Monday, January 28, 2008

Fjarlægðin gerir fjöllin blá, mennina mikla og Röskvu að gæðingsefni
En fjöllin eru ekki blá og Röskva er ekki gæðingsefni.
Ég fór með Röskvu aftur út í gerði í gær og lét hana hlaupa lausa. Það voru ekki mikil tilþrif í gangi og engar skvettur. Svo í dag lagði ég á dömuna, fór út í gerði og fór á bak. Það gerðist mjög lítið. Hún hlýddi og fór upp á brokk en var fljót að skella sér á lullið með mig á baki. Ég ákvað því að fara út úr gerðinu og fara í stuttan reiðtúr. Hvað var ég að hugsa? Hún fór á brokk en var mjög fljót að skella sér á lullið. Ég reyndi að setja hana á tölt en eins og alltaf þá reyndi hún að láta hausinn síga niður, taumsambandið eins og að halda í gúmmíkarl, og í lull. Þótt hún sé drullu löt þá er hún samt spennt og þú mátt alltaf eiga von á einhverju hoppi og skoppi. Ég gat ekki beðið eftir að komast af baki og reiðtúrinn var stuttur. Ég er aftur alveg ákveðin í að senda hana í SS og ef ég fer að vera í einhverjum vafa aftur þá skelli ég mér aftur á bak.

|

Saturday, January 26, 2008

Bakþankar og betri heilsa
Flensan náði hámarki miðvikudag og fimmtudag. Föstudag fann ég breytingu til batnaðar og fór í einn reiðtúr og í dag í tvo. Ég er ekki fullkomlega búin að ná heilsu en ég er mun brattari. Hryssan er líka öll að koma til. Fékk gerla hjá dýralækninum og virðist það hafa verið það sem vantaði.
Í dag fékk ég svo mikla bakþanka. Hún Röskva mín er núna búin að standa óhreyfð í mánuð. Auðvitað er hún búin að vera á fullri gjöf allan tímann og komin með upp safnaða orku. Í dag var alveg farið að keyra um þverbak. Vinkonan stóð og krafsaði og krafsaði inn í stíu. Ég var búin að reyna að hunsa hana í korter þegar ég gafst upp. Tók því dömuna út í hringgerði til að láta hana hlaupa úr sér orkuna. Fyrst var hlaupið eins og vitleysingur og skvett upp rassinum. En svo... svo tók hún sig til og hljóp um á svifmiklu brokki. Ég geri mér grein fyrir því að það var ákveðið mont hlaup í gangi og hófarnir orðnir mikið vaxnir en... þetta er svo erfitt. Hún er svo blíð og góð í umgegni. Mér þykir svo vænt um þennan ræfil. Finnst tilhugsunin að senda hana í sláturhús alveg hræðileg. Ég var búin að vera svo ákveðin og búin að passa mig svo að reyna að horfa fram hjá þeirri staðreynd. Í dag hvarf öll ákveðni eins og dögg fyrir sólu.

|

Wednesday, January 23, 2008

Flensa af fullum þunga
Ég er komin með allan pakkann. Stíflað nef, hósta, aum í hálsi, kláða út í eyru og þung yfir höfðinu. Hélt að ég væri ekki svo slæm í gær en fann það vel að ég var langt frá því að vera 100% þegar ég fór að moka í hesthúsinu. Það verður fjör að fara upp eftir í dag. Þetta eru einu skiptin sem ég vildi hafa einhvern með mér í húsinu, einhvern sem gæti séð um hrossin þegar ég er veik. En þetta hefst. Svo er önnur leiguhryssan búin að vera með meltingarslen frá því á laugardag. Búin að vera með dýralækni á hverjum degi. Hún hefur skánað mikið en er ekki að éta sem skildi.

|

Tuesday, January 22, 2008

The lunatics have taken over the asylum
Ég hef nú lítið nennt að tala um þjóðmálin en þetta borgarstjórnarmál er nú bara alveg fáránlegt. Ég er nú sú síðasta til að tala illa um geðsjúklinga en ég held að það sé alveg ljóst að þessi nýji borgarstjóri sé óhæfur. Þetta er orðið svo mikið bull að það er hræðilegt að það sé ekki hægt að kjósa bara aftur. Sé ekki að þessi meirihluti eigi eftir að halda út kjörtímabilið. Hélt að þeir ekki sammála um neitt.
Annars er það af mér að frétta að ég er komin með einhverja leiðinda flensu og ætla bara að taka því rólega í dag. Fer upp í hesthús seinni partinn bara til að moka og gefa.

|

Friday, January 18, 2008

Hrukkan
Undanfarin kvöld hef ég verið með leiðinda hrukku á enninu. Svona lóðrétt upp frá annari augabrúninni, ekta frekjuhrukka. Þegar ég vakna á morgnana er þessi hrukka svo hvergi sjáanleg. Nú hélt ég að hrukkur kæmu ekki og færu sí svona. Mér er því spurn hvort ég sé svona fýld á svipinn allan daginn að á kvöldin sé ég komin með þessa leiðinda frekjuhrukku. Síðan þegar ég slaka svo á í svefni á nóttunni sléttist úr hrukkunni.

