Saturday, September 30, 2006

Haustverkum að fækka
Ég dreif mig í Mela- og Leirársveitina í gær. Fann Drífu og Viktor. Þau líta vel út og virðast vera í ágætum haga. Það voru hins vegar engin önnur folöld í girðingunni. Var ekki ánægð með það. Svo hringdi fyrrverandi, sem á Drífu, ég á Viktor, upp úr þurru. Hann var að segja mér að hann hefði ekki farið inn á Vog eins og stóð til í gær. Hann hafði eiginlega gefið plássið eftir en sá aðili hefði síðan ekki mætt og honum verið boðið plássið en hann hefði ekki verið nógu fljótur að hafa sig til. Það kemur mikið á óvart eða þannig. Ég notaði tækifærið og spurði um hin folöldin. Þau höfðu ekki staðiðst væntingar og var slátrað. Ég er alla vega fegin að Viktor var ekki tekinn með en ég vorkenni honum að vera svona einn. Folöld vilja leika við önnur folöld eins og allt ungviði. Ég gaf þeim ekki ormalyf í gær. Ég þarf að finna út úr því en ég veit þá allavega hvar þau eru.
Ég dreif mig síðan að kíkja á útiganginn minn. Átti eftir að gefa Gleði og Dag ormalyf og klippa hófana á þeim og Glóey. Það er í sjálfu sér ekki flókið verk nema að Gleði er frekar stygg og það er engin rétt í haganum sem þau eru í. Ég tók því með mér færanlega girðingarstaura og rafmagnsband og útbjó aðhald. Það gekk bara svona ótrúlega vel að ná liðinu og klára dæmið. Ég sem var búin að vera að fresta þessu.
Þá eru bara eftir litlu graddarnir mínir. Ég er að bíða eftir að heyra í stráknum sem er með þá. Hann er með hrossin sín þarna og ég er að bíða eftir að hann fari að gefa þeim ormalyf. Ég var búin að tala við hann og hann ætlaði að láta mig vita hvenær það yrði. Mér finnst það nú alveg orðið tímabært.

|

Friday, September 29, 2006

Myrkvunin misheppnuð
Fyrir þá sem eru ekki staddir á klakanum: Þá átti að slökkva öll götuljós í borginni í gær í tengslum við kvikmyndahátíð til að borgarbúar gætu séð stjörnurnar.
Mér fannst þessi hugmynd skemmtileg. Því miður var orðið nokkuð ljóst að það yrði skýjað og ekki myndi sjást mikið af stjörnum. Enga að síður langaði mig að sjá hvernig borgin myndi líta út þegar búið væri að slökkva meirihluta af ljósum hennar. Fólk var auk þess hvatt til að slökkva ljósin heima hjá sér. Fólk var ekki að taka þátt. Rétt hjá heimili mínu er byggingarsvæði. Þar er stór byggingarkrani og á honum var flóðlýsing yfir byggingarsvæðið. Í húsunum í kringum mig voru íbúðir uppljómaðar og kveikt á útiljósum. Þrátt fyrir að fólk hafi verið beðið um að vera ekki á ferð voru bílar út um allt, auðvitað með fullum ljósum. Ég sá satt besta að segja ekki mikinn mun og varð fyrir miklum vonbrigðum.

