Monday, August 28, 2006

Íslendingar erlendis
Þeir hafa verið dálítið fréttum þessir snillingar sem hafa farið erlendis.
Fyrst skal nefna snillingana sem ákváðu að smygla dópi í gegnum Brasilíu. Síðan voru þeir handteknir og þeim hent í fangelsi. Aumingja, aumingja þeir. NOT!!! Hér gildir hið forkveðna. If you can't do the time, don't do the crime. Það hvarflar ekki að mér að vorkenna þessum mönnum. Þeir hækkuðu dómana hér fyrir burðardýr því það á að hafa forvarnargildi. Ætlið þið svo að fara að bjarga þessum mönnum? Ef það hefur ekki forvarnargildi að láta þetta lið rotna þarna þá veit ég ekki hvað. Nei, við skulum segja þessu liði að það skiptir ekki máli hversu heimskulega þú hegðar þér, við komum til með að bjarga þér.
Það er verið að fremja hryðjuverk út um allan heim. Þú mátt eiga von á því að ef þú ert að flækjast eitthvað að þú verðir vitna að, eða fórnarlamb hryðjuverka. Þetta er heimurinn sem við lifum í. Ef þú veist það ekki þá bara spyr ég hvar þú hafir verið síðan 2001? En nei. Við skulum aðeins væla yfir því að strætisvagn hafi sprungið í næsta nágrenni. Engin af Íslendingunum slasaðist eða varð meint af. Þeir meira að segja yfirgáfu vettvanginn áður en hjálp barst. En nei. við skulum væla yfir því að ferðaskrifstofan hafi ekki hlaupið til og sent liðið heim eða í áfallahjálp eða guð má vita hvað.
Eini Íslendingurinn sem ég er ánægð með er fyllibyttan út í Danmörku. Hent fyrir lest og lifði af. No biggie. Kominn út af spítala daginn eftir, beint á götuna. Sami maður búinn að reyna að drepa hann nokkrum sinnum. En svona er bara lífið þegar viðkomandi lifir á götunni. Það þýðir ekkert að væla yfir því. Enda gerir hann það ekki. Skilur bara ekkert í þessu fjölmiðlafári. Viðurkennir að hann sé fyllibytta og á götunni út af því að honum finnist hann ekki eiga neitt líf eða tilgang. Er það ekki ástæðan fyrir því að flestir enda í drykkju og dópi? Er bara heiðarlegur og ekkert væl. My kind of guy.

