Sunday, August 22, 2004

"Oh, hann tók glas."
Gærdagurinn var dagur blendna tilfinninga.
Ég kvaddi fyrri vinnustað fyrir ný átök bæði með söknuði og gleði fyrir nýjum verkefnum.
Ég og "tvibbinn" rákumst á frænda okkar fyrir utan búð. Einhverra hluta vegna virtist ég ekki vera þáttakandi í samræðunum, allavega að hálfu frænda vors. Ég veit ekki nákvæmlega hvað ég hef gert honum til miska eða hvort ég sé bara ekki nógu merkileg yfir höfuð fyrir hann til að eyða orðum á.
Litli bróðir fékk mjög gott vinnutilboð og ákvað að hringja í mig með fyrsta fólki til að leyta ráða. Það er alltaf gaman að vita að maður skipti einhverju máli í lífi þeirra sem standa manni næst.
Svo bar kannski hæst að pabbi gamli hefði átt afmæli hefði hann lifað. Af því tilefni fór ég með múttu út í blómabúð og svo upp í kirkjugarð. Það var gott veður og garðurinn fallegur. Legsteinninn sem var ekki nógu vel settur niður á sýnum tíma var farinn að síga óþarflega mikið með árunum svo að við leituðum uppi starfsmann til að biðja um að láta laga þetta. Þá hittum fyrir afskaplega yndælan mann. Hann tók sér ekki bara góðan tíma til að skrá hjá sér þessa pöntun á þjónustu heldur fræddi hann okkur um ýmislegt fleira. Sagði okkur frá endurbótum á garðinum við Suðurgötu og uppbyggingu kirkjugarða í gegnum árin. Þetta var mun áhugaverðara heldur en það hljómar og vakti löngun hjá mér til að fara og skoða kirkjugarða bæjarins betur en ég hef gert hingað til. Það veitir líka vel þegna sálarró að vita að það er svona samviskusamt og vel upplýst fólk sem passar upp á síðasta hvíldarstað látinna ættingja.
Á þessu litla ferðalagi okkar rifjaði mútta upp velþekkta sögu úr minni fjölskyldu sem ég var búin að gleyma. Það hafði verið eitt kvöld þegar að vinnukonan hennar langömmu Jónu hafði verið búin að ganga frá eftir kvöldverð. Pússa silfrið og þvo allt leirtau, sem á þessum tíma þurfti fyrst að sjóða vatn til að þvo og síðan skola og þurka og loks pússa með þurrum klút að sonurinn og háskólastúdentinn (ömmubróðir minn) kom heim frekar seint. Hans fyrsta verk var að vaða upp í skáp og ná sér í glas til drekka úr. Þá féllu þessi frómu orð: "Oh, hann tók glas."

|

Wednesday, August 18, 2004

MSN
Hvað er í gangi?
Ég hef ekki komist inn á msn-ið mitt í margar vikur. Alveg viss um að ég hefði heyrt eitthvað af þessu ef allir aðrir ættu í þessum vandræðum.
Hundfúllt. Ætli það endi ekki með því að ég þurfi að stofna nýtt og eitthvað vesen.

|

Fahrenheit 9/11
Skellti mér í bíó í gær á þessu ágætu mynd. Mæli með að sem flestir sjái hana. Er nú reyndar langt komin með bókina. Bíóferðir vekja almennt ekki upp miklar tilfinningar hjá mér en í gær vissi ég ekki hvort ég ætti að hlægja eða gráta. Langaði mest af öllu í vanmætti mínum að fara og kasta eggjum í Bandaríska sendiráðið.

|

Ítrekaðar morðtilraunir!
Ég er rétt ný skriðin til landsins þegar það er ráðist á mig til að láta mig standa við einhverja vitleysu sem ég lét út úr mér í byrjun sumars.
Mér varð það á í vitna viðurvist að segja að ég yrði nú einhverntímann að drífa mig upp Esjuna. Kunningjakona mín greip það og sagði að við ættum bara að skella okkur nú í sumar. Ég byrjaði auðvitað að hósta og stama og ældi loks út úr mér að ég þyrfti tíma til að komast í form en við gætum séð til í ágúst. Hélt auðvitað þar með væri þetta mál úr sögunni og yrði löngu gleymt og grafið þegar ég kæmi aftur til landsins. Það reyndist ekki rétt.
Á þriðjudeginum eftir að ég kom heim hafði kunningjakona mín samband við mig til að tilkynna mér að hún væri búin að skipuleggja gönguferð á Esjuna á fimmtudeginum. Duuuuhh!!! "Ég er bara engann veginn komin í form og get ómögulega farið að arka á Esjuna." Það var ekki tekið gilt, þetta var jú MÍN hugmynd og á fimmtudeginum var ég, mér til mikillar skelfingar, stödd við rætur Esjunar.
Það er skemmst frá því að segja að ég hef nú í vitna viðurvist gengið á Esjuna. En það skal líka tekið fram að ég ætla ALDREI, ALDREI aftur að fara þar upp og ef mér dettur sú vitleysa í hug að nefna það vona ég að fólk verða fljótt að bregðast við og minna mig á þessa færslu.
Ég var dáin um kvöldið. Ég var með verki í vöðvum sem ég vissi ekki að ég hefði. Ég var með harðsperrur í marga daga á eftir. Ég er búin að vera svo andlega og líkamlega búin að ég hef ekki einu sinni orkað að tjá mig um þessa hræðilegu lífsreynslu fyrr en nú.
Gott fólk. Það er algjörlega of metin lífsreynsla að ganga á Esjuna og ef þið hafið eytt stórum hluta fullorðinslífs ykkar sem sófakartafla eins og ég þá skuluð þið ekkert vera leggja þetta á ykkur.

