Saturday, December 31, 2005

Gleðilegt nýtt ár
Þetta er víst hefbundin kveðja við þessi mánaðamót. Mér hefur alltaf fundist áramót frekar óspennandi fyrirbæri. Raunar hef ég óvenju lítinn áhuga á þessu öllu saman núna. Hef enga ánægju af því að brenna peninga í formi flugelda. Auk þess bíður maður í von og óvon hvort hrossin hafi tryllst og farið sér á voða. Það er víst lítið sprengt í Leirársveitinni, sem betur fer. Þar er ég með sex hross, fyrir utan þau ófæddu sem hafa nú þegar kostað mig yfir 100.000kr. Ég fer sjálf í hesthúsið eftir lætin til að athuga hvort allt sé ekki í lagi. Ef ég hef gleymt að minnast á það þá bragða ég ekki áfengi. Ég vona að árið 2006 verði meira upplífgandi en lok árs 2005. I'll keep you posted.

|

Tuesday, December 27, 2005

Gleði og sorg
Ég hef átt ágæt jól. Ég vona að þið hafið átt það líka. En það eru ekki lengi jólin.
Lét "Tvibbann" hringja í dýralækninn í dag. Við eigum að hringja aftur á morgun og staðfesta. Það á að svæfa Jósefínu á morgun. Henni hefur hrakað mikið síðustu tvær vikur. Hún er orðin svo horuð að hryggurinn er farinn að sjást. Hún virðist óstöðug á fótunum. Hún borðar ekki mikið. Hún vill aðalega sleikja hlaupið af blautmatnum. Hún drekkur mjög mikið og þar af leiðandi pissar hún mikið. Hlandið er hálf kristallað. Ég hef ekki spurt hvað það þýðir en ég get ekki ímyndað mér að það sé gott. Það væri kannski hægt að láta hana lifa aðeins lengur en það væri dagaspursmál. Ég vil nota tækifærið meðan "Tvibbinn" er í bænum. Mér veitir ekki af allri þeirri hjálp sem ég get fengið.
Ég veit ekki hvort ég verð í miklu bloggstuði næstu daga. Það verður að koma í ljós.

|

Thursday, December 22, 2005

Rjúpur
Ég var að hreinsa skosku rjúpurnar í dag. Fyrir þá sem ekki vita eða hafa ekki fattað þá eru þær reittar en ekki hamflettar svo það þarf að taka skinnið af þeim. Það eru líka lungun eftir í þeim öllum. Liggja við bakið eða hrygginn. Skríða undan fingrunum þegar þið þreyfið eftir þeim.
Núna liggja þær í mjólk þar til á morgun og þá verða þær steiktar upp úr smjöri. Síðan verða þær soðnar í klukkutíma á aðfangadag. Við setjum krækiber og lyng með í pottinn til að fá íslenskt bragð af þeim. Föttuðum það í fyrra. Ógjó sniðugt.

