Sunday, January 21, 2007

Algjör gunga
Ég er sem sagt gjörsamlega búin að missa kjarkinn þegar kemur að hrossunum. Þetta er bein afleiðing af glæsilegu falli mínu af hestbaki í janúar í fyrra. Þetta er sérstaklega slæmt í ljósi þess að ég er með eina fullorðna hryssu sem er búin að vera í folaldseignum og hefur tekið upp alla gömlu stælana eftir þetta frí frá reiðtúrum, eina hálf-klikkaða sem aldrei er hægt að treysta og svo tvær ómtamdar. Þetta er reiðhestakosturinn. Ég er nú eiginlega búin að jafna mig á gömlu dömunni, þekki þessa takta og þetta verður ekkert meir. Hinar eru hins vegar hausverkur. Þessar ótömdu eru búnar að vera inni í mánuð og ég er bara búin að fara á bak á annari þeirra inn í gerði. Sú dama er óttaleg trunta og hefur það alveg legið ljóst fyrir lengi. Þetta átti að vera lokatilraun til að temja hana núna í vetur. Hún er hins vegar drullu-löt og hreyfir sig lítið í gerðinu. Ég ákvað því að taka með mér písk í gær. Ákvað sem betur fer að láta hana hlaupa dálítið án mín fyrst. Þegar ég lét hana heyra í písknum, ég snerti hana ekki einu sinni með honum, þá rauk daman af stað með rassaköstum og látum. Ég þakkaði mínu sæla fyrir að hafa ekki verið á baki. Ég er athuga með að losa mig við þessa dömu. Hún er bara ekki þess virði að fara að slasa sig á og ekki fer ég leggja peninga í að láta temja hana fyrir mig. Það er því spurning um SS eða hvort einhver vill fá hana í folaldakjötsframleiðslu. Ég er búin að eiga þessa dömu lengi og finnst þetta frekar sárt. En ég verð að hugsa um sjálfan mig og það er dýrt að eiga hesta sem gæludýr, ég á líka þrettán aðra. Ég læt frekar temja hina dömuna fyrir mig, hún er mun efnilegri. Það er líka spurning hvað ég gef þessari klikkuðu mikinn séns. Kannski vit að gefast upp áður en hún slasar mig. Ég á nóg af ungum, efnilegum og vel ættuðum hrossum, það er nær að eyða peningunum í þau.
Ég sakna Grímu. Ég vildi að hún væri ekki hölt. Buhuhuhuhu.

|

Sunday, January 14, 2007

Shit, shit, shit...
Það var nóg af skít í dag. Ég var að moka folaldastíuna sem ég er búin að hafa eins og safnstíu á þriðju viku, líklega. Ég gafst upp á að telja hjólbörurnar sem ég mokaði út en tuttugu er nærri lagi. Ég var í einn og hálfan klukkutíma að moka út. Djöf... var ég fegin þegar ég var búin. Áður en ég fór í moksturinn var ég búin að fara í tvo reiðtúra og eftir moksturinn fór ég með tamningarhrossin tvö í gerðið. Ég lét þriðja tamningarhrossið eiga sig í þetta sinn. Ég var orðin svo þreytt. En ég er búin að taka upp lappir á því síðustu tvo daga og reyna að greiða niður úr taglinu á því. Ég er búin að öðlast djúpstæðan skilning af orðinu, flókatryppi. Mér hefur nú samt orðið töluvert ágengt með flókann. Það gengur vel að taka upp lappir en það var ekki vinsælt þegar ég fór að banka í þær. Við verðum að æfa það betur, þetta eru nú bara tveir dagar.

Þetta er alveg ótrúlegur snjór sem er kominn í Reykjavíkinni. Mér tókst næstum því að festa mig á bílaplaninu. Ég kom seint heim og eina stæðið sem stóð til boða var í snjóskafli. Það hafðist nú samt allt, enda litli burri fjórhjóladrifinn. En það er langt síðan að ég hef þurft að skafa bílinn í hvert einasta sinn sem ég fer út. Þetta er alla vega skárra en tíu stiga frost.

