Wednesday, June 14, 2006

Ert þú orðin 18?
Litlu frænku tókst að skera sig á glerbroti í gær. Pínu, pínu skurður en það þótti betra að fara á slysó þrátt fyrir það. Það er voða mikið að gera fyrir ameríkuferðina og smá stress í gangi svo ég bauðst til að fara með hana. Það reyndist allt í góðu með skurðinn. Var sett lím í hann til að loka honum. Eitthvað svona humanglue. Hins vegar, þegar við vorum að skrá hana inn kom auðvitað í ljós að hún er undir lögaldri og verður að vera í fylgd með fullorðnum. Svo unga hjúkkan horfði á mig og spurði: "Ert þú orðin 18?" Ég get ekki neitað að þetta kitlaði hégómagirndina aðeins, svona þegar ég á ekki eftir nema rúmt ár í þrítugt. Þegar við vorum komnar inn og önnur hjúkka var að skoða skurðin var ég spurð hvort ég væri systir hennar. Ég brosti og svaraði að bragði að ég væri móðursystir hennar.
Í gær kom svo yndæli ungi maðurinn sem ætlar að passa múttu og kettina hennar stóru systur. Við kíktum því yfir til stóru systur til að sýna honum aðstæður. Ég hafði ekki séð kettina þar síðan áður en Nappi dó. Þær mæðgur eru nebbla amma og móðursystir Nappa. Ég var ekki búin að taka eftir því að það er nákvæmlega sama mynstrið á móðursystur hans og var á honum. Alveg nákvæmlega eins bröndótt. Það minnti mig á stórt kattarauga. Ég kallaði það Eye of the tiger.

|

Tuesday, June 13, 2006

Nóg að gera
Þótt mig langi mest að liggja heima og vorkenna sjálfri mér þá gengur það ekki alveg. Ég er að fara til BNA á föstudaginn. Það verður að koma hrossunum á rétta staði áður en ég fer og tryggja að allt verði eins og best verður á kosið.
Á sunnudaginn fór ég með litlu graddana austur fyrir fjall. Leist vel á staðinn. Allt mjög snyrtilegt og girðingar nýjar. Held að það eigi eftir að fara vel um þá. Glaumur sýndi svo um munaði hvers vegna hann var ekki geltur þrátt fyrir ómerkilega móðurætt. Hann bar af í hreyfingum þegar drengirnir hlupu um túnið. Ætterni er ekki allt.
Í gær fór ég svo með folaldmerarnar sem voru upp í bústað upp á Kjalarnes. Það var ótrúleg bjartsýni að fara ein með folaldsmerar. Ég byrjaði á Ísold sem var mjög samvinnþýð. Dóttirin var ekki jafn góð. Áttaði mig á því eftir nokkrar tilraunir að hún myndi ekki elta upp á kerruna þrátt fyrir bönd og önnur hjálpartæki. Það endaði með því að ég ákvað að snara hana. Eða koma bandi um hálsinn á henni. En það þýddi náttla að ég þyrfti að komast nógu nálægt til að koma bandinu á hana. Eftir smá tíma datt mér í hug að útbúa smá aðhald við bústaðinn. Það gekk eins og í sögu og ég kom bandinu á hana. Þetta var reyndar eins og hengingaról og ekki mjög mannúðlegt en ég gerði mitt besta til að þetta meiddi hana sem minnst og kom henni á kerruna. Þegar ég kom á Kjalarnesið var vindhviðuviðvörun. Ég keyrði því á 50km/kl til að kerran fyki ekki.
Röskva og Embla voru alveg til fyrirmyndar. Það tók korter frá því að ég kom að hliðinu upp í bústað þar til ég keyrði út um það aftur. Í þetta sinn notaði ég bústaðinn strax sem aðhald og Röskva stóð alveg kyrr þótt Embla hafi barist aðeins um og endað á því að detta á hliðina. Ég tók mig til og fleygði mér ofan á hana og hélt henni þar til hún hætti að berjast um og kom þá bandinu á hana. Í þetta sinn setti ég bandið líka aftur fyrir hana og hélt svo bara í lykkjuna sem var um hálsinn á henni. Þá þrengdi þetta ekkert að og það var lítið mál að koma þeim mæðgum saman á kerruna.
Svo varð ég að fara í hesthúsið því dýralæknirinn ætlaði að koma klukkan fimm að sprauta litlu hryssuna sem Glaumur var að riðlast á. Þetta er hormónasprautta sem kemur í veg fyrir að þær festi fang þótt hestur hafi komist á þær. Svona daginn eftir pilla. Hún svitnaði alveg agalega, sem er reyndar eðlilegt, en hún var eitthvað svo aumingjaleg að ég sat hjá henni í klukkutíma til að vera viss um að hún myndi ekki drepast.
Þá var komið að því að ná í síðustu folaldsmerina, þessa sem uppáþrengjandi nágranni minn á. Ég er svo aumingjagóð að það er að drepa mig. Ég elti helvítis beygluna í einn og hálfan tíma. Reyndi að lokka hana með nammi. Reyndi að búa til alls konar aðhöld úr böndum. Reyndi að koma henni að bústaðnum eins og ég hafði gert með folöldin. Ekkert dugði. Hún ruddist í gegnum allt og sleit allt niður. Ég náði loks að króa hana af út í horni á giðingunni og með rólegheitum tókst mér að koma múl á hana. Síðan var komið að folaldinu. Ég fór með hryssuna að bústaðnum og króaði folaldið af eins og hin. Kom bandinu á eins og ég hafði gert við Emblu. En þar með var björninn ekki unninn. Þegar ég reyndi að koma folaldinu á kerruna barðist það svo svakalega um að það ítrekað datt um koll og veltist um. Hryssan náttla alveg brjáluð og ég varð að nota aðra hendina til að halda henni. Fyrir eitthvað kraftaverk tókst mér að festa hryssuna og draga svo folaldið inn hreinlega á rassgatinu. Við það tognaði eða slitnaði eitthvað í hægri síðunni á mér. Djöfull var það vont. En ég kom þeim á kerruna og upp á Kjalarnes. Fór reyndar Hafravatnsveginn því það var allt stopp á Vesturlandsveginum vegna tónleika í Egilshöllinni.
Ég kom heim klukkan tíu um kvöldið. Ég fór út klukkan hálf tvö. Ég var pínu þreytt.

