Monday, April 21, 2008

Andleg lágdeyða
Svona er þetta bara stundum. Mér líður eins og sprunginni blöðru. Ég held að ég hafi hreinlega sprungið eftir kvennatöltið. Var kannski bara að keyra á einhverju stressi síðustu dagana. Svo núna er búið að vera lítið að gerast í hesthúsinu. Lítið riðið út það er að segja. Það datt skeifa undan Gleði síðasta mánudag og járningamaðurinn hefur verið svo upptekinn að hann steingleymdi þessu og ég hitti ekki á hann fyrr en í kvöld. Svo við hana hefur ekkert verið hægt að gera. Í ljósi andlegs ástands ákvað ég að þetta væri upplagður tími til að gefa Áru viku frí. Ég hef riðið henni mest af öllum í vetur, frá því í lok nóvember. Það er helst Ísold sem er hreyfð. Mér finnst orðið alveg þrælskemmtilegt að fara á hana. Sérstaklega með þyngingar. Ég ætla að láta athuga með að sýna hana. Hún lyftir ekki eins hátt og ég hefði viljað en hún er mjög góð á öllum gangi og flott í höfuðburði. Ég tók mig til og rakaði Dag í dag. Hann var svo loðinn og lufsulegur. Ég tók eftir að aðrir í hverfinu hafa heilrakað fullorðin hross þannig að ég yrði ekki ein um það. Var búin að spá í það í nokkurn tíma. Er að hugsa um að raka Gleði líka. Hún klórar sér og klórar til að reyna að losna við lubbann. Hin hrossin eru miklu snyrtilegri enda búin að vera lengur inni og meira gengin úr hárum.
Svo eins og sum ykkar vita þá er í helv... hestamannafélaginu sem getur ekki hætt að hafa stripp á herrakvöldunum. Þetta fer í taugarnar á mér ég er bara ekki í skapi til að vera að standa í þessu. Verst af öllu er að aðal skipulegjandi kvöldsins á stóðhestinn sem mig langar að halda undir og er meira að segja óformlega búin að panta undir. Mig langar samt ekki að borga einhverjum perra peninga. Þannig að nú stangast á löngun og siðferðiskennd. Það leystist samt úr einu stóðhestavandamáli í dag. Ég fékk pláss undir Aðal frá Nýjabæ en ég var eiginlega búin að afskrifa það þar sem ég fékk aldrei neina staðfestingu. Svo Glóey fer undir hann í fyrra gangmáli.
En það er búið að dúkleggja baðið í bústaðnum svo núna þarf að fara að fara að koma upp vask og sturtuklefa. Þá getum við flutt upp í bústað og ég get ekki beðið eftir því að fara að komast upp eftir. Orðinn allt of mikill umgangur hérna í hverfinu. Þoli ekki svona miklar mannaferðir.
Ég er líka komin með mús á framfæri. Dúlli, högninn heima, fann sér músarræfill til að leika sér með. Mér finnst það ekki sniðugt. Alveg hlynt því að dýr séu drepin til matar en það á að gerast hratt, með sem minnstum sársauka og kannski mikilvægast af öllu þá vil ég ekki horfa upp á það. Hann ætlaði ekki að láta ná sér, hann Dúlli, svo ég tók músina, sem var í nettu taugaáfalli, og setti þar sem hún gæti komist í skjól, hún virtist ekki mikið slösuð. Músin var hins vegar alveg farin yfirrum og forðaði sér ekki svo Dúlli var ekki lengi að finna hana aftur. Í þetta sinn tók ég músina inn með mér og setti í box. Ætlunin var að sleppa henni aftur ef hún lifði af nóttina. Hún gerði það og morguninn eftir trítlaði ég aftur út með músina og sleppti henni. En hún virðist ekki hafa verið búin að jafna sig á sjokkinu og stuttu seinna var Dúlli búinn að finna hana aftur. Þannig að ég náði í músinu aftur og tók hana með mér upp í hesthús. Þar setti ég hana í búr sem ég átti frá gamalli tíð og þar er músin enn, í góðu yfirlæti.

|

Sunday, April 13, 2008

Kvennatölt
Mér gekk mun betur í kvennatöltinu en ég hafði gert ráð fyrir. Ég var reyndar bara í byrjendaflokki en ég held nú reyndar að ég hafi ekki verið að keppa neitt niður fyrir mig. En ég reið mig beint inn í a-úrslit. Var jöfn annari í 4-5. sæti. Ég var samt ekki ánægði með lokaniðurstöðuna. Það var þremur hleypt upp úr b-úrslitum, þannig að við vorum átta sem riðum úrslit. Þið getið ímyndað ykkur hvað það var mikið pláss í Gustshöllinni. Ára mín var orðin frekar pirruð loksins þegar kom að okkur og var ekki nógu góð með hausinn í úrslitunum. Þannig að ég var jöfn annari í 6-7. sæti og vann uppkastið og endaði í 6. sæti og fékk bikar.

