Thursday, September 29, 2005

Gálgafrestur
Jósefína hefur fengið gálgafrest. Hvort það er í einhverja daga eða vikur verður að koma í ljós. Getum ekki til þess hugsað að láta hana fara meðan hún er þetta hress. Það er komið hrúður á sárið og meðan það er til friðs fær hún nokkra daga. Fjölskyldan fékk öll taugaáfall og verður að jafna sig aðeins áður en lengra er haldið.
Tannpínan reyndist hins vegar ekki af sálrænum toga en ég er ekki viss hvort það sé léttir eða ekki. Alvöru ástæðan gæti verið verri. Það fannst sem sagt sýking í gómnum. Að vísu staðbundin við eina tönn svo þetta er vonandi einangrað tilfelli. Þetta var hreinsað og svo þarf ég að fara aftur í næstu viku vegna lítillar holu í neðri góm. Þá kemur þetta betur í ljós. Þetta er við hliðina á rótfylltu tönninni svo það gæti verið tengt henni en fátt bendir til þess. Ef það er þá gæti ég þurft að fara til tannrótarséfræðings og láta rótfylla hana aftur. Svo gæti þetta verið byrjun á tannholdsjúkdómi eins og mamma er með einmitt núna og pabbi fékk á sínum tíma. Það þýðir þá meiriháttar hreinsun og eftirlit og læti svo ég missi ekki tennurnar. En þetta er það versta sem gæti gerst. Þetta er vonandi bara einangrað tilfelli. Ég ætla að leyfa mér að vona það.

|

Wednesday, September 28, 2005

Get þetta ekki
Ég er búin að taka gröf. Ég er búina að kaupa kistu. En ég get þetta ekki. Ég er ekki búin að tala við dýralækni. Það er of endanlegt. Hún virðist svo hress. Hún virðist ekki finna til. Ég get þetta ekki. Hvernig í ósköpunum á ég að láta dýralækni koma og drepa dýrið mitt. Ég veit að þetta er bara tímaspursmál. Henni á bara eftir að versna. Það er ekkert vit í því að bíða þar til hún er kvalin. Það er fáránlegt að láta þetta bíða fyrir nokkra daga. En ég get þetta ekki.
Ég er komin með tannpínu bæði í efri og neðri góm vinstra megin. Undarlegt nokk þá kom þetta allt í einu í gærkvöldi. Hringdi í tannlækni í dag, bara svona ef þetta er ekki sálrænt. Er búin að taka bæði íbúfen og parkódín og það virkar ekki. Keypti líka tonn af nammi í gær. Tókst ekki að klára það í gær og er enn að hakka það í mig. Líður illa af ofáti. Þetta eiga eftir að vera erfiðir dagar.

|

Tuesday, September 27, 2005

Himnarnir hafa hrunið
Rétt rúmlega fimm í dag kom ég að Jósefínu sofandi á vaskaborðinu inn á baði. Það er í sjálfu sér ekki óalgeng sjón nú orðið. Þegar ég var búin að þvo á mér hendurnar lít ég á gömlu mína áður en ég teygi mig eftir handklæði. Þá sé ég blóð í hvítum feldinum á kviðnum. Ég skoða málið nánar og sé þá að komið er sár þar sem síðasta krabbameinsæxli var fjarlægt. Það eru komin fimm ár síðan fyrsta æxlið var fjarlægt. Hún var með júguræxli. Síðan þá hafa þó nokkur verið tekin, þar á meðal legið ásamt stóru æxli. Hún hefur jafnað sig ótrúlega vel eftir þessar aðgerðir og virðist hafa liðið vel.
Ég dreif mig hið snarasta upp á Dýraspítala þar sem minn versti grunur var staðfestur. Hún er með æxli þarna á kviðnum sem er farið að stækka svo hratt að það er komið sár á húðina.
Nú er um tvennt að velja. Láta skera þess fimmtán ára hefðardömu, sem er komin með lélega storknun og dökkt blóð sem gefur til kynna þurk, eða svæfa hana. Dýralæknirinn mælir með því að hún verði svæfð. Við vorum búin að lofa sjálfum okkur því að hún yrði ekki skorin aftur. Svo það er ekki um mikið að velja. Hún virkar bara svo hress enn þá. Ég veit auðvitað ekki hversu slæmt krabbameinið er orðið en þetta er það erfiðasta sem ég hef staðið frammi fyrir. Ég þarf að láta svæfa Jósefínu.