|

Thursday, September 28, 2006

Það er margt í mörgu...
Er ekki stærsta málið í dag Kárahnjúkar? Ég er fullkomlega hlynt því að lónið verði fyllt, úr því sem komið er. Satt best að segja er ég ekki hlynt virkjunum og ég á eftir að sjá hvað við græðum svona mikið á þessu. Er spennt að sjá hvort að fólki eigi eftir að fjölga á Austfjörðum. Ég hef mínar efasemdir. En ég viðurkenni að það er auðvelt að sitja hér í Reykjavík og segja að það megi ekki virkja eitthvað svæði sem ég hef aldrei séð og vissi ekki einu sinni að væri til þar til þetta mál allt byrjaði. Jújú, þetta virðist vera fallegt svæði en það eru engar ómissandi náttúruperlur þarna. Engin einstök fyrirbæri. Og satt best að segja þá myndi ég ekki verða fastagestur á þessu svæði þótt það yrði friðað. Þetta kostar reyndar okkur öll peninga og það er það sem er ég sennilega minnst sátt við. Ég tel hins vegar að við ættum að leyfa austfirðinum að ráða hvað þeir gera við sinn landshluta. Hins vegar, ef þessi stífla brestur og hálfir Austfirðirnir skolast burt skulu þeir ekki koma vælandi til okkar hinna. Þið fenguð það sem þið vilduð nú skuluð þið lifa með því.
Annars fékk eina af mínum klikkuðu hugmyndum nú um daginn. Ég er búin að vera staðráðin í því að fara að heimsækja "Tvibbann" norður í land núna í haust. Það sem mér datt í hug var að fara lengri leiðina norður. Það er fara Austfirðin og koma við á Kárahnjúkum. Mig langar að sjá þetta stóra mannvirki fyrst og fremst. Ooog... vinkona mín vinnur á Kárahnjúkum og er búin að gera lengi. Var að spá í að heimsækja hana í leiðinni. Þótt ég hitti hana þegar hún kemur í bæinn þá er ákveðin stemmning að heimsækja hana þangað, þar sem þetta er búinn að vera stór hluti af hennar lífi í þó nokkurn tíma. Ætla að athuga þetta mál.
Annars fór mamma í kransæðamyndartöku í gær. Þetta veldur mér meiri áhyggjum en ég hef viljað viðurkenna. Veit að mútta var stressuð yfir þessu svo ég var að reyna að vera "rödd skynseminnar". Ef eitthvað er að sé betra að vita það strax því það eykur líkurnar á því að það sé hægt að gera eitthvað við því. Ef allt sé í lagi, þá er gott að vita það. Ég fór með í gær og fylgdi múttu í gegnum dæmið. Hún var með svo hraðan hjartslátt að það þurfti að gefa henni lyf til að hægja á honum til að hægt væri að taka myndirnar. Það auðvitað eykur áhyggjurnar. Auk þess var blóðþrýstingurinn óvenju hár þegar hann var mældur síðast. Nú er ég að reyna að vera ógeðslega skynsöm í sambandi við þetta allt. Ég er samt pínu stressuð.
Svo er ég að fara til Noregs aftur núna í nóvember. Vinur minn ætlar að reyna að koma með. Það minnir á gamla tíma. Við vorum mikið saman í kringum hestana á sínum tíma. Þótt það hafi verið gaman í sumar þá var þetta auðvitað ekki venjuleg heimsókn og við höfðum ekki mikinn tíma með brúðhjónunum. Það verður líka reiðnámskeið úti og tvöfaldur heimsmeistari sem kennir. En í mínum huga er það bara auka skemmtun. Ég væri alveg til í fara þótt eina skemmtunin væri að fóðra kýrnar og moka flórinn.

|

Monday, September 25, 2006

Kaldhæðni örlaganna?
Fyrir rúmum tuttugu árum fórum foreldrar mínir á árshátíð. Eftir skemmtanir kvöldsins ætluðu þau heim. Meðan þau biðu eftir leigubíl ákvað faðir minn að skreppa á salernið. Þegar hann var nýbúinn að þvo sér um hendurnar kemur maður inn á salernið og ræðst á pabba. Hann slær hann einu hnefahöggi og við það fellur pabbi við og skellur með höfuðið í posturlínsvask. Pabbi fékk gat á hausinn en vaskurinn brotnaði. Maðurinn hafði farið mannavilt og átti ekkert sökótt við pabba.
Í dag var maður dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að slá mann, einu höggi, með þeim afleiðingum að slagæð rofnaði og maðurinn dó. Maðurinn sem dó var sonur mannsins sem sló föður minn forðum daga.
Syndir feðranna...

Þessu tengt,
þá var pabbi með mjög stóran og harðan haus. Hann var einu sinni að skjóta upp gömlu neyðarblysi á gamlárskvöldi. Blysið reyndist gallað og sprakk niður um rangan enda. Pabbi hafði haldið blysinu beint fyrir ofan sig og blysið sprakk því í hausinn á honum. Hann fékk bara gat á hausinn og missti ekki meðvitund eða neitt.
Eins og þeir sem þekkja mig vita þá erfði ég þetta stóra þykka höfuð. Það hafa tvö hross prjónað á mig og slegið mig í höfuðið. Það þurfti samtals að sauma þrettán spor í hausinn á mér. Það hefur líka hestur sparkað í gagnaugað á mér með afturfæti. Öll hrossin voru á járnum. Ég hvorki vankaðist né missti meðvitund.
Ég erfði líka þrekið vaxtarlagið, sem ég er mjög sátt við, enda mjög sterk miðað við kyn. Því miður erfði ég líka viðkvæmt mjóbak frá honum enda fengum við bæði brjósklos 21 árs.
Á morgun eru tíu ár síðan pabbi dó. Tíminn líður.

