Sunday, November 25, 2007

Dýrin mín stór og smá
Það var alveg afspyrnu leiðinlegt veður á höfuðborgarsvæðinu í dag. Frost, vindur og snjófjúk. Ég gat ekki hugsað mér að fara á hestbak og er ég viss um að hryssurnar voru sammála mér. Þær voru nú ekki alveg sáttar við það að þurfa að standa úti meðan að ég mokaði og hímdu fyrir framan hliðið og gáfu mér illt auga þegar ég fór út með hjólbörurnar. Ég notaði líka tækifærið og fór með rusl og endurvinnslu. Hesthúsið er því orðið notalegt. Komið hey í hlöðuna og allt á sínum stað.
Ég ákvað líka að taka dömurnar í gegn og kembdi þeim hátt og lágt, greiddi niður úr faxi og tagli og tók út holdafarið. Gríma og Röskva hafa lagt af, sem var líka ætlunin, það er nú samt nóg eftir. Ísold er feit, Glóey er í góðu standi, miðað við aldur og fyrri störf, ekki feit en laus og hárafar gott. Ára veldur mér hins heilabrotum. Hún hefur verið feit síðan hún kom í mína eigu. Verið í léttu trimmi þar til síðasta vetur, þá var ég nokkuð duglega að fara á hana, en hún var samt vel þétt. Núna, hins vegar, finn ég greinilega rifbein þegar ég þreifa á síðu en húðin samt laus, innfallin í nára en alveg svakalega kviðmikil. Fæturnir á henni eru miklu betri en ég man ekki eftir að það hafi sigið svona á hana áður. Ef einhver annar man eftir að ég hafi kvartað yfir þessu áður má viðkomandi minna mig á það. Það fyrsta sem mér kæmi til hugar væru ormar en það er ólíklegt. Ég gef öllum mínum hrossum ormalyf minnst þrisvar á ári og feldurinn er það fallegur, sem hann ætti ekki að vera hún væri veik af ormum. Næsta ágiskun væri að hún væri fylfull en hvernig? Hún er búin að vera í haga eða húsi hjá mér allan tímann. Eini sénsinn væri að ég hefði sett hana út í gerði með litlu gæjunum í vor en þá hefðu þeir þurft að vera bæði mjög bráðþroska og snöggir til verks. Ég man ekki eftir því að hafa sett hana út í gerði með þeim, svo það fellur um sjálft sig. Og þá er ég tóm. Hvers vegna hún er svona undarleg fitubolla er mér hulin ráðgáta.
Svo kom hann Snúður í heimsókn í dag. Snúður er köttur sem býr í hesthúsahverfinu. Hann flutti til mín þegar ég kom í hverfið en svo slettist eitthvað upp á vinskapinn milli hans og hinna kattanna og hann flutti annað. Hann hefur samt alltaf komið annað slagið og heilsað upp á mig. Hann veit að hjá mér fær hann klapp og oft eitthvað að éta. Í dag var hann ekkert fara og kom sér fyrir á hestateppi í hlöðunni. Ég vona að það sé ekki búið að henda honum út. Vorkendi honum agalega að vera í kuldanum í hlöðunni en ekki á upphitaðri kaffistofunni. Vona að það verði allt í lagi meðan hann.

|

Thursday, November 22, 2007

Allt komið á fullt
Ég stóð frammi fyrir því að hestakerran ætti að fara í viðgerð og yrði þar í einhvern tíma, þannig að annað hvort væri að kippa hrossunum inn eða taka sénsinn og bíða, eða redda einhverju ef illa færi. Ég ákvað því að kippa dömunum bara inn. Þannig að mín fimm reiðhross eru komin á hús. Nú er bara að járna og raspa tennur og ríða svo út. Það er allt komið á fullt í hesthúsahverfinu. Öll hross meira og minna með hnjóska og fólk bara búið að taka inn. Ég er hins vegar farin að stunda nýja tegund af hestamennsku. Hún Ára mín er með ásigna fætur og heita hófa eftir að hún kom á hús, gerist með sum hross vegna þess að þau hreyfa sig miklu minna eftir að þau koma inn, svo við fórum í göngutúr um hverfið í gærkvöldi. Ég var búin að vera með einn leiguhestinn í göngutúrum því hann var með svo mikinn stöðubjúg. Ég komst að því að það gerir miklu meira gagn að rölta um með þau heldur að fara með þau í gerðið og láta þau hlaupa. Þessi stöðuga rólega hreyfing er miklu betri. Ef ég þyki ekki skrítin í hverfinu fyrir þá verð ég álitin það núna. "Þarna er þessi sem er alltaf úti að ganga með hrossin." Ekki nenni ég að ganga í hringi í gerðinu svo það verður bara að vera svo.
Ég er líka búin að setja undirburðinn aftur upp á loft. Nú er bara að krossleggja fingur og vona það besta. Ef þetta hrinur aftur þá ég í vondum málum. En við ætlum að vera bjarsýn.

