Friday, October 28, 2005

ÞRJÁR VIKUR!!!
Ég dreif mig í krabbameinsskoðun í dag, í fyrsta skipti á ævinni. Það var ekki jafn hræðilegt og ég hafði haldið. Svo þegar skoðun var lokið var mér tilkynnt að ef eitthvað væri að yrði haft samband við mig innan þriggja vikna annars ekki. Það þýðir að ég þarf að bíða milli vonar og ótta til 18. nóvember. Hélt að þeir gætu bara látið mig vita eftir helgi eða eitthvað.
Ég kveið nokkuð fyrir þessari fyrstu heimsókn, þótt eldri systur mínar væru búnar að útlista þetta fyrir mér. Fór í sturtu í hádeginu og hrein nærföt. Ekki það að læknirinn myndi sjá nærfötin. Ég bursta líka tennurnar áður en ég fer til tannlæknis. Gat einu sinni ekki gert það og baðst innilegar afsökunnar á því. Hann hló bara og sagði að það væri ekkert mál, það væru alls ekki allir sem burstuðu tennurnar áður en þeir kæmu. Ha!
Þótt að ég sé alltaf í hreinum nærfötum hreinlætisins vegna, og þeirrar einföldu staðreyndar að það er bara ógeðslegt að vera í óhreinum nærfötum, þá leynist sú hugsun að það sé betra að vera í hreinum nærfötum ef eitthvað kæmi fyrir. Eins og þegar maður liggur fyrir dauðanum á bráðamótökunni og þeir eru að klippa utan af manni fötin til að reyna að bjarga manni þá hendi þeir manni út ef nærfötin séu skítug. Auðvitað ekki. En ég get sagt ykkur það að þegar góð vinkona mín lenti í alvarlegu bílslysi og lá upp á bráðamótöku að blæða út og læknar og hjúkrunarfólk á fullu að reyna að bjarga henni og þurftu meðal annars að klippa af henni fötin þá læddist þessi litla hugsun inn hjá henni. "Guð minn góður! Allt þetta fólk á eftir að sjá mig nakta." Já, það er skrítið hvernig maður er gerður. Þegar á hólminn er komið erum við ekki að hugsa einhverja stórkostlega hluti eða bíða eftir ljósinu við förum hjá okkur.

Í öðrum fréttum er það helst að ég er búin að fara með kerruna í skoðun. Hún fékk endurskoðun. Svo ég brunaði með hana beint aftur á verkstæðið og tilkynnti þeim að það þyrfti að strekkja á bremsunum. Ég hefði vissulega getað orðið virkilega fúl og verið með dónaskap og leiðindi en ég ákvað að gera það ekki. Í staðinn brosti ég bara og spurði hvort þeir myndu ekki bara kippa þessu í liðinn ef ég skildi kerruna eftir. Ég á að tala við þá eftir helgina. Ég hef komist að því að öll viðskipti ganga mun betur ef ég er róleg og yfirveguð og kem bara vel fram við viðkomandi, hvort sem hann hafi klúðrað einhverju hrikalega eða ekki. Fólk bregst bara mun betur við og gerir meira fyrir mann ef maður ef bara almennilegur.
Ég er meira að segja byrjuð að færa húsgögn og gera ráðstafanir með það sem á að fara hjá múttunni fyrir breytingarnar, þótt smiðurinn sé ekki búinn að koma og taka niður millihurðina svo ég geti rifið niður tréklæðningu á einum veggnum áður en málararnir koma. Svo ég er í raun komin á undan áætlun. Ég held að mér hafi bara tekist að gera allt sem ég ætlaði að gera í þessum mánuði, þrátt fyrir svartsýni og sjálfsvorkunn.

|

Wednesday, October 26, 2005

News update
Ég er búin að láta særa neðan af hárinu á mér. Búin að panta tíma í krabbameinsskoðun, buhuhu. Búin að komast að því hvert ég á að fara með hnakkinn í viðgerð. Búin að tala bæði við smiðinn og málarann fyrir mömmu. Ég man ekki hvað fleira ég er búin að gera. Ætla að reyna að fara með kerruna í skoðun í dag. Svo þetta er nú allt að mjakast.