|

Monday, December 19, 2005

Þreytt og pirruð
Nágranni minn í hesthúsinu hringdi klukkan 11 til að tilkynna mér að hann héldi að það væri ekki búið að gefa hestunum mínum morgungjöf. Ég sagði að mér finndist það ótrúlegt. Þeir hlytu bara að vera búnir að éta, auk þess hefði stúlkan getað látið mig vita ef hún hefði ekki komist. 11.45. Hringir stúlkukindin. Krakkinn hennar væri kominn með hlaupabólu svo hún hefði ekki komist að gefa hrossunum. 11.45!!! Var ekki hægt að hringja fyrr? Svona fer ógurlega í taugarnar á mér. Það skiptir ekki máli hvað hefur gengið á daginn, kvöldið eða nóttina áður, ég mæti ALLTAF í hesthúsið að gefa. Þessu var sem betur fer fljót reddað. Ég hringdi í nágrannann og bað hann að gefa.
Heima hefur mamma verið að gera mig brjálaða. Hún fer alltaf á taugum við allar breytingar. "Tvibbinn" er að koma heim fyrir jólin. Það er náttla STÓRMÁL. Það varð að þrífa gestaherbergið. Áður en ég komst loks af stað í hesthúsið var mér sagt svona circa 100 sinnum að það ætti eftir að ryksuga svefnsófann. Ég var farin að verða illa pirruð.
Þegar ég kemst svo loks í hesthúsið seint og í grenjandi rigningu er stúlkukindin þar. Það var hægt að fá pössun fyrir krakkan með hlaupabóluna til að fara í reiðtúr. Þetta þýddi líka að ég gat ekki sett mína hesta strax út því hennar voru í gerðinu. Síðan kemur nágranni minn askvaðandi. Hann gerði mér jú þennan líka stórgreiða að gefa. Hesturinn hans er í húsinu hjá mér því hesthúsið hans er ekki tilbúið en hesturinn var í girðingu með mínum hrossum. Hann rýkur svo inn í hlöðu og nær í smá tuggu handa hestinum sínum. Þetta þoli ég alls ekki. Ég vil hafa ró í mínu húsi. Ég vil ekki pirruð og eyrðarlaus hross. Hross verða ókyrr þegar eitt þeirra fær hey en ekki hin. Ég hef orð á því að svona geri maður ekki, þetta pirri hrossin. Hann setur upp þennan líka leiðinda svip, svona "Þetta er nú meiri vitleysan í henni." Nú er ég orðin meira en lítið illa pirruð og bendi honum á hrossin sem eru að bíta hvort annað og pirrast í stíunum. Þá fæ ég, "Þau eru alltaf að þessu." URRRRR... Ég ætla að fara að útskýra mál mitt, sem var frekar erfitt þar sem ég varð að bíta mjög fast í tunguna á mér, þegar ég fæ "Þetta er búið og gert, það þarf ekkert að ræða þetta." Mér sortnaði fyrir augum ég varð svo reið. Átti einhver frekari orðaskipti en man ekki hver þau voru. Karlfíflið hunskaðist svo út.
Ég keyrði svo upp eftir Hafravatnsveginum í myrkri og mikilli hálku, sífellt hringjandi í "tvibbann" því sambandið var alltaf að slitna, æpandi og froðufellandi yfir þessu ljóta, leiðinlega og andstyggilega fólki. Ég var að sækja timbur sem var til, til að útbúa stall fyrir folöldin. Skil ekki, svona eftir á að hyggja, hvernig í ósköpunum mér tókst að komast stórslysalaust á leiðarenda. En mér tókst það og þegar klukkan var langt gengin í átta og ég var búin að koma upp stalli, þá var ég orðin þokkalega róleg.

|

Já, ég hef gaman af þessum sjálfsprófum. Ekki spyrja afhverju.
filet mignon
You taste like filet mignon. You are the epitome
of fine taste and everyone knows it. You are
expensive, well aged, and in demand!


How do you taste?
brought to you by Quizilla

|

Sunday, December 18, 2005

Móðurást
Fór í dag ásamt fyrrverandi og vini að sækja folöldin sem eiga að vera á húsi í vetur. Ég og fyrrverandi erum enn ósamála um allt en nú var þetta nú allt á góðum nótum. Urðum sammála um að vera ósamála.
Anyways. Það gekk í sjálfu sér vel að koma folöldunum fyrst í gerði ásamt mæðrum sínum og svo á kerruna án mæðrana. En það er alveg merkilegt hvað hryssurnar taka þessu vel. Þeim er í raun alveg slétt sama þegar folöldin eru tekinn. Eins og þær eru nú ástríkar mæður fyrst. Það er greinilegt að þær eru farnar að verða dálítið þreyttar á litlu gerpunum og hálf fegnar að losna við þau. Þær hneggja ekki einu sinni til þeirra. Voru meira uppteknar af því að gassa í sig brauðið sem þær fengu. Svona er nú móðurástin.

