Thursday, December 27, 2007

Vona að þið hafið átt gleðileg jól
Ég átti alveg ágætis jól, þakka ykkur fyrir. Alveg eins og mig grunaði þá færðist yfir mig mikil ró á aðfangadag og jólastressið leið burt.
Búin að vera býsna dugleg að ríða út. Ákvað að gefa fröken Röskvu bara frí yfir hátíðirnar og taka ákvörðun um þetta mál eftir áramótin. Hinar dömurnar eru búnar að sýna sínar bestu hliðar aftur á móti. Verið mjög skemmtilegar og góðar við gömlu konuna. Við Ára fengum meira að segja hrós í gær, enda tölti hún á hægu með góðan fótaburð og höfuðburðurinn að koma í góðar skorður.
Ég hef bara ekki haft tíma til að liggja á netinu. Búin að vera í hesthúsinu allan daginn og svo hafa verið gestir öll kvöld.

|

Friday, December 21, 2007

Jóla hvað!
Það liggur við að ég sé komin með augabrýrnar niður á kinnar ég er orðin svo brúnaþung. Það er ekki hægt að komast á milli staða það er svo mikil umferð. Það er ekki hægt að komast í matvöruverslun því það er svo mikið af fólki. Þetta á alls ekki við mig.
Sem betur fer var styðsti dagur ársins í dag og nú fer daginn að lengja. Mér veitir ekki af meiri dagsbirtu. Það hefur varla birt af degi síðustu tvo daga.
Við mæðgur erum blessunarlega búnar að öllu fyrir jólin, nema smá tiltektir. Ég get því sleppt því að fara í búðir og verið eins lítið á ferli og ég get fram yfir jól.
Það hefur líka verið bakslag í hestamennskunni. Helv... hún Röskva. Eftir að hún datt á hausinn með mig hefur allt snúist til verri vegar. Þegar ég fór aftur á hana var hún voðalega upp tjúnnuð og ég var alveg með á hreinu að nú yrði eitthvað fjör. Það endaði með því að á síðasta spottanum heim skvetti hún upp rassinum og rauk af stað. Ég var ekki ánægð. Ég ákvað að hvíla mig aðeins á dömunni og fór með hana í hringgerðið tvo daga. Síðan ákvað ég að fara á hana í dag og fara flugvallahringinn. Hún hefur verið svo ánægð með að fara þá leið. Við vorum ekki hálfnaðar þegar hún skvetti upp rassinum. Aðeins lengra og hún reynir að rjúka af stað, stuttan spotta auðvitað því hún er svo löt. Þetta gengur ekki lengur. Í fyrsta lagi er hún ekki búin miklum reiðhestakostum. Í öðru lagi er hún ekki einu sinni þæg. Ég get ekki treyst henni og það eyðileggur algjörlega fyrir mér að fara á hana. Þannig að ég er með hross sem langar ekki að ríða út á, get ekki selt og er óhæf til ræktunar. Það eina sem er í stöðunni er að senda hana, loksins, í sláturhúsið. Tilhugsunin fer ekki vel í mig en ég er að reyna ná sáttum við hugmyndina. En þetta er til þess að ég verð enn verri í skapinu.
Gvöð hvað ég verð fegin klukkan 18 á aðfangadag.

