Saturday, March 22, 2008

Nei, ég er ekki dauð
Reyndar hefur bara gengið býsna vel hjá mér. Það er búið að járna tryppin og það gekk eins og í lygasögu. Eftir að hafa teymt þau einu sinni utan á hvort ákvað ég að prófa að teyma þau í hendi á snúrumúl. Það hefur gengið alveg glymrandi og eru þau bæði farin að teymast í hendi, báðum megin. Ég er búin að fara einn stuttan reiðtúr á Gleði og gekk það vonum framar. Það var núna á þriðjudaginn og er ég í raun bara að bíða eftir að páskarnir gangi yfir og það verði ekki svona mikið af fólki að ríða út og þá fer ég aftur í reiðtúr. Það gengur líka vel með Dag. Hann er aðeins stífari allur í beisli en hlýðir samt. Eftir tvö þrjú skipti í viðbót í gerðinu er það bara reiðtúr á honum líka.
Það gengur líka vel með hin hrossin. Ég er búin að komast að því að Ára er best með hausinn þegar ég ríð með forláta hálf-stangir sem ég á. Hún er líka best á tölti með þær. Við prófuðum venjulega stangir á föstudaginn og var daman ekki alls kostar sátt við þær. Þannig að við ríðum bara til skiptis með hringamél og hálf-stangir.
Eftir að hafa tekið Ísold í smá prógram í gerðinu þar sem henni kennt að víkja undan fæti og fleiri liðkunaræfingar hafa verið daglegar framfarir á töltinu. Ég var að missa vonina á tímabili og hélt ég væri búin að festa hana í skeiðtölti. En talandi um skeið. Þá ákvað ég að reyna fimmta gírinn á föstudaginn. Skellti drullusokkum (hlífum) á dömuna og síðan í reiðtúr. Svo hleypti ég dömunni á stökk og bað svo um skeið og daman datt niður í skeið. Bara stuttan spotta auðvitað og ekki á fleygiferð en hún hélt taktinum, líka þegar ég hvatti hana áfram. Síðan hægðum við bara niður á þetta fína tölt. Þannig að næstu vikur verður skeiðið æft reglulega.
Gömlu konurnar, Glóey og Gríma, eru aðallega í undirbúningi fyrir fyljun, hehe. Það er að koma þeim í sem ákjósanlegast form upp á frjósemi. Það gengur bara vel. Ég hef líka verið að nota þær til að teyma tryppin. Gríma er náttla algjör draumur í það starf. Glóey er ekki alveg jafn sátt við að hafa dóttur sína danglandi með sér.
Svo eins og þið heyrið, sjáið, er ég bara í fínu formi. Nema ég fari að detta af baki eða einhverja vitleysu, en það er ekki á stefnuskránni.

|

Friday, March 07, 2008

Engar fréttir eru góðar fréttir
Já, ég hef lítið verið á netinu og enn minna nennt að blogga. En það þýðir ekki að það hafi ekki gengið þokkalega hjá mér.
Bakið er orðið betra. Ekki frábært en betra. Ég afpantaði seinni tímann hjá doksa. Ég bara nenni ekki að standa í einhverjum bakverkjum núna. Hef ekki tíma fyrir þetta. Ef ég verð skyndilega verri þá fer ég bara eftir því sem mér er sagt og panta tíma hjá lækni í Orkuhúsinu.
Það gengur vel með tryppin. Ég er búin að fara á bak á þeim báðum út í gerði og hafa þau ekki sýnt neina hrekki. Núna vantar mig bara járningu á gripina til að geta haldið áfram. Ég er búin að binda þau bæði utan á einu sinni og teyma þau með mér og það gekk mjög vel með þau bæði. Það var allt í lagi að fara með þau járnalaus í snjónum en nú er færðin þannig að skeifulaus fara þau ekki neitt.
Annað er ekki að frétta af mér í bili.

|