|

Fimm ómerkilegar staðreyndir um mig
Ég er uppfull af fremur ómerkilegum hæfileikum. Get dregið lóðrétta línu án þess að nota hallamál. Get leyst ótrúlegustu flækjur úr tagli á hestum. Og fullt af öðrum hlutum sem ég fæ ekkert borgað fyrir.

Ég get hreyft á mér eyrun. Alveg eins og afi gat.

Heilinn á mér er eins og svampur fyrir ómerkilegar upplýsingar. Kann kennitöluna hjá öllum í fjölskyldunni og fleirum. Man ótrúlega vel eftir ÖLLUM bíómyndum sem ég sé. Man atburði sem enginn annar man eftir í fjölskyldunni. Á minnigar frá því að ég var tveggja ára.

Drep allar pottaplöntur en á fimmtán ára gamlan kött og hross sem hafa komist yfir tvítugt.

Var lengi vel haldin alvarlegri tvísmellifötlun á tölvunni. Gat ómöguleg tvísmellt á músinni á réttum hraða. Þurfti að hægrismella og fara í open til að opna skjöl og glugga.

|

Monday, September 26, 2005

Níu ár í dag
Tíminn líður hratt. Í dag eru níu ár síðan pabbi gamli dó. Hann var ekki nema 55 ára karlinn þegar krabbinn náði honum. Það er nú orðið þó nokkuð síðan ég vandist þessum breyttu aðstæðum. Nýr vani búinn að setjast að. Það eru dagar eins og þessi sem minna mann á karlinn.
Það var fimmtudagurinn 26. september, 1996, klukkan 20.30 circa sem hann dó. Ég man þennan dag eins og hann hafi gerst í gær. Þetta verður sennilega einn af þessum dögum sem ég á eftir að muna það sem eftir er ævinnar. Ég ætla ekki að rekja þennan dag fyrir ykkur. Ég er búin að rifja hann upp nógu oft í huganum.

|

Saturday, September 24, 2005

Það sem flýgur um í hausnum á mér
Veit ekki afhverju en ég var að spá í bíómyndir sem hefðu haft einhver áhrif á mig. Þær eru ekki margar miðað við þann fjölda sem ég hef séð. Ein stendur þó alveg upp úr, Philadelphia. Hún kom út 1993, þegar ég var 16 ára, óharnaður unglingur, hehe. Var ekki komin með jafn mótaðar skoðanir og núna. Vissi voðalega lítið um samkynhneigð og eyðni. Eftir að hafa séð þessa mynd tók ég þá ákvörðun að vera fordómalaus gagnvart samkynhneigðum. Eina skiptið sem ég man eftir að bíómynd hafi haft þessi áhrif á mig.
Man eftir að mikið var talað um Dead man walking og hvað margir voru á móti dauðarefsingum eftir að hafa séð hana. Ekki ég. Ég horfði á þessa mynd og var uppfull af heilagri reiði og fannst þessi djöfulsins ógeð öll eiga að deyja. En ekki lengi. Ég er ekki hlynt dauðarefsingum.