|

Sunday, December 16, 2007

Tuð og taut í dagsins önn
Ég dreif mig sko á bak þegar ég kom upp í hesthús. Mér fannst ég vera komin nokkuð tímanlega, mokaði og fór svo á bak. Það tekur bara töluverðan tíma að ríða út fimm hrossum. Ég var að koma úr síðasta reiðtúrnum rúmlega sex. Það var nú töluvert líf í hesthúsahverfinu, aldrei þessu vant. Menn greinilega að taka inn. Aðrir að reyna að koma hesthúsum í stand fyrir veturinn. Það voru hins vegar ekki margir að ríða út og eftir myrkur var ég ein á ferð.
Eins og veðurspáin sagði til um, var ekki spennandi veður í dag. Rigning og vindur, samt mun minni en undan farna daga. Það eins og það birti aldrei almennilega. Ég tók því rólega fram eftir degi og leyfði mér að sitja og horfa á DVD. Horfði Transformers. Þegar ég var krakki voru teiknimyndaþættir á stöð 2 með þessum vélmennum og ég var spennt að sjá hvernig þeim tækist að færa þetta yfir á kvikmyndaform. Ég var bara sátt og skemmti mér ágætlega.
Fór svo loksins í hesthúsið bara til að moka og gefa. Það var náttla komið ágætis veður þegar ég búin að gefa.
Járningamaðurinn, sem á tvær hryssur í húsinu, svo og konan sem ætlar að fá að hafa eitt folald hjá mér kíktu bæði inn. Svo lítið fyndið að hlusta á þetta samtal. Þetta er eldri kona sem stundar hestmennsku á allt öðrum forsendum en járningamaðurinn og ég svona inn á milli en samt nær forsendum járningamannsins. Konan talaði um annan járningamann sem að járnaði svo vel að það hefði bara aldrei dottið undan þegar hann járnaði. Ég met járningar eftir allt öðru. Auðvitað betra að það tolli undir en ég lifi það af að það týnist ein og ein skeifa út í haga. Þetta folald sem hún keypti víst í Laufskálarétt er undan hesti sem er líklega undan Kolfinni gamla. Járningarmaðurinn heldur sko bara undir fyrstuverðlauna hesta, þar sem allar ættir eru á tandur hreinu.
Annars fann ég einhvern undarlegan hnúð í hendinni á mér, fyrir neðan litlafingur hægri handar. Lét stóru systur skoða þetta, hún er doktor. Það er eitthvað voða fínt orð yfir þetta en þetta er sem sagt á sininni. Ég þarf líklega að tala við handarskurðlækni. Þetta gæti farið að há mér. Eftir að ég fann þetta og er búin að láta alla káfa á þessu finn ég auðvitað rosalega fyrir þessu. En ég hugsa að ég láti þetta nú eiga sig fram yfir áramót. Hef grun um að þetta hafi komið eftir að ég var að vesenast með tryppin, Ísadoru og Emblu, í vor og vafði taumnum utan um hendina á mér til að missa ekki takið og svo togaði Embla í og klemdi puttana á mér saman. Var dálítið aum í hendinni á eftir. Ef norsku ferðafélagarnir muna eftir því þá kvartaði ég sáran eftir að kokkurinn sem hýsti okkur þegar við fórum í Laufskálarétt kreisti óþarflega á mér hendina þegar hann heilsaði. Það var sem sagt þessu sem ég fann til í, hehe.

|

Saturday, December 15, 2007

Betra veður, betri dagur
Eftir nokkur símtöl fram og til baka er komin sátt í fjölskylduna og komið plan fyrir jólahaldið. Það er alltaf betra að tala saman.
Þeir sem voru á landinu síðustu daga hafa ekki farið varhluta á veðurofsanum sem hefur gengið yfir. Ég var með það alveg á hreinu að ég færi ekki á bak í gær. Ég reyndi að fara ekki mjög snemma upp í hesthús. Ég var samt komin það snemma að ég var farin að sitja og bíða eftir því að gefa kvöldgjöfina. Það náttla gekk ekki. Svo ég trítlaði fram og ákvað að bóna hrossin aðeins. Þegar ég var búin að dúttla aðeins við mín hross gat ég ekki setið á mér að kíkja aðeins á, ja hvað á ég að segja, eitt leiguhrossið? Ég beinlínis leigi ekki út pláss hjá mér, tek hross fyrir vini og kunningja. Þetta er alla vega hryssa sem sá sem er með graðtittina mína á. Svona vöruskipti. Hún var eitthvað voðalega ræfilsleg, blessunin. Hafði tekist að velta sér upp úr bleytudrullu í gerðinu. Var í þjálfun lengi fram eftir og fékk svo hnjóska, þannig að hún er frekar þunn. Ég vissi það og var búin að þreifa á henni. Svo er hún með sítt fax sem var voðalega flækt og ritjulegt. Ég tók því dömuna fram á gang og fór að kemba henni og skoða almennilega. Hún var eiginlega verr haldin en ég hafði haldið. Er náttúrulega í vetrarfeld og búin að vera á húsi áður en hún kom til mín þannig að hún var farin að taka fóður. Þannig að ég ákvað að taka dömuna almennilega í gegn. Hringdi í eigandann og spurði hvort ég mætti raka hana, kviðinn og undan faxi. Hann tók vel í það en ég held að hann hafi orðið hissa ef hann hefur farið upp í hesthús í gær eða dag. Ég rakaði hana. Kembdi hana hátt og lágt. Greiddi niður úr faxi og tagli. Skipti faxinu og fléttaði. Jók gjöfina um hálft kíló í viðbót, til að byrja með. Hún er formlega komin í gjörgæslu. Hún skal sko vera komin í betra ástand á nokkrum vikum.
Núna ætla ég að nýta veðrið, sem á að vera sæmilegt í einn dag, og fara að ríða út.