|

Sunday, June 11, 2006

Eigum við aðeins að fara yfir árið???
Byrjum reyndar 28. desember 2005. Jósefína, kötturinn minn, sem hefði orðið 16 ára í febrúar var svæfð út af krabbameini.
4. janúar 2006. Mér er hent af hestbaki og lendi mjög illa. Flutt upp á spítala með sjúkrabíl. Reynist óbrotin en illa marin. Þurfti að taka verkjatöflur næstu þrjár vikurnar. Gat ekki farið að ríða út að ráði fyrr en eftir 6 vikur.
Á þessum tíma er ég með þrjá hesta fyrir karlinn hinum megin við götuna. Átti að vera með þá í eina til tvær vikur en endaði með því að vera með þá í þrjá mánuði. Þar að auki fór vatnslögnin í hesthúsinu tvisvar sinnum og í seinna skiptið endaði með því að ég skipti um vatnslögnina.
1. mars. Ég fæ það staðfest af dýralækni að Ísold, þriggja vetra tamningartryppi, er fylfull. Hún átti ekki að vera það og faðirinn reyndist vera óþekktur foli, þannig að ættirnar eru algjörlega óþekktar og folaldið þar með verðlaust.
Gríma, gamla hryssan mín og sú eina sem ég þorði almennilega að ríða eftir að ég datt, slasaði sig með því að flækjast í hjólbörum og fá blóðkýli á bringuna. Var óreiðfær í einn og hálfan mánuð á eftir.
Verðmæta tryppið sem ég er búin að vera með í vetur fyrir minn fyrrverandi fékk sýkingu í hófinn og þurfti að fá endalausar pensinlínsprautur. Er ekki enn búin að fá þann reikning. Svo fékk hún hrossasótt eftir það. Núna er hún orðin kynþroska og hleypti einum folanum á sig svo nú þarf að sprauta hana með hormónalyfi til að koma í veg fyrir að hún fyljist.
Ég er tvisvar búin að brjóta upp úr tönnum það sem af er árinu. Ég er tvisvar búin að fá ömurlega langdregna flensu, er ekki almennilega laus við þá seinni enn þá.
9. júní. Það er keyrt á Nappa litla sem ég var búin að eiga síðan í febrúar. Algjör sólargeisli og fyllti alveg ótrúlega í skarðið sem Jósefína skildi eftir.
Nú er ég að fara til Bandaríkjan næsta föstudag. Það kæmi mér ekki á óvart að ég yrði tekin á flugvellinum, grunuð um að vera hryðjuverkamaður, og hent án dóms og laga í fangelsi. Ég er orðin dáldið mikið þreytt á þessu öllu saman. Ansi sorry, svekkt og sár. Hætt að geta ímyndað mér hvað fleira getur komið fyrir mig.