|

Friday, August 25, 2006

Post nr. 500
Djöfull get ég röflað mikið!!!
Fór í saumklúbb í gær. Gaman að hitta stelpurnar aftur eftir sumarið. Endaði með að sitja til tvö um nóttina að kjafta. Því miður voru ekki allar fréttir jafn góðar. Ein vinkona mín er komin í mjög öfgakennda megrun. Borðaði ekki neitt af veitingunum sem voru í boði. Hún vigtar víst allan mat ofan í sig og forðast kolvetni eins og brauð og kartöflur. Hún er búin að missa tíu kíló á tveimur mánuðum og virðist gjörsamlega heilaþvegin af einhverri kerlingu sem sér um þetta prógram og er ekki einu sinni lærður næringarfræðingur. Þetta getur bara endað illa. Annað hvort endar hún með einhverja ömurlega átröskun eða koksar á þessu öllu saman og bætir á sig þyngdinni hraðar en hún missti hana. Ég fékk hálfgert áfall og er búin að borða eins og ég fái borgað fyrir það í allan dag. Þetta var ágæt áminning um að ganga ekki of langt.
Fleiri vinir eru ekki í góðum málum. Minn fyrrverandi, sem lánaði mér hryssu sem ég hélt undir stóðhest og ég er búin að tala um áður, er fallinn á bindindinu einu sinni enn. Hann virtist vera í góðum gír í vor en ég sá að hann var kominn á yfirsnúning þegar ég hitti hann svo í sumar. Hann er að koma sér í einhverja meðferð aftur en vill frekar fara inn á Vog aftur heldur en að fara inn á alkadeildina á Landsspítalanum. Ég held að hann ætti frekar að fara þangað. Hann hefur verið þunglyndur og kvíðinn í gegnum tíðina og ég held að það sé eitthvað meira í gangi hjá honum en að hann sé bara svo mikill alki. Honum finnst hins vegar eitthvað voða erfið tilhugsun að fara inn á "geðdeild". Hann er bara búinn að fara í venjulega meðferð svo oft og ég get ekki séð að það hafi skilað tilætluðum árangri. Finnst alveg tímabært að reyna eitthvað annað. En þetta er víst ekki mitt mál. Mér finnst hins vegar alltaf dálítið vænt um strákinn og er fegin að við höfum náð að verða ágætir vinir, þótt við höfum ekki virkað sem par.
Það er nú samt ekki allt í eintómu volæði. Vinkona mín rekur videóleigu og er í vandræðum með starfsfólk núna þegar skólarnir eru byrjaðir. Þar sem haustin eru frekar dauf hjá mér því hestarnir eru í fríi ætla ég að athuga með að fara í hlutastarf hjá henni. Ætla að kíkja til hennar eftir helgina og sjá hvort þetta sé eitthvað sem ég gæti hugsað mér.
Svo ætla ég að fara núna um helgina að sækja hana Kviku mína norður í land. Hún er auðvitað fylfull þessi elska. Aðra eins frjósemisbombu er erfitt finna. Hún er líka algjör mjólkurkýr og folöldin hennar dafna mjög vel. Þegar ég hringdi norður fyrr í mánuðinum var ekki búið að staðfesta fyl í henni og ég hafði miklar áhyggjur af þessu öllu saman.
Ég fór líka í reiðtúr í dag. Er búin að ná í eitt auka hross til að hafa upp í bústað. Þá get ég tekið frekjubínurnar í sitthvoru lagi til að Ára sé ekki að stælast við mig. Fór reyndar bara á Grímu í dag en mér finnst alveg æðislegt að fara í reiðtúr. Vera út í náttúrinni. Koma upp á Hólmsheiðina og sjá yfir Elliðavatnið og allan fjallahringinn. Það eru komin krækiber út um allt. Ég gat ekki stillt mig um að týna nokkur upp í mig beint af lynginu. Skil í raun ekki hvers vegna ég flyt ekki í sveit. Veit ekki hvað heldur í mig hérna í bænum. Mér finnst yndislegt að sitja upp í bústað og horfa á hrossin út um gluggann. Ég þarf að spá í þetta.

|

Tuesday, August 22, 2006

Endalaust gaman hjá mér
Byrjum á smá upprifjun...
Í desember 2004 missteig ég mig alveg hrikalega á ökkla hægri fótar. Fór upp á slysó með bláan og bólginn fót og fékk að vita það að þetta væri "bara slæm tognun". Well it hurt like hell. Í framhaldi af því gekk ég með teygjuhólk næstu mánuði eða þar til ég missteig mig á vinstri fæti og færði stuðninginn yfir. Vinstri fótur var ekki jafn slæmur en aumur samt. Það endaði með því að ég fór til bæklunarlæknis síðasta haust. Þar fékk ég að vita að þetta tæki bara rosa tíma að jafna sig og það væri í raun ekkert hægt að gera. Meðan ekkert fleira kom í ljós.
Svo hef ég verið að hálf detta á hausinn núna síðustu mánuði. Það lýsir sér þannig að ef ég stíg á einhverja ójöfnu þá gefur fóturinn sig undan átakinu. Þegar ég var svo út í Noregi gaf fóturinn sig gjörsamlega þegar ég steig á misfellu og ég hrundi glæsilega á hausinn í vitna viðurvist. Ég pantaði því tíma hjá lækninum aftur og var þar í dag. Miðað við hvernig fóturinn gefur sig og hvernig ég brást við skoðun er læknirinn viss um að ég hafi slitið liðböndin í ökklanum. Ég er því að fara í sjúkraþjálfun næstu mánuðina til að reyna að styrkja vöðvana í kring til að þeir haldi við og styðji það sem liðböndin ættu að gera. Ef það virkar ekki þarf ég að fara í aðgerð.
Það er svo gaman að vera ég.

