Sunday, March 26, 2006

Ekki eintóm eymd og volæði
Þrátt fyrir eymdar vælið sem hefur einkennt færslur á þessari síðu þá er ég nú ekki alveg við dauðans dyr. Ég er reyndar ótrúlega skapgóð þrátt fyrir allt sem hefur gengið á.
Við Ára höfum náð ótrúlega vel saman undan farið. Reiðtúrar hafa ekki einkennst af miklum hjartslætti og kvíða eins og svo oft áður. Finnst við hafa náð lendingu.
Það berast góðar fréttir af Glymjanda (þessi sem henti mér af baki). Hann og nýji eigandinn virðast ná vel saman og segir eigandinn að þetta sé "yndisleg skepna". Ég er mjög ánægð að heyra það. Ég hafði trú á að þetta gæti orðið góður hestur. Fegin að hann fór ekki í sláturhúsið.
Ég er farin að líta á óléttuástand Ísoldar sem gleðileg hlut. Ég er sannfærð um að hún eigi eftir að kasta í apríl. Það myndi útiloka tryppalinginn minn sem föður. Ég hef ekki haft fylfulla hryssu á húsi í ellefu ár. Hef gaman af að fylgjast með geðbrigðum móðurinnar og hreyfingunum í fylinu. Ég er einnig byrjuð að íhuga nöfn á "barnið". Er búin að leyta af einhverju sem gefur til kynna að þetta hafi verið slysafang, óhapp, ógát eða eitthvað í þeim dúr. En ég hef ekki fundið neitt sem mér líkar. Hef líka verið að reyna að muna eftir einhverju sem gefur til kynna barn ungrar móður en datt ekkert í hug. Síðan datt mér í hug Ísak, í samhenginu við Abraham og biblíuna, fyrsta barn og einkasoninn og eitthvað. Þá var ég komin með nöfn sem byrja á í. Reyni alltaf að hafa eitthvað þema í nöfnunum. Mamma stakk upp á nafninu Íþaka ef það væri hryssa. Svo mér líst eiginlega best á það, Ísak eða Íþaka, fer auðvitað eftir kyni.
Litli maðurinn minn, kötturinn Napóleon, er alveg yndislegur. Hann er svo lítill og sætur. Algjört krútt. Það er nú ekki hægt að vera í vondu skapi þegar hann er nálægt.
Ótrúlegt nokk þá hef ég lést á meðan öllum þessum ósköpum hefur staðið. Yfirleitt fitna ég. Ég er truste spiser dauðans. Það er ákveðinn sigur.
Svo það er ekki allt ómögulegt hjá mér. Ég hef bara notað þessa síðu til að væla.

|

Tuesday, March 21, 2006

...og svo fór allt til helvítis aftur
Ég tók inn þrjú reiðhross og eitt tamningartryppi. Eitt reiðhrossið reyndi að drepa mig og ég losaði mig við það. Tamningartryppið reyndist vera fylfullt svo það þurfti að leggja alla frekar tamningu á hilluna. Og svo á sunnudaginn... þá tókst Grímu, aðal reiðhrossinu mínu, að slasa sig. Ég var með hjólbörurnar á ganginum því ég var að moka hjá folöldunum. Ég hafði sett Grímu í gerðið með folöldunum til að leyfa henni að velta sér eftir reiðtúr. Síðan þegar ég er að teyma hana inn í stíu þá stoppar hún allt í einu og stígur til hliðar. Þar með rekst hún í hjólbörurnar, tryllist, ríkur aftur á bak út um dyrnar, flækt í hjólbörurnar. Svo þegar ég kem í gær þá er hún með blóðkýli framan á brigunni og bólginn framfót. Það er læknir búinn að kíkja á hana og þetta lagast en hún þarf að sjálfsögðu að vera í fríi. Þá á ég eftir eitt reiðhross og búin að leggja út töluvert í lækniskostnað bæði fyrir mig og hrossin. Ain't life grand?

|

Saturday, March 18, 2006

Svona dagar...
Gærdagurinn virtist ekki ætla að verða spennandi. Súld og þungt yfir. Ég ákvað því að pússa hryssurnar. Hleypti því út folöldunum og burstaði og bónaði dömurnar. Síðan komst ég í hálfgert asmakast út af rykinu og þurfti að setjast niður og ná andanum. Ára veltir sér alltaf upp úr drullunni í gerðinu, þarf að taka gerðið í gegn í sumar. Svo það var þurr mold á henni og ég stóð í rykskýi meðan ég var að kemba henni. Ég þarf líklega að fara til læknis og láta athuga hvort ég sé komin með asma, það er asmi í fjölskyldunni.
Þegar ég var búin að ná andanum ákvað ég að skella mér í stuttan reiðtúr. Gríma fékk frí á fimmtudaginn svo ég vildi ekki láta hana standa í tvo daga í röð. En það á að prufa Áru um helgina svo hún hafði gott á hreyfingunni líka. Því endaði með því að ég fór á Grímu og tók Áru með í taum. Og það var æðislegt. Þær voru æðislegar. Reiðtúrinn var æðislegur. Ég var æðisleg. Ég veit að þetta hljómar væmið en allt í einu mundi ég hvers vegna ég er með hross á húsi. Hvers vegna ég stunda hestamennsku. Eins og veturinn er búinn að vera ömurlegur eitthvað þá vantaði mig þetta. Komin úr joggingbuxunum sem ég er búin að vera að fela mig í, í vetur, og komin í reiðbuxur. Ekki í slitnu lopapeysunni heldur komin í flíspeysu. Og með hjálminn. Í fyrsta skipti fannst mér hjálmurinn vera hluti af pakkanum. Hryssurnar voru nýbónaðar. Gríma alveg til fyrirmyndar og Ára líka. Ára teymdist með slakan taum. Ekki að ryðjast fram með og einhver leiðindi eins og svo oft áður, hún er að læra þetta. Það var bara allt eins og það átti að vera. Mig vantaði svona dag. Svona dagar láta allt erfiðið vera þess virði.