|

Friday, June 09, 2006

Napóleon er dáinn
Það var keyrt á hann í morgun. Hann hefur dáið samstundis, hann var illa farinn. Það var hringt í frá Dýraspítlanum. Hreinsunardeildin hafði farið með hann þangað. Hann var merktur með símanúmerinu mínu svo þau þekktu hann strax.
Ég vildi ekki hleypa honum út í nótt svo hann kæmi ekki inn með fleiri mýs. Svo við hleyptum honum út í morgun. Það hefur verið keyrt á hann fljótlega eftir að hann fór út.
Aumingja litli strákurinn minn. Hann var svo blíður og góður. Afskaplega duglegur strákur. Fljótur að læra að rata. Lét ekki Snotru og Dúlla hrekkja sig. Ég var bara búin að eiga þetta litla grey í þrjá mánuði en ég á samt eftir að sakna hans.
Þetta er búið að vera ömurlegt ár. Ég hélt að það gæti ekki versnað. Ég hafði rangt fyrir mér.

|

Thursday, June 08, 2006

Músaveiðar
Ég vaknaði klukkan sjö í morgun. Ég hafði sofnað í sófanum fyrir framan sjónvarpið, ekki í fyrsta sinn. Vaknaði við það að Nappi skellti sér inn um kattarlúguna eins og honum einum er lagið. Það næsta sem ég heyri er mömmu garga "Hvað ertu með?" Við það stekk ég fram úr sófanum og mæti Nappa á ganginum með mús í kjaftinum. Þar sleppir hann henni og hún reynist vera sprelllifandi og skríður undir kommóðu sem er á ganginum. Ég ríf kommóðuna frá og músin er horfin. Eftir að hafa svipast um og ekki fundið neitt kemst ég að þeirri niðurstöðu að músin sé inn í kommóðunni. Þegar ég kippi út neðstu skúffunni þá finn ég músina. Þaðan tekur hún stökkið inn í fatahengi. Eftir að hafa reynt mikið að ná henni og hún klórað mig náði ég að koma henni inn í kassa undan kattasandi og fara með hana út. Svo var gaurnum hleypt út aftur. Á innan við hálftíma var hann kominn inn aftur og með lifandi mús. Hvort það var sú sama veit ég ekki. Í þetta sinn hljóp hann með hana inn á baðherbergi sem var mun betra, því þar var hægt að loka hana inni. Ég náði svo aftur í kassann og náði músinni og fór aftur með hana út. Í þetta sinn vildi ég að Nappa væri haldið inn í smá tíma en hann vældi svo mikið að mamma vildi hleypa honum út aftur. Núna hins vegar var lúginni lokað þannig að hann komst ekki inn. Og viti menn. Stuttu síðar er klórað ákafleg í lúguna. Minn maður kominn aftur og með mús sem var lifandi. Honum var ekki hleypt inn fyrr en hann sleppti músinni sem var mjög vönkuð. Þá kippti ég honum inn og náði músinni, einu sinni enn. Fór með músina út og krafðist þess að kötturinn yrði inni. Það verður svo fróðlegt að sjá hvort hann komi með fleiri. Það var mjög gaman að vakna svona.

|

Tuesday, June 06, 2006

Er hún ekki sæt?
Þið sem hafið komið á þessa síðu áður takið kannski eftir að það er komin ný mynd. Þetta er hún Ísadora litla, nokkra klukkustunda gömul, enn pínu blóðug og blaut. Hún er slysafangið hennar Ísoldar, sem ég hef talað mikið um hérna á síðunni. Ef þið farið svo inn á myndasíðuna getið þið séð fleiri myndir af Ísadoru og af Emblu líka, dóttur Röskvu. Það er líka ein mynd af honum Napóleon mínum, litli kisustrákurinn.
Ég veit að ég hrikalega væmin kerling, og já, þetta eru "börnin" mín.

