Thursday, May 28, 2009

Búið að vera brjálað að gera
Aldrei þessu vant hef ég ekki bloggað vegna þess að það hefur verið svo mikið að gera.
Ég ákvað að slá bara til og sleppa Glaum og er hann kominn í vist í Sandhólaferju. Hlér greyið var hins vegar geltur. Verst að núna er hann bara svo helv... rennilegur eitthvað og fallegur. Jæja, það er búið og gert. Ég er líka komin með alveg upp í kok af stóðhestum.
Gömlu konurnar, Glóey og Kvika, voru leiddar undir stóðhesta. Kvika skrapp austur undir Klæng frá Skálakoti. Glóey fékk hins vegar ungan dreng færðan í bæinn, bara fyrir hana. Það var hann Viktor frá Reykjavík sem ég á undan Ófeigi frá Þorláksstöðum og Drífu frá Skálmholti. Það var heilmikið mál að vera með hann á húsi í þessa rúmu viku. Hann fleygði sér yfir innréttingarnar með látum og þurfti að setja upp nokkrar fyrirstöður til að halda honum inn í stíu. Ára var búin að fara undir áður nefndan Glaum frá Reykjavík, undan Óði frá Brún og Glóey frá Holti. Nú þarf bara aðeins að bíða áður en ég fer að rúlla með liðið í sónar.
Úlfur frá Seli, undan Ramma frá Búlandi og Kviku frá Saurbæ, var geltur í vikunni. Hann er vetur gamall og búinn að vera á útigangi. Það var stuð að koma honum á kerru þegar ég tók hann úr haganum. Naut ég við það mikillar hjálpar frá henni Áru minni sem skildi lítið í því hvers vegna hún þurfti sífellt að vera að bakka aftur út úr kerrunni. Úlfur var þá búinn að detta um koll af öllum látunum í sér og hjékk á hausnum í múlnum. En hann komst um borð fyrir rest og daginn eftir þegar hann var keyrður á Dýraspítalann og sóttur aftur var eins og hann hefði aldrei gert neitt annað að vera settur á kerru. Það var mikið dáðst að honum á spítalanum fyrir hvað hann var samvinnuþýður og stilltur. Jamm, það gott að þau sáu hann ekki daginn áður.
Síðast en ekki síst er ég búin að vera í brjálaðri girðingarvinnu upp í bústað og hrossin komin með myndarlegt stykki til að rölta um og bíta.
Ég er sem sagt búin að ganga gjörsamlega fram af mér undan farna daga og er öll í harðsperrum og verkjum. Ég hef gert einhvern andsk... við hægri olnbogann á mér og er farin að hallast að því ég þurfi að láta kíkja á hann ef hann fer ekkert að skána. En ég ætla sko bara að taka því rólega næstu daga.

|

Wednesday, May 13, 2009

Hvað er í gangi með þetta veður?
Það er þvílíkt rokrassgat dag eftir dag. Þetta er svo slæmt að það er erfitt að hanga á baki í verstu hviðunum. Ég er nú bara alveg að gefast upp á þessu.
Það á ekki af manni að ganga þessa dagana. Ég ákvað að láta slag standa og fara í reiðtúr á mánudaginn. Dreif mig á Dag þótt það væri rigning. Hefði betur sleppt því. Karl greyið steig á ryðgaðan nagla sem stakkst upp í hófinn á honum meðfram hóftungunni. Svo það var náttla bara akút dýralæknir með umbúðir og pensilín og læti. Það virðist vera að virka því hann kveinkar sér ekkert í fætinum og skilur ekki hvers vegna hann má ekki fara út með hinum.
Nú er ég aftur komin í vandræði. Það er ekki búið að hringja út af Glaumi. Var að athuga með hagagöngu fyrir hann. Ég get fengið hagagöngu á einum stað en þá verður hann að koma STRAX. Ok, ég ætlaði að hafa hann aðeins lengur á húsi. What to do, what to do?

