Það er margt í mörgu...
Hef ekki nennt að blogga en hef ekki setið auðum höndum.
Ég skrapp til dæmis norður í land að heimsækja "Tvibbann". Flaug norður, þvílíkur munur, 45 mínútur í staðin fyrir 5 klukkutíma. Þetta eru samt óttalegar rellur sem eru í innanlandsfluginu. Finnst þær hristast óþarflega mikið til í aðflugi. Svo var ég náttla með gott útsýni yfir annað lendingarhjólið. Mjög gaman svona í ljósi þess að þetta var samskonar lendingarbúnaður og bilaði á tveimur vélum erlendis fyrr í þessum mánuði. En lendingarbúnaðurinn var í lagi í bæði skiptin og mér létti stórum.
Átti svo ágæta daga hjá "Tvibbanum". Borðaði fullt af nammi, horfði á dvd, fór í göngutúr og hafði það bara almennt gott.
Það var svo tekin spelkan af henni Snotru, kisu, litlu í gær. Mér brá ekkert lítið. Bjóst við að það hefði kannski nuddast eitthvað hár af á þessum tíma, sex vikum, en það var töluvert meira en það. Löppin á greyið dýrinu hafði hreinlega soðnað og hárið fór af í klepruðum fliksum. Húðin er svo rauð og viðkvæm undir. Loppan sjálf var verst og greinilega mjög aum og bólgnaði með kvöldinu. Ég fékk með skerm, svona ef hún skildi sleikja sig til blóðs og bakteríudrepandi krem til að bera á hana. Daman var búin að sleikja sig til blóðs áður en við komumst út af spítalanum svo skermurinn fór á um leið og við komum heim. Hún var heldur ekkert á því að láta koma við löppina á sér, þannig að það voru slagsmál að koma kreminu á hana, auk þess hún fann greinilega til. Ég var ekki sátt. Það er hræðilegt að horfa á dýrin sín þjást og geta ekkert gert. Ég ákvað að gefa henni pensilín sem ég átti, pensilín fyrir dýr, og fannst það hafa hjálpað henni eitthvað. Ég hringdi samt á spítalann í morgun og sagðist vilja láta gera eitthvað fyrir hana. Það var auðsótt mál og við fórum upp eftir. Einhverra hluta vegna, og þetta hefur aldrei komið fyrir hana áður, þá pissaði hún í búrið. Það var náttla alveg ótækt að hennar hálfu, hún kvartaði mikið og hálf trylltist í búrinu. Svo ég þurfti að stoppa út í kanti á einni stærstu umferðaræð borgarinnar, sem betur fer ekki á háanna tíma, og ná henni út úr búrinu. Hún var mun sáttari við að komast í fangið á mér en þar með var ég líka komin með hlandblautan kött í fangið. Við lyktuðum því vel þegar við komum á spítalann. En hún fékk sýklalyf og verkjalyf og var mun sáttari þegar hún kom heim, þótt hún hefði hvæsst hressilega á dýralækninn.
Það er von á norsurum til landsins í vikunni, stefnan sett á Laufskálarétt. Í tilefni af því ákvað ég að drífa í að setja litla burra í smá "make over" sem var löngu tímabært. Fór með hann í alþrif, þannig að hann glansar að innan jafnt sem utan. Ætli það sé ekki komið ár síðan hann fór síðast. Bað þá líka um að skola pallinn á honum. Það var komið sjálfstætt lífríki í skottið. Það er ekki í fyrsta sinn sem það gerist. Keypti líka ný dekk undir græjuna í dag. Ég var farin að skauta svolítið á hringtorgunum í bleytu í sumar. Dekkin orðin þriggja ára gömul og líklega keyrð eina 70.000km. Þetta var því orðið tímabært en ég ákvað að drífa í því áður en ég fer með fullan bíl af fólki norður í land.