Monday, February 25, 2008

Blessað bakið
22. febrúar var bæði afmælisdagur bró'a og svo fékk ég líka þær fréttir að það hefði fjölgað í Noregi um nóttina. Vinkona mín eignaðist litla stúlku. Ég vildi því sem minnst tjá mig þann dag því það hefði ekkert gott komið frá mér og það hefði ekki verið við hæfi þegar góðir vinir voru að eiga góðan dag.
Aðfaranótt þessa föstudags var ein af þeim verri sem ég man eftir, heilsulega. Ég var að drepast úr verkjum alla nóttina, þrátt fyrir að hafa tekið verkjalyf. Klukkan rúmlega fjögur var ég ekki enn sofnuð. Ég var samt komin út á heilsugæslu klukkan hálf níu. Ég átti tíma tuttugu mínútur í níu og þessar tíu mínútur gátu ekki liðið nógu hratt. Læknirinn kallaði mig ekki inn fyrr en tíu mínútur í og þá var ég búin að sjá hann vera flækjast fram og til baka frá því að ég kom. Geðið var því ekki gott þegar ég kom inn á stofuna. Til að bæta um betur hafa læknaskýrslurnar ekki enn verið sendar, þótt ég hafi beðið um það í september. Eftir nokkrar spurningar var potað í mjöðmina á mér, ég kveinkaði og þar með var ákveðið að þetta væru líklega bólgur í vöðvafestunum. Ég fékk lyfseðil upp á voltaren rapid og ef það væri ekki farið virka á miðvikudaginn ætti ég að koma aftur.
Því er ekki að neita að lyfið hefur eitthvað slegið á verkina en ég hef ekki verið alveg verkjalaus. Þar að auki ákvað ég að taka mér frí frá útreiðum yfir helgina til að gefa þessu tíma til að lagast. Í dag, mánudag, ákvað ég að fara á bak. Það skárra en síðast, ég gat riðið út en ég fann samt alveg greinilega fyrir þessu. Og núna, þegar ég sit fyrir framan tölvuna, þá er ég stirð og aum í bakinu. Ég ætla að reyna að ríða út aftur á morgun en ég held að það sé alveg ljóst að ég þurfi að fá nýjan tíma hjá lækninum.

|

Thursday, February 21, 2008

Og svo fór allt til helvítis
Ég var enn slæm í bakinu þegar ég vaknaði á miðvikudeginum og hafði því vit á því að panta tíma hjá lækni. Fékk tíma á föstudaginn, sem var víst eins gott.
Ég tók tvær 400mg íbúfen í hádeginu. Aðrar tvær þegar ég kom upp í hesthús. Það var ekki alveg duga svo ég tók tvær parkódín sem ég hafði fengið hjá múttu. Með það innanborðs fór ég í það að draga undan Röskvu. Það var svona allt í lagi, nema þegar henni brá við læti og kipptist aðeins til. Þá fékk ég stingandi verk en það leið hjá. Nú var ég orðin helvíti brött, upp dópuð og fín svo ég ákvað að skella mér á bak. Alveg vonlaust að ríða ekki út dag eftir dag. Það reyndist ekki gáfulegt. Ég fékk þvílíka verki um leið og ég fór upp af fetinu að það hálfa hefði verið nóg. Ég hefði farið að grenja ef ég hefði verið svona upptekin við að reyna að anda. Í staðin fyrir að gefast bara upp og feta heim þráaðist snillingurinn ég við að ríða allan flugvallarhringinn. Var reyndar farin að sitja eins og þvottaklemma og komin með hendurnar krepptar að bringunni, hangandi í taumunum til að halda jafnvægi því enginn annar hluti af mér til þess að halda því. Held að ég hafi aldrei verið jafn fegin að komast af baki. Skreið inn á kaffistofu og slengdi í mig tveimur íbúfen í viðbót. Það var ekki sniðugt. Gerði ekkert fyrir verkina en mér varð skemmtilega illt í maganum og ringluð í hausnum. Tókst að gefa og skríða svo heim. Þar fékk ég mér að borða sem hjálpaði maganum aðeins og lá svo upp í sófa á hitapoka það sem eftir lifði kvöldsins.
Í morgun þurfti ég svo að skreiðast upp í hesthús til setja Röskvu á bílinn á leið í sláturhúsið. Hélt andlitinu þar til ég var búin að borga flutningamanninum og svo fór ég inn í hesthús að grenja. Ég er svo fegin að hafa ekki þurft að keyra hana sjálf. Mér líður alltaf eins og versta svikara þegar ég teymi hrossin á vit örlaga sinna. Hvort sem þar er í sláturhúsið eða þegar þau eru felld. En þetta er búið og gert.
Ég er búin að liggja á hitapokanum í allan morgun. Það verður gaman að fara í hesthúsið á eftir. Það gengur reyndar þokkalega að moka. Bara ef ég hreyfi mig rólega og beygi mig sem minnst í bakinu.

