Hringinn í kringum landiðÞá hef ég lagt að baki 1360km á fjórum dögum, raunar þremur því ég tók einn dag í frí. Ég keyrði hringinn í kringum landið með viðkomu á Kárahnjúkum og Aðaldalnum.
Ég lagði af stað á fimmtudaginn. Eitthvað var ég sein á fætur svo ég var ekki að leggja af stað úr bænum fyrr 10:30. Var rosa brött fyrst til að byrja með. Kom við og kíkti á litlu graddana mína, sem líta mjög vel út by the way. Stoppaði svo í Vík til að taka bensín og taldi að það myndi duga mér til Djúpavogs. Þegar ég kom fram hjá Jökulsárlóni keyrði ég inn í þvílíka rigningu. Hefði ég farið út úr bílnum hefði ég líklega drukknað. Ég var með rúðuþurkurnar á mesta hraða og höfðu þær varla undan. Eitthvað stressuðu þurkurnar mig á þessum hraða og ég var farin að keyra óþarflega hratt. Endaði með því að ég var orðin langeyg eftir Djúpavogi því ég var á síðasta bensíndropanum. Ég náði samt að sjá hreindýr á beit niður við sjó og svani í hundraða vís áður en ég komst á Djúpavog. En ég komst á Djúpavog án þess að þurfa að ýta bílnum, sem betur fer. Ég var komin með verki í axlir, bak og höfuð þegar hér var komið en það er ekkert apótek Djúpavogi svo ég gat ekki linað þjáningar mínar. Ég lagði því af stað í hálfrökkrinu með hausverk á fjallveginn Öxi sem átti að stytta leið mína á Kárahnjúka um 100km. Vinkona mín ætlaði að segja mér til vegar eftir því sem þyrfti í gegnum símann. Þegar ég var komin yfir Öxi og ætlaði að fá nánari upplýsingar þá var ekkert símasamband. Svo ég ákvað að taka stefnuna á Egilsstaði, eftir vegaskiltum, og vona það besta. Það hafðist allt saman og ég komst að afleggjaranum að Kárahnjúkum seint og síðar meir. Brekkan þar upp gefur brekkunni upp í Kviknehögda lítið eftir, svona fyrir þá sem þekkja þar til. Ég keyrði svo ein í myrkrinu þar til mér birtist allt í einu Kárahnjúkastífla. Þá þurfti ég að bíða þar til að ég yrði sótt, því ég mátti ekki keyra inn á vinnusvæðið. En það fór allt vel og þegar ég loksins kom í hús, í vinnubúðum Landsvirkjunar á Kárahnjúkum, beið eftir mér kvöldmatur og huggulegheit.
Á föstudeginum var svo farið með mig í skoðunarferð um vinnusvæðið. Ég fékk að sjá stífluna frá báðum hliðum og verður að segjast að stíflan er mun smartari á bakhliðinni, þessari sem við fáum aldrei að sjá í sjónvarpinu. Bakhliðin er hlaðin úr grjóti enda er víst stíflan mest megnis úr jarðvegsefni svo það gæti reynst erfitt fyrir hann Ómar að saga skarð í hana. Ég fékk líka að fara niður í göngin sem hafa verið grafin þarna út um allt. Meira að segja þar sem vatnið rann á meðan að verið var að reisa stífluna. Ég fór nú ekki neitt að skoða það sem fer undir vatn en það sem sést frá stíflunni er nú ekki merkilegt. Gljúfrin eru öll fyrir neðan stífluna svo þau fara ekki undir vatn.
Ég lagði svo frekar seint af stað frá Kárahnjúkum en náði niður á Egilsstaði fyrir sex, sem var eins gott því ég aftur komin með hausverk og það er apótek á Egilsstöðum svo ég gat linað þjáningar mínar í það skiptið. Ég keyrði svo í kolnaðar myrkri yfir í Aðaldalinn. Ég fór reyndar aðeins ranga leið en ég komst á leiðarenda og fór í raun ekkert lengri leið svo það var allt í lagi.
Á laugardeginum var svo bara afslöppun og notalegheit. Fór aðeins til Húsavíkur í verslunarleiðangur með "Tvibbanum", það varð nú að vera nóg til að borða.
Á sunnudeginum brunaði ég svo í bæinn.