Áhugaverð bílnúmer
Það er eitthvað annað sem ég hef verið að hugsa um. Sá eitt um daginn sem var dáldið sniðugt CUL8R. Tók mig örugglega hátt í mínútu að fatta þetta. Mundi þá eftir öðru sem talan átta er notuð með svipuðum hætti, IH8MYX.

|

Thursday, September 22, 2005

Engin takmörk
Var nú við það að jafna mig á öllum leiðindunum í sambandi við söluna á Dropa. Þurfti á því að heyra það þetta.
Vinkona mín, sem sagði mér að athuga betur með verðið á Dropa, hafði hitt tamningarmann nr. 1. Tamningarmaðurinn hafði verið að skjóta á vinkonu mína hvort hún væri að taka að sér að verðmeta hesta.
Eiga frekjan, yfirgangurinn og stælarnir sér engin takmörk? Hefði átt að vera almennilegri við þessa manneskju. Getur hoppað upp í rassgatið á sér. Þegar farið er að vera með stæla við vinkonu mína út þessu þá erum við komin út fyrir ný mörk.

|

Langur dagur
Í gær keyrði ég 345km með hestakerru í eftirdragi. Í það fóru 56l af bensíni sem kostaði mig 6428kr.
Ég lagði af stað að heiman rúmlega tvö. Byrjaði á því að koma við í hesthúsinu og klippa hófana á veturgömlu tryppunum sem ég hafði sótt upp á Kjalarnes daginn áður. Mér láðist nebbla einhverra hluta vegna að venja þau við að teknir væru upp fætur á þeim síðasta vetur, sem auðveldar til mikilla muna alla hófsnyrtingu til framtíðar. Þau voru því ekki mjög samvinnuþýð þegar ég ætlaði að gera tilraun til að klippa á þeim hófana á Kjalarnesinu. Ég hafði tekið stutta törn í því að taka upp á þeim fæturna á þriðjudeginum og það var nóg. Það gekk vonum framar að klippa á þeim hófana í gær.
Því næst náði ég í kerruna og lagði af stað austur rúmlega þrjú. Ég var að sækja Kviku og Áru (og Hlé) sem voru hjá stóðhestinum. Frjósemisdrottningin Kvika var að sjálfsögðu fylfull og komin ca. 40 daga á leið. Ára var hins vegar ekki fylfull enda liggur grunur á að þar sé eitthvað vandamál í gangi.
Þegar þær voru komnar í bæinn skildi ég Áru eftir þar og fór með Kviku og Hlé upp á Leirá, í Leirársveitinni sem þið keyrið framhjá á leiðinni norður. Því næst fór ég í það að koma öllum á réttan stað. Ára fór upp á Kjalarnes, því hún kemur inn næsta vetur en hinir fóru í Leirársveitina.
Ég kom heim klukkan hálf-tólf, frekar þreytt. En þá eru líka allir komnir á réttan stað fyrir haustið. Það er ekki fyrr en í desember sem ég þarf að fara á rúntinn aftur til að sækja liðið sem á að koma í hús.

|

Tuesday, September 20, 2005

Komin með skoðun
Fór með litla burra í skoðun og hann stóðst hana athugsemdalaust. Hann átti að fara í skoðun í júní en ég ákvað að bíða eftir að ég hefði efni á viðgerð svo ég lét það bíða. Svo pantaði ég tíma á verkstæði núna í september. Fór aftur á Bifreiðarverkstæði Kópavogs sem Toyota bennti mér á. Er ekkert smá ánægð með þá. Þeir eru fljótir og þægilegir og verðið er mjög sanngjarnt. Litli burri fór á verkstæðið í gær og þeir gerðu við eitt og annað og það kostaði ekki nema 30.000kr. Litli burri hefur varla farið á verkstæði án þess að það kosti 50.000+kr. Svo núna er bara allt í lagi og það kostaði ekki meira. Ef þið eigið Toyota bifreið þá mæli ég eindregið með þeim.

