Monday, July 25, 2005

Lilti burri bilaður
Í gær stóð mikið til. Glóey átti að vera mætt til Hugins frá Haga milli klukkan 17-18. Glóey er hryssan mín, mamma Glaums litla, og var stefnan að fara með hana undir stóðhestinn Huginn. Taka átti á móti hryssunum á þessum tíma.

Svo ég legg tímanlega af stað með "Tvibbann" mér til aðstoðar. Glóey hefur verið frekar stygg síðan hún kastaði. Eitthvað svona "my baby" syndrom í gangi.
Við rúllum í Mosfellsbæinn og sækjum kerruna. Síðan ákveð ég að stoppa í búð og kaupa brauð til að auðvelda mér lífið og eltingaleikinn. Þá er eitthvað væl í litla burra og hitamælirinn sýnir að vélin er að hitna of mikið. Þegar við kíkjum undir bílinn er einhver andskotinn að leka úr litla burra. Við brunum því á næstu bensínstöð og látum eitthvað strákgrey kíkja á þetta með okkur. Hann lætur vatn á varadunkinn við vatnskassan og ráðleggur okkur að fara hið snarasta heim með bílinn og hringja á verkstæði. Nú eru góð ráð dýr. Mætingunni verður ekki breytt.
Þá föttum við að það er krókur á bíl "Tvibbans" svo við brunum heim og skiptum um bíl. Skemmst er frá því að segja að bíll "Tvibbans" er alveg afbragðs græja og bjargaði málunum algjörlega með lítilli fyrirhöfn.

Glóey var búin að jafna sig á barnsburðinum og þáði brauð með þökkum og lét ná sér. Það gekk afbragðsvel að koma mæðginunum á kerru. Þrátt fyrir að litlu bræðurnir hafi gert smá flóttatilraun eftir að mæðurnar voru komnar inn í rétt. Hún rann nú fljótt út í sandinn þegar þeir áttuðu sig á því að mömmurnar komu ekki með og voru þeir félagar frekar sneyptir þegar þeir hlupu aftur til baka í öryggið hjá mömmunum.

Það á að kíkja á litla burra núna á eftir. Vonandi verður hægt að bjarga þessu fljótlega því annars verð ég að blikka "Tvibbann" á þriðjudaginn þegar Kvika, ásamt Hlé, og Ára gelgja eiga að fara að hitta Álf frá Selfossi.

|

Saturday, July 23, 2005

Police in hot pursuit
Hvað haldið þið. Ég tók þátt í brjáluðum lögreglu eltingaleik í gær.

Nei, löggan var ekki að elta mig. Ég var að aðstoða lögregluna við að elta lausan hest sem var á flakki fram og til baka yfir austurlandsveginn, þjóðveg 1, í gær.

Ég sat í makindum að sóla mig í bústað aðeins lengra en Hafravatnsvegurinn. Þegar ég sé allt í einu lausan hest koma hlaupandi og fara svo yfir þjóðveginn. Ég stekk upp í bílinn og keyri í áttina að hestinum. Þegar ég er komin þokkalega nálægt fer ég út úr bílnum og reyni að nálgast hestinn. Hann er ekki spenntur fyrir því og hleypur í burtu. Ég ákveð þá að hringja í lögregluna. Þá átta ég mig á því að ég hafði skilið símann eftir í bústaðnum. Svo ég bruna þangað. En þegar ég er búin að ná í símann sé ég að lögreglan er mætt á svæðið. Svo ég bruna aftur til baka og bíð lögreglunni aðstoð sem er vel þegin. Ég stekk þá aftur upp í bíl og næ að bruna fram fyrir hestinn. Hann er þá kominn að girðingu við hús sem er beint á móti Hafravatns / Nesjavallaveginum. Ég næ að koma í veg fyrir að hesturinn komist frá girðingunni. Ég er sem betur fer alltaf viðbúin í hestastúss og var með bæði rafmagnsgirðingarband á rúllu og múl og taum. Þegar löggan kemur náum við að loka hestinn inni með bandinu við girðinguna. Það koma nokkrir menn úr húsinu og hjálpa okkur að halda hestinum inni í litla aðhaldinu okkar. Svo næ ég að komast að klárnum og setja á hann múlinn.