|

Monday, October 24, 2005

Fréttir af mér
Fór og sótti hestakerruna um helgina. Viðgerðin kostaði 89þús. ÁÁÁÁÁiiii!!!
Fór ekki niður í bæ. Var nú reyndar löglega afsökuð. Þurfti að keyra "tvibbann" til tannlæknis og svo út á flugvöll. Lenti í umferðarstöppunni á leið heim.
Hafði mig loksins í að hringja á krabbameinsleitarstöðina, eftir tvö, snillingurinn ég. Þar var auðvitað lokað í tilefni kvennafrídagsins. Vona að hugrekkið geri aftur vart við sig á morgun.
Þarf að fara að gera hitt og þetta. Ætla að reyna að fara að panta tíma í klippingu. Þarf að að taka svona 5-10cm neðan af hárinu á mér. Orðið þurt í endana. Hef ekki farið í klippingu í örugglega ár. Hef bara setið með skærin og sært endana sjálf. Ekki alveg nógu sniðugt.

|

Friday, October 21, 2005

Líður ekki nógu glæsilega
Eitthvað óánægð með sjálfan mig þessa dagana. Horfi í spegilinn og með hræðilegan svip og lít svo bara undan. Nenni ekki að gera neitt. Fór og keypti DVD myndir til að fylla upp í lélegt sjónvarp. Guð hjálpi mér að ég fari að gera eitthvað. Var alveg staðráðin í að taka tvö hross inn núna í nóvember en fór svo að spá í að fresta því. Ætlaði að nota það sem afsökun að hestakerran væri í viðgerð. Get það ekki lengur því þeir voru að hringja og segja mér að hún væri til. Vildu ekki segja mér hvað það kostaði. Þeir hringdu og sögðu mér að það vantaði varahluti fyrir 40.000kr. Svo viðgerðin verður eitthvað hærri en það. Ætla láta mig vera á staðnum þegar ég fæ sjokkið svo ég geti ekki frestað því að koma. Ætli ég verði ekki bara að sparka í rassinn á mér og drífa mig af stað.

|

Monday, October 17, 2005

Komin hjem fra Norge
Þegar ég keyrði út á flugvöll síðasta fimmtudagsmorgun var snjókoma og hálka. Mér hreinlega leist ekkert á blikuna nokkur augnablik. Ég komst samt alla leið slysalaust.
Það er alltaf sama biðröðin í innrituninni. Það er búið að stækka salinn þannig að allir geti staðið inni í biðröð. Væri kannski mál að fjölga innritunarborðum?
Meðan við biðum eftir að komast um borð í vélina tók minnsti ferðafélaginn svona Exorsist moment og ældi hressilega á gólfið. Lyktin var slík að eldra fólk sem sat við hliðina á okkur færði sig í ofboði.
Það var hins vegar ekkert ælt í flugvélinni þar sem við sátum í þó nokkra stund fyrir flugtak þar sem við vorum að bíða eftir að vængirnir væru afísaðir. Verð að viðurkenna að ég er svo mikill smáborgari að ég hef ekki áður lent í því, enda ekki farið svona fyrir utan aðal frítíma áður.
Þegar við vorum komnar til Gardermoen tókum við lest til Lillehammer og þaðan er keyrt í circa einn og hálfan tíma. Þar sem ég var er hærra uppi en Lillehammer og það var samt hlýrra en það var hér þegar ég fór.
Ég eyddi tímanum í skoða fólk dýr og staði sem ég hafði kynnst í fyrra. Fór á hestbak. Hjálpaði til við að verka lambaskrokk og sortera kindur. Sá dýrlegan hest sem hleypur á eftir fólki eins og hundur þótt hún sé töluvert stærri en íslenskir hestar. Hitti Golu-barnið aftur sem virtist þekkja mig enn (hundur). Æ, já. Þetta var afskaplega yndæl ferð. Langar alveg hryllilega að fara aftur næsta sumar. Það var samt fallegt að sjá haustlitina á trjánnum og vera í þessu fallega haustveðri. Ekkert rok!
Kom svo heim í gær, eftir sama ferðalag til baka. Fór um kvöldið að sjá Edith Piaf. Frábær sýning. Skil vel að hún hafi gengið svona lengi. Söngurinn var frábær og þegar hún söng síðasta lagið munaði engu að ég færi að grenja. En mikið agalega hefur þessi kona átt erfitt líf.