|

Monday, January 14, 2008

Það tekur þrjá daga...
fyrir folöld að jafna sig á því að vera tekin frá móðurinni. Það er sem sagt allt komið í ró hjá folöldunum. Það síðasta kom meira að segja á föstudaginn, þannig að þau eru orðin þrjú. Öll rökuð og ormahreinsuð. Sú sem kom síðast var nú mun rólegri og yfirvegaðri en hin daman. Fína daman, sem var alveg brjáluð, er búin að róast en er lang mesta frekjudollan. Hún ræður öllu í stíunni.

|

Tuesday, January 08, 2008

Eins og heitur hnífur í gegnum smjör
Þannig rann nýji kamburinn í gegnum feldinn á folöldunum. Þvílíkur munur. Kannski að endurnýja kambinn oftar. Hef það bakvið eyrað.
Talandi um folöldin. Folaldið sem ég á ekki má þakka fyrir það að ég er ekki með haglara í hesthúsinu. Þótt hún hafi staðið eins og stytta meðan ég rakaði hana hélt hún áfram að láta eins og hálfviti. Ég setti eina fullorðna hryssu með þeim út í dag og það virtist virka. Hún henti sér alla vega ekki yfir gerðið aftur. Ég ætlaði svo að setja fullorðnu hryssurnar út í tveimur hollum en það skipti engu máli. Um leið og ég byrjaði að hleypa út trylltist daman og fleygði sér ítrekað á framhliðina á stíunni. Með því að hafa lokað út og góla reglulega á þær, því Hefring spenntist náttla öll upp, náði ég að halda henni inni. Um leið og ég reyndi að fara út með hjólbörurnar trylltist hún aftur. Ég þurfti því að reka þær með látum út í horn og hlaupa svo með hjólbörurnar áður en hún reyndi aftur að fleygja sér út. Eins og þessi unga dama væri ekki búin að ergja mig nóg þá tók hún sig til og barði Hefringu frá heyinu þegar ég var búin að gefa. Og þótt ég setti annað net annar staðar í stíunni þá reyndi þessi litla frekja að ganga á milli til að reka Hefringu frá öllu heyi. Það er þrennt sem getur gerst. Hún hættir að haga sér eins og fífl. Slasar sig eða drepur á látunum. Eða ég gefst upp og kála henni. Nobody puts my baby in a corner.

|

Monday, January 07, 2008

Allt að gerast á nýju ári
Ég er búin að hringja í SS og panta fyrir Röskvu. Hún tók sig til og undirritaði sinn eigin skapadóm nú um helgina. Ég, blessunarlega, ákvað að láta hana hlaupa úr sér uppsafnaða orku áður en ég færi á bak. Og þar sem ég var í óvenju góðu skapi þá ákvað ég að teyma hana með mér. Þar sem ég hef reynslu af því að daman hrekki í taum og hlaupi svo heim þá ákvað ég að binda hana utan á. Þannig að ég lagði á Glóey og setti teymingargjörðina á Grímu og Röskvu utan á. Við vorum ekki komnar langt þegar ballið byrjaði. Röskva hrekkti ítrekað og reyndi að þröngva mér og hinum hryssunum út af veginum. Þessi læti voru svo mikil að fólk sem ég mætti forðaði sér út af veginum hinum megin og beið þar meðan við fórum framhjá. Frökenin hætti ekki fyrr en það festist steinn í hófnum á henni. Þá varð henni svo obbolega illt að hún snarhætti öllum látum. Ég náði ekki steininum úr hófnum þannig að við fetuðum heim, mjög stilltar og haltar.
Ég náði svo í Hefringu á sunnudeginum. Það gekk ótrúlega vel. Náði dömunni út í haga. Auðvitað smá vesen að koma henni að kerrunni og á hana en ekkert til að kvarta undan. Í dag sá ég svo dömuna sem á að vera með henni í vetur í fyrsta skipti. Sú unga dama kom ekki vel fyrir. Hún var alveg tryllt þegar fullorðnu hrossin fóru út. Þegar var að reyna að raka Hefringu, prjónaði hin daman tvisvar upp á innréttingarnar. Þegar þær fóru svo út reyndi hún að stökkva yfir gerðið en dreif ekki alveg. Þannig að hún fór kollhnís yfir gerðið, lenti á bakinu og rúllaði svo aftur inn í gerðið undir járnslánna.
Klippurnar mínar voru ekki alveg að virka, vona að það vanti bara nýjan kamb, það kemur í ljós. Ég gat alla vega ekki klárað að raka.

|

Wednesday, January 02, 2008

Gleðilegt ár
Ég lifði af áramótin. Er ekkert voðalega spennt fyrir áramótum. Í mínum huga eru þetta eiginlega bara mánaðamót sem er gert óþarflega mikið úr. Ég er heldur ekkert hrifin af sprengingunum. Vil ekki koma nálægt einhverju sem springur, mjög annt um hendurnar á mér. Líka hrædd um að þessir flugeldar lendi á mér og springi svo. En það gerðist ekki.
Annars er bara allt gott að frétta.

|