Thursday, January 14, 2010

Update
Tók ákvörðun um að setja Glaum í frí. Það var verið að járna hann í vikunni og hesturinn var svo fúll og leiður yfir öllu sem var gert við hann. Auk þess sem það virðist bara yfir höfuð vanta sæld í klárinn. Ræddi þetta við þjálfarann sem sagði mér að prófa klárinn, því ég hafði nú riðið klárnum í fyrra, og gæti best dæmt hvort hann væri í svipuðu standi og í fyrra. Hann er langt frá því. Hann er varla hálfur hestur frá því sem hann var. Það er alveg grátlegt að horfa á þennan fola sem var svo fallegur og líflegur í fyrra. Hann verður alla vega í fríi út þennan mánuð og jafnvel þann næsta ef þörf er á. Get ekki séð að það sé neitt vit í því að þjálfa hann áfram svona.
Hann Hlér minn kom mér á óvart í dag. Ég er búin að vera að spá hvort ég eigi að þjálfa hann með því markmiði að selja hann sem barnahest. Hann er frekar latur blessaður en gangurinn er góður og gangtegundirnar vel aðskildar. Lítið mál að ríða honum til gangs og ekkert lull. Í dag var ég að reyna að fá smá líf í drenginn. Búin að hvetja hann hressilega áfram á brokki og ákvað svo að hleypa honum. Haldiði að drengurinn hafi ekki bara skellt sér í skeið af stökkinu. Flott hliðstæða, hélt ganginum alveg þar til ég hægði niður í tölt, greip ekkert á sig eða neitt. Ég ætla að endurskoða þetta barnahestamál aðeins.
Að öðru leiti eru bara allir hressir. Hún Gleði er að opna sig skemmtilega á tölti. Og allt gengur bara sinn vana gang í hesthúsinu.

|

Wednesday, January 06, 2010

Hólaskólaprógramm
Þeir ættu að verða aldeilis vel þjálfaðir drengirnir, Gabríel og Viktor, miðað við prógrammið sem þeir eru komnir í. Hólaskólanemi í starfsnámi er byrjaður að þjálfa og verður þjálfunin svo tekin út af prófdómara. Aftur og enn einu sinni eru allir sammála um hvað hann Gabríel sé efnilegur. Það er vonandi að hann verði meira en það í vor. Ég verð svo illa fátæk eftir þennan vetur að það er eins gott að hann verði einhvers virði í vor. Hann er því miður alveg örugglega á sölulista. Þótt það sé gaman að eiga flottan stóðhest þá hef ég meira að gera við peninga.
Það gengur alveg ágætlega með hrossin sem ég er að þjálfa líka. Dagur, blessaður, er mikið að koma til með ganginn. Það er alltaf geðslagið sem flækist fyrir honum. Ég þurfti að rassskella hann all hressilega um daginn. Það er gott að ég er þrárri en andskotinn því fátt annað dugar á drenginn þegar hann tekur sig til. Svo þegar hann loks gefur sig þá er þetta ekki svo hræðilegt sem ég er að biðja um. Það þarf samt alltaf aðeins að byrja á því að leggja aftur eyrun áður en hann getur gegnt.
Gleði er alveg að rifna úr orku. Ég er að reyna að hafa reiðtúrana stutta því hún er ekki í neinu formi, fyrsti reiðtúr á nýársdag. En þeir fara fljótlega að lengjast. Ég nenni ekki svona stappi mikið lengur.
Hlér greyið sem árinu yngri en hin tvö er svo til mestrar fyrirmyndar. Gerir allt sem hann er beðinn um. Þarf auðvitað að styrkjast á gangi en það held ég að þetta verði hið best hross.

|