Tuesday, September 25, 2007

Það er margt í mörgu...
Hef ekki nennt að blogga en hef ekki setið auðum höndum.
Ég skrapp til dæmis norður í land að heimsækja "Tvibbann". Flaug norður, þvílíkur munur, 45 mínútur í staðin fyrir 5 klukkutíma. Þetta eru samt óttalegar rellur sem eru í innanlandsfluginu. Finnst þær hristast óþarflega mikið til í aðflugi. Svo var ég náttla með gott útsýni yfir annað lendingarhjólið. Mjög gaman svona í ljósi þess að þetta var samskonar lendingarbúnaður og bilaði á tveimur vélum erlendis fyrr í þessum mánuði. En lendingarbúnaðurinn var í lagi í bæði skiptin og mér létti stórum.
Átti svo ágæta daga hjá "Tvibbanum". Borðaði fullt af nammi, horfði á dvd, fór í göngutúr og hafði það bara almennt gott.
Það var svo tekin spelkan af henni Snotru, kisu, litlu í gær. Mér brá ekkert lítið. Bjóst við að það hefði kannski nuddast eitthvað hár af á þessum tíma, sex vikum, en það var töluvert meira en það. Löppin á greyið dýrinu hafði hreinlega soðnað og hárið fór af í klepruðum fliksum. Húðin er svo rauð og viðkvæm undir. Loppan sjálf var verst og greinilega mjög aum og bólgnaði með kvöldinu. Ég fékk með skerm, svona ef hún skildi sleikja sig til blóðs og bakteríudrepandi krem til að bera á hana. Daman var búin að sleikja sig til blóðs áður en við komumst út af spítalanum svo skermurinn fór á um leið og við komum heim. Hún var heldur ekkert á því að láta koma við löppina á sér, þannig að það voru slagsmál að koma kreminu á hana, auk þess hún fann greinilega til. Ég var ekki sátt. Það er hræðilegt að horfa á dýrin sín þjást og geta ekkert gert. Ég ákvað að gefa henni pensilín sem ég átti, pensilín fyrir dýr, og fannst það hafa hjálpað henni eitthvað. Ég hringdi samt á spítalann í morgun og sagðist vilja láta gera eitthvað fyrir hana. Það var auðsótt mál og við fórum upp eftir. Einhverra hluta vegna, og þetta hefur aldrei komið fyrir hana áður, þá pissaði hún í búrið. Það var náttla alveg ótækt að hennar hálfu, hún kvartaði mikið og hálf trylltist í búrinu. Svo ég þurfti að stoppa út í kanti á einni stærstu umferðaræð borgarinnar, sem betur fer ekki á háanna tíma, og ná henni út úr búrinu. Hún var mun sáttari við að komast í fangið á mér en þar með var ég líka komin með hlandblautan kött í fangið. Við lyktuðum því vel þegar við komum á spítalann. En hún fékk sýklalyf og verkjalyf og var mun sáttari þegar hún kom heim, þótt hún hefði hvæsst hressilega á dýralækninn.
Það er von á norsurum til landsins í vikunni, stefnan sett á Laufskálarétt. Í tilefni af því ákvað ég að drífa í að setja litla burra í smá "make over" sem var löngu tímabært. Fór með hann í alþrif, þannig að hann glansar að innan jafnt sem utan. Ætli það sé ekki komið ár síðan hann fór síðast. Bað þá líka um að skola pallinn á honum. Það var komið sjálfstætt lífríki í skottið. Það er ekki í fyrsta sinn sem það gerist. Keypti líka ný dekk undir græjuna í dag. Ég var farin að skauta svolítið á hringtorgunum í bleytu í sumar. Dekkin orðin þriggja ára gömul og líklega keyrð eina 70.000km. Þetta var því orðið tímabært en ég ákvað að drífa í því áður en ég fer með fullan bíl af fólki norður í land.