|

Saturday, August 19, 2006

Fake it untill you make it
Þótt fíflið hún Martha Stewart (þið þurftuð að sjá þáttinn) hafi ekki skilið þetta orðatiltæki þá er það mjög gott og á vel við mig einmitt núna.
Ég fer út að ganga á hverjum degi. Það hjálpar. Ég reyni að druslast á hestbak. Hún Ára mín er hins að taka mig dálítið á taugum. Það er greinilega mikil barátta um virðingarstigann í gangi milli hennar og Grímu. Það sést þegar ég næ í þær í hagann, það er rifist um hvor á að vera á undan. Og þegar ég fer á bak á Áru og ætla að teyma Grímu, því þær eru bara tvær og ég get ekki skilið aðra eftir, þá byrjar Ára að reyna að losa sig við Grímu og hóta mér þegar það virkar ekki. Ofan á þetta reif hún undan sér aðra framfótarskeifuna. Hún var búin að rífa hina undan sér áður. Ég var því búin að kaupa nýtt sett og skellti seinni varaskeifunni undir í dag og dreif mig svo á bak.
Svona í tilefni dagsins þá ákváðum við mæðgur að fá okkur góðan mat. Það er ekki glæta að ég myndi fara niður í bæ á menningarnótt. Við ákváðum að kaupa lambalundir á tilboði í Hagkaup. Ég steikti þær á pönnu ásamt sveppum og lauk og setti svo rjóma út á. Mér fannst maturinn ekki nógu góður. Bæði fannst mér synd að geta ekki gert hráefninu betri skil. Þar að auki fannst mér eitthvað bragð af lambakjötinu sem ég var ekki að fíla. Hef fundið þetta áður. Held að ég sé að verða eitthvað fráhverf lambakjöti almennt, veit ekki hvers vegna. Hefur alltaf fundist lambakjöt gott.
Megrunin gengur þokkalega. Er byrjuð að léttast aftur ef ég hef verið búin að nefna það. Er samt hrædd um að ég fari einhverju offari í þessu. Aldrei þessu vant er ég frekar lystarlaus. Yfirleitt borða ég þegar mér líður ekki nógu vel. Mér finnst ég farin að einblína of mikið á þessa megrun, hún er það eina sem mér finnst ganga eins og ég vil. Ef ekkert annað fer að veita mér... ja! ánægju, út af því að mig vantar betra orð, þá er ég hrædd um að þetta verði þráhyggja. Núna um daginn var ég sein fyrir og nennti ekki að laga mat og keypti því skyndibita. Eftir á var ég með samviskubit yfir þessu svindli og fór aftur út að ganga þótt ég væri búin að fara þann daginn. Ætli það, ég er svo meðvituð um þetta.
Annars er ég að lesa bækurnar hennar Patriciu Cornwell um Dr. Kay Scarpetta. Las fyrir tveimur árum bók um hana einhversstaðar aftarlega úr ritröðinni. Las svo fyrstu bókina í fyrra. Bók nr. 2 þegar ég fór til Flórída, nr. 3 þegar ég fór til Noregs og er svo búin að lesa 4 eftir að kom heim og er að klára nr. 5. Gleymi mér ágætlega í því. Það heldur eirðaleysinu í burtu. "Tvibbinn" á auðvitað allar bækurnar og skildi þær eftir handa mér í fyrra þegar hann flutti út á land.
Sá reyndar Pirates of the Carabbean nú um daginn. Það var ágæt skemmtun. Mæli alveg með henni. Ég hef oft gaman af myndum þar sem mikill hasar er í gangi. Hef aldrei skilið hvers vegna konur telja að þær hafi ekki gaman af hasarmyndum. Þá á ég nú reyndar við svona ekta hasarmyndir. Hvað getur verið skemmtilegra en að horfa á vöðvastælta og flotta gæja, sveitta og skítuga að bjarga heiminum? Og fyrir þær konur sem hafa þörf fyrir að láta bjarga sér þá ætti þessi týpa heldur, betur að passa í hlutverkið. Ég er svo þreytt á þessu að kjaftæði að konur séu svo allt öðru vísi en karlar. Höfum það alveg á hreinu að Brad Pitt er bara sæt ljóska. Mér er alveg sama hvort hann geti leikið eða ekki, svo framarlega sem hann fer úr að ofan. Haldið þið virkilega að konur séu að horfa á hann vegna leikhæfileikana? Já, konur eru svo ólíkar körlum.