|

Sunday, November 18, 2007

Endurreisnin
Já, það hefur verið gert. Geymsluloftið hefur verið endurreist. Ég tók mig til í dag, keypti það sem vantaði (brotnaði við fallið) og skellti þessu upp í dag. Ég festi tvo þverbita, af sex, við grindina í veggnum og setti þrjár stoðir undir burðarbitana hvoru megin. Ef þetta heldur ekki, þá veit ég ekki hvað þarf til. Ég setti ekki undirburðinn upp í dag. Ætla að leyfa loftinu að standa eina nótt áður en ég geri tilraun til að brjóta það niður aftur. Það hefur þó eitt gott komið af þessu öllu. Ég er búin að taka vel til í hlöðunni. Það er ansi margt komið í stafla sem á að henda. Ég held að meira að segja bró'i yrði stoltur af mér.
Ég kíkti líka á hryssurnar á Kjalarnesinu. Ég er ansi hrædd um að þær séu byrja að fá hnjóska, mikið vandamál í hrossum í bleitudrullu eins og hefur verið undan farið. (Fitukyrtlar í húðinni fara að starfa óeðlilega og vörnin í feldinum eyðilegst.) Það er alveg spurning að fara bara að kippa þeim inn. Ætlaði ekki að gera það strax en það er víst ekki hægt að fara eftir dagatalinu í þessum málum.

|

Friday, November 16, 2007

Bara höfuðhögg og allt...
Aukahestarnir sem ég var með eru farnir. Eigandinn yfir sig ánægður með umhirðuna og búinn að borga og allt. Enda var þessi pirringur hérna um daginn engan veginn út í hann, heldur meira svona almennt allt að fara í taugarnar á mér, það gerist, ég kemst yfir það.
En núna hafði ég loksins pláss fyrir brakið úr hlöðunni, til að komast að til að endurreisa geymsluloftið. Þannig að ég fór að taka til, ógjó dugleg. Auðvitað tókst mér að fá níð-þunga plötu í hausinn sem hafði klætt veginn áður en allt fór til helvítis. Núna er ég með myndarlega kúlu á hausnum. Sem betur fer gaf húðin sig ekki í þetta sinn. Það var það fyrsta sem ég tékkaði, "blæðir nokkuð?"
Ég ætla svo að reyna að endurreisa loftið um helgina. Gæti verið að ég fái sent hey eftir helgina og þá verður allt að vera tilbúið.