|

06.06.06
Er þetta djöfulleg dagsetning eða bara hver annar dagur? Þeir segja að þetta sé ár djöfulsins og þetta dagur hans. Það eina sem ég veit er að þetta er ekki mitt ár. Þrátt fyrir að hvert óhappið hafi rekið annað það sem af er þessu ári þá hefur dagurinn ekkert verið neitt sérstaklega slæmur enn sem komið er...
Þetta er hins vegar mjög viðeigandi dagur til að deila með ykkur trúarpælingum mínum. Ég var að spá í það núna um daginn hvort ég ætti að gerast trúuð. En það er pínu galli á þessari pælingu. Ég er ekki trúuð og trúi ekki á æðri máttarvöld. Pæling var meira tengd þessari trúarpælingum sem eru í gangi út af Da Vinci code t.d. Ég var að spá í það að það gæti verið gaman að vera trúuð. Ég myndi þá berjast fyrir því að María Magdalena væri viðurkennd sem lærisveinn Jesú. Mér finnst það miklu merkilegra en að hún hafi verið gift honum og átt krakka með honum. Það hefði þýtt að Jesú hafi verið jafnréttissinnaður, ég held nú að hann hefði verið ef hann hefði verið til. Og það er miklu merkilegra á þessum tíma en að hann hafi átt konu. En ég var meira að spá í að það væri gaman að vera trúaður en þá gæti ég líka alveg eins ákveðið að trúa á Harry Potter því galdrar eru svo skemmtilegir. En ég hef hins vegar ekkert útilokað að ég verði einhvern tímann trúuð. Ég er ekki svo hrokafull að halda því fram að ég sé svo svakalega ólík stórum hluta mannkyns að ég gæti aldrei fundið fyrir þörfinni til að trúa á eitthvað stærra en mig.

|

Friday, June 02, 2006

Ein í kotinu
Það sjald séða ástand hefur brostið á að ég er ein heima. Það verður að viðurkennast að þótt ég sé á tuttugusta og níunda aldursári þá hef ég mjög sjaldan verið ein heima. Ég er orðin svo gömul að mér finnst það ekki einu sinni ástæða til að fagna. Mér leið hins vegar eins og ég væri að horfa á eftir barninu mínu þegar ég horfði á eftir mömmu út í flugvél. Hún fór að heimsækja "tvibbann" fyrir norðan.
Svo er ég svo mikil aumingi að ég fékk alveg sting í hjartað þegar ég sá halta andarkollu þegar ég kom út af flugvellinum. Hún haltraði út í stóran poll sem bílinn minn stóð í og fór að synda þar. Ég var með brauð í bílnum og henti til hennar. Ég varð að stilla mig um að rjúka ekki út úr bílnum og reyna að fanga hana. Ég sá hana fljúga svo það hefði líklega ekki verið sniðugt og bara kvekt hana. Ég er alveg miður mín yfir þessu.

|

Thursday, June 01, 2006

Drekkjum Valgerði, ekki Íslandi
Þetta stóð á einu kröfuskiltinu í göngu Íslandsvina. Og nú er verið að rannsaka þessa "morðhótun". Er verið að grínast? Mér fannst þetta bara fyndið og hvarflaði ekki að mér eitt augnablik að taka þetta alvarlega. Daman ætti kannski að hugsa aðeins um það sem er verið að segja. Það er eitt að drekkja einhverjum öðrum en hún myndi líklega taka því öðruvísi ef það ætti að drekkja henni. Hún bara fattar ekki málið en það er auðvitað vandamálið. Fífl!!!
Það var verið að tala um þessa 48DVD í útvarpinu í gær. Rosalega sniðugt fyrir slóðana sem muna ekki að skila á videoleiguna. Þetta eru DVD diskar sem eyðileggjast 48kl. eftir að þeir eru teknir upp. Mér finnst þetta ekki sniðugt. Þetta einnota viðhorf fer í taugarnar á mér. Höldum áfram að auka á ruslið sem fylgir mannskepnunni, það var ekki nóg fyrir. Mér finnst einmitt videoleigan sniðug. Margir að samnýta sama hlutinn með góðum árangri. Umhverfisvænt.
Annar er allt þokkalegt af mér að frétta. Flensan að skána, bara búin að vera veik í viku. Aðeins að hósta enn þá.
Búin að fá hey. Þvílíkur léttir. Vont að sjá fram á að vera heylaus og vera með tólf hross + þrjú nýfædd folöld í fóðrun. Talandi um það. Kannski getur "tvibbinn" komið inn myndum fyrir mig um helgina:-)

|