|

Monday, August 09, 2004

Alive!
Loksins, loksins, loksins komst ég inn á bloggið mitt.
Jæja gott fólk, eins og flestir hafa séð þá var síðasta færsla ekki hefðbundin. Þetta átti bara að vera nettur djóker sem ég bjóst við að yrði fljótlega leiðréttur. Hins vegar radaðist kjöftugum rétt á munn eins og oft áður og fór ég mun nær sannleikanum en ég hafði búist við.
Forsagan er sú að vinkona mín ákvað að elta einhvern karl til Noregs á síðasta ári og tók alla búslóðina með sér þar á meðal slatta af íslenskum hrossum. Hún hringdi svo í mig í vor til að spyrja hvað ég hefði hugsað mér að gera í sumar. Þar sem ég hafði engin stórkostleg plön þá samþykkti ég að ef til þess kæmi þá væri ég til í að koma út í mánuð og hjálpa til með reiðskóla og hestaleigu gegn farmiða, fæði og húsnæði. Það var svo úr að ég var beðin um að koma með stuttum fyrirvara og ég skellti mér bara út. Þar sem ég vissi að vinkona mín bjó í húsi með öllum nútíma þægindum, þar á meðal tölvu, þá bjóst ég við að ég gæti bloggað meðan ég væri úti.
Eldsnemma, þriðjudagsmorguninn 6. júlí fór ég út á flugvöll og flaug til Noregs. Þegar þangað var komið tók ég lest til Lillehammer og þangað sótti vinkona mín mig. Eftir að hafa skoðað bæinn og fengið að borða var keyrt af stað. Það tók einn og hálfan tíma að keyra heim til hennar að sveitabænum. Þar myndum við hins vegar ekki dvelja. Við myndum vera í sumarhúsinu.
Norðmenn eru alls ekki eins kröfuharðir þegar það kemur að sumarhúsum og íslendingar. Ég get víst ekki sagt að það hafi hvorki verið vatn né rafmagn því það var einn krani sem kom úr aðeins gulleitt vatn en þá er það líka upptalið.
Það var sem sagt ekkert rafmagn og þar af leiðandi ekki sjónvarp, sími, ljós né tölva. Þar sem það var ekki nema þessi eini krani þá var auðvitað ekki sturta eða það sem verra er ekkert klósett. Það var útikamar og eitthvað voða smart lífrænt WC þar hægt var að létta á sér og strá yfir trjábörki. Það var auðvitað engin kynding heldur en það var arinn og tvær kamínur og það þurfti reglulega að bera inn eldivið og það fer slatti af eldivið í það að kynda eitt stykki hús. Ég get líka upplýst ykkur um það að það kemur ekki nein stórkostleg birta af kertaljósi.
Því er ekki að neita að þegar hér var komið fékk ég nettan sjokker.
Það undarlega er samt að ég vandist þessu öllu saman nokkuð fljótt. Ok, það var eitt sem ég vandist aldrei og það var kamarinn. Ég notaði hann þrisvar þennan mánuð af brýnni neyð og miklum magaverkjum. Annars tókst mér að hægja ótrúlega á meltingunni og tókst að samstilla hana sturtuferðum. Ég vona bara að ég hafi ekki borið neinn varanlega skaða á þessum mánuði.
Ég komst að því að norðmenn eru yndælisfólk. Þægilegir, vinalegir og afslappaðir. Ég sá mikið dýralíf. Náði að sjá eftirtalið í villtri náttúrunni. Elgi, hjört, uglu, búorm (snákur), refi, héra, fálka ofl.
Ég mun væntanlega segja meira frá einstökum hlutum seinna en þetta er ágætt í bili. En ég er semsagt lifandi og komin aftur.

|