|

Sunday, November 11, 2007

Nöldur
Margir hafa undrað sig á tregðu minni til að taka inn leigjendur í hesthúsið. Núna er ég með þrjú hross í "pössun" og ég get ekki séð að ég sé að græða neitt á því. Enda var það kannski ekki ætlunin, er frekar bara að gera viðkomandi greiða, þótt ég fái samt borgað. En þetta er búið að kosta það að ég er búin að þurfa miklu meira hey. Það er ekki byrjað að keyra út hey, því flestir taka inn í desember. Þannig að ég þurfti að sækja heyið sjálf. Allt í lagi að skjótast eftir einum bagga fyrir mig. En nú er ég búin að sækja tvo í viðbót og er dálítið fúl yfir kostnaðinum við það. Bagginn kostar 4000kr, ég þarf að keyra 74km til að sækja heyið og koma því heim. Bílinn minn eyðir circa 15 á hundraðið og lítrinn af bensíni kostar um 130kr, þannig að þessi rúntur kostar mig 1443kr. Þar að auki fer ég í gegnum göngin, fram og til baka, en ég er með lykil þannig að ferðin kostar mig 270kr, eða 540kr báðar leiðir. Kominn í hús, kostar bagginn mig 5983kr. Þessir tveir baggar eru þá á 11.966kr. Þar sem þessir hestar éta meira en mín hross, og þar af leiðandi skíta og míga meira, þá hugsa ég að þegar upp verði staðið verði ég búin að fara með fimm poka af undirburði undir þessi hross. Ég þurfti líka að setja mikið undir þá þegar ég var að byrja að safna í stíuna. Þar eru því 5.000kr. Ég verð því samtals búin að eyða 16.966kr í þessi hross. Ég fæ 30.000kr fyrir að hafa hrossin þannig að ég fæ alveg heilar 13.000kr í leigu á húsnæði og í vinnulaun. Virkilega vinnunnar virði, finnst ykkur ekki?
Ég er búin að finna tvær músagildrur í hesthúsinu með hluta af músarhræjum. Þetta er væntanlega eitthvað sem þeir sem leigðu húsið í sumar eða þeir sem fengu það lánað í haust sáu ástæðu til að koma með. Ég veit að þið haldið að ég sé rugluð þegar þið lesið þetta en ég náttla er það. Ég er frekar ósátt við það að það hafi verið komið með dýragildrur í mín hús. Mýs hafa ekki truflað mig þau ár sem ég hef átt húsið. Ég er með ketti og þeir hljóta að halda músunum eitthvað í skefjum, fyrir utan það þegar þeir koma með þær lifandi inn á kaffistofu til að leika sér með þær. Þá ríf ég mýsnar af þeim og sleppi þeim úti. Ég er bara allt of viðkvæm fyrir þessum hlutum. Mér er alveg sama þótt það búi mýs í veggjunum hjá mér. Meðan þær trufla mig ekki þá mega þær vera.
Annars er ég mjög dugleg að sinna hryssunum og væri alveg til í að ríða meira út. En ég ætla ekki að taka inn fleiri hross strax. Ég þarf líka að fara að endurreisa geymsluloftið, það gæti komið heysending eftir næstu helgi. Ég er búin að hanna styrkinguna í huganum. Þetta verður flott.

|

Friday, November 02, 2007


Á sandi byggði heimskur maður hús...

...og húsið á sandinum það féll

Þetta lag ómaði aftur á bak og áfram í hausnum á mér á fimmtudagsmorgun. Og hvers vegna? Jú, það var það sem gerðist hjá mér, svona nokkurn veginn. Ég tróð 2,7 tonnum upp á geymsluloft sem var ekki mjög tryggt og það féll.

Þegar fína rennihurðin á hlöðunni minni stóð á sér vissi ég að eitthvað væri að. Spónarkögglar í pokum lágu ofan á miklu spýtnabraki. Ég þakkaði mínu sæla fyrir að hafa verið búin að setja morgungjöfina í net sem ég gat dregið undan brakinu og gefið hrossunum. Ég ætlaði svo að pilla mér aftur heim og taka á þessu "vandamáli" þegar ég kæmi upp eftir seinni partinn. Það var bara eins gott að enginn var á staðnum þegar þetta gossaði niður. Ég var varla búin að sleppa þeirri hugsun þegar ég áttaði mig á því að það gæti einhver hafa verið á staðnum, KETTIRNIR!!! Ég stökk í ofboði inn á kaffistofu. Þar var bara einn vælandi köttur. Nei, nei, nei, hvar var hinn? Hann gæti verið fastur úti. Kögglarnir lokuðu inngönguleiðinni. Hann gæti líka verið dauður undir 2.7 tonnum eða mikið slasaður og kvalinn. Ég skaust út og kallaði en ekkert svar, enginn köttur. Ég gat ekki farið, ég gat ekki verið í óvissu allan daginn um hvort kötturinn væri dauður eða lifandi. Þannig að ég færði 2,7 tonn yfir í eina stíuna. Það tók um klukkutíma. Það var enginn dauður köttur, ég var svo fegin.

Þegar ég kom svo seinni partinn var kötturinn sofandi inn á kaffistofu. Hann skildi ekkert í því hvers vegna hann var knúsaður svona mikið. Bara mjög feginn að honum var hleypt inn úr kuldanum.

Loftið verður endurreist í rólegheitum og styrkt lítilega, með tíð og tíma.

|