Tuesday, September 29, 2009

Haustverkin
Ég gat loksins þáþrýstiþvegið hesthúsið mitt eftir þriggja ára bið. Fyrsta árið bilaði gamla dælan og ég endaði á því að henda henni. Næsta ár var húsið meira og minna í notkun allt sumarið og haustið þannig að lokum var ég að fara að taka inn og orðið of seint að þrífa. Í fyrra keypti ég svo nýja dælu alveg galvösk. Hún var hins of kraftmikil fyrir öryggið í húsinu og ég fékk ekki nýtt öryggi áður en ég tók inn. Það náðist heldur ekki að smíða fyrir stóðhestana eins og stóð til. Það var sami maðurinn sem átti að sjá um hvort tveggja. En hann tók sér heldur betur tak og lét skipta um öryggið fyrir mig og ég er búin að þrífa. Í dag sá ég svo að byrjað er að koma með græjur til að smíða stóðhestastíurnar. Ég held að þetta takist bara allt í haust.
Loksins kom Reykjavíkurborg með svar. Ég er búin að bíða frá því í byrjun ágúst eftir hvort ég fá leigðan hluta af stykkinu við hliðina á mér. Um leið og ég fékk jákvætt svar í gær rauk ég af stað með plaststaura og band, betri girðing bíður til næsta vors. Hestarnir voru ekki lengi að taka við sér og þramma yfir í alla beitina. Þannig að ég er í góðum málum þar til í desember, nema náttla að veðrið verði brjálað og þá verður bara taka á því þegar þar að kemur.

|

Wednesday, September 16, 2009

Heim fyrir haustið
Jæja, þá er haustið gengið í garð. Rólegir tímar fram undan. Öll hross komin upp á Kjalarnes. Nema auðvitað graddarnir. Þá væri nú fjör. Þeir eru þrír. Tveir á Efri-Rotum og einn í Sandhólaferju. Gríma er ekki fylfull. Veit ekki um Glóey og Áru. Þær verða ekkert sónarskoðaðar fyrr en þær verða færðar fyrir útiganginn. Enn þær sýndu ekki aftur nein einkenni hestaláta svo annað hvort eru þær fylfullar eða bara búnar að fá nóg af þessu veseni. Ég er alla vega ekkert að stressa mig á þessu.
Það fer að minnka beitin hjá mér og ekki hefur enn gengið að fá leigða frekari beit á Kjalarnesinu. Það er þó ekki öll von úti enn í því máli. Annars er ég búin að ganga um sameignina fyrir ofan girðingu og er slatti af beit þar. Þeim verður þá bara demt þangað í einhvern tíma. Mér er líka boðið hey úr öllum áttum svo það er lítil hætta á að þau svelti. Annars eru þau svo feit að þau gætu örugglega staðið á möl með vatn í heilan mánuð án þess að verða mikið meint af. En það er ekkert að fara að gerast.
Við vinirnir skruppum til Noregs í tæpar tvær vikur. Það er ekki gott að vera íslendingur erlendis um þessar mundir. Allt er svo hræðilega dýrt þegar það er umreiknað í íslenskar krónur. En þá er gott að eiga góða að og vorum við ekkert að horfalla í þessari heimsókn frekar en fyrri daginn.
Annars var mér nú búið að takast að bæta á mig nokkrum kílóum í letinni í sumar. Shit!!! Svo ég ákvað að taka mér tak þegar ég kom heim og fór í ræktina. Þetta er allt að byrja að bráðna af aftur. Enda voru þetta nú ekki neinir tugir kílóa eins og hér um árið.
Ég ætlaði að játa mig sigraða fyrir þessu facebook dæmi en fékk svo bakþanka. Þannig að ég er ekki komin á facebook og kem ekki á næstunni. Ætla aðeins að salta það dæmi. Þetta hefur bara ekki lagst vel í mig. Kæri mig bara ekkert um að eitthvað fólk sem ég hafði ekki áhuga á að þekkja þegar ég neiddist til þess hér á árum áður sé að troða sér upp á mig núna þegar ég er búin að losna við það. Fannst nú alveg nóg í sumar þegar ég rakst á gamla bekkjarsystur út í búð sem byrjaði að tala við mig eins og við hefðum verið einhverjar perluvinkonur á árum áður. Ég er ekkert búin að gleyma því þegar hún var að leggja aðra bekkjarsystur okkar í einelti. Mér fannst hún andstyggileg tík þá og ég hef bara engan áhuga á að þekkja hana núna. Ég var því fljót að drífa mig í burtu við fyrsta tækifæri. Sumt er geymt en ekki gleymt. Það eru takmörk fyrir því hvað ég get falið lengi hvað mér finnst um fólk. Ef ég get falið það yfir höfuð.

|