Wednesday, October 21, 2009

Allt að gerast núna
Þá er ég komin með leigusamning við Reykjavíkurborg og hef þar með formlega hafið leigu á 5hekturum sem liggja að mínu landi. Ætti þar með að vera í góðum málum næstu árin. Sérstaklega ef hrossunum fjölgar ekki mikið. Yeah, right.
Ég dreif mig upp í bústað til að grafa fyrir tveimur hornstaurum fyrir rúllustæðið mitt. Fyrst ég var byrjuð að grafa þá ákvað ég grafa nokkrar holur svo ég gæti sett smá skjól fyrir greyin. Þau fá ekki að komast bak við bústaðinn í vetur þar sem grenitréin gáfu þeim frábært skjól síðasta vetur. Endaði með að grafa sjö holur. Þetta verður fínt skjól ef ég dríf fljótlega að kaupa staura og byrja að smíða.
Ég fór hins vegar upp á Kjalarnes til að smíða þar. Er búin að búa til þetta fína aðhald sem ég get bakkað hestakerrunni upp að. Þá ætti ekki að vera mikið mál að koma hrossunum og þá sérstaklega folaldsmerunum upp á kerru þótt ég sé ein á ferð. Hún Gríma mín er ekki jafn samvinnuþýð og hún Kvika. Kvika leyfir mér strax að komast að folöldunum sínum og í síðustu skipti voru þau svo spök að ég gat sett á þau múl út í haga og dregið þau með mömmu upp á kerruna. Gríma hins vegar vill ekki leyfa mér að koma nálægt folaldinu sínu. Hún er reyndar orðin rólegri með haustinu en þá fæ ég allt of mikla athygli frá öðrum hrossum þegar ég reyni að nálgast Tristan. Þannig að ég varð að vera undirbúin fyrir það að færa þau. Vona að þetta geri gæfumuninn.
Stóðhestastíurnar mínar eru langt komnar og verða kláraðar næstu helgi. Ekki seinna vænna því drengirnir eiga að koma í hús helgina þar á eftir eða um mánaðarmótin. Og þá fer fjörið að byrja.

|

Saturday, October 10, 2009

Lægð yfir landinu
Það gekk all svakaleg lægð yfir landið nú síðustu tvo daga. Ef það fór þá framhjá einhverjum.
Mér til mikillar ánægju voru hviðurnar upp á Kjalarnesi 58m/sek. Ég var alveg handviss um að plaststaura girðingin mín væri fokin fjandans til og hestarnir komnir út um allt fjall. En mér til mikillar furðu var ekki svo. Girðingin stóð enn og hestarnir allir innan hennar.
En það var fleira sem fór lágt þessa daga.
Blóðþrýstingurinn hjá mér hefur nú aldrei verið hár en hann fór í nýjar lægðir á fimmtudaginn.
Eins og áður hefur komið fram er ég aðeins að halda í við mig og er byrjuð í leikfimi. Þegar ég fór í leikfimi á fimmtugskvöldið var ég alveg að drepast. Ég var svo þreytt og þetta var svo erfitt allt saman. Endaði með því að ég var köld en samt sveitt og dreif mig bara í bað til að fá yl í kroppinn. Nokkru eftir að ég hafði borðað kvöldmat ákvað ég að ég mætti nú alveg borða aðeins meira og ákvað að skreppa fram í eldhús. Ég vippa mér fimlega fram úr sófanum geng fram og enda svo í gólfinu. Það bara steinleið yfir á þessari stuttu leið. Eftir að hafa tekið nokkrar mínútur í að jafna mig hélt ég nú ótrauð áfram í það að fá mér meira að borða. Fór svo bara snemma að sofa og svona bjóst við að þetta væri nú bara eitthvað tilfallandi.
Daginn eftir var ég samt eitthvað undarleg í hausnum. Ákvað svona til öryggis að mæla blóðþrýstinginn. Sitjandi var hann að druslast upp í 104 yfir 62, það er innan eðlilegra marka en kannski í lægri kanntinum. Liggjandi var ég með 117 yfir 64 og púls 74. En þegar ég settist snögglega upp og mældi var hann 87 yfir 52 og púls 103. Það er ekki eðlilegt. Þannig að ég hringdi í doktor stóru systur sem kom og kíkti á mig. Ég hef sennilega bara verið að leggja of mikið á mig undanfarið var eina niðurstaðan sem ég fékk. Ég þarf reyndar að fara í blóðprufu til öryggis. En niðurstaðan hvað mig varðar er sú að ég þoli ekki aðhald í matarræði eða of mikla hreyfingu svo ég er löglega afsökuð fyrir því að vera feit.