|

Sunday, September 24, 2006

Svínalundir
Við mæðgurnar fórum út að versla á föstudaginn. Móðir mín hafði líst því yfir að hana langaði í svínalundir á laugardeginum. Þótti mér þetta eitthvað undarlegt allt saman. Hún talaði um svínalundirnar í fleirtölu. Ég þóttist full viss um að við myndum ekki kaupa margar. Enda þegar við komum að kjötborðinu sá ég að svínalundirnar voru talsvert stórar. Mútta talaði samt enn um lundirnar í fleirtölu. Ég sagðist nú vilja vita hvað ein vóg áður en ég færi að kaupa fleiri. Raunin varð sú að við keyptum eina. Hún var nóg í tvær máltíðir.
Við þetta sama tækifæri keypti ég ananas, ferskan og í heilu lagi. Ég hafði gert tilraun til að kaupa ananas áður en hann reyndist trénaður og óætur. Þessi var hins vegar mjög góður. Endaði á því að ég borðaði hálfan ananas á föstudeginum. Ég varð að hætta því mig var farið að svíða í tunguna. Og hún er enn aum, nú á sunnudagskveldi.
Annars hefur megrunin farið eitthvað farið fyrir ofan garð og neðan síðustu tvær vikur. Ég fór t.d. í bakarí bæði í gær og í dag. Mig langar ekkert að stíga á vigtina núna aðra vikuna í röð. En það þýðir ekkert að gefast upp. Ég tók mig einmitt til og ákvað að laga saumsprettu á buxum sem ég á til að gá hvort ég kæmist ekki orðið í þær. Og mikil ósköp, ég kemst í þær. Svo nú er bara að hætta að vera svona "góð" við sjálfan sig og taka sig á. Ég held samt að það sé mjög heilbrigt að taka sér pásu frá megrun. Það er nú ekki eins og ég sé að eta einhver ósköp og bæta á mig aftur.
Ykkur finnst nú kannski þetta megrunartal vera búið að vera lengi viðvarandi. En málið er það að af miklu var að taka. Ég er nú svona circa hálfnuð núna. Miðað við markmið. Það verður svo bara að koma í ljós hvort það markmið sé raunhæft þegar nær dregur. Þegar ég er búin með 75% nefni ég kannski einhverjar tölur í þessu sambandi.

|

Friday, September 22, 2006

Fallegur dagur í dag
Já, það var fallegt og gott veður í dag. Ég ákvað að nota daginn til að sækja Glóey og Gabríel. Þau litu vel út en ég get ekki séð að Gabríel verði grár eins og faðir sinn, damm! Glóey var ekki fylfull eins og ég hef nefnt áður og þá á ég allt í einu auka fjörtíuþúsund sem áttu að fara í folatoll. Alltaf að líta á björtu hliðarnar. Ferðin gekk vel og mun styttra að fara núna en þegar ég sótti Kviku. Þau voru mjög ánægð að koma aftur í hagann til hinna hrossanna sem þau þekkja. Núna vorkenni ég Kviku því að ég ætla að taka Glóey inn í vetur. Þær eru greinilega góðar vinkonur og halda mikið saman í haganum. En Gleði og Dagur eru þarna og fleiri hryssur sem þau hafa verið með undanfarin ár.
Þegar ég kom með þau í hagann fann ég ekki Gleði strax. Svo sá ég að hún hafði farið yfir lækinn og hékk föst á smá ræmu með fram girðingunni sem aðskilur næsta hólf. Ég fór því að ná í hana og þar sem hún er röltstygg varð ég að reka hana á undan mér. Mér tókst svo loks að fá hana til að láta sig gossa ofan í lækinn og síðan þurfti ég að vaða í læknum og klöngrast á bakkanum, sem var allur í þúfum og skorningum, til að reka hana upp hinum megin. En það hafðist og hún var rosalega ánægð að vera komin aftur til hinna. Algjör kjáni. Hefði náttla farið sjálf yfir á endanum en ég gat ekki skilið hana eftir fyrst ég var á staðnum.
Nú er ég spennt að fara að sjá Viktor litla en minn fyrrverandi hefur auðvitað ekki haft samband. Finnst örugglega stórmál að fara og gefa þeim ormalyf. Það verður að koma ormalyfi í þau til að það hái honum ekki í vextinum. Ormar fara mjög illa með ungviðið. Ég þarf reyndar líka að koma ormalyfi í Gleði og Dag. Það verður eitthvað ævintrýri að ná Gleði en ég gaf þeim ormlyf í vor og þau líta vel út svo ég hef ekki jafn miklar áhyggjur af þeim. Þá er allt að komast í réttar skorður fyrir haustið. Síðan byrjar gamanið aftur í desember. Ég er nú bara dálítið spennt. Hlakka til að fara að þjálfa hrossin aftur.