|

Friday, September 14, 2007

Reyni að hafa eitthvað fyrir stafni
Mútta varð vör við það að ég væri ekki nógu hress svo hún stakk upp á verslunarmeðferð. Svo daginn sem fyrsta haustlægðin steig á land, með tilheyrandi roki, fórum við að versla í Ikea. Okkur vantaði nýtt rúm upp í bústað og nýja dýnu í annað. Það er alveg ótrúlegt hvað þeim finnst sjálfsagt að hafa í sjálfsafgreiðslu í þessari búð. Það er ekkert grín að koma tveimur dýnum, tveimur yfirdýnum og einu rúmmi á þessar litlu kerrur sem þeir bjóða upp á. Ég þurfti líka að rifja upp gamla takta í klifri til að ná í yfirdýnurnar. Þessar hillur eru ekki beint aðgengilega fyrir litlar konur, sérstaklega þegar dótið er í annari eða þriðju hillu. En þetta tókst nú samt allt og stráknum á kassanum fannst ég greinilega mjög fyndin þegar ég kom með drekkhlaðna kerruna. Það er heldur ekki voðalega sniðugt að versla stóra hluti í flötum pakkningum í miklu roki. Ég þurfti að stíma kerrunni á staur til að fljúga ekki út af hleðslu planinu. Þar skildi ég múttu eftir, hangandi á staurnum, meðan ég sótti bílinn. Þetta tókst nú samt allt saman og við komum dótinu upp í bústað. Við ætlum síðan að kíkja upp eftir á morgun og setja saman rúmið.
Í dag, aftur á móti, stakk mútta upp á því að skreppa upp á Leirá að kíkja á Kviku og lillu skrillu. Hún hafði voðalegar áhyggjur af þeim mæðgum því það voru smá hlaup og læti þegar við komum með þær. Það er nú alvanalegt þegar komið er með ný hross í haga, en mútta er bara nýlega farin að koma með mér í þetta hestastúss og skilur ekki þessi læti í hrossunum. Ég ákvað því að nota ferðina og klippa hófana á tryppunum og gefa þeim ormalyf. Það gekk nú ekki alveg þrautalaust. Reyndar voru Ísadora og Embla, sem eru bara veturgamlar, alveg til fyrirmyndar en þessi þriggja vetra voru með uppsteyt. Dagur var eitthvað uppveðraður út öllum hinum hrossunum og ætlaði sko ekki að leyfa mér að taka upp afturfætur. Það hafðist samt með tíma og lagni. En þegar ég var búin að klippa hófa á þremur þeirra var ég ekki bara komin með blöðru á löngutöng heldur búin að rífa hana upp all hressilega. Ég fæ alltaf blöðru á löngutöng þegar ég er að klippa hófa, ossið bara skilur þetta ekki. Svo ég klippti ekki hófana á Gleði, hún fékk bara ormalyf. Það gekk betur en seinast. Ég batt hana bara strax fasta og dreif svo sprautuna upp í hana. Þetta nafn á henni er svo mikið rangnefni að það er eiginlega ekki fyndið. Það verður fróðlegt hvernig hún verður í tamningu. Hún er reyndar nokkuð þæg þegar ég er að klippa á henni hófana, en það verður ekki gert fyrr en puttinn er gróinn. Þá ættu allir að vera í góðu standi fyrir haustið eða þar til ég tek inn hross.
Ég er mun hressari þegar ég fer svona út. Verð að vera dugleg að halda því áfram.