|

Thursday, October 01, 2009

GAAARRRG!!!
Ég þarf bara aðeins að tuða...
Í vor þá tókst mér að gera einhvern andsk... við olnbogann á mér. Ég fór til læknis og varð það niðurstaðan að ég hefði líklega bara tognað. Gott og vel, það lagast. En nei! Það hefur bara ekki lagast. Og nú fjórum mánuðum seinna er ég verri. Ég má ekkert gera, þá verður mér illt í olnboganum. Allt frá því að sækja matardiska upp í skáp til þess að lyfta lóðum veldur því að ég fæ stingandi verk í olnbogann. Það líður fljótt hjá en ef ég er eitthvað að vinna af viti þá veldur það óþægilegum verk það sem eftir lifir dags og lagast ekki nema að taka verkjatöflu.
Jæja, ljósi þessa dreif ég mig til læknis í dag. Pantaði tíma fyrir tveim vikum eða meira. Hann sendi mig í myndatöku sem ekkert kom út úr. Ég er bara með asnalegan verk út af ekki neinu. Eða réttara sagt einhverjum vöðvafestum og einhverju kjaftæði. Eitthvað svona sem voðalega lítið er hægt að gera við. Ég var reyndar sprautuð og kemur í ljós hvort að það lagist eitthvað.
Ég er líka byrjuð að fá aftur verki í hægri mjöðmina. Þessa sem ég datt á í JANÚAR 2006!!! Ég fór í sjúkraþjálfun síðasta haust út af "langvinnum bólgum í vöðvafestum". What ever. Ég varð reyndar mikið betri eftir það. En nú er þetta að byrja aftur. Afhverju get ég ekki fengið eitthvað sem hægt er að laga? Ég nenni ekki svona. Ég er hætt. Það verður ekki minnst á þessa verki aftur. Ég geri bara það sem mér sýnist og tek bara verkjatöflur eftir þörfum. Ég nenni ekki svona væli endalaust. Og hananú!

Hrossin eru voða ánægð að vera komin í svona mikla beit. Því miður er hrossin sem ganga laus í fjallinu ekki sátt við að hafa verið rekin upp í fjall. Þau eru búin að troða sér tvisvar í gegnum bandið hjá mér. Þetta eru tilfinningalausar truntur. Ég rakst sjálf í bandið og fékk þvílíkan straum.
Svo er ekkert grín að reka þessar truntur út. Ein er sérstaklega að drepa mig. Hún verður nú bara skotin á færi ef þetta heldur svona áfram. Hlér og Ísold voru að hjálpa mér að reka hana í burtu í gær. Hlér hljóp á eftir henni með hausinn niður við jörðu og eyrun aftur eins og stóðhestur. Það gekk vel hjá honum en hann fékk spark í kjaftinn og ein tönn losnaði. Þetta er reyndar ysta tönnin sem hann á að vera að missa í kringum þennan tíma svo ég vona innilega að þetta hafi verið barnatönnin en ekki fullorðins. Hún hékk alla vega á smá tætlu upp í honum og ég kippti henni bara úr. Gott að eiga samvinnuþýð hross.
Ég fjölgaði staurum og strekkti á bandinu og setti meiri straum á. Ég hef aldrei áður þurft að nota þennan takka á stöðinni. Ég vona innilega að þetta dugi til. Ég er að verða dálítið þreytt á að hlaupa upp og niður í Esjunni til að reka út hross.

|