Friday, December 31, 2004

Ef þetta er ástæðan fyrir því að fólk er að eiga börn þá er ekki skrítið að allt sé að fara til helvístis
Ég lennti í samræðum nú í vetur sem gerðu mig hreint út sagt orðlausa. Umræðan var barneignir.
Umræðan hófst á því að ung kona sem ég þekki til, ekki orðin þrítug, er ólétt að sínu fjórða barni. Þessi tiltekna kona ætti ekki að vera eiga börn yfir höfuð hvað þá að vera eiga sitt fjórða. Ég lýsti því yfir að ég skildi ekki hvað fólk væri að flýta sér svona að hrúga niður börnum. Ég fékk svar sem ég átti ekki von á. "Ég væri alveg til að í að klára barneignir fyrir þrítugt til að geta lokið þessu af og ekki vera með ungabörn fram eftir öllum aldri og geta svo farið að lifa lífinu." Fleiri raddir tóku undir þetta.
Ég missti út úr mér "Hvers vegna eru þið að eiga börn?" en sá strax eftir því og sagði ekki meir. Fékk nokkru grimm augnaráð og fleiri svör á sömu lund. "Það er bara best að ljúka þessu af. Vil ekki vera bundin yfir börnum alla ævi. Svo get ég og maðurinn minn farið að lifa lífinu." Ég sat bara vandræðaleg og það hvarflaði ekki að mér að segja orð. Beið bara eftir að það yrði tekið upp annað umræðuefni. Ég er víst svo dómhörð og með svo furðulegar skoðanir.
Ég ætla samt aðeins að deila með ykkur minni skoðun og mínum viðhorfum til barneigna.
Ég flokka mig sem unga konu. Ég er 27 ára ef ég hef ekki sagt ykkur það áður. Það þýðir að ég á eftir þó nokkur góð ár til barneigna og nokkur happa glappa ár til viðbótar. Ég er engin sérstök barnagæla, hef aldrei verið. Ég finn samt að eftir því sem ég verð eldri hef ég meiri þolinmæði gagnvart börnum, ofl. svo sem. Ég hef ekki útilokað að eignast börn, það er aldrei að vita hvað mér dettur í hug. Ég hef hins vegar tekið meðvitaða ákvörðun um að eignast ekki börn, hingað til. Ég vil njóta þess að gera ýmsa hluti meðan ég er enn ung.
Ég hef heldur aldrei litið á barneignir sem einhverja skyldu. Þetta er ekki eitthvað sem ég verð að gera. Þetta er ekki tímabil sem ég verð að afplána til að eiga skilið að lifa lífinu. Allt sem ég geri er til að lifa lífinu. Ef ég ákveð að eignast börn þá er það vegna þess að ég vil að það verði hluti af mínu lífi. Börnin yrðu hluti af mínu lífi, mitt líf yrði ekki í neinni biðstöðu á meðan. Það væri það líf sem ég hefði kosið.
Afi minn var eitt sinn spurður hvenær maður hætti að hafa áhyggjur af börnunum sínum. Afi, þá kominn á áttræðisaldur og báðir synirnir komnir á sextugsaldur, svaraði einfaldlega, "Aldrei". Mér þótti svarið fallegt og mjög skiljanlegt. Það að eiga barn er ekki eitthvað sem tekur 18 ár og er svo ekki þitt vandamál. Það að koma annari manneskju í þennan heim er stór ábyrgð. Þótt þú eigir ekki tæknilega séð að sjá um hana alla ævi þá hefur þú áhyggjur alla ævi, það er að segja ef þú ert heilbrigð manneskja. Foreldrar mínir voru komnir hátt fertugsaldur þegar ég kom í heiminn. Ég var ekki slysabarn, enda ekki til slysabarn í upplýstu samfélagi - getnaður er rökrétt afleiðing samfara, það var beðið eftir mér. Aðrir gerðu grín að foreldrum mínum, sögðu að það væri svo langt á milli okkar systra að við værum allar eins og einkabörn. Það fannst mér ekki. Ég átti stórar systur sem pössuðu mig. Það var engin samkeppni. Við vorum allar á sitthvorum aldri og á sitthvoru sviði. Þegar foreldrar mínir ferðuðust, hvort sem það var innanlands eða utan, fórum við með. Við vorum hluti af lífi foreldra okkar, við vorum og erum fjölskylda.
Þannig hugsa ég um barneignir. Ég hafði aldrei hugsað um fjölskyldu mína á þennan hátt áður. Mér fannst þetta eðlilegt. Ég fann alltaf að ég var velkomin. Haldið þið virkilega að börnin ykkar finni ekki hvort þau séu velkomin og hluti af ykkar lífi eða fangelsisdómur sem þið eruð að afplána? Þau finna það. Ég þekki þessi börn. Hef rekist á slatta af þeim í gegnum tíðina. Ég hafði bara ekki áttað mig á þessu áður. Ég hafði aldrei skilið hvers vegna sumir hlaupa í sambönd og hrúga niður börnum. Ætla að bíða með að lifa lífinu þar til seinna því það að eiga börn er skylda og þeirri afplánun verður að ljúka fyrst. Þetta fólk er svo hundóánægt og skilur þegar börnin eru farin, þegar þau áttu að fara að lifa lífinu saman. Raunar eru samböndin hætt að endast svo lengi. Afplánunin er í sitthvoru lagi og börnin fá enn meiri tilfinningaskaða í kaupbæti. Þá er ónefndur hinn hlutinn sem hleypur í ömurleg, skemmandi sambönd í þeirri þrá að upplifa að einhver þrái þau og vilju þau, þau séu ekki fangelsisdómur.
Ef ég ákveð að eignast börn, þá verður það vegna þess að ég vil að þau verði hluti að mínu lífi. Þau verða velkomin.