|

Wednesday, March 15, 2006

Dýrasögur
Snotra, köttur "Tvibbans", var úti í fjóra klukkutíma í morgun. Hún er yfirleitt ekki mjög lengi úti í einu. Dúlli, stóri högninn á heimilinu, hefur tekið upp þann leiða ósið að standa fyrir neðan svefnherbergisgluggana og væla þar hástöfum þar til hann er sóttur. Þetta er auðvitað ekki vinsælt og í raun ótrúlegt að nágrannarnir séu ekki búnir að kvarta. Af þessum sökum fær herrann ekki að fara út á nóttunni. Hann byrjar að röfla um að fara út snemma á morgnana. Í morgun var honum hleypt extra snemma út. Hann hljóp hins vegar beina leið að svefnherbergisgluggunum og fór að væla. Ég stökk því út og sótti hann. Um leið og ég kom inn lokaði ég kattalúginni. Síðan vaknaði ég við mikið krafs en það var enn snemma morguns svo ég hunsaði það. Síðan þegar ég vaknaði var mamma komin fram og fór að opna lúguna. Þá var Snotra greyið mjög sorry svekt og sár úti. Ekki skrítið, enda búin að vera lokuð úti í fjóra klukkutíma.
Nýji, litli högninn minn er algjört krútt. Hann er blíður og góður og getur endalaust leikið sér. Nú er Dúlli farinn að leika við hann og það finnst lilla rosa gaman. Hann eltir stóra bróður út um allt og er hryllilega sár þegar Dúlli fer út.
Lilla finnst líka rosa stuð þegar ég er í tölvunni. Þá kemur hann og reynir að traðka yfir lyklaborðið og elta örina á skjánnum. Honum hefur tekist að ýta á eitthvað sem veldur því að það koma rangir stafir þegar ég nota lyklaborðið. "Tvibbinn" fann samt út úr því að ef ég ýti á Fn takkan tvisvar þá lagast það meðan kveikt er á tölvunni.
Ísold er ekki alveg að fatta að hún sé ólétt. Passar ekki nógu vel upp á sjálfa sig. Ég er drulluhrædd um að hún verði slegin í kviðinn. Hún er líka frekar geðstirð við hin hrossin. Það hjálpar ekki. Verð að viðurkenna að ég er farin að verða dálítið spennt að sjá barnabarnið. Vona bara að köstunin gangi vel, hef mestar áhyggjur af því.
Það á að koma og prófa Áru um helgina. Athuga hvort hún sé efni í eitthvað. Kynbótadóm eða keppni. Verður fróðlegt að heyra hvað öðrum finnst.

|

Wednesday, March 08, 2006

Ég er enn lifandi
Það er einhver andleg ládeyða í gangi. Lítil löngun til að blogga. Það er að segja ég hugsa svo sem um að blogga. Spái í hluti sem eru að gerast og hugsa um að blogga um þá og svo gerist ekki neitt. Það bara nær ekki lengra.

|

Friday, March 03, 2006

Elvis has left the building
Karlinn er farinn með hestana. Loksins, loksins, loksins. Ég þurfti reyndar að ganga í málið og hjálpa honum að koma þessu heim og saman, þótt hann hafi líst því hátíðlega yfir í gær að hann myndi taka hestana í dag. Hann hefði aldrei náð því ef ég hefði ekki hjálpað honum. Ég var líka búin að henda hestunum út í gerði og gefa hjá mér en það hafðist. Það fór allur minn tími í hesthúsinu í þetta og hann kom hestunum inn hjá sér klukkan hálf átta í kvöld. Farinn, farinn, farinn. Jibbí!!!

|

Wednesday, March 01, 2006

Það á ekki af mér að ganga þetta árið
Var að fá einar "gleðifréttirnar" í viðbót. Hún Ísold mín, sem er fyrsta hrossið sem ég "ræktaði", er þriggja og verður fjögra í vor. Ég var að fá það staðfest í dag að hún er fylfull. Hún átti ekki að vera það. Allt of ung til að byrja með. Í öðru lagi veit ég ekkert undan hverju þetta er. Þetta setur auðvitað alla tamningu í bið. Það sem verst er reyndar, er að þetta tekur svo mikið frá henni í þroska, hún er ekki full vaxin. Þetta er eins og táningur að eiga barn. Ég gerði ekki ráð fyrir að verða langamma strax.

|