|

Thursday, September 21, 2006

Life goes on
Það var hringt í mig í gær út af hryssunni minni sem er hjá stóðhesti. Hún er ekki fyfull. Dæmigert. Ég fæ sem sagt ekki folald undan Suðra frá Holtsmúla. Það er stefnt með hann á heimsmeistaramót á næsta ári, þannig að þetta verður líklega síðasta sumarið sem hann er í notkun á landinu. Það er ekkert vit að láta hryssuna ganga úti í vetur til að hann hún verði akfeit næsta sumar og gjörsamlega ófrjó. Svo ég ætla að taka hana inn í vetur og trimma hana. Þá er hesthúsið orðið næstum því fullt. Verð með fimm hross á járnum í vetur. Úff, það verður nóg að gera.
Fór með Snotru í tannhreinsun í morgun. Sæki hana seinna í dag. Litla skinnið. Hún titraði af stressi í búrinu þegar ég skildi hana eftir. En það verður að gera þetta. Annars fær hún tannholdsbólgu og getur misst tennurnar í kjölfarið. Það er ýmislegt sem fylgir því að eiga dýr.

|

Wednesday, September 20, 2006

Er maðurinn fífl???
Ónefndur lögfræðingur hér á landi ákvað að gera athugasemd við tillögur dómsmálaráðherra um breytingar á löggjöfinni varðandi nauðgun og misneytingu. "Það sé ekki rétt að leggja misneytingu að jöfnu við nauðgun. Það sé nú tvennt ólíkt að koma fram vilja sínum þegar einhver sé meðvitundarlaus heldur en þegar það er gert með ofbeldi." Það er ekki til neitt sem heitir ofbeldislaus nauðgun, þótt þú kallir það misneytingu. Nauðgun er alltaf ofbeldi, hvort sem fórnarlambið er með meðvitund eða ekki. Það hefur alltaf farið í taugarnar á mér að þetta hafi verið skilgreint með mismunandi hætti.
Ég myndi vilja spyrja þennan lögfræðing hvort hann vilji ekki láta taka sig í rassgatið, hann má vera meðvitundarlaus á meðan, það ætti nú samkvæmt honum sjálfum ekki að vera svo mikið mál. Það væri nú ekki eins og væri verið að beyta hann ofbeldi.