|

Thursday, December 13, 2007

Góðir dagar og slæmir dagar
Hafið þið ekki lent í þessu? Suma daga virðist allt ganga upp og aðra fer allt til helvítis.
Ég átti mjög góðan dag í gær. Þrátt fyrir að ég hafi gefist upp á útreiðum vegna slagveðurs rigningar varð mér samt eitthvað úr verki. Ég ákvað að undirbúa tengingu á vatninu inn á kaffistofu. Held ég hafi verið búin að nefna það. Kláraði að taka til inn á kaffistofu og í ruslhorninu mínu þar sem vatnslögnin átti að fara í gegn um vegginn. Þegar ég var búin að því ákvað ég að bora fyrir lögninni þar sem ég sá það ekki fyrir mér að þessi feiti karl sem ætlaði að tengja þetta fyrir mig kæmist þarna fyrir. Svo ég skreið inn í horn og boraði fyrir lögninni. Þurfti svo reyndar að bora hinum megin frá líka því veggurinn er þykkur. Síðan þurfti ég auðvitað að gá hvort rörið kæmist ekki í gegn. Ég fann svo til tengin og allt sem þyrfti til að tengja, auðvitað löngu búin að kaupa allt. Þetta leit nú ekki út fyrir að vera flókið. Fyrst meðal karl út í bæ getur tengt þetta í sínu hesthúsi þá hlaut ég að geta það líka. Og auðvitað gat ég það. Ég var nú býsna ánægð með sjálfan mig þegar ég fór úr hesthúsinu í gær.
Í dag ákvað ég koma mér sem fyrst í hesthúsið til að geta riðið út á öllum hrossunum. Spáð brjáluðu veðri næstu daga á skerinu. Gengur ekki að láta hrossin standa dag eftir dag. En fyrst ákvað ég að hringja eitt símtal.
Nú þufið þið að fá smá forsögu.
Það er búið að vera smá mál í sambandi við að sameina fjölskylduna um jólin þar sem "Tvibbinn" er fyrir norðan og komin með karl í eftirdrag. Svo voru "Tvibbinn" og mútta búnar að vera að ræða það mál í símann þegar þeim lendir saman út af algjörlega ótengdu máli. Það endar með því að mútta hálf skellir á "Tvibbann". Síðan líður tíminn og hvorug gefur sig. Mútta skellti á, svo að auðvitað finnst "Tvibbanum" að hún eigi að hringja. Ég skil það svo sem alveg en helst af öllu vil ég bara að þetta komist í lag og einhver lausn finnist á hátíðarhaldi fjölskyldunnar.
Og þá getum við haldið áfram.
Mútta hafði orð á því að hún þyrfti að hringja í "Tvibbann", það hefði verið hún sem skellti á og auðvitað ætti hún að hringja. Ég hélt að ég gæti liðkað svolítið fyrir málum og hringi í "Tvibbann" sem tekur bara vel í erindi mitt. Við spjöllum síðan áfram og þá þarf ég að álpa út úr mér einhverri vitleysu sem endar með því að "Tvibbinn" verður grautfúll út í mig og símtalið endar ekki eins og ég hefði kosið. Mér hafði sem sagt tekist að gera illt verra.
