Farin til fjalla
Undanfarnar vikur hefur ævaforn seiður verið magnaður til höfuðs Hel. Litlir púkar í líki lítilla drengja hafa dansað djöfulegan dans til að efla seiðinn. Hel skynjaði vá í vindinum en það var of seint. Í miðri orustu smaug seiðurinn inn á milli rifjana og vafði sig utan um steininn sem Hel hafði fyrir nokkru síðan sett í hjartastað. Það var sem Kölski sjálfur hefði náð þar taki. Það ómögulega gerðist, steininum blæddi.
Hel féll á annað hnéið. Þessi orusta var töpuð. Nú var ekki um annað að velja en að hörfa og græða sárið. Stærri orustur bíða við árstíðarskiptin. Stríðið er ekki hálfnað. Hel lifir ekki á hnjánum, hún deyr standandi.
Nú eru góð ráð dýr. Því mun Hel halda austur, yfir hafið og dvelja hjá öflugri norn og valkyrju. Þar mun hún finna harðara grjót til að bræða í sárið. Til að steinninn verði harður verður hann að kólna hægt og því mun Hel verða í burtu meðan máninn fer einn hring um himininn.
Hel hefur legið við hlið vítis og horft inn en snúið aftur til manna. Þegar Hel tapar stríðinu mun hún halda til vítis og taka þar við völdum.
Því betra er að ríkja í Hel-víti en þjóna á himnum.