|

Sunday, September 17, 2006

Að deyða dýr
Þessi færsla er búin að vera í hausnum á mér í dálítinn tíma. En ég læt hana loksins flakka eftir að hafa verið að lesa færslu hjá Sívari. Hann var annars vegar að tala um fugl sem hann aflífaði og hins vegar um fugl sem hann bjargaði. Ég gæti ekki verið meira sammála honum.
Ég lét svæfa hana Jósefínu mína og svo hef ég látið fella nokkur hross. Þetta var allt saman alveg drullu erfitt. Sumir voru hissa að ég væri að standa í að fella hross í staðin fyrir að senda þau bara í sláturhús. Ég hef sent hross í sláturhús. Það er dýrt og erfitt fyrirtæki að fella og grafa hest. Hrossin sem ég lét fella áttu það inni hjá mér að vera grafin og ég myndi fylgja þeim á leiðarenda. Það var það eina sem ég gat gert fyrir þau. Það er ekki hægt að horfa á þau þjást. Jósefína var farin að eiga erfitt með andadrátt og farin að fá bjúg. Rán, hryssa, var úr mjaðmalið og þjáðist stöðugt. Hún var komin með legusár því það var svo erfitt fyrir hana að standa. Það tók bara svo langan tíma að komast að hvað væri að henni. Því lét ég fella Sögu og Sleipni áður en það gerðist. En það var erfitt að taka þessa ákvörðun. Mér fannst ég andstyggilegur svikari að gera þetta. Ég hafði hugsað um þau og unnið traust þeirra og núna hélt ég í þau meðan dýralæknirinn sprautaði þau með efni sem myndi drepa þau. Mér leið hræðilega.
Mér hefur alltaf fundist fáránlegt þegar fólk hættir að borða kjöt því það er dýravinur. Húsdýr hafa verið ræktuð sérstaklega í þúsundir ára til að vera gjörsamlega háð okkur. Hvað ætlum við að gera við þessi dýr ef allir hætta að borða kjöt? Engin tekur að sér að sjá um þau fyrir ekki neitt. Auk þess verður alltaf að grisja stofninn. En sannleikurinn er sá að ef ég ætti að drepa þau sjálf þá gæti ég það ekki. Þegar ég var að keyra um sveitir landsins í sumar og var að horfa á litlu lömbin fékk ég alveg sting. Hvernig get ég verið að borða þessi grey? Það hefur því hvarflað að mér að hætta að borða kjöt. En þá er ég komin í þversögn við sjálfan mig og ekki í fyrsta sinn.
Ég er líka mjög hlynt því að fullnýta dýrin sem við slátrum. Þess vegna borða ég svið og jafnvel pínu hrútspunga á þorranum, geng í lopapeysum og nota mikið leður í kringum hestamennsku. Ég er mjög mikið á móti loðdýrarækt. Þoli ekki að það sé verið að ala og slátra dýrum bara fyrir útlit mannskepnunar.
Ég hef bæði fundið slasaða fugla og kettirnir komið með inn með meidda fugla. Ég lét þá í kassa með vatn og korn og séð til hvort þeir lifi. Þeir hafa allir dáið. Ég vissi að þeir myndu deyja en ég gat ekki fengið mig til að enda þjáningu þeirra. Mér fannst ég algjör aumingi að geta ekki gert þetta. Í staðin lét ég þá þjást lengur en þeir þurftu.
Ein vinkona mín sagði að við ættum að líta á það sem blessun að við gætum linað þjáningar dýranna okkar. Ég er sammála henni í því. En þetta er alltaf erfitt.

|

Ofát og fleira þessa helgina
Saumklúbburinn er búin að reyna að koma sér saman um dag fyrir grillveislu í allt sumar. Loks höfðu flestir tíma 16. september. Ég samþykkti þann dag án þess að muna að litla frænka ætti afmælið. Minnið er farið að gefa sig með árunum. En... það var ákveðið að hafa kaffiboð því það er orðið svo áliðið að fólk var ekki í stuði fyrir grillveislu. Any way, ég sem sagt át allt of mikið af kökum í gær. Meltingin ákvað svo að refsa mér harkalega fyrir að þetta ofát. Byrjaði á því að æla þegar ég kom heim í gærkvöldi og líða svo alveg hrikalega allt kvöldið. Ég ætla ekki að segja ykkur hvað meltingin er búin að vera gera mér í dag. Ég hins mjög þreytt og tuskuleg eitthvað. Líður hálf undarlega. Ofnæmið er verra, klæjar í augun og lekur úr nefinu. Ég fór út að ganga til að hressa mig en fékk bara hræðileg hælsæri á báða fætur. Eins og það sé ekki nóg þá á að vera kaffi fyrir litlu frænku á eftir. Ég má við því að fara að borða fleiri kökur.
Svo fékk ég hræðilega hugmynd í gær sem ég er að reyna að losna við. Karlinn sem er búinn að vera að troða upp á mig hrossum allt árið var að tala um að losa sig við eitt hrossið. Þetta hross heitir Núpur og er 13v. Hann var til þvílíkrar fyrirmyndar í gær í kaffiboðinu. Boðið var upp í bústað þar sem ég er með þrjú hross. Núpur kom að tala við börnin og gerði mikla lukku. Þau stóðu allt í kringum hann og klöppuðu og föðmuðu og hann stóð bara kyrr og góður. Svo leyfði hann þeim að teyma sig út um allt og sýndi þeim mikla þolinmæði. Svo mér datt í hug hvort að ég ætti að kaupa klárinn. Fjölskyldan hefur svolítinn áhuga að koma með mér í hesthúsið og hann væri alveg tilvalinn því hann er svo þægur. Ég gæti líka þjálfað upp ganginn í honum, til að hann yrði betri. En það er einmitt það sem mig vantar, eitt hross í viðbót. 14 stykki er ekki nóg.
Talandi um hrossin. Minn fyrrverandi fór að sækja hryssuna sína í gær og son hennar sem ég á. Viktor litli er að verða grár eins og móðir sín. Ég er svo ánægð. Ég er búin að sjá fyrir mér í allan vetur að fá gráan, faxprúðan hest og það varð úr. Ég var bara svo upptekin þegar fyrrverandi hringdi að ég gleymdi að spyrja hvort hann hefði gefið þeim ormalyf og klippt hófa á hryssunni. Nú svarar hann mér ekki í síma. Líklega útúr dópaður einhversstaðar. Og ég veit ekki einu sinni almennilega hvar hryssan og folaldið eru. Ég hlýt samt að komast að því fljótlega og þá redda ég þessu.
En núna er ég að fara að borða meira af kökum.

