Gamlar minningar
Ég fékk fjárveitingu til að kaupa hillur í kompuna. Dyggir lesendur muna, af sjálfsögðu, frá því í fyrra að ég fékk neitun um þessa fjárveitingu, ætlaði að leggja út fyrir þessu sjálf og þá voru hillurnar ekki til. En núna voru hillurnar til og keyptar. Ég er því búin að taka til í kompunni. Þá er næsta skref að taka til í kjallaraherberginu. Þetta hékk nebbla saman, varð að taka til í kompunni til að geta tekið dótið úr kjallaraherberginu.
Þegar það er ráðist í að taka til í geymslum fjölskyldu sem hefur búið á sama stað í yfir 30 ár þá má ekki láta minningar og tilfinningar ná yfirhöndinni. Það þýðir ekkert annað en að vera grimmur og henda sem mestu. Ég hef verið það og læt fólk ekki vita hverju ég er að henda. Ef það hefur ekki saknað hlutanna síðustu 10, 20 eða 30 ár þá saknar það þeirra ekki, svo framarlega sem það sér ekki hlutina. Þið vitið ekki hvað ótrúlegasta drasl getur orðið ofboðslega mikilvægt þegar fólk hrynur inn í minningarnar.
Ég var að fara ruslaferð númer tvö í dag þegar ég dat kylliflöt inn í gamlar minningar. Ég var að fleygja einhverjum gömlum rafmagnspotti, sem ég held að amma hafi átt (dó fyrir 20 árum), sem var eitthvað brotið gler í og því ekki hægt að nota. Hann var samt geymdur í 20 ár, svona ef einhver skyldi útvega varahlut. Þegar ég er að sveifla pottinum yfir hliðina á gámnum sé ég glitta í eitthvað bleik/fjólublátt. Ég ákveð snarlega að þetta sé eitthvað plastdrasl en sleppi samt ekki takinu á pottinum og ákveð að kíkja nánar á þetta. Þetta var sko ekki neitt plastdrasl. Þetta var pínulítil hestastytta sem ég fékk í Feneyjum 1984 þegar við vorum að skoða Feneyjarkristal í einhverri verksmiðju. Þeir voru upphaflega tveir en annar hvarf fyrir einhverjum árum. Ég var hálf miður mín að eftir hafa næstum glatað þessum dýrgrip. Og þetta er sko dýrgripur!!! Hann er nú kominn upp í hillu og verður ekki hennt.
Ég held ég þurfi bara aðeins að jafna mig áður en ég held áfram að henda.