|

Thursday, December 30, 2004

Allar væluskjóður eru kellingar - allar kellingar eru ekki væluskjóður
Einhver tímann, einhvers staðar á þessu bloggi sagði ég að fyrirbærið kelling (og ég skrifa kerling viljandi án þess að hafa r) væri óháð aldri og kyni. Kelling er fyrirbæri sem ég get ekki almennilega skilgreint á prenti en þekki um leið og ég hitti það fyrir.
Aftur á móti get skilgreint fyrirbærið, væluskjóða. Eins og ég segi í tittlinum þá eru allar væluskjóður kellingar. Líkt og kellingar, þá er fyrirbærið, væluskjóða, einnig óháð aldri. Því miður er það hins vegar kynbundið, það er kvenkyns. Nú ætla ég raunar að slá mjög kvenlegan varnagla og taka fram að ég hef í það minnsta ekki hitt karlkyns væluskjóðu.
Væluskjóður tala MJÖG mikið og eins og nafnið gefur til kynna þá eru þær sífellt vælandi yfir öllu. Annað sem einkennir þær er að þær koma sér aldrei að efninu. Þær geta heldur aldrei gefið ákveðið svar. Hún er líka mjög hrifin af að segja sömu hlutina sem oftast.
Ég held að það sé einfaldast að taka bara nokkur dæmi:
-Væluskjóða hringir til að segja þér að sér seinnki.
"Það er búið að vera svo mikið að gera í allan dag. Ég er búin að gera þetta og þetta og þetta og ég er bara svo þreytt og..."
Who gives a shit. Ég þarf ekkert að vita allt sem þú ert búin að vera að gera. Það er alveg nóg að segja að það sé búið að vera mikið að gera og þér seinnki.
-Þú segist vera að fara út að kaupa nammi og spyrð væluskjóðuna hvort hún vilji eitthvað.
"Æ, ég veit það ekki. Ég er búin að borða svo mikið í dag. Ég má nú eiginlega ekki við því. Hvað ætlar þú að fá þér?"
Ok. Svarið er greinilega já. En það er ekki hægt að segja það. Hvað þá koma út úr sér hvað hún vill. Helst af öllu átt þú að vita hvað hún vill og enn betra ef þú hálf neyðir hana til að samþykkja það. Væluskjóður geta ekki svarað spurningum með já eða nei.
-Þú ert út í búð og hringir í væluskjóðuna til að spyrja hvort hún komi í mat.
"Ég bara veit það ekki. Það er bara svo mikið að gera hjá mér að ég veit ekki hvort nái í mat. Ég á eftir þetta og þetta og þetta og hitt og þetta." Þetta er helst endurtekið nokkrum sinnum.
Fullorðið fólk hlýtur að vita hvað það tekur langan tíma að gera hlutina. Það er ekki flókið að áætla hvenær þú kemur og í versta falli stenst það ekki.
Það allra allra allra versta við að eiga við væluskjóður er að reyna að ná ákveðnum upplýsingum upp úr væluskjóðu. Hún er algjörlega ófær um að gefa hnitmiðað og ákveðið svar. Hún verður að tala í endalausa hringi um málið. Ef þú ert heppinn og ert ekki búinn að missa geðheilsuna áður en væluskjóðan lýkur máli sínu þá gætir þú gripið svarið einhverstaðar í framhjáhlaupi. Því miður, þá muntu oftar en ekki, ekki fá svarið. Þegar væluskjóða er að segja þér eitthvað þá sleppir hún iðulega mikilvægustu staðreynd málsins. Svo þegar allt er farið í háaloft, vegna þess að þig vantar lykilatriði sem forsenda þess sem er til umræðu, þá skilur væluskjóðan ekkert í því hvað er að.
Þetta er víst mjög kvenlegur eiginleiki. Ég hef lesið um þetta í bókum. Ég náði meira að segja að sjá að þetta stóð í bókinni, Karlar eru frá mars-konur eru frá venus, samt náði ég ekki að klára fyrsta kaflann áður en ég grýtti henni út í horn.
KONUR!!! Þetta er ekki sætt, þetta er ekki sniðugt og þið getið í það minnsta sparað þetta fyrir karlmennina, sem ég skil ekki hvernig geta þolað þetta.

