Thursday, July 23, 2009

Sumarfærsla
Ég er bara búin að vera upp í bústað það sem af er sumri.
27. júní kastaði Gríma brúnskjóttum hesti undan Óttari frá Hvítárholti. Það munaði bara einum degi að hún kastaði aftur 28. Það gerði hún fyrir sjö árum þegar hún átti Ísold. Sonurinn fékk snarlega nafnið Tristan. Hann var mun meira brúnn en þær mæðgur, og barnabarnið. Fyrir þá sem ekki vita þá er Gríma alveg hvít fyrir utan brúnan haus og brúnt neðst í taglinu. Dóttirin er aðeins meira brún en móðirin en skilaði svo afkvæmi sem var millistig milli þeirra mæðgna, Ísadora. Ég bjóst við að Gríma myndi erfa frá sér svona mikið hvítt en það virðist ekki vera nein regla um það. Skjótt er bara skjótt.
Ég druslaðist svo seint og síðar meir að láta sóna Glóey og Áru. Þær voru auðvitað steingeldar báðar tvær. Ára var búin að vera í þjálfun í mánuð og ekki búin að afreka mikið annað en að slasa fullt af hrossum. Barði bara allt og alla sem voru settir út með henni. Þannig að ég og þjálfarinn urðum sammála um að frekari þjálfun myndi ekki skila hærri einkunn í kynbótadóm. Ágætt að spara sér það.
Þær dömur voru hins vegar báðar að byrja í látum, svo fyrst Gríma var farin undir Tenór frá Túnsbergi, þá náði ég í Viktor minn til að sinna þeim dömum. Þetta var í fyrsta skipti sem ég hef séð stóðhest flýja undan hryssum. Aumingja þriggja vetra drengnum leist ekkert á þessar fullorðnu dömur sem eltu hann óðar og uppvægar. En hann jafnaði sig og gerði sitt besta til að sinna málinu. Stundum með hjálp frá mér því Ára stendur ekki kyrr frekar enn fyrri daginn. Ég ætla að sjá hvort þær gangi aftur og eftir það fer hann bara austur aftur.
Annars er ég með eindæmum löt og geri sem minnst flesta daga. Veðrið hefur ekki verið jafn frábært og síðustu tvö sumur. Það verður vonandi betra í ágúst en í fyrra og hitt í fyrra byrjaði bara að rigna og hætti varla allt haustið.
Það verður áfram lítið um blogg. Þetta var bara smá innskot.

|