Monday, August 29, 2005

Það ætti að lóga mér núna
Man ekki hvort ég var búin að tala um það en ég missteig mig heiftarlega á hægri fæti í apríl. Síðan þá hef ég verið stirð í fætinum þegar ég fer fram úr á morgnana og þegar ég hef setið í einhvern tíma. Nú er ég farin að fá verki ökklann þegar ég er að ganga eða keyra. Held að það sé orðið tímabært að fara að tala við bæklunarlækni eins og fasti doktorinn minn var að tala um. Það er víst ekki hægt að fresta þessu mikið meir, þetta er bara að versna.

Eins og það sé ekki nóg þá er bakið að gera illa vart við sig aftur. Ég fékk brjósklos þegar ég var 21 árs. Hef verið þokkaleg í bakinu eftir 5 mánaða sjúkraþjálfun á sínum tíma. Hef fengið verki annað slagið og næstum fests nokkrum sinnum síðan þá en það hefur alltaf sloppið. Nú er hins vegar eins og það sé eitthvað að ganga út úr bakinu á mér. Mjög andstikilegt og ógeðslega vont. Er líka komin með verk í mjöðmina og bíð spennt eftir að það fari að leiða niður eftir fætinum.

Var líka að átta mig á því að það hefði verið síðasti séns fyrir mig að taka þátt í Idolinu núna í ár. Ekki það að ég geti sungið eða hafi hugsað mér að taka þátt yfir höfuð. Þetta er bara eitt af þessu sem ég er orðin of gömul til að taka þátt í.
Mér líður bara gamalt og gagnslaust. Var ekki viðbúin því að ég yrði of gömul til að gera eitthvað. Það er strax hitt og þetta farið að gefa sig, hvernig verður þetta ef ég tóri í einhver ár í viðbót. Það ætti bara að lóga mér núna.

|

Sunday, August 28, 2005

Martröð að veruleika
Ég sagði ykkur um daginn að ein af mínum verstu martröðum hefði næstum orðið að verkuleika þegar það kom nagli í dekkið á litla burra. Ég áttaði mig á því að loftið væri að leka úr dekkinu og náði á dekkjaverkstæði í tíma.

Today I was not so lucky.
Þegar ég kom út var framdekkið bílstjóramegin alveg flatt. NEI!!!
Það var ekki mikið um að ræða annað en að taka á honum stóra sínum og skipta um dekk. Fyrir þá sem ekki muna, þá er litli burri toyota hilux á 33" dekkjum og varadekkið er fest undir bílinn. Það tók pínu tíma og eitt hjartastyrkjandi símtal til að átta mig á varadekksbúnaðinum. Það tók mig svo hálftíma frá því að ég hringdi símtalið þar til að ég var búin að skipta um dekk. Þetta reyndist svo bara vera minnsta mál. En ég er náttla bara snillingur!

|

Saturday, August 27, 2005

Djöfulsins dónaskapur
Ætlaði sko heldur betur að nota veðrið til að fara í berjamó. Í fyrra fann ég þetta líka fína berjaland hér í nágrenni Reykjavíkur þegar ég var í reiðtúr. Við tíndum líka þessi ósköp af berjum í fyrra.
Auðvitað var stefnan tekin á þetta gósenland berjatínslu. Þegar ég kem svo brunandi að þessu gósenlandi mætir mér glæný girðing. Þetta sumarbústaðaland er búið að standa í niðurníðslu í áratugi og ekki sést sála þar á ferð. Berjalandið er hinum megin við þetta sumarbústaðaland. Til að bæta gráu ofan á svart var fullt af fólki á staðnum líka. Ég kunni ekki alveg við að bruna þar inn fyrir, leggja bílnum, vippa mér út og "Má ég ekki skilja bílinn eftir hérna meðan ég klöngrast í gegnum nýju girðinguna ykkar til að tína ber þarna hinum megin?" Svo ég ákvað að leita að einhverju þarna í kring. Komst að því hvaðan myndlíkingin, krækiber í helvíti, er komin. Það var eitt og eitt ber á stangli hér og þar. Svo eftir smá göngu fann ég slatta af krækiberjum en heldur minna af bláberjum.
Borðaði svo berjaskyr í kvöld. Svona fyrst ég var að tína ber. Finnst það ekkert sérstaklega gott. En þetta dugar allavega fyrir rjúpurnar.

