Tuesday, April 28, 2009

Út með eymd og volæði
Eftir nokkuð svæsið sjálfsvorkunnarkast hef ég ákveðið að hrista af mér slenið og gera eitthvað í málunum.
Það er maður að koma að prófa stóðhestana, líklega á föstudaginn, með það fyrir augum að selja drengina. Ég hef líka ákveðið að ef það gengur ekki eftir verður Hlér geltur hið bráðasta. Hann er ekki stóðhestsefni og það verður bara að horfast í augu við raunveruleikann. Ef Glaumur selst ekki fær hann séns í eitt ár í viðbót.
Mig langar voðalega að sjá hvort ekki sé hægt að hækka hana Áru mína aðeins í kynbótadóm. Hún á meira en 7,5 fyrir brokk. Ekki það að hún hafi átt meira skilið þegar hún var sýnd, hún var bara að hoppa upp á fótinn þegar það átti að keyra hana áfram. Það hefur sem sagt gengið illa að fá einhvern til að taka hana. Það er bara brjálað að gera hjá öllum sýnendum. Engin kreppa í hestamennsku. Svo ég snéri mér bara að reyndum tamningarmanni í hverfinu sem hefur reyndar litla reynslu í því að sýna en samt einhverja. Það á að prófa hana í dag. Það verður bara að hafa það ef það gengur ekki eftir, ég reyndi.
Svo tók ég mig til og hafði upp á eigendunum á landinu við sumarbústaðinn og fékk góðfúslegt leyfi til að nýta skikann næst okkur fyrir hrossin. Svo nú þarf ég bara að fara að drífa mig í girðingarvinnu.
Og hananú!

|

Thursday, April 23, 2009

666
Fyrir rúmum mánuði var ég beðin um að vera í umhverfisnefnd hestamannafélagsins míns. Þessi nefnd hefur engan annan tilgang enn að skipuleggja tiltektardag þar sem tekið er til í hverfinu og með fram reiðstígunum. Þar kom vel á vondan, því ég hef aldrei nennt að taka þátt í þessum árlegu tiltektardögum. Held samt ekki að það hafi verið ástæðan fyrir því að ég var beðin um að vera í nefndinni. Tel líklegra að ástæðan sé sú að ég var ein af fjórum sem mætti á svæðið í haust til að taka drasl meðfram fjölförnum reiðvegi. Hugmyndin var sú að við þessi sem værum byrjuð að ríða út myndum taka mesta draslið sem var vissulega að trufla hrossin okkar. Ég var líka eina konan í nefndinni, sýnishorn af tegundinni, skrautfjöður, kynjakvóti, allt líklegar ástæður einnig sem skipta engu máli.
Ég gerði mitt besta fyrir undirbúninginn, sem var ekki mikið. Aðrir í nefndinni virtust þekkja alla sem þurfti að tala við hjá bænum og öðrum nefndum. Ég vissi ekki einu sinni hvað allir í nefndinni hétu fyrr en á öðrum fundi. En ég bar út tilkynningar og virtust allir sáttir við það vinnuframlag.
Í dag var svo tiltektardagurinn sjálfur og mætti ég galvösk og hirti upp reiðinnar býsn af rusli. Mæting var mjög góð, margar hendur unnu létt verk og við vorum fljótt búinn.
Og svo kemur loks ástæðan fyrir þessum pistli. Ég hef ekki mætt á hina tiltektardagana af hluta til vegna þess hvað tilkynningarnar voru heimskulega orðaðar. Þar þurfti í hvert einasta sinn að segja það að þeir sem ekki myndu mæta væru latir sjálfselskupúkar sem létu aðra sjá um verkin. Það var í raun verið að reyna að láta fólk skammast sín til að mæta. Svona fer í taugarnar á mér. Þeir mæta sem nenna og geta. Það er alltaf þannig þegar þú tilheyrir einhvers konar félagsskap að sumir leggja meira mörkum en aðrir. Þetta á við alltaf, allsstaðar, hjónabandi, fjölskyldum, félagastamtökum, þjóðfélögum. Ef þú vilt ekki sætta þig við það verður þú bara að hírast einn út í horni. Það hvarflaði ekki að mér að vera með einhverja fýlu út fólk sem mætti ekki eða vinna ekki nema visst mikið því það væri minn hlutur og einhver annar ætti að taka hitt. En það var greinilegt að ekki allir voru sammála mér. Einn gamall karl varð að láta leggja fram lista þar sem þeir sem voru mættir gætu skrifað sig. Hvers vegna? Á að birta þennan lista einhverstaðar og þá til hvers? Það þarf engin að vita það að ég hafi mætt þarna og tekið til. Samfélagar mínir í hverfinu mega bara njóta þess að ríða um hreinar götur og þurfa ekkert að þakka mér fyrir það. Ég ætla heldur ekki að fara að vera með einhverja stæla við fólk sem mætti ekki.
Guð, hvað mér leiðist fólk sem þarf alltaf að vera að hreykja sér af öllu sem það gerir.