Svo var hringt til að segja mér að ég megi sækja síðustu tvær hryssurnar á morgun og þá kemst ég að því hvort þær eru fylfullar eða ekki.
Bara góður dagur í dag.

|

Sunday, September 18, 2005

Konan er aukahlutur legsins
Þetta líffæri sem greinir mig frá hálfu mankyninu er að valda mér áhyggjum og vanlíðan.
Þegar ég var í saumaklúbb um daginn þá komst ég að því, mér til mikillar skelfingar, að tvær af átta í klúbbnum hafa farið í keiluskurð. Fyrir þá sem ekki vita er það aðgerð sem er framkvæmd þegar greinst hafa óeðlilegar frumubreytingar í leghálsinum. Það er undanfari leghálskrabbameins. Það hefur engin í klúbbnum náð þrítugsaldri. Í kjölfarið fékk ég miklar skammir fyrir að hafa aldrei farið í krabbameinsskoðun. Þótt ég geti ekki talist í mikilli áhættu sökum fjölda rekkjunauta, þ.e.a.s því þeir eru frekar fáir, þá þarf víst bara einn. Það er nefnilega baktería sem smitast á milli kvenna með karlmönnum sem veldur leghálskrabbameini. Þ.a.l. þeimur fleiri karlmenn, þeimur meiri áhætta. En, eins og með HIV og ofl. þá er nóg að hafa átt einn rekkjunaut og ef hann er smitaður þá gætir þú verið það líka. Ég neyðist því til að fara í þessa andstyggilegu skoðun.
Eins og það sé ekki nóg, þá hef ég nú undanfarið fengið tíðarverki, sem ég hef ekki fengið lengi. Skemmtilega höfuðverki, bakverki og óþægindi í mjaðmirnar og kviðarhol. Þetta er bara ekki í lagi.
Ef ég fer í þessa skoðun og allt er í lagi, þá ætla ég ekki að koma nálægt öðrum karlmanni svo lengi sem ég lifi. Ef hins vegar eitthvað er að og ég þarf að fara í aðgerð þá finnst mér bara alveg spurning að láta fjarlægja allt draslið og þurfa ekki að standa í þessu veseni framar. Ég hef hvort sem er ekki mikinn áhuga karlmönnum né barneignum.

|

Friday, September 16, 2005

Daglegar þrautir
Fór í saumaklúbb í gær. Smakkaði túnfiskssalat í fyrsta skipti. Það var alveg svakalega gott og ég auðvitað át allt of mikið. Finnst alltaf gaman að fara í saumaklúbb. Hitti vinkonur mínar allt of lítið nú orðið. Enda var saumaklúbburinn settur á laggirnar til að halda sambandi.

Parketlagði litla herbergið á miðvikudaginn. Kláraði svo að setja listana í gær. Bara vel að verki staðið þótt ég segi sjálf frá. Þá á ég bara eitt herbergi eftir. Þetta mjakast allt. Ég get bráðum farið að byrja á hesthúsinu.

Litla frænka á ellefu ára afmæli í dag. Gvöð hvað tíminn líður. I'm getting old! Gat auðvitað fundið leið til að láta þetta snúast um mig.

|

Tuesday, September 13, 2005

Glúrin sú gamla
Þegar ég hlunkaðist niður í sófann heima hjá mömmu rétt rúmlega fjögur í gær var ég ekki í stuði til að gera neitt nema kannski að skríða upp í rúm og fara að sofa. Ég var eitthvað að barma mér og sagði að þetta væri alveg hræðilegt. Ég gæti alveg farið upp í hesthús og haldið áfram að lakka eða byrjað á hlöðunni. "Eða byrjað á litla herberginu", sagði múttan allt í einu. Já, eða það, samsinnti ég. Ef þið munið þá var ég fyrir nokkrum mánuðum, eða vikum, að tala um að ég ætlaði að parketleggja svefnherbergin hjá múttu. Ég kláraði stærsta herbergið og hef svo ekki komið mér til að gera meir. "Mér datt í hug hvort við ættum að reyna að færa svefnsófann fram á gang. Þá hefðum við strax meira pláss." Við þetta kviknaði á smá týru í hausnum á mér. Já, gætum það.
Ég var svo að hugsa það rétt fyrir miðnætti þegar ég var að mála kverkina á veggnum sem ég var búin að rífa korkinn af, sem var búinn að vera þarna eins lengi og ég man eftir mér. Og auðvitað tæma herbergið og rífa gólflistana af. Mikið helvíti er gamla glúrin. Hún talaði ekki um neitt annað en að færa sófann. Hún þekkir mig vel hún mútta. Auðvitað vissi hún að ef hún kæmi mér af stað þá myndi ég ekki hætta. Ég lét plata mig núna, hugsaði ég með glott á vör.

