Friday, September 19, 2008

Gamlar minningar
Ég fékk fjárveitingu til að kaupa hillur í kompuna. Dyggir lesendur muna, af sjálfsögðu, frá því í fyrra að ég fékk neitun um þessa fjárveitingu, ætlaði að leggja út fyrir þessu sjálf og þá voru hillurnar ekki til. En núna voru hillurnar til og keyptar. Ég er því búin að taka til í kompunni. Þá er næsta skref að taka til í kjallaraherberginu. Þetta hékk nebbla saman, varð að taka til í kompunni til að geta tekið dótið úr kjallaraherberginu.
Þegar það er ráðist í að taka til í geymslum fjölskyldu sem hefur búið á sama stað í yfir 30 ár þá má ekki láta minningar og tilfinningar ná yfirhöndinni. Það þýðir ekkert annað en að vera grimmur og henda sem mestu. Ég hef verið það og læt fólk ekki vita hverju ég er að henda. Ef það hefur ekki saknað hlutanna síðustu 10, 20 eða 30 ár þá saknar það þeirra ekki, svo framarlega sem það sér ekki hlutina. Þið vitið ekki hvað ótrúlegasta drasl getur orðið ofboðslega mikilvægt þegar fólk hrynur inn í minningarnar.
Ég var að fara ruslaferð númer tvö í dag þegar ég dat kylliflöt inn í gamlar minningar. Ég var að fleygja einhverjum gömlum rafmagnspotti, sem ég held að amma hafi átt (dó fyrir 20 árum), sem var eitthvað brotið gler í og því ekki hægt að nota. Hann var samt geymdur í 20 ár, svona ef einhver skyldi útvega varahlut. Þegar ég er að sveifla pottinum yfir hliðina á gámnum sé ég glitta í eitthvað bleik/fjólublátt. Ég ákveð snarlega að þetta sé eitthvað plastdrasl en sleppi samt ekki takinu á pottinum og ákveð að kíkja nánar á þetta. Þetta var sko ekki neitt plastdrasl. Þetta var pínulítil hestastytta sem ég fékk í Feneyjum 1984 þegar við vorum að skoða Feneyjarkristal í einhverri verksmiðju. Þeir voru upphaflega tveir en annar hvarf fyrir einhverjum árum. Ég var hálf miður mín að eftir hafa næstum glatað þessum dýrgrip. Og þetta er sko dýrgripur!!! Hann er nú kominn upp í hillu og verður ekki hennt.
Ég held ég þurfi bara aðeins að jafna mig áður en ég held áfram að henda.

|

Wednesday, September 17, 2008

Gud resje i Norge
Já, ég kom heim frá Noregi í gær eftir góða ferð. Skrítin tilfinning að vera erlendis og líða eins og heima hjá sér. En þannig líður mér í Guðbrandsdalnum. Home away from home. Fullt af kvöldverðarboðum, útreiðar og svo rákum við kýrnar heim frá Nysetra til Graupe. Ég var reyndar við það að fá hnúta á eggjaleiðarana þegar önnur unga daman á heimilinu umturnaðist þegar ég var búin að vera í nokkra daga. Svo kom í ljós að barnið var orðið sárlasið. Það slaknaði aðeins á herpingnum við það. En það er óneitanlega þægilegt þegar maður heyrir barn gráta að vita að maður getur kúrt áfram í rúminu því mamman kemur til með að sjá um þetta, hehe.
Lítið gerst síðan að ég kom heim. Fór og kíkti á hestana sem eru við hestaheilsu. Unglingarnir ætla reyndar að éta mig lifandi. Þetta eru kannski óþarflega gæf tryppi.
Mér til mikillar mæðu komst ég að því núna þegar að ég kíkti á tölvupóstinn minn að ég get fengið mikla hjálp ef ég er með stinningarvandamál eða önnur vandamál tengd þeim líkamshluta. Ég hef reyndar ekki þann líkamshluta og hef fengið að hafa netfangið mitt í friði í fimm ár. Helv...

PS. Ég veit ekkert hvernig á að skrifa góður á norsku.

|

Sunday, September 07, 2008

Sumarið búið, komin heim
Já, við dröttuðumst treglega heim um helgina. Ég er að fara til Norge og gamla konan er öruggari heima. Það verður líka að viðurkennast að haustið hefur hafið innreið sína og það er ekki búið bæta einangrunina í svefnherbergjunum. Ég hef því sofið í peysu síðustu nætur. Kettirnir voru heldur ekkert sérlega hressir að koma heim. Það lagaðist samt í dag og þeim finnst þessir vinnupallar við svalirnar mjög skemmtilegir. Ég er ekki viss um að það verði jafn gaman á morgun, mánudag, þegar menn mæta í vinnu. Það kemur í ljós.
Ég get auðvitað ekki hætt að bjarga því sem bjargað verður. Dúlli var að leika sér með músarunga sem ég auðvitað tók af honum. Og ég er alveg viss um að þetta var mús. Þessi ungi var mun meira sjálfbjarga en rottuunginn. Tók frelsinu feginn þegar Dúlli var komin í hæfilega fjarlægð. Ég hélt að rottur væru harðari af sér en þetta. Þegar ég var svo bak við grjótgarð að laga girðinguna kom ég auga á vængbrotinn fugl. Held alveg örugglega að þetta hafi verið mávur. Annars er fákunnátta mín á þessu sviði til skammar. Greyið rölti um og dró annan vænginn á eftir sér. Ég stökk til og náði í vatnsbala frá hrossunum og fangaði greyið. Fór svo með hann niður á Dýraspítala þar sem hann var aflífaður. Það verða örugglega fleiri dýrabjörgunarsögur í framtíðinni. Vona að það sé enginn að sturta niður krókódílaungum.
Ég er 99% örugglega komin með hey fyrir útiganginn. Segi ekki 100% fyrr en heyið er komið í hlað. Og fæ það á ágætu verði. Nema að fluttningurinn verði eitthvað brjálæði. Það er ekki komið á hreint. Annars eru öll hrossin komin á Kjalarnesið, nema auðvitað graddarnir. Ég fæ engin folöld næsta ár nema að Gríma lumi á einu. Ég ætla ekki að sónarskoða hana fyrr en ég færi hana á milli haga. Kvika kastaði seint og fór ekki undir hest. Og Glóey fyljaðist ekki. Það er bara í góðu lagi. Þessi 14 stykki sem ég á eru alveg nóg í bili.
Tíminn líður alveg ógurlega hratt. Ég ætlaði ekki að taka neitt inn fyrr en í byrjun nóvember og þá bara tvö tamningartryppi sem ég ætla ekki einu sinni að temja sjálf. Reiðhrossin mín eiga ekki að koma inn fyrr en í desember. Fyrir þann tíma ætlaði ég að fara til Noregs. Kíkja norður til stóru systur, tvisvar. Taka til í kompunni og kjallaraherberginu og koma herberginu í leigu. Háþrýstiþvo hesthúsið. Ganga frá öllu upp í bústað fyrir útiganginn. Láta skipta um möl í gerðinu. Ég veit að ég er að gleyma einhverju. Þetta verður fjör. Ég sem nota yfirleitt haustin til að slappa af og hlaða batteríin fyrir veturinn.

|