|

Wednesday, October 12, 2005

Jövla!
Djöfulsins dónaskapur að það sé byrjað að snjóa. Það er orðið allt of kalt allt of fljótt. Var að krókna í gær, enda frekar þreytt. Enda ætla ég að yfirgefa þetta volæði í fyrramálið og fara til Noregs þar sem er enn yfir ísskápshita. Kem aftur á sunnudaginn fyrir þá sem hafa áhuga.

|

Tuesday, October 11, 2005

Þreytt, þreytt, þreytt...
Búin að vera að skuttlast um landið að skoða hesta og hitta hestamenn og bændur. Það er allt gott og blessað en ég kom heim klukkan 23.30 í gær og fór út aftur fyrir níu morgun. Verð að viðurkenna að ég var oggo pínu lítið þreytt. En þið verðið ánægð að heyra að þau hafa það fínt hrossin og líta vel út.
Seinni hluti dagsins var erfiðari. Hún Heba litla var svæfð í dag. Það var litla hundavinkona mín sem fékk að fara með mér í hesthúsið í vor. Hún var farin að eldast og sjónin eitthvað að daprast. Auk þess að vinkona mín, sem átti Hebu, fannst leiðinlegt að hafa ekki tíma til að sinna Hebu eins og vel og hefði þurft. Svo það var ákveðið að láta hana fara. Ég bauð þeim að grafa hana á sama stað og Jósefína verður grafin. Svo ég fór og hjálpaði þeim við það. Táraðist á leiðinni upp eftir í bílnum eftir að mér var sagt að hún væri dáin en bara mig svo mannalega meðan við grófum hana.

|

Thursday, October 06, 2005

Rótfylling
Fór til tannsa í dag og rótfyllingarferlið er hafið. Er hálf dofin eitthvað eftir deyfinguna og er alvarlega að íhuga að leggja mig fyrir kvöldmat. Tönnin sem er verið að rótfylla núna er einmitt upphaf tannlæknafóbíunar. Þegar gert var við þessa tönn á sínum tíma virkaði deyfingin ekki sem skildi og ég lá frosin af sársauka og skelfingu í stólnum í klukkutíma. Eftir það fór ég ekki til tannlæknis í fjögur ár. Ég er mun sáttari við nýja tannlækninn en þann gamla. Hann hefur áttað sig á því að það borgar sig bara að deyfa mig vel og þá gengur þetta eins og í sögu. Ég fékk rendar nettan skjálfta í hendurnar meðan á verkinu stóð en ég held að ég sé komin yfir ótta minn við tannlækna.
Annars er það í fréttum að vinkona mín frá Noregi kemur til landsins í kvöld og verður í viku. Ég verð svo samferða henni til Noregs næsta fimmtudag og ætla að vera fram á sunnudag. Hef bara ekki getað verið að hugsa um það út af þessu tanna veseni.