|

Tuesday, February 19, 2008

Ekkert að ganga nógu vel
Ég er búin að vera að reyna að panta undir stóðhesta fyrir sumarið og það gengur alls ekki nógu vel. Það er alveg fáránlega dýrt undir Ás frá Ármóti en ég hefði látið mig hafa það þar til ég komst að því að ég þyrfti að borga hálfan folatoll ef hryssan fyljaðist ekki. Þar sem Glóey verður 18v í vor og hélt ekki síðast ætla ég ekki að taka séns á því að þurfa að borga 75.000kr fyrir ekkert folald. Þannig að ég leitaði logandi ljósi að öðrum stóðhesti og endaði á Aðli frá Nýjabæ. Hann verður fyrir norðan á húsi og ég nenni ekki alveg að hendast þangað. Öll plásin sem eigandinn leigir út eru upp pöntuð í fyrra gangmáli. Hrossaræktunarsamband vesturlands á 15 pláss í fyrra gangmáli og ég er búin að panta en þeir sem eru í sambandinu ganga fyrir þannig að það verður ekki öruggt hvort ég fái plássið fyrr en í mars. Síðan er ég búin að reyna að panta undir Illing en þar þarf ég að fá pláss í seinna gangmáli og það er ekki búið að ganga frá því og það getur verið að hann fari norður, þangað nenni ég ekki, svo ég fæ ekki að vita það fyrr en í apríl. Ef hvorugt gengur upp þarf ég að byrja alveg upp á nýtt og ég er bara ekki með fleiri hesta á listanum yfir þá sem langar að halda undir í sumar. Ég set líka verðið fyrir mig í sumum tilfellum og þegar ég fæ þetta loksins á hreint þá verður örugglega orðið fullt undir marga hesta. Graut fúlt.
Ég fór reyndar á mjög fróðlegt námskeið um byggingu kynbótahrossa um helgina og er margs vísari. Gallinn var hins vegar sá að stólarnir á námskeiðinu voru ekki góðir og svo þurfti ég að standa upp á endann í nokkra klukkutíma og það fór frekar illa í bakið á mér eða hægri mjöðmina réttara sagt sem var ekki í góðum gír fyrir. Ég tók verkjatöflur í gær og það dugði þolanlega til að ég gæti riðið út. Þær dugðu ekki í dag. Ég tók íbúfen í hádeginu sem slógu aðeins á verkina. Klukkan fjögur voru þær hættar að virka og ég þurfti að fara út hesthúsinu í apótek til að kaupa meira. Það gerði nákvæmlega ekki neitt og ég treysti mér ekki fyrir mitt litla líf að fara á bak, ég átti í nægum vandræðum með að gefa. Ég skreið heim og fékk parkódín hjá mömmu og tók líka meira af íbúfeni og þótt ég sé betri er ég ekki verkjalaus. Þetta kallar á læknaheimsókn, greinilega, en ef þetta lagast ekki eitthvað verður lítið um útreiðar hjá mér á næstunni.
Einu "góðu" fréttirnar eru þær að ég á að fara með Röskvu í SS á fimmtudaginn. Ég veit að það verður léttir þegar það er búið en þangað til er ég með hnút í maganum og brjálað samviskubit.

