Thursday, March 25, 2010

Mikið búið að gerast
Ég veit nú ekki hvort nokkur fylgist með þessu bloggi mínu en ef svo er þá biðst ég velvirðingar á því að hafa ekki skrifað lengi.
Ég gafst upp á honum Degi mínum og sendi hann í sláturhús. Ég nenni ekki að ríða lullbrokk, lulltölt og svo hreint lull og hann sýndi litlar framfarir á gangi. Auk þess var geðslagið ekki með honum heldur. Hann notaði öll tækifæri til að hendast til hliðar og út af veginum ef hann gat. Þegar ég reyndi svo að nota hann til að kenna Hlé að teymast varð fýlan slík þegar hann þurfti að hægja á sér til að Hlér fylgdi að hann endaði á því að fara að hrekkja mig. Svona vitleysu nenni ég ekki lengur og ekki hvarflar að mér að selja nokkrum manni svona hross. Þetta er samt alltaf erfið ákvörðum og finnst mér alltaf sárt að láta hross fara.
Í staðin tók ég inn Ísold. Hún er alveg svakalega feit eftir að hafa staðið í heyi með fylfullum hryssum og tryppum. Ekki vantar samt viljan í litla dýrið. Teymingarkennsla Hlés hefur tekið miklum framförum eftir að hún kom inn enda varla til samvinnuþýðara og betra hross en þessi elska.
Glaumur hefur heldur betur tekið við sér og er kominn aftur í þjálfun. Ég var að ríða honum sjálf um tíma og finnst mér hann alveg þrælskemmtilegt hross. Hef mikla trú á þessum hesti. Hvort sem hann er efni í stóðhest eða keppnishest.
Gabríel og Viktor fóru báðir í tamningarprófið og stóðu sig með prýði. Þeir voru svo settir í frí áður en það yrði haldið áfram með frekari þjálfun, svona tvær vikur eða svo. Viktor var hins vegar orðinn svo frekur í umgegni að ég ákvað að hann hefði ekki gott af meira fríi og prófaði hann í fyrsta skipti í gær. Það vantar vissulega vilja eins og búið var að segja mér. Það er ekki stefnt með hann í dóm í vor þar hann var ekki að sýna neina rosa takta. Ég er samt ekki tilbúin að afskrifa drenginn alveg. Mér finnst búa mikið í klárnum og ef viljinn myndi aukast held ég að þetta gæti orðið feikna hestur. Ég er alveg til í að gefa honum annað ár. Hann er nú ekki að verða nema 4v. Þetta er líka algjör töffari með topp niður á nasir og fax niður á bóga og eru margir búnir að koma og spyrja um hann.
Ungu hrossin á útigangi létu mig fá nett hjartaáfall í gær. Það var ekki rafmagn á girðingunni og hefur ekki verið lengi. Hliðið fyrir traktorinn er allt of langt og það hafði hálf lagst á hliðina. Það er frost að fara úr jörð og eitthvað gengið til staurarnir þannig að það var ekki nógu strekkt. Eitthvað þótti þeim heyið sem var eftir hjá þeim orðið of hrakið eða eitthvað þannig að þau fóru yfir hliðið. Æðislegt að hafa laus hross rétt við þjóðveg 1. Gömlu konurnar stóðu hins vegar eftir og skildu ekkert í þessum stælum. Það var því auðvelt að reka þau aftur inn eftir að góðir grannar létu mig vita að þau væru komin út. Og þau fengur nýtt hey og rafmagnið var sett á. Vonandi verða þau til friðs.
Ég læt þetta duga í bili.

|