Ég var ekkert rosaleg hress eftir þetta en ákveð að skella mér samt á bak. Byrja á Röskvu þar sem hún slapp daginn áður vegna rigningar. Fyrir þá sem þekkja ekki reiðleiðir á Harðarsvæðinu, þá eru tvær aðal leiðir svona í byrjun vetrar, flugvallarhringurinn og meðfram fjörunni út á Blikastaðanes. Það er verið að byggja reiðhöll og færa reiðveginn út á Blikastaðnes svo ég hef verið að ríða flugvallahringinn dag eftir dag á hverju hrossinu á fætur öðrum. Í gær kannaði ég hina reiðleiðina á Grímu og komst að því að þrátt fyrir smá byrjunarörðuleika væri hægt að komast leiðina. Svo nú átti heldur betur að fá tilbreytingu.
Það kom ekki á óvart að Röskva var frekar stressuð í byrjun á nýja hluta vegarins. Ég sýndi því fullan skilning, reið á feti og veitti henni mikinn stuðning, bæði með fótum og rödd. Síðan þegar gamli reiðvegurinn tekur við eru tveir pollar á veginum. Daman tekur þetta litla kast við þessa tvo polla og hendist við og ætlar helst að hlaupa heim. Ég hélt nú ekki og reyndi að beina henni aftur þangað sem ég ætlaði. Þá endum við utan vegar en ég gef mig ekki, heim fer hún ekki. Nú stefnir hún á veginn en þar er frekar hár laus kantur upp á veginn. Ég veit að þetta endar ekki vel, hún er nú ekki sú fótvissasta fyrir. Og auðvitað ræður hún ekki við lappirnar á sér og dettur á hausinn. Ég lendi sem betur fer ekki undir henni en ég er enn í ístöðunum þegar hún reynir að brölta á lappir. Eitt augnablik held ég að þetta endi illa en næ að komast úr ístöðunum og við sprettum á fætur á svipuðum tíma og ég er enn með vinstri hendina á taumnum. Brussan ætlaði að hendast frá mér en ég hékk í taumnum og sleppti ekki. Þegar hún stoppar er ég orðin meira en lítið reið og í vonsku kasti hendist ég aftur á bak. Nú skal hún hlýða. Ég nota ákveðið taumtak, nota bæði fætur og písk til að hvetja hana áfram og urra á einhverju ónotum svona til áhersluauka. Hún hlýðir og hundskast fram hjá pollunum. Frekar upptjúnnuð eftir lætin kemur frökenin upp í herðunum og töltir betur en hún hefur nokkru sinni gert. Það var ekki fyrr en við vorum komnar aðeins áleiðis að ég áttaði mig á því að mér var dálítið illt í bakinu. Ég datt auðvitað á vinstri hliðina, þar sem ég var búin að vera með bakverki sem ég hafði einmitt tekið verkjatöflur við klukkutíma áður.
Ég var ekki í stuði fyrir frekari reiðtúra. Ákvað vera aðeins í fýlu inn á kaffistofu fyrst á eftir. Þá hringdi aumingja bró'i og sá fékk heldur betur að hlusta á vælið í mér. En mér leið aðeins betur á eftir.
Eftir að ég kom heim er búin að missa alla skapaða hluti, hella niður og farin að fá verk í vinstri handlegginn. Ég held að ég ætti að koma mér í rúmið eða eitthvað áður en ég geri eitthvað meira af mér. Þessi dagur er búin að vera jafn hræðilegur og gærdagurinn var góður. Ég er alveg andlega búin eftir daginn.