|

Sunday, August 13, 2006

Dáinn, grafinn, kemur aldrei aftur
Það var hringt í mig á laugardagsmorgun, klukkan ellefu. Ég var spurð hvort ég ætti svartan og hvítan kött. Eitt augnablik náði vonin völdum á mér og ég svaraði því játandi. "Það var verið að keyra á hann hérna á Langholtsveginum. Hann er dauður." Mér tókst halda andlitinu og fá upplýsingar um hvar hann væri. Fann til stórt gamalt handklæði og plastpoka og hraðaði mér út í bíl. Það var mjög elskulegt fólk sem tók á móti mér og það var búið að breiða yfir hann þar sem hann lá við hliðina á bíl sem var lagt í götunni. Hann var ekki mikið skaddaður að sjá, ólíkt Nappa, en það hafði blætt töluvert úr honum. Ég vafði honum inn í handklæði og setti svo ofan í svarta pokann sem hafði verið lagður ofan á hann. Það var ekki fyrr að ég tók hann í fangið að ég missti mig. Hann var svo nýdáinn að hann var enn heitur og ekki farinn að stirðna. Þegar ég hélt á þessum lífvana litla líkama var mér allri lokið. Mér tókst ekki einu sinni að komast inn í bíl áður en tárin voru farin að streyma. Kom mér heim og hélt áfram að gráta. Ég grét út af Rikka, Jósefínu, Nappa og öllu öðru sem mér finnst ég hafa misst.
Stóra systir hjálpaði mér svo að grafa hann. Þriðja köttinn sem ég jarða á átta mánuðum. Það er dálítið erfitt að halda áfram að vera jákvæð. Andskotinn, það er erfitt að vera neikvæð. Það er erfitt að vera nokkurn skapaðan hlut.