|

Wednesday, December 29, 2004

Djöfull...
Lennti í gær í smá spyrnukeppni við Grímu (hryssan mín). Hún ætlaði að fara að snúa sér á ganginum þegar ég var að kemba henni. Það hefði þýtt að ég hefði klessts utan í vegg svo ég lagði öxlina í hana og spyrnti á móti. Það var auðvitað óþarflega mikið álag á ökklann á mér. Svo var ég að fara á bak korteri seinna og asnaðist til að standa hægra megin við hrossið. Ég er almennt fær um að fara báðum megin á bak svo ég hélt að þetta myndi sleppa. Það gekk hins vegar hálf brösulega að ná ístaðinu, því ég þurfti að tilla á tá í vinstri fótinn, sem er mjög slæmt eftir tognunina auk þess sem tveir læknar eru búnir að segja mér að miðað við bólguna og marið hafi ég líklega slitið liðband, var ég búin að nefna það? Ég var hins vegar með áhorfendur svo það kom ekki til greina að gefast upp og fara hinum meginn. Asshole. Þegar ég loksins náði ístaðinu og þurft þá auðvitað að spyrna mér upp með vinstri fætinum og þá fór stoltið fyrir sársauka. Komst á bak í þetta sinn en það er ljóst að ég kem til með að fara á bak vinstra meginn fram eftir vetri.