|

Thursday, February 14, 2008

Kominn á skilorð
Tók Ísold með Degi út í gerði og drengurinn hagaði sér bara skikkanlega. Þannig að hann hefur verið tekinn af sláturhúsalistanum í bili en er enn á skilorði. Ég er byrjuð að láta tryppin éta með beisli, bara stutt í einu, og setti hnakk á þau í gær og teymdi þau um út í gerði. Færðin er svo slæm og þau ójárnuð þannig að þau voru bara stillt. Ef færðin fer ekki að skána verð ég að fara að þrýsta á járningarmanninn að járna þau, annars verður lítið gert.
Það er mikið búið að hlána og vatn flæðir út um allt. Ég er svo fegin að ég stíflaði niðurföllin í hesthúsinu því að niðurfallið fyrir utan húsið hefur ekki undan eða er stíflað og þá væri vatnið farið að flæða upp um niðurföllin inni.
Ég tók mig líka til í dag og sópaði hrossaskítinn af klakanum út í gerði. Fyllti þrjár hjólbörur af vatnsblönduðum skít. Ég er fegin að hann á ekki eftir að liggja í gerðinu mínu þegar klakinn fer.

|

Monday, February 11, 2008

Hvað skal gjöra?
Ég þóttist rosa dugleg fyrir helgina og ætlaði heldur betur að hefja tamningu á blessuðum tryppunum. Fór fyrst með hana Gleði út í hringgerði og gekk það bara vel með dömuna. Ég þóttist því nokkuð brött og sótti Dag. Hann var nú ekki alveg á því að láta reka sig áfram. Ætlaði nú ekki að fara að hlaupa í einhverja hringi. Til að mótmæla þessu frekar tók hann sig til og prjónaði á hliðið. Þar sem það er orðið ansi erfitt að krækja því og ég ætlaði að hafa hrossið í taum þá lét ég nægja að halla því. Drengurinn opnaði það því mjög auðveldlega þegar hann rak lappirnar í það. Hann hlýddi samt taumnum og fór ekki frá mér. Ég auðvitað lokaði hliðinu aftur og krækti því í þetta sinn. En drengurinn hafði fundið flóttaleið og nú átti sko að halda þessu til streitu. Skipti engu máli að hliðið opnaðist ekki aftur. En að hlaupa ætlaði hann sko ekki. Þar sem það var töluvert vesen að halda í tauminn og reka hann áfram á sama tíma ákvað ég losa hann við tauminn og einbeita mér að því að láta hann hreyfa sig. Það skipti engum togum að drengurinn reyndi ítrekað að klifra yfir gerðið á öllum hugsanlegum stöðum og lét ekki segjast með þetta mál. Þeimur meira sem ég reyndi að reka hann áfram þeimur meira reyndi hann að komast í burtu.
Í dag reyndi ég aftur. Ákvað að taka þetta voða rólega. Fyrst gekk ég með honum hringinn. Síðan rak ég hann frá mér í stutta hringi í kringum mig. Fannst hann samt svona hálf við það að ógna mér með afturendanum. Þar sem ég var ekki alveg að fíla það ákvað ég að taka pískinn, sló samt ekki í hann heldur veifaði honum hressilega um leið og ég hottaði á hann með röddu og veifaði öllum öngum. Hann var samt ekki á því að hlaupa í neina hringi og var svo byrjaður að reyna að klífa veggina aftur.
Næst ætla ég að fá manneskju með mér út í gerði og jafnvel láta annað hross hlaupa með honum. En mér líst ekki á þetta. Það hafa verið tvö önnur hross sem vildu ekki hlaupa í gerðinu, það voru Esjar og Röskva, ekki félegur félagskapur það. Ég er eiginlega farin að íhuga að senda hann bara í SS með Röskvu. Hann fær alla vega ekki séns þar til hann er átta vetra eins og aðrir hafa fengið. Ef hann sýnir ekki einhverja ásættanlega tilburði fljótlega er hann farinn. Ég hef ekki einu sinni séð hann hreyfa sig nógu mikið til að dæma um hvort eitthvað sé varið í hann.
Gleði aftur á móti hreyfir sig mjög fallega og er algjört fiðrildi.