|

Saturday, December 17, 2005

Tilraun til sjálfsvígs
Don't worry. Ég ætla ekki að drepa mig, ef ég kemst hjá því. Það sem ég er að íhuga gæti hins vegar flokkast undir tilraun til þess. Ég er með hest sem heitir Glymjandi. Hann á að vera reiðfær en ekki fulltaminn. Ég er búin að fara þrisvar á hann út í gerði og bara gengið vel. Nú er ég alvarlega að íhuga að fara í reiðtúr á honum. Það er jú eðlilegt framhald. Mér finnst það samt sem áður jafngilda tilraun til sjálfsvísgs. Þegar ég hugsa til baka skil ég ekki hvernig ég fór að þessu hérna áður fyrr. Ég meira að segja tók að mér að fara á bak alskonar vileysingum. Eftir því sem ég verð eldri verð ég meiri og meiri gunga. Ég að hugsa um að fara í reiðtúr og vona að ég lifi það af. I'm a chickenshit.

|

Friday, December 16, 2005

Buhuhuhu
Fór í gær að sækja síðustu hrossin á Kjalarnesið. Fyrst þegar ég kom fékk ég næstum taugaáfall. Tryppið sem ég er búin að ala upp síðustu þrjú ár var hvergi sjáanlegt. Svo eftir nokkrar hræðilegar mínútur kom hún allt í einu hlaupandi. Hafði þá verið bakvið hól og ekki fattað að ég væri komin. Ég hélt að raunum mínum væri nú lokið. Þegar ég kem svo með tryppið niður í hús og inn í birtuna gat ég næstum grátið. Það var nebbla komið myrkur þegar ég var á nesinu. Tryppið var búið að nudda af sér stóran hluta af toppnum og hluta af faxinu. Hún sem var svo fallega faxprúð. Þetta er ekki sanngjarnt. Ég kíkti á þau fyrir tæpri viku og þá var hún ekki búin að þessu.

|

Wednesday, December 14, 2005

Vantar nýjan líkama, takk!
Veit ekki hvað ég er búin að vera gera svona mikið. Er gjörsamlega að drepast í skrokknum. Finn mikið til í ökklanum sem bækklunarlæknirinn sagði að myndi lagast. Gafst upp og fór aftur í teygjuspelkuna sem ég lagði á hilluna fyrir nokkrum mánuðum. Bakið er algjörlega búið. Er nú ekki með verk niður í fót, er með brjósklos. Þetta er verkur þvert yfir mjóbakið. Á engar alvöru verkjatöflur. Tók tvær 400mg íbúfen. Þær virka ekki neitt. Get varla sópað gólfið án þess að verða illt. Síðast en ekki síst er ég með harðsperrur í framhandleggjunum. God knows why. Finnst ég verða meiri aumingi með hverju árinu sem líður.

|

Eru að koma jól?
Það er einhvern veginn alveg að fara framhjá mér að það séu að koma jól. Ég fór reyndar um daginn og keypti, meira svona í leiðinni, skoskar rjúpur og þrjár bækur. Þarf reyndar að skila einni bókinni. Og þar með er upptalið það sem ég er búin að gera fyrir jólin. Ég hef ekki keypt neinar aðrar jólagjafir. Hef einhverjar hugmyndir, reyndar, sem er framför. Ég er meira upptekin af því að koma hestunum í hús. Ekki það að ég viti afhverju. Ég er ekki mikið að ríða út. Stundirnar í hesthúsinu fara meira í það að færa spæni og hey, og henda rusli. Svona til að koma hrossunum inn. Var að átta mig á því að ég þarf að sækja folöldin núna um helgina. Það er annað hvort þá eða á aðfangadag. Ég á eftir að vakna upp við vondan draum núna á næstu dögum og þarf að hlaupa á milli búða í brjálaðri traffík að kaupa gjafir.

|

Tuesday, December 13, 2005

Hjálp!!! Ég er ofsótt á eigin heimili!
Það skiptir engu máli hvert ég fer eða hvað ég geri. Horfi á sjónvarpið, sest við tölvuna, fer að sofa þar er hún. Þessi litla sæta ljósgulbröndótta læða. Hoppar upp í fangið á mér. Treður sér upp að andlitinu eða utan um hálsinn á mér. Horfir á mig aðdáunar augum og malar. Ef ég hleypi ekki henni ekki upp í fangið á mér horfir hún á mig stóreyg og mjálmar ámátlega: "Hvers vegna gerir þú mér þetta? Don´t you love me?"
Ég tel dagana þar til móðir og eigandi kemur og sinnir þessu hlutverki. Ég og ofnæmið þiggjum alveg smá frí.