|

Friday, August 26, 2005

Ætla bara að safna hestum
Hringdi í tamningamann númer tvö í dag. Spurði hvort hann væri búinn að mynda sér skoðun á hestinum (Dropa). "Nei, ekki alveg, væri mjög þjáll en auðvitað feitur." Ég vissi það nú. Sagði honum að hann hefði verið í fríi í allt sumar og var svo járnaður fyrir tveimur vikum. "Hvað viltu svo fá fyrir hann?" What? What? Ég var búin að segja honum að mig vantaði verðmat. Ef ég vissi hvað ég væri að gera þá væri þetta ekkert mál. Til hvers er verið að gefa sig út sem einhvern fagmann? Ég fer ekki til bílasala og segi honum hvað ég vil fá fyrir bílinn. Það er alltaf eitthvað listaverð. Sama með íbúðir og fasteignasala.
Nenni ekki að standa í svona. Ef hann segir ekki eitthvað af viti eftir helgi þá sæki ég Dropa og set hann út í haga og á hann bara sjálf.

PS. Ég er búin að skrifa við myndirnar.

|

Thursday, August 25, 2005

Uppskerubrestur
Fór loksins að taka upp kartöflur í dag. I'm not quiting my day-job. Það er eitthvað sem kartöflubændur gera sem er mér hulin ráðgáta. Kalla það gott ef það kom helmingi meira upp en fór niður af þessum blessuðu kartöflum. Þar að auki er massa vinna að ná þessu drasli upp. Er sko með nokkrar blöðrur á fingrunum eftir þetta. Ég lagði ekki í að gera þetta með höndunum einum saman, allt of mikið af ánamöðkum og mér líkar ekki við maðka.

Þá á ég bara eftir að fara og tína ber áður en haustið skellur á af fullum þunga. Er að spá í það núna um helgina, ef veður leyfir.
Gott að fá svona orkuskot og koma einhveju í verk.

|

Wednesday, August 24, 2005

Hestasorgir
Ég veit að ég er endalaust búin að vera að röfla um hesta en ég ætla bara að halda því áfram. Svo deal with it eða farið á aðra síðu.

Ákvað að taka daginn undir hestastúss. Byrjaði á því að fara með Dropa greyið til annars tamningamanns. Það á að verðmeta hann og kannski selja, ef einhver hefur áhuga. Ég var hálf-partinn farin að vona að það kæmi í ljós í dýralæknaskoðuninni að eitthvað væri að og hann væri ósöluhæfur. Þá gæti ég bara átt hann því engin myndi vilja kaupa hann. En hann er við hestaheilsu, no fun intended. Kannski verður hann verðmetinn svo lágt að það tekur því ekki að selja hann. Eða kannski hefur enginn áhuga á honum. Svo gæti ég kannski bara átt hann. Ég á nebbla bara 10 hesta. Og það eru bara þrjár hryssur hjá stóðhestum as we speak. Og ég verð nú þegar með 13 hross á framfæri næsta vetur... Ég gæti samt bara átt hann...

Það var hringt í mig gær þegar ég var á leið upp á Kjalarnes til að segja mér að hann Dagur Morgunsson, annað veturgamla tryppið mitt, væri búinn að fatta hvernig hann kæmist í gegnum keðjuhliðið og út á veg. Sumarhaginn er nebbla svo til búinn og ég átti eftir að klippa hófa og gefa ormalyf áður en ég sleppti þeim í hausthagann. Svo ég setti rafmagnsband fyrir hliðið. Þið hefðuð átt að sjá hann í gær þegar hann var að skoða bandið og varð að sætta sig við að komast ekki í gegn eftir nokkrar tilraunir. Þau eru alls ekki svo vitlaus þegar á reynir.
Jæja, það var ekki hægt að fresta þessu lengur. Það er allt sem mig vantar, að láta hrossin hlaupa laus út á þjóðveg og verða fyrir glænýjum Bens eða Landcruiser Jeppa. Það væri gaman að borga viðgerðina á því dæmi þar sem ég væri í algjörum órétti. Svo fyrst ég átti að fara með Dropa hvort sem var í dag ákvað ég að skvera þessu af. Það var hreint út sagt æði að standa á Kjalarnesinu, þar sem var vindhviðuviðvörun by the way, og klippa á hófa á mis-samvinnuþýðum hrossum. Klippti hófa á fjórum, gafst upp á tryppunum eftir nokkrar tilraunir á öðru þeirra og einn klárinn lagði ég ekki einu sinni í. Að gefa ormalyf getur líka verið erfiðara en það hljómar. Sum eru róleg og öllu vön og þá tekur það um það bil mínútu. Svo eru það hin sem fá taugaáfall og rykkja og kippa til hausnum af miklum móð. Það er ekkert grín að reyna að koma 60ml sprautu með 30ml af ormalyfi upp í 320kg hross sem ákveður að vera ekki kjurt og opna ekki kjaftinn. Það hafðist nú samt, ég fékk reyndar smá ormalyf í hárið og svona en hva!