|

Thursday, September 14, 2006

Ég er svo dugleg
Ætla aðeins að hrósa sjálfri mér núna.
Það er búið að liggja fyrir hjá mér að taka hryssurnar þrjár og folöldin þeirra, sem eru á Kjalarnesinu, gefa þeim ormalyf og sleppa þeim svo í haustbeitina. Þar að auki tók ég eftir því um daginn að hún Ísadora litla var komin með framvaxna hófa. Nú hef ég oft verið með folöld áður en þetta er í fyrsta sinn sem ég hef séð folald með svona vaxna hófa á þessum árstíma. Yfirleitt hefur verið nóg að spá í hófana á þeim þegar þau koma inn fyrsta veturinn. Ég sá ekki alveg fyrir mér að ráðast á folald í fyrsta skipti, setja á það múl og rífa svo upp lappirnar og klippa hófana. En yndæli, MYNDARLEGI, ungi maðurinn (hahahahaha) sem passaði mömmu fyrir mig í sumar var búinn að bjóðast til að hjálpa mér. Það er gott að eiga góða vini.
Ég ákvað því að drífa mig upp eftir í dag og laga gerðið, svo hægt væri að ná folöldunum. Það er nebbla dálítið gróft að fá einhvern til að hjálpa sér að ná hrossum og segja svo þegar á hólminn er komið: "Heyrðu! Við þurfum að aðeins að smíða gerði fyrst." Jæja, ég lagaði gerðið svona þokkalega. En fyrst ég var byrjuð þá varð ég að reyna. Svo ég setti hryssurnar og folöldin inn í gerðið. Náði Ísadoru, smá læti að koma múlnum á, en svo þegar var búið að binda hana þá stóð hún eins og stytta. Ég gat tekið upp allar lappir og klippt hófana ein. Hún hreyfði sig ekki. Var alveg jafn þæg þegar ég stakk ormalyfinu upp í hana. Ég tók svo hinar tvær mæðgurnar og gaf þeim ormalyf. Hin folöldin voru ekki alveg jafn samvinnuþýð. En það gekk. Og nú eru þær komnar í haustbeitina. Er ég ekki dugleg?

|

Tuesday, September 12, 2006

Eldast eða deyja
Það er víst ekki um annað að ræða. Ég hafði hins vegar aldrei gert ráð fyrir því að verða gömul. Ekki það að ég hafi hugsað mér að deyja á næstunni. Ég hafði bara í einhverju svartsýniskasti, sem hefur verið viðloðandi lengi, ekki gert ráð fyrir að lifa nógu lengi til að verða gömul. En ég áttaði mig allt í einu á því að ég er að eldast og ef það heldur áfram þá verð ég gömul. Mig langar hins vegar ekkert til að lifa við hjartasjúkdóma, sykursýki, stoðkerfisvandamál og almennt ömurlega heilsu eins og stefndi í. Ég ákvað því að gera eitthvað í málinu. Þess vegna er ég farin að borða hollari mat. Hreyfa mig meira. Léttast. Styrkja líkamann. Þess vegna dreif ég mig í sjúkraþjálfun til að gera eitthvað við þessum slitnu liðböndum. Ég ætla að halda líkama mínum eins hraustum og ég get til að hann endist mér sem best. Ég er sem sagt farin að búa mig undir að verða gömul. Það er dálítið skrýtin en notaleg tilhugsun.