|

Tuesday, September 11, 2007

Hár og hesthús
Ég skrapp í klippingu í hádeginu í dag. Stúlkan mundi greinilega ekkert eftir mér því ég fékk nákvæmlega sömu rulluna um hárið á mér og síðast. Ég er víst með sérstaklega heilbrigt og vel hirt hár. Jamm, það er líka það eina sem ég nenni að standa í að hirða sérstaklega um.
Ég fór svo seinni partinn upp í hesthús. Hesthúsið er búið að vera í "útleigu" í allt sumar. Það eru búin að vera tvö tamningartryppi þar, reyndar lengur en talað var um en það skiptið engu máli. En það átti eftir að moka út og það fór í taugarnar á mér svo ég dreif í því. Fyrst ég var byrjuð að moka ákvað ég að halda því áfram. Fór út og mokaði frá brotna veggnum í taðþrónni. Verktakinn sem braut hana hefur ekki gert við hana og ég nenni ekki að standa í þessu lengur. Þetta er ekki þess virði að fara í lögfræðing og ég get ekki hugsað mér að hafa vegginn svona lengur. Þetta er bara of druslulegt fyrir minn smekk. Svo ég er að undirbúa mig fyrir að fara að steypa.
Eftir að hafa verið upp frá langar mig alveg hryllilega að taka inn hesta og fara að ríða út. Ég ætla nú samt að bíða aðeins lengur með það. En ég þarf greinilega að fara eitthvað út á hverjum degi og hreyfa mig. Er ekki frá því að ég sé að fá snert af skammdegisþunglyndi. Dálítið snemma á ferðinni en ég hef nú alltaf verið fljót til.

|

Sunday, September 09, 2007

Bara ekkert að gerast
Þið afsakið bloggletina, það er bara voðalega lítið að gerast hjá mér.
Allir hestarnir eru komnir á sinn stað fyrir haustið. Ég á reyndar eftir að fara og klippa hófa og gefa nokkrum tryppum ormalyf, en það tekur ekki langan tíma. Ég ætla kannski að taka tvær fitubollur fyrr inn og byrja að ríða út en það er ekki alveg ákveðið enn. Ætla bara sjá til hvernig fílingurinn verður.
Það er orðið voðalega haustlegt. Lauf byrjað að fölna, gras farið að gulna, haustlyktin liggur í loftinu. Það kólnar meira með kvöldinu og það er farið að verða agalega dimmt. Sá á dagatalinu að 23. september er haustjafndægur sem þýðir að myrkrið varir lengur en birtan hvern sólarhring eftir það. Mér finnst það frekar niðurdrepandi tilhugsun. Ég er nú nógu lágt gíruð fyrir þessa dagana.
Það á að taka spelkuna af Snotru á morgun. Það fylgir því bæði kvíði og spenna. Verður hún í lagi, og ef ekki, hvað tekur við þá?Það verður allt gert sem hægt er að gera, í samráði við dýralækninn.
Ég fylgist aðeins með fréttum. Hef lítið tjáð mig um Madeleine McCann málið, sem er enn í fjölmiðlum. Þessir foreldrar eru í það minnsta sekir um vannrækslu. Ég hefði ekki skilið börn eftir ein á hótelherbergi og á ég ekki einu sinni börn. Mér finnst tilhugsunin ein fráleit. Hvort þetta fólk er sekt um eitthvað annað veit ég ekki en það myndi ekki koma mér neitt svakalega á óvart. Ég er 99% viss um að stúlkan er látin.
Ég skoða líka mbl.is annað slagið og oftar en ekki finnst mér áhugaverðustu/skemmtilegustu fréttirnar vera í tækni og vísindum. T.d. eru vísbendingar þess efnis að menn séu gáfaðari en apar. Who Knew? Þessi dálkur er neðst á síðunni, kíkið á hann annað slagið.

|

Tuesday, September 04, 2007

Guð hefur skopskyn
Eitt augnablikk fannst mér nýja auglýsing símans jaðra við smekkleysi en svo fannst mér það fráleitt. Ég á að sjálfsögðu við auglýsinguna þar sem Jesú og Júdas ræða saman í þriðju kynslóð farsíma og Jésú verður það ljóst að Júdas sé að svíkja hann. Ég tel nebbla að guð hafi skopskyn og taki ekki svona hluti nærri sér. Ég treysti því líka að kristnir menn á Íslandi sjái skoplegu hliðina á þessu máli. Við erum mun umburðarlyndari en margir aðrir trúarhópar.

|