|

Sunday, May 10, 2009

Ég fer bráðum að taka að mér járningar
Ég er svo hneyksluð á járningunum á hrossunum hjá nágrönnum mínum að ég er við það að fara að bjóðast til að járna fyrir þá.
Skil ekki hvað gengur á hjá þessu fólki. Ég veit ekki hvort það er í alvörunni að borga fyrir þessar járningar. Ég myndi alla vega reka járningarmann sem járnaði svona öfugan út úr hesthúsinu hjá mér og segja honum að láta ekki sjá sig meir. Þetta er fólk sem er með svona 2-3 hesta hvert, það getur ekki verið svo dýrt að láta járna þessi hross.
Svo er einn sem er að járna sjálfur og er það sú mesta hörmung sem ég hef séð. Hann spænir niður hælana og þorir ekki að klippa tánna og hestarnir versna við hverja járningu. Ég hélt ég yrði nú ekki eldri þegar ég sá nýjustu járninguna hjá honum í dag. Önnur framfótarskeifan stendur svona ca. hálfan cm út fyrir alls staðar en bara önnur. Ég hélt að það væri eitthvað að hestinum þegar ég sá hann stíga út úr stíunni. Hvernig er ekki hægt að sjá að þetta er ekki í lagi?
Svo er einn gamall hestakarl í húsinu hjá þeim sem heldur virkilega að hann geti gert betur og er búinn að járna nokkur hross. Jú, ok, hann járnar betur en þessi sem járnar sjálfur en ekki er það nú samt glæsilegt.
Ég hætti að járna sjálf því mér fannst ég ekki gera það nógu vel. Svo einfalt var það bara. En mér hefur nú samt greinilega farið fram í járningunum því ég járnaði sjálf tvö hross hjá mér í vetur, því járningarmaðurinn hafði ekki tíma, og það var alls ekki svo slæmt. Ég er reyndar viss um að betra líkamlegt form hefur hjálpað mikið en ég hef auk þess fylgst mikið með járningum síðustu árin og fengið nokkur góð ráð.
Miðað við gæðin á járningum sem fólk er að borga fyrir er ég alveg samkeppnishæf á þessu sviði. Ég ætti kannski bara að skella mér í þetta og fá smá auka pening.

|

Thursday, May 07, 2009

Í fréttum er þetta helst...
Tamningarmaðurinn prófaði Áru og leist bara vel á dömuna. Hann hefur þó ekki tíma til að taka hana í vor en hefur áhuga á að þjálfa hana í sumar og sýna síðsumars.
Það var komið að skoða stóðhestana. Glaumur vakti mikinn áhuga og er verið að athuga hvort finnist áhugasamur kaupandi. Það eru hins vegar allir sammála um að Hlér sé ekki stóðhestsefni og eins og ég hélt er ekki mikil eftirspurn eftir 4v geldingum. Fólk vill hafa reiðhestana minnsta kosti 6v svo þeir séu nógu mikið tamdir og gerðir. Þannig að ég er búin að panta geldingu fyrir Hlé og fer hann á föstudaginn.
Ég fór með Áru í síðustu viku og lét sprauta hana með hormónum. Ég ætlaði að halda henni á húsi til að sjá hvað væri í gangi með dömuna og hvers vegna hún fyljaðist ekki hérna um árið þegar hún fór undir hest. Ég skil núna mæta vel hvers vegna. Í fyrsta lagi lætur hún ekki nokkurn mann vita að hún sé í hestalátum. Ég var búin að vera að fylgjast með henni í gerðinu og láta litlu tittina hnusa í henni til að sjá hvort ég fengi viðbrögð. Þegar ekkert gerðist gafst ég upp og setti hana inn í gerði hjá Glaum. Eftir svona fimm mínútur af hnusi og hvíi fór hún loks að sýna einkenni hestaláta. Svo þegar Glaumur reyndi að fara upp á hana stóð hún ekki kyrr. Fór að labba í hringi og eitthvað vesen, samt var hún mígandi utan í hann þess á milli. Þannig að ég þurfti að fara inn í gerði og bókstaflega halda henni undir hann. Hefur það verið endurtekið á hverjum degi frá því á sunnudag. Get ekki líst því hvað mér finnst "skemmtilegt" að taka svona virkan þátt í þessu ferli.
Annars sit ég sveitt að reikna út fjárhaginn næstu mánuði því mig langar að halda Kviku undir Klæng frá Skálakoti og Grímu undir Tígul frá Gýgjarhóli. Ef Glaumur selst er þetta náttúrulega ekkert mál en það kemur í ljós. Svo er ég í vandræðum með hana Glóey mína. Dýralæknirinn heldur að það geti virkað að sprauta hana með egglosandi á fjórða degi í látum en þá verð ég að vera með hest stand by og eiganda sem veit að það eru meiri líkur en minni á að hún haldi ekki og þetta verður líklega að gerast á húsi. Er að skoða þetta mál.
Svo er ég byrjuð að grafa fyrir hornstaurum á nýju girðingunni minni. Það hætti loksins að rigna. Ég nenni ekki að standa úti í móa í slagveðursrigningu að grafa holur.

|