|

Monday, September 12, 2005

Brúðkaup
Það er fyrirbæri sem ég skil ekki. Ég er mjög hlynt hjónabandi en ég skil ekki þessi læti yfir því að tveir aðilar gangist undir lögbindandi samning. Það heldur enginn milljón króna partí þótt þeir skrifi undir kaupsamning eða ráðningasamning, eða einhvern annan samning.
Mér finnst að ef fólk ætlar á annað borð að búa saman, eiga börn saman og fjárfesta saman, þá eigi það að gifta sig. Þetta tryggir ákveðin réttindi ef eitthvað skildi koma fyrir. Ef svo "ólíklega" vildi til að annar aðilinn myndi t.d. deyja. Þá erfir hinn aðilinn sjálfkrafa allar eignirnar sem báðir aðilar hafa átt þátt í að skapa. Það tryggir líka eftirlifandi aðila rétt á eftirlífeyri og tryggingum. Bara svona ykkur til upplýsinga þá tryggir sambúð ekki sömu réttindi og hjónaband. Því miður eru allt of margir sem halda það. Þær eru líka ófáar dömurnar sem hafa brennt sig á því að karlinn sé skráður fyrir íbúðinni og bílunum og svo fær hann leið á henni og hendir henni út og hún á ekki rétt á neinu því þau voru í sambúð. Eða konurnar sem búa í íbúð barna sinna því þær voru í sambúð og svo dó karlinn og börnin eru löglegir erfingjar því þau voru í sambúð. Það ætti að vera öllum ljóst by now að ég er hlynt hjónaböndum. En brúðkaup...Þau skil ég ekki.
Ef eitthvað er að marka umræður og bandaríska sjónvarpsþætti þá vilja konur ólmar halda brúðkaup. Þær dreymir allar um að verða prinsessur í rjómakökukjól og njóta allrar athyglinnar einn dag. Til að ná þessu markmiði verður að halda rándýra veislu og bjóða öllum sem parið þekkir til að dást að þeim í EINN DAG!!!
Ofan á allt saman er aðal sportið að vera í hvítum kjól og láta leiða sig inn kirkjugólfið. ÞAÐ ER 2005, HVAR ER JAFNRÉTTIÐ? Hvíti kjólinn er táknmynd hreinleikans, óspjölluðu meyjunar sem faðirinn afhendir eignmanninum á táknrænan hátt. Konan fer úr eign eins manns í eign annars. OG ÞETTA VILJA KONUR! Þið getið komið með öll þau rök sem þið viljið. Þetta er það sem þessi athöfn táknar. Og þetta lýsa þær yfir að sé "Stærsti dagurinn í lífi mínu".
Mér finnst mjög ólíklegt að ég gifti mig. EN EF ég kynnist karli sem ég get hugsað mér hanga með í einhvern tíma og hugsanlega eiga börn, líka mjög ólíklegt, þá mun ég gifta mig. Ef ég yrði í kjól, þá yrði hann ekki hvítur, og pabbi, sem er reyndar dáinn, myndi ekki leiða mig inn kirkjugólfið.
Ég er merkilegasta manneskja í mínu lífi alla daga. Ég þarf ekki annað fólk til að dást að mér í einn dag. Ég er æði og ef annað fólk sér það ekki alla daga þá er það þeirra vandamál. Ef mig langar til að halda brjálað partí og bjóða fullt af fólki þá geri ég það bara. Ég get ekki bennt á neinn einn dag og sagt að það sé besti dagurinn í lífi mínu. Ég vil að morgundagurinn gæti orðið besti dagurinn í lífi mínu. Ég vil ekki að besti dagur lífs míns sé liðin.