|

Saturday, January 06, 2007

Nýtt ár hafið með ellibömmer og lífsháska
Ég vona að 2007 verði betra en 2006. Ekki það að 2006 hafi verið eintóm eymd og volæði en það voru nógu margir slæmir atburðir til að það falli í flokk með slæmum árum. Ég ætla ekki að fara að rifja það upp, ég er búin að röfla nóg um það, þið getið bara skoðað gamlar færslur ef þið munið það ekki.
2007 er hins vegar tímamótaár hvað mig varðar. Ég verð nebbla þrítug og á þessum tímamótum get ég ekki annað en íhugað stöðu mína í lífinu. Í stuttri samantekt er ég ógift, barnlaus og bý hjá móður minni. Það er eiginlega sama staða og ég var í fyrir tíu árum þegar ég var tvítug. Ég er enn að gera sömu hlutina. Alltaf í hestunum. Ég er með sömu hárgreiðslu. Ég er enn í sama fatastíl, hettupeysum og strigaskóm. Mér finnst ég dálítið stöðnuð. Ætla ég að vera í sömu stöðu eftir önnur tíu ár?
Þetta er kannski ofureinföldun á ástandinu. Ég kaus á sínum tíma að fjárfesta frekar í landarskika og hesthúsi en íbúð. Ég er því ekki eignarlaus og ef ég seldi þessar eignir gæti ég auðveldlega keypt mér íbúð. Pabbi er dáinn og mamma á við líkamlega fötlun að stríða sem myndi gera henni erfitt að búa algjörlega ein. Það virtist því sniðugra að við byggjum saman en hún ein í þjónustuíbúð og ég í einhverri smá holu.
Ég er ógift en það plagar mig ekki sérstaklega. Ég er í raun mjög sátt við stöðu mína í þessum málum. Ég hef eiginlega alltaf séð sjálfan mig fyrir mér sem einstæða.
Ég er heldur ekkert sérstaklega spennt fyrir börnum. Ég er ekkert viss um að mig langi til að eiga börn. Það er frekar að ég sé hrædd um að sjá eftir því seinna ef ég eignast þau ekki.
Hvers vegna er ég þá á bömmer? Jú, það er normið að flytja frá foreldrum, kynnast einhverjum og eiga nokkra krakka. Ég hitti fyrir jólin fyrrverandi bekkjarsystur mína og hún var fráskilin með þrjú börn. Ég myndi ekki vilja skipta um stöðu við hana. En það hljómar samt einhvern vegin betur en "Ég bý enn heima hjá mömmu". Jafnvel ég fell stundum í þá gryfju að eiga erfitt með að fylgja ekki norminu.
Ég þarf hins vegar kannski aðeins að íhuga hárgreiðsluna og fatastílinn þegar fram líða stundir. Ég á einhvern tímann eftir að "look my age" og þá get ég ekki haldið áfram klæða mig eins og táningur.
Ég hef nú ekki dottið af baki, enn þá, en mér tókst samt að lenda í lífsháska.
Það var alltaf ætlunin að flytja folald vinkonu minnar austur og sækja tamningartryppi í staðin. Bóndinn tilkynnti nú í vikunni að við gætum skroppið til hans og við skutumst núna á föstudaginn. Það gekk allt mjög vel þar til við vorum á leið heim aftur. Það var myrkur og krap á veginu þegar við vorum að fara yfir Hellisheiðina. Við vorum á leið niður af heiðinni, fyrir ofan skíðaskálann. Þar er vegurinn ein akrein í átt að bænum og tvær austur. Það var lítil umferð á leið í bæinn og við bara dóluðum okkur í slæmri færðinni með hestakerruna og hrossið. Bílinn var fullur af fólki, ég, tvær vinkonur mínar, báðar dætur annrrar og hundur. Það var töluverð umferð austur og á þessum tímapunkti mætum við stórum trailer með aftan'í vagn. Það er lítill bíll að taka fram úr honum á tvöföldum veginum. Allt í einu byrjar litli bíllinn að renna, aftur hlutinn færist yfir á okkar akrein og ég sé fram á að fá bílinn framan á húddið mín megin. Það er ekkert sem ég get gert. Bílinn, kerran, hrossið og farþegarnir eru circa þrjú tonn og engin leið að stoppa í krapinu. Að reyna að sveigja eitthvað var alveg vonlaust líka svo ég held minni stefnu og ákveð að það sé best í stöðunni að fá hann framan á mig. En þegar bíllinn er búin að snúast þversum þá lendir hann með húddið í dekkjunum á trailernum. Við þetta dregst bílinn áfram og stefnir ekki lengur á okkur. En hann dregst ekki langt, losnar frá trailernum, snýst á veginum, rétt sleppur aftur fyrir kerruna og það næsta sem ég sé eru ljós út af veginum hægra megin. Ég stoppa eins hratt og mér er unnt miðað við aðstæður, gríp símann og hringi í 112 meðan vinkonur mínar hlaupa út til að athuga með slys á fólki. Þegar þær koma til baka kemst ég að því að bíllinn sem rann, flaug á bílinn sem var fyrir aftan okkur og tók hann með sér út af veginum. Enginn hafði slasast en bílarnir báðir óökufærir, enda hjólastellið undan öðrum þeirra. Trailerbílstjórinn hafði tekið ákvörðun um að nauðhemla ekki til að bíllinn myndi ekki lenda undir trailernum. Hvernig okkur tókst að sleppa við að fá þennan bíl á okkur, ekki einu sinni heldur tvisvar er mér algjörlega hulið. Það er ekki hægt annað en að spá í hvað hefði gerst ef hann hefði farið á kerruna. Ég held að það hefði verið verra en að fá hann framan á húddið. Ef kerran hefði oltið hefði hún líklega tekið bílinn með sér og þá hugsun vil ég ekki hugsa til enda.
Svo í byrjun árs er ég bara þakklát fyrir að vera á lífi og það að komast á fertugsaldur er ekki eins hræðilegt og það var. Það er, jú, annað hvort að eldast eða deyja.

|