hálsinn þegar hann var að fara í vinnuna. Endaði upp á slysó í myndatöku og læti. Við það kom í ljós að hann er bæði tognaður í hálsinu svo og eru tveir hálsliðir fastir saman og eitthvað fleira. Hausinn á mér var farinn að snúast svo hratt á þessu augnabliki að ég náði ekki grípa hvað fleira var að.
Anyway. Hann má ekki fara á bak næstu vikur.

Þetta er eftir að hann datt af baki fyrir einu og hálfu ári. Það var hann Breki minn sem hennti honum svona glæsilega. Hann er búinn að vera slæmur í hálsinum síðan og það hefur alltaf farist fyrir að gera eitthvað í þessu. Svona fyrir utan það að læknarnir vildu ekkert vera að taka mynd af þessu.

Breki er einmitt sama hrossið og hennti mér af baki á sínum tíma. Eftir það er ég með beinhnút framan á leggnum og fékk beinhimnubólgu þegar ég fór að fara út að ganga síðasta vor eins og sumir muna kannski eftir.

En þetta þýddi að nú þyrfti ég að sinna sex hrossum á járnum, þar af þremur sem eru lítið til ekkert tamin. Svona fyrir utan það að moka út úr tíu hesta húsi á hverjum degi. Það var ekki alveg að gera sig í hausnum á mér. Svo verandi framkvæmda manneskjan sem ég er þá reif ég undan minnstu tömdu hrossunum. Fleygði þeim með handafli upp á kerru, hehe. Og keyrði þau til bjór-bóndans í Borgarfirði. Sem var á leiðinni á fréttamannafund í dag. Keep your eyes open.
Svo er Kólga greyið á leiðinni í SS svo að þá verða bara þrjú hross á járnum í húsinu, sem ég þarf að sjá um. Þá hefðu átt að vera sjö (ef við teljum folöldin sem eitt) til að moka undan. En auðvitað hringdi tamningarmaðurinn og spurði hvort hann gæti fengið plássin leigð. Það er þrjátíu þúsund auka þennan mánuð. Ég gat ekki sagt nei.

This has'nt been a good year so far.

|