|

11. september.
Var í gær.
Flestir tengja þennan dag við hryðjuverkin í BNA 2001.
Fyrir mér tengist þessi dagur alltaf fráfalli Sögu og Sleipnis í fyrra.
Saga var fyrsti hesturinn minn sem ég eignaðist 1993. Sleipni eignaðist ég 1997 og var mjög sérstakur karakter og minn aðal reiðhestur. Saga var 21v. en Sleipnir var ekki nema 15v. Það var meinsemd í framfæti á þeim báðum sem varð til þess að ég lét fella þau. Þau voru bæði hölt og Saga var farin að liggja mikið svo ég lét þau fara frekar en að láta þau kveljast.
Ég sakna þeirra samt. Það er leiðinlegt að vera raunsær.

|

Saturday, September 10, 2005

Hitt og þetta
Fletti honum Dropa mínum upp í worldfeng til að komast að því að það er búið að skrá hann á þrettán ára stelpu. Það er því ljóst að tamningarmaður 2 var kominn með kaupanda áður en ég seldi honum hestinn. Efast nú um að hann hafi grætt mikið meira en 200þús á honum, en þó það. Finnst bara lélegt að geta ekki sagt mér satt og fengið svo bara umboðslaun en ekki gera þetta svona. En ég nenni ekki einu sinni að ergja mig yfir því. Ég fékk 200þús. meira en ég var búin að gera ráð fyrir. Ooog þetta sannar að klárinn var mun meira virði en tamningamaður 1 var búinn að gefa í skyn. Ég er búin að komast að því hverra manna blessuð stúlkan er og er nokkuð viss um að hann Dropi minn sé kominn í góðar hendur. Þetta fólk á allavega nóg af peningum svo það ætti ekki að þurfa að svelta hann. Þetta er samt sárt, á enn eftir að venjast tilhugsuninni að nú sé einhver annar sem talar um Dropa sinn.

Fór að kíkja á það sem er eftir að af hrossunum upp á Kjalarnesi. Fór auðvitað með brauð. Var næstum rutt um koll af frekju og yfirgang í hrossunum. Það ætluðu sko allir að fá sitt. Ég er alltaf að reyna að passa að tryppin fái líka. Þessi fullorðnu eru svo frek.

Fór í hesthúsið í gær og þreif svona verstu skítablettina sem háþrýstidælan náði ekki. Svo fór ég í dag og byrjaði að lakka stíurnar. Þeir sem fylgdust með barningnum við að klára hesthúsið í fyrra áður en hrossin komu inn muna kannski eftir sögum af lakkinu. Ég náði ekki einu sinni að lakka suma hluta innréttingana einu sinni hvað þá aðra umferð. En ég er þá búin að lakka verstu álagsblettina almennilega. Reyni að klára restina á næstu dögum. Þá get ég farið að dunda mér í hlöðunni eins og ég ætlaði. Þið hélduð þó ekki að ég myndi láta líða heilt haust án þess að fara í einhverjar framkvæmdir?

|

Thursday, September 08, 2005

Dropi seldur
Gekk frá sölunni á Dropa í morgun. Buhuhu. Átti nú samt ekki 500þús karlinn lengi. 300 fóru beint í að borga niður viðgerðina á hesthúsinu. Svo ætla ég að eyða öðrum 50 í að kaupa hinn helminginn í Áru. Þetta er fljótt fara.