|

Saturday, February 02, 2008

GleðiDagur
Já, tryppin, árgangur 2004, er komin í hús. Þau heita Gleði og Dagur. Bró'i kom sem betur fer með mér því fröken Gleði ætlaði ekki að láta ná sér auðveldlega. Við náðum henni í annari tilraun með spotta út í horni. Eftir það var hún algjört ljós og þau voru viljugri á kerruna en flest "tömdu" hrossin. Ég tók mig til og rakaði þau bara í dag. Þá er það bara búið. Tók líka upp lappir, sem gekk mjög vel, þannig að ég vona að þau verði þæg í járningu. Dagur var byrjaður á fá hnjóskana um töluðu í desember en það var byrjað að gefa út þannig að ég hélt að það væri í góðu lagi. Hann er "í lagi" en frekar tuskulegur og hefur fengið þó nokkuð af hnjóskum sem eru byrjaðir að losna frá. Og nú er mín bara að fara að temja, hehe. Oh, my god. Ef ég lendi í einhverjum vandræðum tala ég bara við tamningardömuna sem tamdi fyrir mig í fyrra.

|

Friday, February 01, 2008

Brrrrr, það er kalt
Mín gömlu bein þola engan veginn svona mikinn kulda, -14°c á höfuðborgarsvæðinu í kvöld. Það er ekki inn í myndinni að ég ríði út í svona kulda. Dömurnar eru hins vegar stíf-bónaðar og fínar. Ég fann meira að segja spray fyrir hvítan feld. Virðist vera algjör snilld og er ég næstum búin með brúsan á mæðgurnar Grímu og Ísold. Fyrir þá sem ekki vita eru þær skjóttar og mikið hvítar.
Ég er líka farin að bera meira undir en ég gerði í hesthúsinu. Ég var að bera undir eins lítið og ég gat mögulega komist af með en samt að reyna að halda upp þeim hreinleika standard sem ég set mér þegar kemur að hrossunum. Það var ekki að takast svo ég ákvað gefa skít í peningasparnað og henda meiri peningum í skítinn. Ég ætla bara að bera undir eins mikið og ég vil og ég kaupi bara meiri undirburð. Ég hef efni á því.
Folöldin dafna vel. Svo dugleg að éta að þau eru komin með pínu bumbu. Þau eru ekki búin að vera inni í mánuð en líta samt betur út heldur tvö önnur folöld í hverfinu sem ganga enn undir mæðrum sínum. Það hefur ótrúlega mikið að segja að raka þau og það sem fyrst. Í þessum ógurlega kulda læt ég þau bara vera stutt úti í einu og læt rafmagnsofn ganga allan sólarhringinn. Það er alveg nóg til að halda hita í húsinu og á þeim. Auðvitað þarf smá almenna skynsemi líka. Ég læt til dæmis ekki útidyrahurðina standa opna lang tímum saman eins og margir virðast gera.
Folöldin tóku líka flotta sýningu út í gerði um daginn. Ég var að sýna öðrum eigandanum hvað þau væru farin að leika sér mikið. Þau tóku öll flotta takta en flottast var enga að síður þetta ættlitla að norðan. Þetta var ekki beinlínis til að hvetja mann til að borga tugi þúsunda í folatolla undir topp stóðhesta. Ég ætla samt að halda mínu striki í þessum málum.

|