Update
Tók ákvörðun um að setja Glaum í frí. Það var verið að járna hann í vikunni og hesturinn var svo fúll og leiður yfir öllu sem var gert við hann. Auk þess sem það virðist bara yfir höfuð vanta sæld í klárinn. Ræddi þetta við þjálfarann sem sagði mér að prófa klárinn, því ég hafði nú riðið klárnum í fyrra, og gæti best dæmt hvort hann væri í svipuðu standi og í fyrra. Hann er langt frá því. Hann er varla hálfur hestur frá því sem hann var. Það er alveg grátlegt að horfa á þennan fola sem var svo fallegur og líflegur í fyrra. Hann verður alla vega í fríi út þennan mánuð og jafnvel þann næsta ef þörf er á. Get ekki séð að það sé neitt vit í því að þjálfa hann áfram svona.
Hann Hlér minn kom mér á óvart í dag. Ég er búin að vera að spá hvort ég eigi að þjálfa hann með því markmiði að selja hann sem barnahest. Hann er frekar latur blessaður en gangurinn er góður og gangtegundirnar vel aðskildar. Lítið mál að ríða honum til gangs og ekkert lull. Í dag var ég að reyna að fá smá líf í drenginn. Búin að hvetja hann hressilega áfram á brokki og ákvað svo að hleypa honum. Haldiði að drengurinn hafi ekki bara skellt sér í skeið af stökkinu. Flott hliðstæða, hélt ganginum alveg þar til ég hægði niður í tölt, greip ekkert á sig eða neitt. Ég ætla að endurskoða þetta barnahestamál aðeins.
Að öðru leiti eru bara allir hressir. Hún Gleði er að opna sig skemmtilega á tölti. Og allt gengur bara sinn vana gang í hesthúsinu.