|

Tuesday, September 06, 2005

Gerði loksins eitthvað
Það kom að því að ég kæmi einhverju í verk. Ég fékk lánaða háþrýstidælu. Mín nebbla þurfti að bila. Þetta gekk nú samt ekki þrautalaust. Dælan sló alltaf út öryggið hjá mér. Ég er með 10 ampera öryggi en dælan þarf 16. Nágranni minn bjargaði mér og leyfði mér að hafa dæluna í sambandi hjá sér. Annars var ég við það að missa mig yfir þessu öllu saman. En ég allavega þreif húsið eins og það lagði sig. Þá get ég farið að gera eitthvað fleira í kofanum fyrir veturinn.

Annars er ég með sár innan í kinninni. Hlýt að hafa bitið mig. Man samt ekki eftir því. Ógeðslega vont, get eiginlega bara tuggið öðru megin með góðu móti. Var alveg hætt að bíta mig svona innan í kinnarnar. Gerði það mjög mikið fyrst eftir að ég fékk endajaxlana. Annað hvort nagaði ég pláss eða lærði að tyggja öðru vísi. Ég er mjög vel tennt. Ég er með alla endajaxlana og þ.a.l. með 32 tennur. Algjört fyrirbæri í minni fjölskyldu. Múttan var 37 ára þegar hún fékk sinn síðasta endajaxl og systir mínar voru að taka þá fram eftir öllum aldri. Ég fékk mína alla sem einn þegar ég var 16 ára. Held að ég hafi meira að segja verið búin að fá þá á undan stóru systrunum.

|

Friday, September 02, 2005

Hrossabrask
Þetta er nú orðin meiri vitleysan.
Síðast þegar ég hringdi í tamningamann nr.2 þá var hann eitthvað að nöldra um að fetið í Dropa væri ekki nógu gott ofl.
Í gær hringir hann svo allt í einu í mig og spyr hvað ég vil lágmark fá fyrir hestinn. Ég var nú frekar utan við mig, ný vöknuð, var að leggja mig fyrir kvöldmat, en segi að 350þús. sé algjört lágmark. Annars hafi ég nú bara verið að spá í að koma og sækja hann og fara með í haustbeit. Salta dæmið aðeins og sjá kannski til í vetur þegar ég tæki hann inn. Þá segir tamningamaður nr.2 allt í einu: "En ef þú færð 450þús. fyrir hann núna?" Say what? Þá er hann allt í einu sjálfur tilbúinn að kaupa Dropa á 450þús. Oooog, ég mætti auðvitað nefna einkverja aðra tölu. Ég kom svo af fjöllum að ég sagði að ég vildi aðeins fá hugsa málið. Spurði svo allt og alla í kringum mig og allir voru sammálu um að ég ætti að segja 500þús. og heyra viðbrögðin.
Eftir að hafa verið hálf andvaka í nótt og titrandi á taugum í allan dag reyndi ég að hitta á tamningamann nr.2. Eftir tvær tilraunir ákvað ég að hringja. Sagðist vilja slétt 500þús. og hann sagði bara, OK.

Svona í tengdum fréttum.
Þá fór ég að sækja tvær hryssur frá stóðhestum á miðvikudaginn. Drífa var hjá Ófeigi frá Þorláksstöðum. Drífa er hryssan sem fyrrverandi lánaði mér. Það var hringt í mig á þriðjudagskvöldið og sagt að hún væri fylfull. Og það var hringt sama kvöld og sagt að það væri sónað frá Huginn frá Haga á miðvikudeginum, kl. 18. Svo ég fór fyrst að sækja Drífu upp í Kjós og fór með hana í Leirársveitina, til bjórbóndans, og brunaði svo austur og sótti Glóey, sem var líka fylfull. Þetta eru frjósamar og duglegar stelpur. Tveir gullmolar á leiðinni næsta sumar.

|