|

Tuesday, December 11, 2007

Fréttir af mér og mínum hrossum
Ég druslaðist loksins á sunnudaginn að kíkja á útiganginn. Er ekki búin að kíkja á hann allt of lengi miðað við hvað hnjóskar eru orðnir mikið vandamál. Ég var reyndar búin að hringja í bóndann sem fullyrti að allt væri fínasta standi. Þótt hann gefi hrossunum vel yfir veturinn þá er hann ekki mikill hestamaður og ég treysti honum ekki alveg í þessu hnjóska máli. En ég slapp vel þrátt fyrir letina. Öll hrossin voru í fínasta standi. Öll feit á síðu og feldurinn glansandi og fallegur. Ég gekk á öll hross sem hleyptu mér að sér og það eru örlítið að byrja hnjóskar í honum Dag mínum og tvemur öðrum hrossum. Allar stelpurnar mínar eru í fínasta standi og skildu lítið í þessu baknuddi mínu. En það verður ekki vandamál enda á að byrja að gefa þeim út núna í vikunni. Ég hlakka mikið til að ná í hana Hefringu mína, folaldið sem ég fékk í sumar. Hún er enn mjög mannelsk og kelin eftir allt keleríið í sumar. Það verður gaman að fá hana inn og hún á eftir að verða algjör dekurdolla, þar sem hún verður eina folaldið mitt á húsi í vetur.
Það gengur vel í hesthúsinu og er ég með eindæmum dugleg að ríða út. Ég reyndar fór ekki á bak í gær enda stormur á landinu. 60m/sek undir Hafnarfjallinu. Ef ég man þetta rétt þá eru 30m/sek stormur eða fárviðri. Ég var því dugleg og byrjaði að taka til í hesthúsinu. Búin að hengja upp gömul beisli frá afa sem eru búin að liggja í poka í nokkur ár. Ég ætla líka að láta tengja vatnið inn á kaffistofu. Þar er búið að vera vatnslaust síðan ég var að breyta 2004, humm... Það er að sjálfsögðu eina ástæðan fyrir því að það er svona skítugt alltaf á kaffistofunni hjá mér. Alveg ómögulegt að þurfa alltaf að sækja vatn fram til að skola eitt og eitt glas eða vinda tusku. Ég treysti því að þið verðið alveg búin að steingleyma þessari færslu næst þegar þið komið í heimsókn, hehe.
Jólin koma... og ég hugsa að ég verði bara tilbúin. Búin baka. Búin að kaupa ný jólaljós, á reyndar eftir að setja þau upp en hva! Nokkrar jólagjafir komnar í gjafapappír. Búin að skrifa jólakortin, þarf bara að henda þeim í póst. Jájá, þetta reddast.
Því miður er eitt sem skyggir á almenna gleði mína. Það er eitthvað miður skemmtilegt að gerast í bakinu á mér. Það kom fyrir þrisvar í gær að ég sat næstum föst og veinaði af sársauka þegar ég var eitthvað að hreyfa mig. Þetta er vinstra megin í mjóbakinu, þar sem ég er með brjósklosið. Í dag er ég með pínu seyðing og er skíthrædd um að þetta eigi eftir að gera mér einhvern grikk á næstu dögum.

|

Wednesday, December 05, 2007

Eru að koma jól?
Það er eitthvað að fara framhjá mér. Er samt búin að vera að reyna undirbúa þau eitthvað. Mér er reyndar búið að takast að baka þrjár sortir af smákökum. Er líka búin að bera jólagjafir undir "Tvibbann" en síðan ekki söguna meir. Og núna eru innan við 20 dagar til jóla. Gvöð, ég verð að fara að kaupa einhverjar gjafir og pakka inn. Svo reddast þetta einhvern veginn, vonandi...

|

Sunday, December 02, 2007

Allt komið á fullt
Það var brjálað rok á skerinu á fimmtudag og föstudag. Ég fór á bak á fimmtudeginum en eftir að hafa fokið næstum af baki þá lét ég gott heita. Ég þurfti því að bíða með skeifnasprett á Ísold og Glóey. En í gær, laugardag, komst ég loksins á bak. Ég gat því farið í fimm reiðtúra í gær, og gengu allir vel, þannig að það er allt komið á fullt. Mér finnst ég loksins vera vel ríðandi. Mér finnst ég ekki hafa verið að njóta þess nógu mikið að ríða út undan farin ár. Þetta eru samt meira og minna sömu hrossin og ég hef verið með. Ég held að mesta breytingin sé hjá mér. Ég er komin í betra líkamlegt form og ekki að upplifa sömu hræðslutilfinningu og ég fékk í upphaf vetrar í fyrra. Ég held að sé loksins komin yfir það að hafa dottið svona illa af baki þarna um árið.
Mér finnst samt hún Ára mín eitthvað undarleg. Ég veit að það eru 99,99% líkur á því að hún sé EKKI fylfull en ég hef samt áhyggjur að eitthvað sé í gangi. Hvað sem það er. Held að ég verði að láta læknisskoða hana og fylskoða. Bara til að ég geti slappað af.

|