|

Tuesday, August 23, 2005

Bara ekki í stuði
Það lýsir kannski best ástandinu þessa dagana. Nenni ekki að gera neitt. Það er samt alltaf nóg að gera. Það væri vit að byrja á að koma hesthúsin í stand fyrir veturinn. Svona þar sem ég hef þrjá mánuði. Ekki vera að lakka og smíða eftir að hestarnir eru komnir inn eins og síðast.

Beitin er líka að verða búin í sumarhaganum svo ég þarf að klippa hófa og gefa ormalyf áður en ég hleypi hrossunum í haustbeitina. Nenni því nú ekki í þessari rigningu.
Og hvað er með þessa rigningu? Veit ekki hvað ég á að kalla svona rigningu. Dettur helst í hug skýfall en í mínum huga er skýfall stuttur skúr. Þetta er bara endalaust skýfall.

Þarf að taka kartöflurnar áður en það fer að kólna meira og þær skemmast. Þarf líka að fara í berjamó. Komst að því í fyrra að skoskar rjúpur líkjast þeim íslensku meira ef þú sýður ber og lyng með.

Oj bara. Enda svo auðvitað bara í sófanum fyrir framan sjónvarpið í kvöld. Dæmigert.

|

Monday, August 22, 2005

Million dollar baby
Sá hana um helgina. Það er bannað að gera manni svona lagað. Braut mitt hátíðlega loforð um að grenja aldrei yfir bíómyndum. Alveg hræðilega sorgleg mynd.

|

Friday, August 19, 2005

Heaven or hell
Dropi stóðst dýralæknaskoðun með miklum ágætum. Ég er mjög ánægð, eða var það í smá tíma.

Ég er búin að vera í miklum vandræðum með að verðleggja Dropa. Ég hef aldrei selt hest á ævinni. Tamningamaðurinn sem hringdi og falaðist eftir honum fyrir eitthvað fólk vildi endilega að ég nefndi eitthvað verð. Ég vissi ekki hvað ég átti að segja svo að tamningarmaðurinn sagði 300þúsund. Jú, það hljómaði ekki vitlaust, ekki það að ég vissi neitt um það.
Þegar ég talaði svo við vinkonu mína í Noregi í gær þá varð hún mjög hissa að ég skildi ekki setja meira á hann.
Svo kom önnur vinkona mín sem vinnur á dýraspítlanum til mín meðan ég var að bíða eftir dýralækninum og spurði hvað ég setti á Dropa. "Hvað setur þú á hann, milljón?" MILLJÓN!!! Hvað áttu eiginlega við??? Jú, hún hefur verið að versla hesta fyrir son sinn og þeir hafa verið að seljast á 700-1500þúsund.
Nú var ég frekar ringluð. Í fysta lagi var ég ekkert á því að selja Dropa. Ég dey ekkert þótt ég fái ekki þennan 300þús. kall. Og nú er verið að segja mér að ég eigi að setja 700þús. til eina milljón á hann. Ekki það, mér finnst ekki líklegt að hann seljist á eina milljón en það er kannski einhver millivegur á milli 300þús. og milljón.

Þegar hér var komið ákvað ég að hringja í tamningarmanninn og láta vita af þessum nýju fréttum og láta vita að ég vildi hugsa málið aðeins og kynna mér málin betur.
"Ég hef nú bara aldrei heyrt að svona hestur seljist á svona upphæðir. Og ef þessi vinkona þín getur selt hann á þennan pening þá skaltu endilega láta hana gera það. Ég var nú bara að gera þér greiða að reyna að selja hestinn."
Og ýmislegt fleira, þar á meðal hélt hann áfram að rakka niður Dropa eins og hann hefur gert stanslaust allan tímann. Ég hef nú bara sjaldan vitað annan eins dónaskap, hvað þá frá manni sem ég hef gert aðra eins greiða. Það verður að segjast að mér hreinlega sárnaði.