Jæja, núna hefði ballið átt að vera búið. Ég og löggan erum með klárinn og þurfum að biða eftir að dýraeftirlitsmaðurinn komi með kerru og sækji hestinn. Þetta var nokkuð fallegur brúnn hestur. Greinilega ungur og lítið taminn. Hann var með múl sem var slitinn en að öllu öðru leiti vel hirtur.
Það er orðin nokkur bið eftir dýraeftirlitsmanninum og löggan segir að ég þurfi ekkert að bíða, þau skuli koma múlnum til mín. Svo ég fer aftur upp í bústað.

Ég er ekki búin að vera þar lengi þegar ég sé hestinn aftur hlaupinn af stað og löggan komin af stað með blikkljósin. Svo ég stekk af stað og bruna aftur á staðinn. Þegar ég kem að eru tveir menn á hlaupum og löggan á bílnum. Ég stekk af stað með rafmagnsbandsrúlluna undir handleggnum. Löggan spyr hvort ég vilji ekki bara koma með þeim þar sem dýraeftirlitsmaðurinn og vegfarandi eru á hlaupum.

Það er allt of langt mál að lýsa öllu gekk á en eftir mikil hlaup og mikla keyrslu endum við á veginum sem fylgir heitavatnsleiðslunni frá Nesjavöllum.
Hesturinn nær að komast yfir leiðsluna og þar með eru allir á því að gefast upp. Lögreglan ætlar að fara að skutla mér til baka þegar við mætum bíl með hestakerru. Þar er eigandinn loksins komin. Hesturinn hafði slitið sig lausan þegar átti að setja hann á kerru. Þannig hafði dýraeftirlitsmaðurinn líka misst hann, þegar hann ætlaði að setja hann á kerruna.

Jæja, hér með er þetta orðið vandamál eigandans, enda hesturinn kominn langt frá þjóðveginum og engin bráð hætta stafar af honum. Svo löggan heldur áfram með mig. Þá sjáum við hestinn koma á fullu aftur að heitavatnsrörinu með vegfarandann enn á eftir sér. Svo við stökkvum út og náum að útbúa aðhald við girðingu sem þarna er og náum hestinum aftur. Nú eru allir komnir og eigandinn og vegfarandinn halda báðir í hestinn svo við förum. Það síðasta sem við sjáum er svo að hesturinn tryllist og slítur sig lausan og hleypur í burtu. Þetta er ekki okkar vandamál lengur svo við förum.

Um kvöldið þegar ég er komin heim hringir svo eigandi hestsins í mig til að spyrja hvert hann eigi að skila múlnum. Þeir náðu víst hestinum að lokum.

|

Friday, July 22, 2005

You scored as Albus Dumbledore. Strong and powerful you admirably defend your world and your charges against those who would seek to harm them. However sometimes you can fail to do what you must because you care too much to cause suffering.

Severus Snape

90%

Albus Dumbledore

90%

Hermione Granger

85%

Harry Potter

85%

Remus Lupin

70%

Ginny Weasley

70%

Sirius Black

55%

Draco Malfoy

55%

Ron Weasley

45%

Lord Voldemort

20%

Your Harry Potter Alter Ego Is...?
created with QuizFarm.com

|

Thursday, July 21, 2005

Vá! Þarna munaði litlu.
Ein af mínum verstu martröðum varð næstum að veruleika í gær.
Ég held að ég hafi örugglega minnst á það í sambandi við litla burrann minn að ég kviði þeim degi sem ég þyrfti að skipta um dekk. Litli burri er nebbla á 33" dekkjum og varadekkið er geymt undir bílnum.
Í gær vorum við "Tvibbinn" svo að ferja dót. Það er nebbla hægt að troða fullt af dóti í skottið á litla burra. I love my car, by the way.
Þegar við erum svo að taka dótið úr bílnum á áfangastað heyri ég svona lágt hvisssss... Ég átta mig nú ekki alveg á þessu strax og held áfram að tæma bílinn. Svo þegar við ætlum að fara að leggja af stað aftur fer ég að skoða þetta nánar. Þá finn ég nettan nagla í hægra afturdekkinu.
Ég náði að hendast á dekkjaverkstæði klukkan 17:36 og láta gera við dekkið. Það hefði verið gaman að koma út í morgun og finna litla burra með sprungið dekk.

Beam me up, Scotty!
Það verður víst ekki sagt oftar. Allavega ekki við Scotty sjálfan. Hann var að deyja blessaður karlinn, 85 ára að aldri.
Það eru bara Star Trek aðdáendur sem vita um hvað ég er að tala.

|

Tuesday, July 19, 2005

Á þessum degi árið 1977, klukkan 11:51 fyrir hádegi, kom ég í heiminn.
Já, mikið rétt. Ég er 28 ára í dag.