Ps. Hún liggur hjá mér meðan þetta er skrifað.

|

Sunday, December 11, 2005

Ungfrú heimur
Á dauða mínum átti ég von.
Ég trúði því ekki þegar ég kom heim, með hálfhruninn borðstofuskáp ásamt stóru systur, og mamma sagði okkur að ungfrú Ísland væri orðin ungfrú heimur. Aldrei þessu vant vissi ég raunar hver ungfrú Ísland væri. Það er nú ekki svo lítið sem er búið að tala um hana. Mér finnst þetta bara svona í meðallgagi sæt stelpa. Gæti svarið að hún væri aðeins tileyg. Ég spái líka töluvert meira í sætum og myndarlegum karlmönnum.
Þetta á eftir að gefa fegurðarsamkeppnum byr undir báða vængi hér á landi, því miður. Var farin að verða sáttari við þetta eftir að herra Ísland byrjaði. Æ, þetta á eftir að ýta undir þessa endalausu útlitsdýrkun. Sé ekkert jákvætt við þetta.

|

Friday, December 09, 2005

Smá upptalning
Gleymdi alveg að segja ykkur að það var lagt parket á stofuna á mánudaginn. Allir mjög lukkulegir með verkið.
Fór með Jósefínu til Helgu Finns dýralæknis í dag. Hún lengdi líf hennar um nokkur ár á sínum tíma. Vissi að hún gæti komið með góð úrræði fyrir okkur. Fjölskyldan er að vona að við getum haldið henni fram yfir jól. Fékk verkjatöflur handa henni og snilldarúrræði. Jósefína er reyndar ekki jafn ánægð með það og ég. Hún er komin í þennan fína grisjustrokk. Klippti göt fyrir fæturna. Þetta er til að hún geti ekki sleikt sárið. Jósefína mótmælir þessu á sinn einstaka hátt. Gengur nokkur skref og fleigir sér svo í gólfið og liggur þar ámótleg á svip. En ég er viss um að hún á eftir að gefa sig með þetta og sætta sig við málið.
Fór á hestbak í vikunni. Ára sá vörubíl í 100m fjarlægð og snarstoppaði. Síðan reyndi hún að snúa við og rjúka til baka. Náði að stoppa það. En síðan tók tíu mínútur að fá hana til að halda áfram. Það var áhugaverður reiðtúr.

|

Wednesday, December 07, 2005

Það er undarlegt þetta líf
Ég á nágranna í hesthúsahverfinu. Þetta er dálítið sérstakur karl, alls ekki allra. Sumum finnst hann afskiptasamur og leiðinlegur. Ég tók strax þann pól í hæðina að vera bara almennileg við karlinn. Og karlinn brást bara hinn besti við og hefur alltaf verið almennilegur við mig. Hann sagði mér það fljótlega að hann væri öryrki og það fylgdi sögunni að hann væri á þunglyndislyfjum. Ég gerði því bara ráð fyrir að það væri ástæðan fyrir örorkunni. Hann hefur samt verið að minnast á eitt og annað líka. Best að taka það fram að ég er búin að þekkja hann núna í þrjú ár. Hann minntist á erfðagalla, að það væri ástæðan fyrir því að hann væri með svona stóru bumbu. Hann gæti ekki byggt upp vöðva. Yeah, right. Ég hef nú heyrt margar ástæður fyrir offitu. Síðan var eitthvað tal um testósterón sprautur. Fékk nú aldrei nánari útskýringu á því. Ég trúði þessu nú varlega en ákvað að vera ekkert að rengja karlinn.
Síðan er hann búinn að vera að gera upp hesthúsið sitt. Gengur nú bara nokkuð vel. Núna í vikunni var hann svo að steypa gólfið og ég og annar karl í hverfinu vorum að hjálpa honum. Eftir á sest ég svo niður í kaffi með karlinum. Allt í einu kemur þá upp úr karlinum að hann sé með klinefelter. Það er litningargalli. Ég leitaði auðvitað að þessu og netinu og fann góða grein á íslensku. Þetta er sem sagt allt satt og rétt sem karlgreyið var að segja. Hann er sem sagt með auka litning. Konur eru XX, karlar eru XY en þeir sem eru með kleinefelter eru XXY. Hann framleiðir ekki testósterón og getur því ekki byggt upp sama vöðamassa og aðrir karlmenn. Ég þakkaði mínu sæla fyrir að hafa ekkert verið að rengja karlinn.
Ég prentaði út grein um kleinefelter fyrir karlinn og eru það víst mestu upplýsingar sem hann hefur fengið um þetta. Allir læknar hafa verið frekar tregir til að útskýra þetta almennilega fyrir honum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég heyri að læknar séu tregir til að segja fólki allan sannleikann um veikindi þess. Skil ekki þá stefnu.
Lærdómurinn sem má kannski draga af þessu er að þótt fólk virki skrítið eða undarlegt þá borgar sig samt að hlusta á það sem það segir.