Krakka andskotar
Til að fullkomna daginn þá voru einhver krakkaógeð að sprengja flugelda beint fyrir utan gluggann hjá mér í gær. Bjóst nú alveg við því að þurfa að þola það fram á þrettándann. Bjóst hins vegar ekki við því sem ég heyrði næst. "Eigum við að sprengja upp kött." Hvað!!! Eru einhver krakkaógeð búin að ákveða að leggja kettina mína í einelti? Það eru hreinar línur að kettirnir mínir verða inni þar til allar sprengingar eru gegnar yfir. En til að það sé alveg á hreinu og ef einhver af þessum ógeðum lesa síðuna mína (sem ég efast um) þá mun ég hiklaust refsa grimmilega hverju þeim sem skaðar kettina mína á einhvern hátt. Fyrir þetta brot, sprengja upp kött, mun ég hafa hendur í hári viðkomandi, festa tryggilega stærstu tegund af flugeld í klofinu á viðkomandi og kveikja í. Síðan mun ég njóta þess að horfa á flugeldinn tæta undan þetta litla, gagnslausa, óþroskaða drasl sem þar er að finna.
Og þeir sem þekkja mig vita að þetta er ekki stílfærð yfirlýsing heldur heilagur sannleikur. Ég gef aldrei loforð sem ég er ekki tilbúin að standa við.

|

Monday, December 27, 2004

Aaaa, it's over
Hélt að ég myndi aldrei segja það en thank god it's monday.
Búin að éta of mikið, sofa of mikið, horfa of mikið á sjónvarpið og heilinn er hálf steiktur eftir þetta. Finn bara hvernig ég er að leka inn í þunglyndi með þessu aðgerðarleysi. En ég er byrjuð að berjast á móti.
Mér hefur tekist að járna eitt hross. Bara búin að vera með hross inni í tvær vikur, glæsilegur árangur. Mér reyndar tókst að koma upp vatnsskálum fyrir hrossin í gær og þær virka oooog leka ekki. Geri aðrir betur. Er líka byrjuð, takið eftir, byrjuð að hreinsa til í hlöðunni. Get allavega gefið án þess að rota mig og hrynja á hausinn. Hirti líka upp hræið af andarsteggnum sem kettirnir komu inn með og átu fyrir sennilega ca. þremur vikum, jaaa, kannski bara tveimur. Þetta ætti að vera komið í ágæta rútínu svona um miðjan janúar, með þessum hraða.


Hestasaga
Sem hestamaður þá verð ég bara að tjá mig um þessa hörmung. Og já, ég sagði hörmung.
Lengi vel var maður þakklátur fyrir hvað sem var sem komst í sjónvarpið tengt hestum. Nú ætti maður að halda að þegar það kemur heil mynd þá myndi maður verða hæst ánægður. Nei nei nei. Þetta var ekki betra en ekkert, þetta var verra en ekkert. Þessi mynd var svo uppfull af rangfærslum og kjaftæði að ég hef sjaldan séð annað eins. Og þessi mæðulegi vælu þulur var alveg drep. Því miður þá gæti ég aldrei komið til skila í rituðu máli hvað samskipti og tjáskipti hrossa geta verið margslungin og merkileg. Þið þessi sem hafið átt dýr og/eða lifað í nálægð við dýr vitið hvað þau leyna á sér.
Ég ætla í staðin að gera stuttan lista þar sem ég leiðrétti helstu vitleysurnar í myndinni:

Öll hross á landinu eru haldin innan girðinga. Meira að segja stóðin sem ganga til fjalla á norðurlandi hafa afmarkað svæði þótt það sé stærra en gengur og gerist.

Stóðhestar ganga ekki lausir og þurfa ekki að berjast um hryssur. Krakki sem myndi sleppa út stóðhesti í hryssur myndi verða hýddur og stóðhesturinn eltur og fangaður. Hann myndi ekki fá að ganga laus fram á haust.

Það er fylgst með hrossum. Ef hross týnist úr girðingu er gerð leit af því. Það kemur fyrir að hross finnist og enginn eigandi gefi sig fram en þau eru færð til dýraeftirlitsmanns og hann sér um hrossið þar til það er selt fyrir áföllnum kostnaði eða því slátrað.

Hrossum er gefið út yfir vetrartímann. Það er ekkert hross sem er látið ganga úti og berja garrann yfir vetrartímann. Ef það gerist er sá sem ber ábyrgð á því fundinn og dreginn til ábyrgðar. Þið munið kannski eftir fréttum af hrossum sem höfðu horfallið. Síðustu fréttir sem ég man eftir voru að austan fyrir nokkrum árum. En það er einmitt málið, að það er svo sjaldgæft að þegar þetta gerist þá er það talið fréttnæmt.

