Monday, May 26, 2008

Sum hross út, önnur hross inn
Ég hélt að ég væri nú í góðum málum. Dreif í að draga undan Glóey og fara með hana á Kjalarnesið. Eftir að hún og Gríma voru skoðaðar og allt virðist vera í orden þannig að þær ættu að geta fyljast. Járningarmaðurinn ákvað að skella annarri hryssunni sinni út þannig að eftir í húsinu voru bara fjögur fullorðin hross og þrjú folöld. Lítið og létt verk að sinna því.
Ég eyddi svo sunnudeginum í það að bera á útihúsgögn upp í bústað, sóla mig og skjótast í hesthúsið á milli að hleypa út og moka. Svo var mér boðið í grillmat hjá stóru systur um kvöldið. Ég ætlaði því að fleygja mér í sófann og glápa á sjónvarpið þegar ég kom loksins heim um níu leytið. Nei, aldeilis ekki. Bóndinn með útiganginn hringdi í mig til að segja mér að hún Embla mín hefði flækt sig í girðingu og væri hölt. Hann væri ekki heima og kæmi ekki heim fyrr en undir miðnætti en nágranni hans hefði séð hana og farið og losað hana en hann vissi ekki hvort eða hversu mikið hún væri slösuð. Ég náttla varð bara að fara og kíkja á dömuna. Tók með mér hestakerruna til öryggis ef hún væri mikið slösuð.
Þetta hefði getað verið verra. Hún hefur einhvern veginn náð að vefja vír utan um lærið á sér. Ekki spyrja hvernig, þetta er dóttir Röskvu. Það var vissulega far eftir vírinn en hún var ekki skorin. Hún var hins vegar aum og byrjuð að bólgna. Þannig að ég tók hana með mér í bæinn. Ég tók Ísadoru líka með mér. Hún var með leiðinlega vaxna hófa og þurfti bara á almennri snyrtingu að halda. Þær eru mjög faxprúðar þessar uppeldissystur. Svo það eru komin tvö hross í hús sem áttu ekkert að koma þangað.
Dýralæknirinn átti svo að koma eftir sex en lét svo ekki sjá sig og svaraði ekki símtölum. Svo ég verð að reyna aftur í fyrramálið. Hún er voðalega bólgin greyið en ber sig vel.
Þegar ég kom svo heim í kvöld áttaði ég mig á því að ég er þreytt, mjög þreytt.

|

Tuesday, May 20, 2008

Krossleggið fingur og vonið það besta
Ég er búin að skrá Áru á sýningu á Sörlastöðum. Það er að segja ef greiðslan á sýningargjaldinu kemst til skila. Við stefnum á 8,5 á línuna, nema 5 fyrir skeið. Alla vega ekki lægra en átta fyrir neitt. Ég hef aldrei látið sýna hross áður og verð líklega farin á taugum þegar að kemur.
Ákvað að láta Ísold bíða betri tíma. Þegar ég skoða sárin núna, sem gróa vel, þá er ég 99% viss um að þetta séu ágrip. Hún verður bara orðin betri þegar þar að kemur.
Ég alveg komin í graut með hvaða hest ég á að setja Kviku undir. Ég er komin með hugmyndir fyrir hryssur sem ég ætla ekki að halda en ekki hana. Komið endilega með hugmyndir. Ég er með nokkur skilyrði og þá verða lágmarkeinkunnir að vera eftirfarandi: Háls og herðar 8, tölt 8,5, brokk 8. Þar að auki verður aðaleinkunn að vera yfir 8 svo og hæfileikaeinkunn. Æskilegt að byggingareinkunn sé það líka en má fara niður undir 7,8 en þá verða hæfileikarnir að vera þeimur meiri. Ég er hrifnari að alhliðahrossum almennt en miðað við hvað ég er hugmyndasnauð þá koma klárhestar líka til greina.

|

Sunday, May 18, 2008

Veit bara ekki hvar ég hef verið
Ég hef bara ekkert haft mig í að blogga lengi. Samt hef ég nú kíkt á netið annað slagið.
Ég er búin að henda tryppunum út. Það var kominn tími á að járna og ég ætlaði ekki að gera neitt meira við þau sjálf. Svo ég gekk girðinguna, sem var þokkaleg og henti þeim svo bara út á Kjalarnesið. Setti auðvitað hey hjá þeim, svona til öryggis. Allir að segja að útigangurinn sé hættur að éta heyið og farinn að eltast við nálina. Tryppin mín éta eitthvað af heyinu svo ég setti meira hjá þeim. En þau eru í góðu standi og ekki að snarleggja af eða neitt.
Mér til mikillar skelfingar var Ísold með blóðugt hófskegg á báðum framfótum þegar ég ætlaði að leggja á hana um daginn. Ég er hreinlega ekki viss hvort hún greip á sig daginn áður eða hvort múkkið hafi náð að verða svona slæmt. Hún er búin vera fá múkk síðustu vikur en ég hef náð að halda því niðri með pensilínkremi. Set það á nokkra daga í röð og þá fer múkkið og þá hætti ég að bera á og svo kemur það aftur og þá byrja ég að bera á aftur. Þori ekki að bera stanslaust á, út af pensilíninu í kreminu. Kannski einhver vitleysa í mér, I don't know. Síðan komu nokkrir dagar í röð sem ég bara steingleymdi múkkinu og tékkaði ekkert á því. Síðan ákvað ég að prófa að skeiðleggja dömuna á nýju járningunni. Daginn eftir var hún með sár á báðum fótum. Nú segja kannski margir að auðvitað sé þetta ágrip og ég sé bara asni. En ég varð ekki vör við að hún gripi á sig eða fipaðist neitt á skeiðinu. Sárin eru á sama stað og múkkið hefur verið. Ég man ekki eftir að hafa séð ágrip á þeim stað áður, en það þýðir svo sem ekki að það geti ekki gerst. En hún greip aldrei á sig á gömlu járningunni. Hún er alla vega í fríi meðan að sárin gróa. Vafin inn í bómull og ein í stíu.
Sjaldan er ein báran stök og auðvitað getur ekki slasast eitt hross í einu. Glóey gamla hefur verið slegin framan á afturfót af hesti með skaflaskeifu, þannig að hún er með hálfgerðan skurð á fætinum og töluvert bólgin. Þarf tíu daga frí og þar sem hún er að fara undir hest á fyrra gangmáli þá ætla ég ekki að fara að járna hana upp fyrir tæpan mánuð. Þannig að ég ætla að láta skoða báðar gömlu konurnar, í sambandi við frjósemi, og síðan að draga undan Glóey og henda henni bara út til tryppanna.
Þórður er ógeðslega busy og ég veit ekki hvort ég nái að láta hann taka út Áru og Ísold áður en það verður of seint að skrá á sýningu. Reyni aftur í vikunni. Það kemur bara í ljós. En Ára er bara orðin massa góð á töltinu. Ef þetta dugar í 8,5 þá veit ég ekki hvað.

|