Saturday, October 27, 2007

Það sem mér dettur í hug
Eins og margir vita, sem mig þekkja, þá fæ ég oft skyndihugdettur og framkvæmi þær. Ég gerði það í gær.
Ég nefndi það um daginn að ég væri að prófa spónarköggla. Jæja, þeir komu svona líka vel út að ég ákvað að fjárfesta í þeim. Síðan mætti ég í Líflandi, galvösk, með kerru að kaupa 100 poka af spónarkögglum. Þegar ég síðan sá hvað þeir tóku lítið pláss og staðfesti að þetta væri bara hausttilboð og ég fengi ekki spónarköggla á þessu hagstæða verði seinna í vetur, tók ég eina skyndiákvörðun. Ég hringdi snarlega í fjölskyldubankann (mömmu) og athugaði hvort ég gæti fengið lánaðan 100þús. kall fram að áramótum. Það var samþykkt og ég keypti 200 poka af spónarkögglum. Þetta eru vissulega hagstæð kaup. Pakkningin af öðrum undirburði kostar um 1.400kr núna og hingað til hefur hann bara hækkað eftir því sem líður á veturinn. Þannig að í heildina hef ég sennilega sparað mér hátt í 80þús. krónur. Ég hins vegar áttað mig ekki á því fyrr en ég fór að bera pokana inn í hesthús að ég hafði verið að kaupa rúm þrjú TONN af kögglum sem ég þurfti snarlega að bera inn því ég þurfti að fara þrjár ferðir með kerruna. Síðasta hlassið setti ég svo beint upp á geymsluloftið mitt, þar sem allur undirburðurinn á reyndar að geymast. Ég var því nokkuð vel þreytt þegar ég kom heim í gærkvöldi. Í dag hélt ég svo áfram að selflytja pokana upp á loft. Er búin að koma meirihlutanum upp, kem pínu meira, og þá verður ekki mikið sem þarf að geymast annars staðar í hesthúsinu.
Ég hef líka verið ótrúlega dugleg að ríða út og það eru bara tveir dagar sem ég hef ekki farið á bak vegna veðurs. Nokkuð vel af sér vikið miðað við veðráttuna undan farið. Röskva er bara að sýna ótrúlega framfarir. Hún er kannski ekki bara pylsuefni eftir allt saman en það er ekki komin endaleg niðurstaða í því máli. Ég var hins eiginlega búin að gleyma hvað mér finnst gaman að fara á Grímu. Já, það gengur bara allt þokkalega.

|

Wednesday, October 24, 2007


Óður frá Brún fallinn

Ég er bara gjörsamlega miður mín af þessum fréttum. Þessi frábæri klár fallinn frá aðeins 18v. Ég náði sem betur fer að fá tvo fola undan honum. Mér finnst alveg hræðilega að það sé ekki passað betur upp á hann en það að hann lendi í skurði og það verði að aflífa hann.
Myndin er af Glaumi, syni Óðs og Glóeyjar.
Annars er voðalegt haust í mér þessa dagana. Verð líklega léleg að blogga.

|

Sunday, October 14, 2007

Gjörsamlega dottin í hrossin
Ég gat ekki beðið, það var bara of lítið að gera hjá mér, ég er búin að taka inn hross. Reyndar bara tvær dömur, Grímu sem er búin að standa í heilt ár eftir að hafa slasað sig og Röskvu sem er að springa úr offitu.
Ég er reyndar ekki komin á bak enn því það á eftir að járna. Ég er hins vegar búin að vera að þrífa hesthúsið, enda ekki vanþörf á. Leigði út húsið í sumar og svo lánaði ég það núna í haust undir tvö tamningartryppi. Það var ekki gengið illa um en það vantaði svona allhliða umhirðu. Þannig að ég er búin að vera að ganga frá dóti, henda heyi og sópa. Síðan var það kaffistofan. Fólkið hefur annað hvort ekki notað hana eða ekki haft miklar hreinlætiskröfur. Hún lítur almennt ekki vel út eftir sumarið þegar kettirnir eru búnir að vera einráðir. Þeir vaða bara um allt á skítugum klónum. En núna var hún eitthvað sérstaklega subbuleg, eða ég farin að gera meiri kröfur með aldrinum. Þannig að ég tók kaffistofuna í gegn í dag.
Óóóó, ég alveg gleymdi einu mjög merkilegu. Það er búið að steypa upp vegginn í taðþrónni sem verktakinn braut fyrir næstum tveimur árum. Ég var næstum búin að gefa það upp á bátinn. En ég hringdi einu sinni enn og það dugði til. Þetta er reyndar ekki sérstaklega vel gert en þetta er taðþró þannig að ég ætla ekki að nöldra yfir því.
Ég eyði líka miklum tíma í að skoða stóðhesta fyrir næsta sumar. Ég er að hugsa um að halda þremur hryssum næsta sumar. Ég er búin að ákveða líklega tvo hesta en mig vantar einn. Það verður að ákveðast NÚNA. Það er ekki öruggt að ég halda öllum þremur hryssunum, þannig þetta er ekki hundrað í hættunni en samt... Allir hestarnir sem mig langar að halda undir kosta svo mikið að það gengur ekki alveg. Tollurinn verður að vera innan við hundrað þúsund. Sérstaklega ef ég ætla að halda þremur hryssum.
Annað sem hvílir á mér núna er undirburður. Það er tilboð núna á spónarkögglum. Ef ég kaupi hundrað poka þá fæ ég pokann á 1000kr. Ég á pening fyrir því þar sem ég hélt ekki undir neina stóðhesta í sumar. En málið er að ég hef aldrei notað svona spónaköggla eingöngu og ætla ekki að eyða 100þús. í þetta ef þetta virkar ekki jafn vel og annar undirburður. Ég fékk einn poka gefins og er að gera prufu á þessu núna. Eins og þið sjáið er "mikið" að gera.