Titillinn tengist umræðuefninu ekkert. Þetta er bara færsla númer 666.

|

Tuesday, April 21, 2009

Er ég á réttri leið?
Núna undanfarið hef ég verið að fá miklar efasemdir um hvert ég stefni í hestamennsku. Árangurinn af erfiði mínu hefur ekki verið sem skildi.
Ég er í stökustu vandræðum um hvað ég á að gera við þessa stóðhesta mína. Lang skynsamlegast væri að reyna að selja þá en hversu góð söluvara eru þeir? Mig langar líka að prófa að halda undir þá áður en ég myndi selja þá svo málið er dálítið í biðstöðu. En það vekur líka aðara spurningar, hversu sniðugt er að vera að halda undir ósýnda fola sem verða líklega geltir hvort sem er? Er ég á annað borð að gera eitthvað af viti í þessari hrossarækt?
Ég er búin að eyða miklum tíma og mikilli vinnu í höfuðburðinn hjá henni Áru minni. Vonin var að við myndum standa okkur betur á kvennatöltinu núna en í fyrra. Það voru reyndar mun fleiri keppendur núna svo ég var nú ekki vongóð um að komast í úrslit. Markmiðið var að reyna að fá hærri einkunn í forkeppninni. Það tókst ekki og ekki nóg með það við urðum tuttugu sætum neðar en í fyrra. Mér líður eins og þessi vinna hafi verið öll til einskis. Til að bæta gráu ofan á svart varð elsta afkvæmi Kviku minnar í neðsta sætinu.
Ég á orðið allt of mikið af hrossum og verðhækkunin á öllu í kjölfarið á bankahruninu hefur orðið til þess að ég er gjörsamlega að kikna undan kostnaðinum.
Ég þarf að endurskoða þetta mál allt saman.

|

Wednesday, April 15, 2009

Ég ætlaði að vera duglegri að blogga
En það er bara ekkert að frétta. Það er bara ekkert merkilegt að gerast hjá mér þessa dagana. Ég ríð út flesta daga. Tryppin haga sér öll eins og englar. Meira að segja stóðhestarnir sem fengu vikufrí og aukin fóðurskammt eftir neikvæðan dóm. Hafði áhyggjur af því að ég væri að ofgera þessum greyjum með þjálfun. Var svo mikil pressa að hafa þá tilbúna fyrir vorið. En núna ætla ég bara leyfa þeim að slaka á. Ég ríð enn út á þeim og það gengur vel en fer sjaldnar á þá, þeir eru nú ekki verða nema 4 vetra.
Ég ákvað á síðustu stundu að skrá mig í kvennatöltið með hana Áru mína. Það var stefnan að færa sig upp um flokk, vorum í 6. sæti í byrjendaflokk í fyrra, en það gekk ekki upp. Við höfum bara ekki náð tökum á hraðabreytingum þar sem við höfum lagt svo mikið í betri höfuðburð. Annars hef ég ekkert keppt síðan á síðasta kvennatölti, fyrir utan eina firmakeppni þar sem okkur var hent út í fyrstu umferð síðasta vor, svo keppnisreynslan hefur ekki aukist mikið.
Úlfur litli hefur ekkert verið tekinn inn. Held að hann verði ekkert betri félagsskapur en hinir tittirnir í húsinu. Gerði tékk á öllu liðinu, Úlfi líka, og allir eru komnir með að minnsta kosti eina kúlu (eista) sem poppar upp og niður, sumir með tvær. Úlfur var líka farinn að hoppa upp á Emblu sem var ekkert hrifinn en hann er ekki búinn að átta sig á því hvers vegna hann er að hoppa upp á hana. Það verður samt fylgst með kauða.
Meira er ekki að frétta í bili.

|