Mér var hins vegar bent á aðra aðila til að prufa og verðleggja Dropa. Ég á að hafa betur samband við þá eftir helgina.
Annars ég hreinlega farin að spá í að halda bara hestinum. Ég vildi aldrei selja hann hvort sem er.

|

Buhuhu
Það var hringt í mig í gær. Fólkið var búið að skoða Dropa og var mjög hrifið. Ég er að fara með hann í læknisskoðun seinna í dag. Ef hann stenst hana þá er hann sennilega seldur. Buhuhu, my pore baby.

|

Thursday, August 18, 2005

Haust í lofti
Þótt það sé hlýtt í dag og sól þá er greinilegt að haustið nálgast. Ég finn það í loftinu. Kvöldkulið er orðið aðeins svalara. Það eru komnir gulir toppar á stráin í túnunum. Geitungarnir eru farnir að leita inn úr kuldanum. Og hrossin eru farin að þykkna í feldinum.

Ég elska árstíðarskiptin. Ég held að ég gæti ekki búið neinsstaðar þar sem væri ekki svona greinileg árstíðarskipti.
Eins gott og mér finnst það þegar daginn fer að lengja þá finnst mér líka yndislegt þegar það er byrjað að dimma á kvöldin. Það er eitthvað notalegt við það þegar andinn byrjar að kólna og það er kominn tími fyrir ullasokka og aðeins þykkri peysur.
Skil vel að fólk sé almennt ekki hrifið af dimmasta tíma ársins, í desember. En í desember er kominn tími til að taka inn hestana. Það er fátt eins notalegt og hlusta á þessa loðnu bangsa bryðja heyið, horfa á gufuna stíga upp af þeim og hlýja húsið. Já þeir lýsa upp skammdegið og eftir því sem sól hækkar á lofti þá eykst þrekið hjá hrossunum og hægt er að fara í aðeins lengri og lengri reiðtúra.

Ég fór að kíkja á folaldsmerarnar fyrir austan í dag. Það eru allir farnir að þykkna og dökkna á feldinn. Vildi gjarnan fara að sækja liðið og koma því á réttan stað fyrir haustið. Stóðhestarnir eru meira að segja orðnir rólegir í tíðinni. Það er að koma sá árstími að líkamsstarfsemin er farin að hægjast og eins gott að einbeita sér að því að safna forða fyrir veturinn.

|

Sunday, August 14, 2005

Þreytt, fúl og farin að bíða eftir haustinu
Nenni voða lítið að gera þessa dagana, eins og svo oft áður.
Er búin að vera að trampa upp og niður á fjórðu hæð til að tæma íbúð "Tvibbans". Skiptir ekki máli hvað ég fer margar ferðir, það verður ekkert auðveldara. Bara fegin að ég er að bera dótið niður en ekki upp.

Fór reyndar á kíkja á Drífu, sem er hryssa í eign míns fyrrverandi, en hann var svo elskulegur að leyfa mér að halda henni í sumar. Þetta er hryssa sem ég sá mikið um og þjálfaði og keppti á. Langar mikið að fá folald frá henni.
Var nú svo utan við mig að þegar ég kom í stóðið þá tók ég stefnuna á þrjár gráar hryssur sem ég sá. Ein var með brúnt folald svo það hlaut að vera Drífa. Reyndar fannst mér hún nú eitthvað skrítin og stjarnar á folaldinu var svo til horfin. Þegar ég var búin að taka nokkrar myndir sá ég allt í einu Drífu standa til hliðar með folaldið sitt. Ég á sem sagt nokkrar flottar myndir af hryssu og folaldi sem ég þekki ekki neitt. Oh, well.