|

Thursday, April 10, 2008

Lifandi, enn þá
Nei, nei, það gengur bara allt vel. Hef bara ekki haft mig í það að blogga undan farið.
Fór til doksa og ég er með töluverðar bólgur á tveimur stöðum. Þetta er mjög líklega eftir fallið af hestbaki fyrir tveimur árum. Ekki detta af baki gott fólk, það getur haft slæmar afleiðingar. Ég var sett á mánaðarskammt af voltaren rapid og á að fara í sjúkraþjálfun. Ég er ekki enn búin að hafa mig í sjúkraþjálfun, mig langar ekki. Það á að bíða með myndatöku og einhver læti þar til við sjáum hvort þetta virkar eða ekki. Ég er reyndar núna farin að fá verki sem mynna mig óneitanlega á taugaverkina sem ég fékk þegar ég fékk brjósklosið. Ég ætla samt að sjá aðeins til áður en ég hleyp í lækninn. En þetta verður eitthvað fjör.
Var ekkert að tala um það hérna en ég fór með hana Áru til Þórðar um daginn. Fór svo aftur í dag og að hans mati hefur henni farið fram á tölti. Sagði strax að hún ætti örugglega 8,5 fyrir brokk en í fyrra skiptið taldi hann að hún væri rétt að slefa í 8 fyrir tölt en núna er hann að tala um 8 - 8,5 fyrir tölt. Við þurfum samt að halda áfram að vinna í höfuðburðinum. Það getur því vel verið að hún fari í sýningu í vor. Hvað sem öllu öðru líður þá er gaman að heyra að maður sé að gera góða hluti og að hrossunum séi að fara fram.
Öðrum hrossum fer líka fram. Það gengur enn vel með hana Gleði og núna þarf ég bara að vera dugleg að hafi mig í reiðtúr á dömunni. Hún er algjört ljós og hefur hlýtt í einu og öllu. Það gengur ekki jafnvel með Dag. Við erum enn í gerðinu og ekki einu sinni farin að fara upp af fetinu. Hann verður svo fúll, er með eyrun aftur og togar á móti þegar hann á stoppa. Ég bara treysti honum ekki og er ekki sátt við þessar hægu fram farir. Ég ætla samt ekkert að stressa mig á þessu og einbeita mér að Gleði. Ef hann verður með einhverja truntustæla áfram þá fer hann bara í SS. Ég er orðin svo hörð núna að ef þetta er ekki nógu gott þá bara ét ég það.
Ég dreif mig líka í reiðtíma. Fórum yfir alls konar fimiæfingar til að liðka hrossin og laga höfuðburðinn. Ætla að æfa það í dálítin tíma og svo ætla ég að fara í annan tíma og læra að stíga brokk og eitthvað fleira skemmtilegt. Hefði þurft að drífa mig í þetta miklu fyrr.
Oooog, út af því að ég er svo ógeðslega dugleg þessa dagana. Þá ætla ég að taka þátt í kvennatöltinu um helgina. Bara í byrjendaflokknum, hef ekki kept í tölti í circa sex ár og jafnvel þá prófaði ég það bara tvisvar, þrisvar með litlum árangri. Ég læt ykkur vita ef það gengur sæmilega. Ef ég minnist ekkert á það, þá hefur það gengið illa, hehe.
Ég reyni að láta ekki líða svona langt þangað til að ég blogga næst.

|

Tuesday, April 01, 2008

Núna er ég næstum dauð
Ég fór í dag og keypti meiri undirburð. Ef þetta dugar ekki út veturinn þá hætti ég í hestamennsku. Ég hef litlar áhyggjur af því að þetta dugi ekki. En það var fjör að koma þessu upp á geymsluloftið og ég var ekki góð í mjöðminni fyrir.
Ég er sem sagt ekki lengur bara með verk í bakinu heldur komin með verki í allar vöðvafestur sem styðja við mjaðmaliðinn. Svo ég er búin að gera eins og mér var sagt og pantaði tíma hjá bæklunarlækni í Orkuhúsinu. Á tíma núna á fimmtudaginn og geri fastlega ráð fyrir að mér verði sagt að það þurfi að skipta um mjaðmalið. Nei, ég segi það nú kannski ekki. Er frekar farin að búa mig undir sjúkraþjálfun og nudd. Gvöð, hvað ég nenni því ekki.
Það gengur annars ágætlega í hesthúsinu. Ég er búin að fara í reiðtúra á Gleði og það gengur vel. Dagur er dálítið fýlugjarn og ég þori ekki alveg að styggja hann. Er ekki alveg manneskja til að vera að standa í einhverjum hrekkjum einmitt núna. Er dálítið hrædd við að meiða mig. Er með alveg nógu mikla verki nú þegar og þori lítið að espa þá upp. Þannig að ég er líka frekar dugleg að teyma tryppin. En það er nú bara hið besta mál.

|