Ég ætla ekki að röfla yfir neinu í dag. Ég ætla bara að njóta dagsins. Núna á eftir ætla ég að búa til perutertu og rækjubrauð svo ég geti boðið familíunni í kaffi.

Ef ykkur langar að sjá barnamyndir af mér getið þið smellt á linkinn hér til hliðar, Fröken Ásta, þar sem "Tvibbinn" smellti inn myndum af mér í tilefni dagsins.

|

Saturday, July 16, 2005

Clint Eastwood á landinu!!!
Mér skilst að Eastwood sé í Reykjanesbæ að skoða tökustaði fyrir nýju myndina sína. Ef karlinn væri svona þrjátíu árum yngri væri ég mætt á staðinn bara til að slefa. Clinty-boy hefur verið í miklu uppáhaldi í gegnum árin og hef ég séð flestar myndirnar með honum. Finnst ekki leiðinlegt að skjár einn sé farin að sýna myndir með honum og vona innilega að framhald verði á.

Í öðrum fréttum er það helst að þegar ég hef átt leið á Kjalarnesið síðustu daga hefur vindáttin verið óhagsstæð. Rétt eftir að komið er yfir brúnna yfir Leirá kemur þessi megna stækja. Þetta mun vera frá urðunarstaðnum í Álfsnesi. Þar sem rusl okkar Reykvíkinga er urðað.
Þykir leiðinlegt að fólk geti ekki andskotast til að flokka og skila sorpi. Það þarf alltaf að reyna að svindla eitthvað á því þannig að flest allt er orðið gjaldskylt og þá finnst fólki alveg eins gott að henda öllu bara út í tunnu.
Þekki það úr hesthúsinu að baggaplastið var gjaldskylt hér áður. Síðan var því breytt og förgunargjaldið var sett inn í kaupverðið á plastinu. Svo þá gátu hestamenn hætt að troða plastinu neðst í almenna ruslapoka til að þurfa ekki að borga sér fyrir plastið. Nei, í staðinn þurfa þessi fífl að troða almennu rusli með plastinu til að borga ekki fyrir það!!! Þetta hefur auðvitað í för með sér að það er ekki hægt að endurvinna plastið, því það er svo mikið að öðru rusli með. Getur fólk ekki séð að það er langtímahagur okkar allra að plastið sé endurunnið og sé ekki fjúkandi um allar sveitir? Nei, það er bara hægt að hugsa um skammtímahaginn fyrir budduna.

|

Thursday, July 14, 2005

The bug up my ass these days
Umferðin er ekki að gera sig.
Hef þurft að vera mikið á ferðinni undanfarið, innbæjar sem utan. Hvað er að fólki?
Það kann ekki að keyra hringtorg. Samt er verið að drita niður hringtorgum hist og her. Væri ekki ráð að rifja upp fyrir fólki hvernig á að keyra hringtorg. Ég mæli með að umferðarráð geri kennsluauglýsingu til að kenna fólki að keyra hringtorg. Þessar dauða auglýsingar eru orðnar þreytandi og hjálpa mér ekki dags daglega.
Svo er annað. Afhverju hægir fólk á sér þegar það mætir bílum? Ég skil þetta ekki. Þú getur ekki keyrt neinstaðar án þess að mæta bílum. Ég hefði haldið að fólk væri orðið vant því.
Ótrúlegast af öllu er sú staðreynd að fólk skuli gefa í þegar það er farið fram úr því. Hvernig dettur ykkur þetta í hug? Það er allra hagur að framúrkeyrslur taki sem styðstan tíma. Það er þetta sem veldur slysum, svona fífl. Þau keyra á sjötíu - áttatíu á þjóðvegunum, svo þegar það er búið að keyra þau uppi og reynt að fara fram úr þeim þá gefa þau í!!! Halló!!! Þetta er ekki í lagi. Ef það er svona auðvelt að keyra á 100km hraða, hvers vegna gerir þú það ekki nema þegar er verið að fara fram úr þér?

Höfrungar
Hvað er með þetta höfrungadæmi? Ég fullyrði að fjórði hver ökumaður er með höfrung hangandi í framrúðunni hjá sér. Why? Hvaða sport er þetta? Hvers vegna er þetta svona vinsælt?

