Ekki eintóm eymd og volæði
Þrátt fyrir eymdar vælið sem hefur einkennt færslur á þessari síðu þá er ég nú ekki alveg við dauðans dyr. Ég er reyndar ótrúlega skapgóð þrátt fyrir allt sem hefur gengið á.
Við Ára höfum náð ótrúlega vel saman undan farið. Reiðtúrar hafa ekki einkennst af miklum hjartslætti og kvíða eins og svo oft áður. Finnst við hafa náð lendingu.
Það berast góðar fréttir af Glymjanda (þessi sem henti mér af baki). Hann og nýji eigandinn virðast ná vel saman og segir eigandinn að þetta sé "yndisleg skepna". Ég er mjög ánægð að heyra það. Ég hafði trú á að þetta gæti orðið góður hestur. Fegin að hann fór ekki í sláturhúsið.
Ég er farin að líta á óléttuástand Ísoldar sem gleðileg hlut. Ég er sannfærð um að hún eigi eftir að kasta í apríl. Það myndi útiloka tryppalinginn minn sem föður. Ég hef ekki haft fylfulla hryssu á húsi í ellefu ár. Hef gaman af að fylgjast með geðbrigðum móðurinnar og hreyfingunum í fylinu. Ég er einnig byrjuð að íhuga nöfn á "barnið". Er búin að leyta af einhverju sem gefur til kynna að þetta hafi verið slysafang, óhapp, ógát eða eitthvað í þeim dúr. En ég hef ekki fundið neitt sem mér líkar. Hef líka verið að reyna að muna eftir einhverju sem gefur til kynna barn ungrar móður en datt ekkert í hug. Síðan datt mér í hug Ísak, í samhenginu við Abraham og biblíuna, fyrsta barn og einkasoninn og eitthvað. Þá var ég komin með nöfn sem byrja á í. Reyni alltaf að hafa eitthvað þema í nöfnunum. Mamma stakk upp á nafninu Íþaka ef það væri hryssa. Svo mér líst eiginlega best á það, Ísak eða Íþaka, fer auðvitað eftir kyni.
Litli maðurinn minn, kötturinn Napóleon, er alveg yndislegur. Hann er svo lítill og sætur. Algjört krútt. Það er nú ekki hægt að vera í vondu skapi þegar hann er nálægt.
Ótrúlegt nokk þá hef ég lést á meðan öllum þessum ósköpum hefur staðið. Yfirleitt fitna ég. Ég er truste spiser dauðans. Það er ákveðinn sigur.
Svo það er ekki allt ómögulegt hjá mér. Ég hef bara notað þessa síðu til að væla.