|

Sunday, December 04, 2005

Þriðja postið í dag?
Er búin að vera frekar ósátt við það hvað færslurnar mínar hafa verið leiðinlegar og í raun bara þurr upptalning á því sem ég er að gera. Speglar kannski fyrst og fremst andlega ládeyðu síðustu mánaða. Hefur eiginlega hvorki liðið vel né illa. Verið í hálfgerðri biðstöðu. Ekki að ég viti eftir hverju ég er að bíða. Kannski að eitthvað gerist eða breytist. Spurningin: Verður lífið svona það sem eftir er, búin að vera að angra mig. Ekki það að lífið núna sé eitthvað ömurlegt. En er þetta allt og sumt?
Var að misþyrma ónæmiskerfinu mínu í dag. Var að taka til í hlöðunni. Ógeðslegt ryk úr gömlu heyi. Steinullarafgangar, spónaryk og eithvað fleira yndislegt. Lak viðstöðulaust úr nefinu á mér. Nennti ómögulega að klára þetta núna. Ákvað að skríða heim. Það var líka kalt.
Gerði dauðaleit að hlýjum sokkum þegar ég kom heim. Þeir einu sem ég fann voru þeir sem fyrrverandi tilvonandi tengdamamma prjónaði handa mér. Voða sætir sokkar. Verð að viðurkenna að ég sá eiginlega mest eftir fyrrverandi tilvonandi tengdaforeldrum mínum. Þau voru fullkomin afi og amma. Ef ég hefði ákveðið að go down that path. Það var eins gott að það fór ekki lengra en það gerði.
Ég fékk það staðfest sem ég svo sem vissi fyrir núna um daginn. Minn fyrrverandi var og er hopelesly ástfanginn af vinkonu sinni sem er gift með börn og hefur engan áhuga á honum nema til að hafa af honum peninga. Hann hringdi víst í hana blindfullur og tjáði henni þetta. Það eru ekki margir sem koma til greina að hafa borið þetta út og ég er nokkuð viss um að hann gerði það ekki. Það er gott að eiga svona góða vini. Ég varð frekar reið þegar ég heyrði þetta. Skrítið, eftir allan þennan tíma. Og það var ekki eins og ég hefði ekki vitað þetta. Þótt hann hafi náttla aldrei viðurkennt þetta fyrir mér. Ég ákvað að minnast ekki einu orði á þetta við hann. Við erum farin að eiga mjög siðuð samskipti og ég vil gjarnan halda því þannig. Hann er hestamaður og þetta er svo lítið land að ég kemst ekki hjá því að rekast á hann reglulega. Og svo lánaði hann mér hryssuna sína undir stóðhest. Hryssa sem ég sá mikið um og sakna mikið.
Held að þetta sé orðið ágætt í bili.