Það hefur margt verið að ergja mig undan farna daga en ég þarf að vera í meira stuði til að ræða það.
En það er þetta röfl um að það sé betra fyrir börn að alast upp á munaðarleysingjaheimili í þriðja heims löndum en að vera ættleidd af samkynhneigðum.
Hvers vegna það er eitthvað verra að eyða fóstrum með staðfesta litningagalla en að eyða öllum heilbrigðu fóstrunum sem er eytt á hverju ári hér á landi. Það mætti allavega halda það miðað við umfjöllun rúv.
Og að lokum þessir heimsku mótmælendur sem eru að mótmæla allt of seint og eru að spreyja á alþingishúsið og Jón Sigurðsson. Burt með ykkur skítapakk. Þið hefðuð mátt koma meira en ári fyrr, hálfvitar.

|

Monday, August 08, 2005

"Tvibbinn" fluttur
Þið sem fylgist með vitið að það stóð til að "Tvibbinn" myndi flytja í Aðaldalinn.
Á föstudaginn, klukkan átta um kvöldið kom fluttningabílinn. Hann vildi fá að setja sem mest í bílinn þá til að þurfa bara að sækja restina morguninn eftir. Það var ágætt, hann kom líka með þrjá unga drengi/menn til að bera. Það var glæsilegt. Ég fór nokkrar ferðir og var að drepast í löppum og lungum á eftir. "Tvibbinn" átti heima á fjórðu hæð.

Svo klukkan átta á laugardagsmorgninum kom hann og sótti restina. Síðan var ekkert að gera annað en að halda í Aðaldalinn.
Það var pissustopp í Staðarskála og verslunarferð á Akureyri.

Síðan var lítið mál að skvera inn búslóðinni í Aðaldalnum því húsið er á einni hæð.

Þegar við fórum að setja húsgögnin á sinn stað og koma sjónvarpinu í gang kom upp vandamál. Það er röng tenging í sjónvarpsloftnetið. Svo við fórum til Akureyrar á sunnudeginum og komust að því að það er ekki mikið opið á Akureyri á sunnudögum. Svo ferðin var til lítil annars en að kaupa meira nammi.

Ég kom svo með fluginu í dag. Ég hef ekki farið í innanlandflug í tólf ár. Ég kann betur við stóru vélarnar. Vélin hristist alveg hrikalega í aðfluginu og mér stóð ekki alveg á sama.

Nú þarf ég að fara og ná í Dropa minn. Það er fólk sem hefur áhuga á að kaupa hann og ég er að fara með hann til að hægt sé að prufa hann. Það er ekki það að ég vilji selja hann. En ég á tíu hesta, held ég og á von á tvem til þrem folöldum næsta ár. Kemur betur í ljós eftir sónarskoðanir í byrjun september.
Það er dálítið dýrt að safna hestum.

|

Tuesday, August 02, 2005

Jæja
Eitthvað slöpp þessa dagana. Nenni voða litlu, vil helst sofa.

"Tvibbinn" þykist vera að pakka en stóra systir er raunar að því fyrir hana. Ég var ógjó duglega að líma saman kassana í gær. Er ekki að nenna að taka þátt í þessu. I'm lazy I know. Mér liggur við yfirliði við tilhugsina við að fara norður. Samt á ég bara að fara í tvo þrjá daga og hjálpa til. Það er bara allt svo yfirþyrmandi eitthvað.

Litli burri er nú samt komin í lag. Það þurfti að skipta um vatnskassa, 31.160kr takk fyrir takk. En hann var tilbúinn til að fara með Áru og Kviku, ásamt Hlé, undir stóðhestinn Álf frá Selfossi. Það var þungur dráttur í orðsins fylgstu merkingu. Það hafðist samt og bútterdeigsbollurnar ásamt dregnum komust alla leið.

Við fórum svo um verslunarmannhelgina að kíkja á liðið. Allir voru við hestaheilsu. Við klöppuðum stóðhestunum og tókum myndir. Frekar skondið að hlusta svo á þekktan hestamann tala um það í hestaþættinum að það væri sjaldgæft að komast að stóðhestum í stóði. Ég hef alltaf farið að kíkja á hryssurnar mínar þegar þær eru hjá stóðhestum og alltaf getað klappað stóðhestunum. Þarna var maðurinn að klappa hesti sem hann þekkir vel og lét eins og það væri eitthvað merkilegt.

Það var mikil gleðskapur í stigagangnum hjá mér um helgina. Ákvað að vera mjög umburðarlynd en það var farið að reyna á þolrifin þegar það var byrjað að henda drasli og flöskum niður af svölunum klukkan rúmlega fjögur um nóttina.

Ef mér tekst að afreka eitthvað ómerkilegt á næstunni þá læt ég ykkur vita.

|