|

Wednesday, October 05, 2005

Fleiri tannlæknaheimsóknir
Fór í dag aftur til tannlæknisins. Það lá fyrir að laga þessa litlu holu í neðri góm. Og svo auðvitað að endurmeta hvað væri að gerast í efri góm. Verkurinn er orðinn staðbundin við eina tönn. Næstu tönn við hliðina á rótfylltu tönninni. Eftir nokkur bankpróf, kuldablástur ofl. skemmtilegt, auk þess að myndatakan sýndi að þessi tönn væri með djúpa fyllingu, þá kom í ljós að það þarf að rótfylla þessa tönn líka. Þótt ég sé vissulega fegin að ég sé ekki komin með tannholdssjúkdóm þá eru þetta samt ákveðin vonbrigði. Ég er ekki sátt við að þetta sé önnur rótfyllta tönnin sem ég verð með. Kannski betra að vera þó með tönnina. Ég er að reyna að halda í bjartsýnina. En finnst mér ég vera með lélegar tennur.
Ég verð að viðurkenna að sem barn og unglingur þá var ég ekki nógu meðvituð um góða tannhirðu. En síðustu 12-13 ár hef ég verið mjög dugleg að nota tannþráð og bursta alla daga. Nú eru gamlar holur að koma í bakið á mér. Það er þó kannski einhver vitnisburður um góða tannhirðu seinni árin að þetta eru tennur sem hefur verið gert við áður sem eru að fara illa með mig núna.
En að vera með tvær rótfylltar tennur ofan á brotnu frammtönnina. Já, ég braut lítillega úr annari framtönninni í sumar. Þá er ég farin að hugsa um tennurnar á mér sem eitthvað hryllingssvæði. Ekki það, þetta með framtönnina verður lagað, það hefur bara verið mikið annað í gangi í munninum á mér. Og það er ekkert rosa áberandi en ef fólk er eftirtektarsamt þá sést þetta.
Að öðrum málum...
Var ekkert búin að gera í sambandi við krabbameinsskoðun. Var að humma það fram af mér. Þá fékk ég senda áminningu frá Krabbameinsfélaginu í dag. Svona eins og byrja að koma um leið og maður verður tvítugur. Hingað til hafa þær farið í ruslið með góðri samvisku. Núna er ég að hugsa um að panta tíma. Stundum þá leysast hlutirnir af sjálfum sér.

|

Tuesday, October 04, 2005

Læknisheimsókn
Fór til bæklunarlæknis í hádeginu í dag. Er enn með óþægindi í hægri ökkla eftir að hafa mistigið mig heiftarlega í apríl. Hafði í raun ekki von um að það væri hægt að gera neitt, var meira að fá staðfest að ég væri ekki að skemma neitt. Það var nákvæmlega það sem gerðist. Þetta er að jafna sig hægt og rólega og getur tekið næstu sex mánuðina.
Það sem var markverðast við heimsóknina, í mínum huga, var aldur læknisins. Þegar hann kom fram og kallaði í mig hugsaði ég strax að hann væri allt of ungur. Mig langaði helst að spyrja hvað hann væri gamall. Hvort hann væri nógu gamall til að hafa lokið sérnámi. Ég stillti mig þó um það. Sá svo þegar ég borgaði kennitöluna hans á kvittuninni. Hann er fæddur 1969. Jæja, hann er víst nógu gamall til að vera bæklunarlæknir. En hann er samt ekki nema 36 ára.
Var einmitt að spá í þetta þegar ég fór á slysavarðstofuna síðasta haust. Það þurfti að sauma tvö spor í litlaputtann á mér. Unglæknirinn sem fékk að sauma mig var pottþétt yngri en ég. Þetta á bara eftir að gerast oftar. Ekki eins og þegar ég fór út af brjósklosinu og læknirinn sagði að ég væri allt of ung til að vera með brjósklos. Ég væri jafngömul syni hans. Það kom nú reyndar í ljós að ég er með brjósklos en það er önnur saga.

|

Sunday, October 02, 2005

Lokaorðin í viðtali DV við Hákon Eydal
Talað af reynslu
Er eitthvað sem þú vilt segja af lokum?
"Já. Eitt enn sem ég vil endilega koma á framfæri. Ef einhver fremur morð þá á hann endilega að hringja strax í lögregluna eða lögfræðinginn sinn. Þá færðu fimm til níu ár. Ég fékk sjö til tíu ár aukalega því ég hugsaði ekki."

Ef hann hefði hugsað yfir höfuð þá hefði hann kannski sleppt því að drepa konuna? Ég held að þessi maður fái heiðurinn að því að vera heimskasti glæpamaður landsins.

|

Saturday, October 01, 2005

Myndasíðan
Fyrir þá sem eru áhugasamir um myndir af hrossunum mínum er bent á að það eru komnar nokkrar nýjar myndir á myndasíðuna. Þar á meðal myndir af stóðhestunum sem hryssurnar mínar fóru undir í sumar.

|