|

Yfirgefinn hvolpur við Hvaleyrarvatn
Ég verð alltaf reið þegar ég heyri svona fréttir. Þetta er alveg ótrúlega algengt. Bæði kettir og hundar eru skildir miskunarlaust eftir til að svelta eða frjósa í hel. Ég skil ekki hvað er að fólki. Hvernig er þetta hægt? Hvernig getur nokkur verið svona kaldlyndur?
Reglulega heyri ég af vitleysingum sem geta ekki drullast til að láta taka dýrin sín úr sambandi eða passað upp á þau. Tíkur lóða tvisvar á ári og eru frjóar í mesta lagi eina til tvær vikur. Það ætti ekki að vera erfitt að passa upp á þær. Ég þekki slatta af fólki sem tekst það án mikilla vandkvæða.
Ég get alveg lofað ykkur að það er ódýrara að láta taka dýrin úr sambandi en að ala upp endalausan fjölda af hvolpum og kettlingum. Ekki fá ykkur dýr nema að þið hafið efni á því og drullist til að láta taka þau úr sambandi.

|

Nafnbirtingar í dagblöðum
Ég var einmitt að spá í þetta um daginn þegar það birtist nafn svokallaðs svefnnauðgara. Nú getur vel verið að þessi maður sé þrælsekur en hann gæti líka verið sárasaklaus. Mér finnst í góðu lagi að nöfn dæmdra manna séu birt en allir eiga að vera saklausir þar til sekt er sönnuð. Ég myndi ekki vilja lenda í því að vera ranglega sökuð um eitthvað og láta birta nafnið mitt í einhverjum blöðum.
Nú berast þær fréttir að einhverjir snillingar hafi tekið sig til og grýtt eggjum í hús þar sem þessi maður hafði einhverntímann átt heima. Málið er hins vegar að hann býr þar ekki lengur. Nú hafa sárasaklausir borgarar lent í því tvær helgar í röð að húsið þeirra hefur verið grýtt með tilheyrandi ónæði og sóðaskap.

|

Saturday, December 03, 2005

Að léttari málefnum
Ég er búin að fá yfir mig nóg af andans málum. Svo við skulum snúa okkur að daglegu amstri.
Ég ákvað að vera ákaflega hagsýn í rekstri á hesthúsinu þetta árið. Einn stærsti útgjaldaliðurinn er spænir. Ótrúlegt en satt. Það er þetta sem er sett undir hestana og þeir míga og skíta í. Síðan moka ég því út og borga fyrir að láta fjarlægja. Það er margt skrítið í þessum heimi. Ég þarf á milli 120-180 pakka af spæni yfir veturinn, eftir því hvað ég verð með marga hesta inni. Hver pakki vegur 30kg og kostar 1290kr. Ef ég kaupi eitthvað magn í einu þá fæ ég pakkann á 1097kr. Ég tók mig því til og keypti 50 pakka á fimmtudaginn. Eina leiðin til að flytja þessi ósköp var að fara tvær ferðir með hestakerruna. Ég sem sagt mætti galvösk í MR-búðina, afsakið Lífland, með kerruna. Fyrst byrjaði ég á því að bera helmingin af 25 pökkum, á móti afgreiðslumanninum, í kerruna. Það var ekki svo erfitt. Það var heldur erfiðara að bera þessa 25 pakka inn í hesthúsið. Þegar ég var loks búin að því, þá fór ég seinni ferðina. Þegar ég var búin að fylla kerruna í annað sinn var ég gjörsamleg búin á því. Kerran stendur enn og bíður eftir að ég tæmi hana. Skemmtilegt verk á laugardegi.
Í gær var svo hringt úr Húsasmiðjunni. Parketið var komið. Svo ég mætti, ekki svo galvösk og með harðsperrur, að sækja parketið. Það var beinlínis sárt að bera inn 17 pakka af parketi og 4 rúllur af undirlagi, hljóðeinangrandi ekki þessu þunna. En það er komið í hús og þá er bara að bíða eftir smiðnum að koma að leggja það. Hann lofaði að koma fyrir jól.
Annars er ég búin að járna hrossin. Búin að fara skeifnasprett á Áru. Get farið að drífa mig á Glymjanda, hehe. Vona að hann drepi mig ekki.
Kolfinna er enn týnd. Vona að hún finnist. Það er ömurlegt að týna kettinum sínum. Jósefína er enn á dauðlistanum. Það hefur ekki blætt svona mikið aftur. Það eru allir að vona að við getum haft hana yfir jólin. Það verður bara að sjá hvernig það þróast.