|

Friday, August 11, 2006

Bara meira væl
Mér finnst flest allt ömurlegt þessa dagana.
Hélt ég væri að gera góðverk. Ég hef verið með nokkra ketti upp í hesthúsi. Auðvitað er ekki æskilegt fyrir ketti að búa við þessar aðstæður en þegar valið er milli þess og dauða... Þegar mest lét var ég með sex ketti. Ég hef alltaf nægan mat og vatn. Aðgang að kaffistofunni, sem ég byrja að kynda um leið og byrjar að kólna á haustin. Mjúk fleti fyrir alla, bæði á kaffistofunni og upp á geymsluloftinu. Og allir hafa þeir verið geltir og eyrnamerktir. En þeir hafa farið einn af öðrum og í vor voru þeir þrír. Síðan þegar ég hef verið að kíkja eftir þeim sumar hefur alltaf bara verið einn og mjög einmana. Ég ákvað því að taka hann heim. Svo vorum við búnar að hafa hann í dálítinn tíma og fórum að hafa opið út. Og í gær fór hann loksins út og hefur ekki sést síðan. Ég hefði betur skilið hann eftir einan í hesthúsinu. Ég þoli þetta ekki. Ég vil ekki standa í þessu. Ég er hvorki að gera þessum köttum eða mér sjálfri greiða með þessu.
Ég var að spá í að fara á gay pride á morgun. Veit ekki hvort ég sé í stuði til þess. Var út á landi í fyrra og Noregi árið þar á undan. Er búin að vera lengi á leiðinni. Finnst það vera tækifæri til að sýna stuðning í verki. Auðvitað ætti það að vera gaman líka en ég er ekki í stuði fyrir gaman.
Það eina sem ég fæ einhverja útrás fyrir er að ganga. Klukkutími á dag. Fannst ég óvenju orkumikil í dag. Var að hlusta á Alanis Morisett. Hún er alltaf góð til að fá útrás. Fyrsti diskurinn. Þrátt fyrir að ég taldi mig vera á fleygiferð þá var ég 55 mínútur. Ætti auðvitað að vera ánægð með það. Var meira en klukkutíma að fara hringinn fyrst til að byrja með.
Virðist vera að byrja að léttast aftur. Búin að standa í stað frá því Nappi dó. Ja, ekki alveg. Stóð mig lengi vel en eftir brúðkaupið í Noregi og vikuna þar á eftir þyngdist ég um eitt kíló. "Tvibbinn" og viðhengið voru í bænum svo að fjölskyldan var voða mikið að borða góðan mat saman og eftirrétt og svona. En ég er búin að ná þessu kíló af mér aftur og örlitlu meira. Þetta er jú árið sem ég er að missa allt annað. Að missa nokkur kíló er alveg við hæfi.
Þegar hér er komið þá eruð þið kannski að velta fyrir ykkur hvers vegna einhver sem er svona ánægður með sjálfan sig, eins og ég lýsi hér að neðan, sé í megrun. Þetta er nú ekki gert með hégóman að leiðarljósi. Ég var komin í þá þyngd að það var farið að verða hættulegt heilsu minni. Það eru bæði hjartasjúkdómar og sykursýki 2 í fjölskyldunni. Ég vaknaði allt í einu upp við þann vonda draum að ég væri farin að eldast. Ekki það að ég hafi ekki vitað að það væri annað hvort að eldast eða deyja. Og ég er ekki búin að vera eyða endalausum tíma í það að hugsa um að deyja. Ég bara gerði mér einhvern veginn ekki grein fyrir því að ég myndi lifa það að verða gömul. Ég nenni ekki að lifa fram undir áttrætt og vera við slæma heilsu allan tímann. Þetta er því tíminn til að gera eitthvað í því. Það verður bara erfiðara eftir því sem ég verð eldri.