Sök fórnarlambsins
Nú eru tveir dómar búnir að falla þar sem sök fórnarlambsins er reiknuð brotamanninum til refsifrádráttar, þar af er annað morðmál.
Ég vil að þessi klausa verði tekin úr lögunum. Ef það er hægt að afsaka barsmíðar og morð með því að fórnarlambið hafi átt sök að máli hvar stoppar þetta þá?
Er ekki hægt að segja að barnið eigi hlut að máli ef það fór sjálfviljugt með barnaníðingnum inn á herbergi? Er ekki hægt að segja að það sé mér að kenna að það var keyrt á mig því ég hætti mér út fyrir húsins dyr?
Ég veit að þetta eru öfagakennd dæmi en í alvöru. Fórnarlambið á alltaf hlut að máli hvað sem gerist. Það er ekki hægt að hafa glæmpi af þessu tagi nema fórnarlamb komi til sögunnar. Þ.a.l. á fórnarlamb alltaf hlut að máli. Það á hins vegar ekki sök.
Það er bannað með lögum að drepa fólk. Nema ef fórnarlambið hafi verið með kjaft eða gert eitthvað sem morðingjanum mislíkaði. Hvernig lög eru þetta eigilega? Er fórnarlambið fyrir rétti?
Í morðmálinu kom fórnarlambið sérstaklega illa út. Ekki besta eintak af mannveru sem ég hef heyrt um en það skiptir ekki máli. Það réttlætir ekki að það hafi verið drepið. Við höfum ekki rétt til að setjast í dómarasæti yfir því hverjir eiga skilið að vera drepnir og hverjir ekki. Með því að drepa fórnarlambið braut morðinginn klárlega lög og annað skiptir ekki máli.
Ef við viljum að tekið sé tilit til þess hvort glæpurinn hafi verið framin í geðshræringu eða verið vandlega skipulagður þá á það að snúast um brotamanninn og andlegt ástand hans. Lögin eiga ekki að tilgreina fórnarlambið sem sökudólg.

|

Wednesday, July 13, 2005

Hvað haldið þið?
Tölvan er komin í gang.
Síðasta föstudag fór ég loksins með tölvuna í viðgerð. Á mánudaginn var svo hringt í mig og sagt að það væri í góðu lagi með hana. Hún að vísu hleður ekki inn á batteríið en er í góðu lagi ef hún er í sambandi. Ég var búin að margreyna að kveikja á henni með öllum útfærslum án þess að nokkuð gerðist. Það er alveg undarlegt hvað mörg raftæki hrökkva í gang eftir stuttan bíltúr. Ég er ekkert fúl, EKKERT FÚL.

En snúum okkur að öðru.
Ég hef nú komið einhverju í verk. Búin að parketleggja eitt herbergi. Er að safna kröftum í það næsta. Annars er ekki málið að parketleggja, heldur að tæma herbergin til að komast að. Ég er bara býsna lagin við þetta þótt ég segi sjálf frá.

Eins og þið hafið séð á myndbirtingum þá er ég búin að fá tvö folöld þetta sumar. Fer mjög reglulega að skoða þessar dúllur.
Er búin að keyra eina hryssu sem ég fæ lánaða hjá fyrrverandi undir stóðhest. Verð að segja að ég er alveg hissa hvað ég er komin í góðan gír gagnvart honum. Fannst þetta ekkert mál og okkur samdi mjög vel. Það er mjög gott að vera laus við sárar tilfinningar gagnvart honum og getað átt siðsamleg samskipti. Mjög sátt við ástand mála og finnst ég hafa náð einhverju nýjum þroska.
Hryssan sem ég keyrði undir stóðhest í byrjun júní var sónarskoðuð í gær og er ekki fylfull. Hún fer aftur í þessum mánuði ásamt Kviku, mömmu Hlés, undir hestinn. Ég á Kviku ásamt vinkonu minni og hún fær næsta folald.

Ég þarf aðeins að venjast því að vera nettengd aftur og mun þá fara að röfla yfir öllum sköpuðum hlutum eins og mér einni er lagið næstu daga.

|

Monday, July 04, 2005

Tölvan er enn biluð en digital óði tvibbinn (ekkert móðguð) er að setja inn myndir. Það fór allt niður svo það endaði á að ég setti inn nýtt template eins og sést.
Kveðja, Tvibbinn.

|

Glaumur Glóeyjarson
Nei, þið fáið ekki að sjá hann!
Aðeins að súpa
Slakað á

|