|

Friday, December 02, 2005

Dadaraddada
Nú í vikunni sat ég glaðvakandi klukkan 2.30 um nótt. Átti að vakna fyrir átta um morgunin. Var illa pirruð og fúl. Mér urðu á þau mistök, ekki í fyrsta sinn, að fara á netið og tjá mig. Ég stökk til um leið og ég komst í tölvu daginn eftir og ætlaði að taka út þetta komment mitt. Því miður voru nokkrir búnir að sjá það og brugðust ótrúlega vel við. Ég ákvað því að láta það standa og í staðinn biðjast afsökunar á að hafa verið svona harðorð. En auðvitað kommentaði annað fólk á eftir og tók greinilega ekki til greina afsökunina og ákvað að copy/paste hluti sem ég hafði sagt líka. I just hate that.
Umræðan var trúmál. Ég hef töluverðar skoðanir á því sem ég hef yfileitt út af fyrir mig. Ég virði það að margt fólk er trúað. Það sem fer í taugarnar á mér er fólk sem þykist vera trúlaust en er það í raun ekki. Það er ótrúlega mikil hræsni í trú. En það tekur steininn úr þegar trúlaust fólk fer að nota trú til að hræsna. Auðvitað var manneskjan sem brást verst við sú sem fór mest í taugarnar á mér til að byrja með.
Ég virði trúariðkun annara. En vitið þið hvað? Ég tek stundum þátt í henni líka. Ég hef vogað mér að fara í kirkju og taka þátt í messunni. Samkvæmt skoðun sumra hlýtur það að gera mig að algjörlega siðlausri og lygni manneskju. Ég nebbla vogaði mér að fara með afa mínum í kirkju á jólunum. Og það er ekki nóg. Ég fór líka í kirkju með tilvonandi fermingarbarni. Ég sat líka með móður minni daginn eftir að faðir minn dó og fór með bænir með henni. Ég er virkilega ógeðsleg. Ég gef líka gjafir á jólunum og þykist ekki einu sinni vera að halda upp á það að daginn sé að lengja. Borða páskaegg á páskunum og horfði á myndina hans Mel Gibsons. Ég veð yfir kristna trú á skítugum skónum. Ég er viss um að allt kristna fólkið sé gjörsamlega miður sín yfir hegðun minni.
Auðvitað ætti ég að hegða mér eins og sannur trúleysingi. Stíga aldrei inn fyrir þröskuldinn á kirkju. Aldrei fara með bæn, undir neinum kringumstæðum. Ekki halda upp á neina kristna hátíð, nema ég geti auðvitað fundið eitthvað annað til að þykjast vera að halda upp á. Og síðast en ekki síst hefði ég átt að skammast mín til að biðja foreldra mína, sem ég í raun fermdist fyrir því ég vildi ekki særa mömmu með því að neita að fermast, um að fá að fermast borgaralega eins og sannur trúleysingi. Og eins og það sé ekki nóg þá var prestinum, sem ég svo skammarlega laug að og fermdi mig án þess að yfirheyra mig sérstaklega um mína trú, boðið í fermingarveisluna. Hann hafði nebbla fermt pabba, gift pabba og mömmu, skírt okkur systurnar, fermt systur mínar, gift elstu systur mína og skírt dóttur hennar. Auðvitað hefði ég átt að fara til hans og segja að ég væri trúlaus og spyrja hvort hann hefði samvisku til að ferma mig.
En nei, ég er siðlaus og lygin. Mér finnast borgaralega fermingar asnalegar. Að mínu mati eru þær fyrir þykjustu trúleysingja. En það er mér alveg að sársaukalausu að þið þykjustu trúleysingjarnir farið og látið ferma ykkur borgaralega. Svo ef þið viljið gera það og ljúga því að sjálfum ykkur að þið séuð í það minnsta betri manneskja en ég þá go right ahead.

|