|

Monday, August 07, 2006

Hugleiðing á frídegi verslunarmanna
Ég var heima þessa verslunarmannahelgi, big surprice. Ég er búin að vera dugleg að fara í klukkustundar langar gönguferðir á hverjum degi. Ég gerði það aftur í dag en í þetta sinn fór hælsærið alveg til helvítis. Svona í ljósi þess að ég færi ekki langt gangandi og ekki ætlað ég að keyra neitt í þessari umferð, þá var ég löglega afsökuð til að sitja fyrir framan sjónvarpið. Fyrir valinu varð heimildarmynd um Da Vinci code.
Ég ætla ekki að fara að tala um það einu sinni enn. Það sem vakti athygli mína í þetta sinn voru ummæli sérfræðings um Da Vinci. Það er víst talið að Da Vinci hafi verið hommi. Í sjálfu sér ekkert merkilegt við það. Það var hins vegar talað um að hann hafi verið hrifinn af kvenlegum drengjum. Ég hef heyrt það áður að eldri samkynhneigðir karlmenn séu víst hrifnir af ungum "kvenlegum" drengjum. Það er þetta með kvenlega hlutann sem ég skil ekki. Hvers vegna er hommi hrifinn af karlmanni sem er kvenlegur? Mér finnst þetta vera þversögn. En ég er náttla hvorki karmaður né samkynhneigð. Annars finnast mér unglingsdrengir almennt ekki kvenlegir. Mér finnast hins fyrirsætur nútímans líkjast unglingsdrengjum. Kannski var Da Vinci ekki hrifinn af kvenlegum drengjum. Kannski var ekki ásættanlegt að hann væri hrifinn af ungum drengjum og þess vegna hafði hann þá kvenlega. En þetta er auðvitað bara pæling.
Ég hef líka verið að pæla í samkynhneigð. Hvenær veit fólk að hvoru kyninu það laðast? Sumir vilja meina að allir séu einhverntímann í vafa. Ekki ég. Ég var aldrei í neinum vafa. Ég man eftir því þegar ég var barn, örugglega innan við tíu ára, þá varð ég hrifinn af Gregory Peck. Ekki kynferðislega, mér fannst hann bara mjög heillandi. Man enn eftir honum úr þessari mynd þótt ég muni ekki hvað myndin hét. Mér fundust karlmennirnir alltaf meira heillandi. Hvernig sem á það var litið, þá heilluðu þeir og það sem þeir gerðu, mig alltaf. Ég vildi alltaf frekar vera riddarinn en prinsessan. Þá væri hægt að halda því fram að ég væri í raun karlmaður fastur í kvenmannslíkama og hommi þar að auki. Á vitleysan sér engin takmörk?
Það er nebbla hægt að vera hrifin af "karllegum" hlutum og hlutverkum og vera samt hrifin af karlmönnum sem kona. Ég veit að mannskepnan hefur mikla þörf að setja alla í flokka en flokkarnir eru óteljandi. Hvers vegna er ekki hægt að leyfa fólki að vera eins og það vill vera?
Ég er samt ekki hrifin af kynskiptiaðgerðum. Ég tel að það eina sem aðskilur okkur í byrjun séu æxlunarfærin. Allt annað er innræting. Mér finnst það sorglegt að okkur sem samfélagi finnist það betra að fólk fari í stórar aðgerðir heldur en að leyfa því að vera það sjálft. Ef karlmaður vill klæða sig og lifa eins og kona, er það ekki bara í góðu lagi? Eftir hverju er fólk þá að sækjast? Lifa kynlífi sem hitt kynið? Þrátt fyrir frábæra skurðlækna þá held ég að það sé ekki eitthvað sem er hægt. Og þótt ég sé mjög hrifin af karlmönnum og flestu þeim tengdum þá finnst fullnæging karlmanna, þó að hún sé nokkuð auðfengin, frekar lítilvæg og óspennandi. Ég hef engann áhuga á að vera karlmaður.
Ég vil bara vera ég. Ég er mjög sátt við að vera kona. Ég sátt við vera lágvaxin. Það hefur ekki háð mér fram að þessu og ég hef alltaf ráðið fram úr því. Ég er ánægð með háralitinn á mér og hefur aldrei hvarflað að mér að breyta honum. Hárið á mér er líka rennislétt og það er í góðu lagi líka. Mér finnst ég bara nokkuð sæt. Ég er ánægð með augnalitinn og augabrúnirnar. Kvenlega vaxtarlagið, litlu þykku puttana, skóstærð 37, stóru mjaðmirnar og litla mittið sem veldur því að ég á erfitt með að fá buxur. Ég er hæst ánægð með þetta allt saman og myndi ekki breyta neinu. Ég held að sé bara ágætur persónuleiki líka. Skil ekki fólk sem er ekki hrifið af sjálfu sér. Þetta er líkaminn sem ég þekki og hefur þjónað mér vel. Þetta er útlitið og vaxtarlagið sem ég þekki úr fjölskyldunni. Ég myndi ekki vilja líkjast neinum öðrum.