|

Monday, September 11, 2006

Mánudagur til mæðu
Ég fór í bústað um helgina með hestafólki. Skemmti mér ekkert ægilega. Þetta er var fólk sem ég er búin að þekkja í mörg ár í gegnum hestamennskuna. En, því miður, þá hefur mín hestamennska þróast í aðra átta síðast liðin ár. Og fyrir utan hestamennskuna eigum við ekki mikið sameiginlegt. Ég var því hálf fegin að fara heim á sunnudeginum. Endaði á því að keyra lang leiðina heim í bílalest. I just hate that.
Á leiðinni heim hringdi ég í minn fyrrverandi til að forvitnast um hryssuna hans, en ég á folaldið sem gengur undir henni. Ég hef ekki séð gaurinn minn í meira en mánuð og hlakka mikið til að sjá hvernig hann hefur braggast í sumar, folaldið þ.e.a.s. Minn fyrrverandi er alki og dópisti. Hann var edrú meðan við vorum saman en hann sagði mér upp þegar ég var farin að standa í vegi fyrir því að hann gæti fallið í friði. Hann hefur verið í neyslu með hléum síðan. Núna í haust sagði hann mér svo að hann væri fallinn einu sinni enn og væri að bíða eftir því að komast í meðferð. Þegar ég hringdi var hann mjög undarlegur í símann og ég endaði á því að spyrja hvort hann væri enn í neyslu. Hann hafði áður gefið í skyn að hann væri hættur en væri bara að bíða eftir að komast inn í meðferð, sem honum fannst hann samt ekki þurfa á að halda. Sannleikurinn er hins vegar sá að hann er bara í bullandi neyslu og hafði ekki sofið í meira en sólarhring þegar hér var komið. Hann var óvenju ræðinn og fór að segja mér í löngu máli hversu djúpt hann væri sokkinn. Ég fékk hálfgert sjokk og var næstum farin að æpa í símann hvað hann væri eiginlega að gera og hann ætti að hætta þessari vitleysu og drullast í meðferð hið snarasta. Eftir að hafa hugsað málið um kvöldið komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki mitt vandamál og ég gæti ekki staðið í þessu. Ég get ekki bjargað öllum heiminum, mér ætti að vera orðið það ljóst.
Flestir minnast atburðanna 11. september 2001. Ég ætla nú ekki að segja mér hafi ekki fundist þeir hræðilegir og þeir hafa vissulega breytt heimnum sem við lifum í. Þennan dag 2004, hins vegar, þurfti ég að fella mín aðal reiðhross til margra ára, Sögu og Sleipni. Voðalega líður tíminn.
Það var nú samt ekki allt hræðilegt þessa síðustu daga. Ég stóð vaktina á videoleigunni í dag, fyrsta skiptið ein og óstudd. Held að ég hafi bara staðið mig ágætlega. Það kemur bara þá í ljós hvort ég hafi komið öllu í uppnám.
Ég myndi alveg þiggja einhverjar jákvæðar fréttir á næstunni.

|

Thursday, September 07, 2006

Sögur af mér
Það er nú ekki mikið að gerast hjá mér. Ég er byrjuð í sjúkraþjálfun. Það felur í sér að halda jafnvægi á öðrum fæti, standandi á einhverjum púða. Það er ekki jafn auðvelt og það hljómar. Það er búið að setja upp æfingaprógram fyrir mig. Líka fyrir fyrir aðra hluta líkamans. Hlakka mikið til að fara að rúlla mér fram og til baka á einhverjum stórum bolta, eða þannig.
Ég er búin að standa nokkrum sinnum vakt á videoleigunni. Það gengur alveg þokkalega. Er ekki alveg farin þekkja tóbakið og gosið. Allt of mikið úrval af þessu dóti. Það átti að kenna mér á vélina sem gerir við diskana. Hún ákvað að vera með einhvern mótþróa. Var ekki alveg að ganga. Það er nú samt farið að halda að það sé eitthvað að vélinni en ekki mér.
Mér dettur annars slagið í hug eitthvað skemmtilegt til að blogga um en ég fer svo sjaldan á netið orðið að ég er alltaf búin að gleyma því þegar á reynir. Oh, well. Kannski hef ég eitthvað skemmtilegra að segja á næstunni.

|