|

Thursday, October 04, 2007

Viðskiptajöfurinn, ég
Það tók tíma en eftir að ég áttaði mig á því hvað er mikil eftirspurn eftir leiguhúsnæði og hvað leigan er há, þá datt mér í hug að það gæti verið gróðvænlegt að leigja út aukaherbergið okkar. Já, við eigum 20fm kjallaraherbergi með sér inngangi, litlum eldhúskrók og aðgang að salerni. Mér skilst að leigan fyrir slíkt húsnæði geti hlaupið á tugum þúsunda. En það er eitt pínulítið vandamál í veginum fyrir því að við förum að græða á góðærinu með því að níðast á nauð annara, herbergið er fullt af dóti.
Á því eru nokkrar skýringar. Stóra systir flutti úr landi (og svo reyndar aftur heim) og skildi dálítið eftir af dóti. "Tvibbinn" flutti út á land og skildi líka eftir lítilræði af dóti. Það er gamalt borðstofusett þar sem á eftir að gera upp, það er alltaf á leiðinni. Skenkur sem var sérsmíðaður fyrir afa og ömmu á sínum tíma. Það má alls ekki losa sig við hann , þótt enginn vilji hafa hann heima hjá sér. Það mátti heldur ekki henda millihurðinni sem ég lét taka niður og henni var skellt niður líka. Svo hefur safnast saman hitt og þetta smálegt ofan á allt annað.
Í dag ákvað ég að gera eitthvað í málinu. Byrjaði galvösk á því að ná í litla burra og svo skildi helvítis millihurðin fara. Þegar ég var svo að skokka niður kjallaratröppurnar, í grenjandi rigningu, flaug ég á hausinn í einhverju slí-i sem var neðst á pallinum. Er núna skrámuð og marin á hendinni og bólgin á ökklanum. Ég lét þessa byrjunarörðuleika ekki stoppa mig og hélt ótrauð áfram. Næst tókst mér að skera mig á glerinu úr millihurðinni. Nú var ég orðin pirruð. Þannig að ég hélt áfram að bera út drasl, á stuttermabol, í grenjandi rigningu. Þegar ég var loks búin að koma öllu dralsinu á gámastöð var ég orðin vel blaut.
Eftir þetta allt saman varð mér ljóst að ég gæti ekki tekið til í herberginu nema að ég kæmi meira dóti inn í kompu og það gerði ég ekki nema að taka til í kompunni. Ég tók reyndar til í kompunni fyrir fjórum árum en náði ekki að klára það almennilega því það vantaði fleiri hillur. Þær sem voru fyrir voru einnig að hrynja niður. Núna ákvað ég að reyna að festa gömlu hillurnar betur upp. Það virtist takast og ég fór að raða hlutum aftur í hillurnar. Þá losnuðu þær aftur og í þetta sinn losnuðu þær meira en þær voru fyrir. Ég hafði gert illt verra. Ok, það vantaði nýjar hillur, það var ljóst. Ég ákvað því að bera málið aftur undir múttu, sem hafði skotið málið í kaf fyrir fjórum árum, og gá hvort ég fengi ekki fjárveitingu, fjárhagstaðan er betri núna en hún var þá. Ég var búin að rýna í ikea-bæklinginn og gera fjárhagsáætlun. Fjöldin sem ég vildi af hillum myndi kosta ca. 23þús. en ég var samt búin að reikna út verð á minnsta fjölda sem ég myndi sætta mig við og það var ca. 13þús. Ég fékk ekki einu sinni að bera fram kostnaðaráætlunina áður en málið var fellt. Nei, sú gamla ætlaði sko frekar að nota þessa gífurlegu fjárhæð í eitthvað annað. Allt sem hún nefndi var reyndar margfallt dýrara og ekkert sem stendur til að gera á næstunni. Ég varð mjög fúl. Loksins þegar ég var komin í gírinn og ætlaði að græða eitthvað fyrir okkur í ofan á lag. Ég ætlaði sko ekki að gefa málið upp á bátinn. Skitinn 20þús. karl!!! Ég skildi sko bara borga þetta sjálf. Og með þeim orðum strunsaði ég út úr dyrunum. Keyrði í ikea, óð inn í sjálfsafgreiðslulagerinn með kerru og allt. Hvað haldið þið? Hillurnar sem ég ætlaði að kaupa voru uppseldar og verða ekki til fyrr en í næstu viku.
Það var þungskýjað á öllum vígstöðvum þegar ég rölti aftur út í bíl.

Það eru samt góðar fréttir af Snotru. Hún er í lið og hárið er farið að vaxa aftur á löpinni. Þetta lítur allt saman vel út og hún verður sterkari og liðugri í fætinum með hverjum deginum.

|