|

Friday, August 04, 2006

Hland fyrir hjartað
Þótt ég telji að það sé nú ekki líffræðilega hægt þá leið mér nú samt þannig í dag.
Ég hef ákveðið berjast gegn þessari andlegu deyfð af hörku. Þessi barátta einkennist af hreyfingu. Ég fer út að ganga og á hestbak.
Í dag ætlaði ég svo galvösk á hestbak. Ég nennti ómögulega að fara í gær, veðrið var bara þannig. Ég fór samt upp eftir að kíkja á dömurnar. En í dag lagði ég á Áru og ætlaði að teyma Grímu með mér og skipta svo. Eitthvað var fröken Ára ósátt við þetta og mótmælti. Hún prjónaði með mig og hoppaði eitthvað, ekki beinlínis hrekkti en var með hótanir í þá átt. Þetta var engan veginn það sem ég mátti við á þessu augnabliki og ákvað ég að skríða af baki meðan ég gæti það sjálfviljug. Ég lagði samt ekki alveg árar í bát og skellti hnakknum yfir á Grímu og teymdi Áru. Ég hugleiddi hvað ég gæti gert og hvern ég gæti fengið til að fara á dömuna. Ég hélt að ég væri búin að verða mér út um framtíðar tamningarmann en mér tókst að eyðileggja á honum skrokkinn fyrir tvítugt en það er önnur saga. Allt í einu datt mér í hug að ríða upp í hesthúsahverfið í Fjárborg og nota gerðið sem þar væri. Það er skemmst frá því að segja að ég lagði á dömuna þar og fór inn í reiðgerðið. Veit ekki hvar ég fann hugrekkið til þess en ég get sagt ykkur að það var ákveðinn sigur eftir ófarir vetrarins. Það gekk svo líka svona svakalega vel að ég reið henni heim með þá gömlu í taum. Nú er ekkert annað en að fara svo aftur á morgun.

|

Wednesday, August 02, 2006

Vort daglega streð
Ég held áfram mínu daglega streði. Er búin að láta járna Grímu og Áru og farin að ríða út. Það hefur samt ekki gengið þrautalaust. Var með þær í hesthúsinu yfir helgina og fór svo með þær upp í bústað á mánudeginum. Þegar ég kom svo á þriðjudeginum og ætlaði að fara á bak var Ára búin að rífa undan sér framfótarskeifu. Ég var ekki alveg í stuði fyrir það í gær svo ég sólaði mig bara í góða veðrinu. Reyndar var ég aðeins að setja niður færanlega staura við næsta sumarbústað því ég má beita dömunum þar líka á sumum hlutum lóðarinnar. Dálítið mikið sem ég þarf að girða hist og her en það er næstum búið og ég get þá haft þær lengur upp í bústað. Ég sótti svo bara járningargræjurnar áður en ég fór upp eftir í dag og smellti nýrri skeifu undir. Síðan fór ég í reiðtúr. Það var mjög yndælt.
Ég þurfti á einhverri upplyftingu að halda. Ég er búin að vera spá í hvað er að íþyngja mér svona og veldur þessari deyfð sem ég er að finna fyrir. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að mér finnst eins og ég sé að verða eftir. Lífið heldur áfram og allir aðrir með en ég sé einhvern veginn eftir. Ég veit að þetta hljómar asnalega en svona líður mér samt. "Tvibbinn" er búinn að ná sér í mann og ef það gengur þá er hann líklega fluttur norður á land til frambúðar. Vinkona mín er búin að gifta sig út í Noregi. Ég átti svo sem ekki von á að hún flytti heim aftur en nú er hún gift og þetta orðið svo formlegt. Allir í saumklúbbnum eru farnir að búa eða eiga börn eða hvort tveggja. Meira að segja farnar að gifta sig. Aðrir vinir eru farnir að vaxa í enn aðrar áttir og hvað geri ég? Verð þrítug á næsta ári. Bý enn með móður minni. Enginn karl eða krakkar. Engar glæstar framtíðar vonir. Mér finnst ég hafi ekki afrekað neitt. Ekki það, mér finnst karl og krakkar ekkert sérstakt afrek en það er það sem samfélagið gerir ráð fyrir að við gerum. Litli kisustrákurinn minn var skref inn í nýja tíma. Tími Jósefínu var liðinn og hann var skref inn í framtíðina. En framtíðin var tekin mjög snögglega frá mér. Ég veit að lítill kisustrákur er ekki framtíðin en hann var í mínum huga tákn nýrra tíma. Lítill lukkugripur fyrir framtíðina. Ég þurfti á því að halda. Mér finnst ég hafa misst eitthvað svo mikið þetta ár og enn vera að missa eitthvað og ég get ekki komið í veg fyrir það. Kannski er það óumflýjanleg þróun að missa sumt og eitthvað annað kemur í staðinn. En það er samt erfitt þegar það gerist.

|