Stóðréttir ganga ekki svona fyrir sig. Það gat verið sláttur á mönnum hér á árum áður en ekki í dag. Eftir því sem menn hafa lært meir og hestvæn hestamennska hefur rutt sér til rúms, auk mikils áhuga útlendinga, hafa stóðréttir orðið átakalitlar og hestvænar.

Svona í framhjáhlaupi er rétt að minnast á að hrossin byrjuðu ferð sína á austurlandi en enduðu svo í stóðréttum á norðurlandi. Ég man nú ekki eftir frásögnum af svona ferðalögum hrossa í nokkra áratugi.

Svona gæti ég endalaust haldið áfram en ég heldið þið skiljið hvert ég er að fara.

|

Thursday, December 23, 2004

Jólaxxxspjallið 2004
Woh! What a bitch. Ég það er að segja.
Það er ekkert lítið eitrið sem ég er búin að spúa yfir allt og alla hérna síðustu daga.
En þetta er það sem gerist þegar mér líður sem verst. Bara sorry. Þið eruð bara shit out of luck að hafa orðið fyrir því. En þið getið sjálfum ykkur um kennt líka, það er engin skylda að skoða þessa síðu.
Svona í framhjáhlaupi, þá er sami aðili búinn að skoða þessa síðu skuggalega oft núna. Ég er farin að halda að ég sé búin að verða mér út um stalker. En hvað um það.
Ég vona að frá og með klukkan sex annað kvöld fari ég að róast og líða betur.
En svona í the spirit of Christmas...

Þá óska ég öllum þeim sem lesa þessa síðu, svo og öllum öðrum, gleðilegra jóla. Ég óska ykkur þess sama og ég óska mér, ró og friðar. Vona að ykkur líði sem allra best um hátíðirnar og ekki láta fúla og leiðinlega ættingja, vini eða vandamenn eyðileggja fyrir ykkur jólin.

|

Wednesday, December 22, 2004

Naflaskoðun
Þegar ég ákvað að starta þessari síðu var ætlunin að hafa hana nafnlausa. Ég ætlaði ekki að segja neinum frá henni. Það var til þess að ég gæti tjáð mig um hvað sem ég vildi, hvernig sem ég vildi. Því miður komst upp um mig. Það eru samt ekki margir sem vita af þessari síðu, af þeim sem þekkja mig persónulega. En greinilega of margir.

Ég veit líka að ég á aldrei að skrifa neitt í reiði. Ég hef reynt það en það hefur ekki alltaf tekist. Ég er að vinna í því.

Ég er skapmikil. Allar mínar tilfinningar eru eins og náttúruhamfarir. Það er bæði gott og slæmt. Það er ólíklegt að þú eignist traustari vin. Hjálpsemin er að drepa mig. Ef mér sárnar þá er eins og það sé stungið rýting í hjartað á mér. Og ef ég verð reið, þá verð ég REIÐ.

Ég er orðljótari en andskotinn. Ég veit ekki hvaðan ég hef það, þetta þekkist ekki innan fjölskyldunnar. En blótsyrðin losa mikið um spennu hjá mér. Þegar ég verð REIÐ, þá hækkar blóðþrýstingurinn mjög skyndilega og ef ég næ ekki að losa um spennuna þá fæ ég hausverk ofl. Þar koma blótsyrðin til sögunnar. Ef ég blóta því sem er að ergja mig í sand og ösku þá losa ég mjög hratt um spennu. Fólk, að sjálf sögðu, tekur þessu misjafnlega.

Ég tel mig samt sem áður heiðarlega og sanngjarna. Ef ég missi mig og finnst ég hafa verið ósanngjörn þá biðst ég afsökunar. Auðvitað vona ég að ná þeim þroska og þeirri sjálfstjórn með tímanum að ég þurfi ekki að biðjast afsökunar. Það er ekki endalaust hægt að hreyta í fólk og segja svo fyrirgefðu.

Ég er búin að vera vinna í hesthúsinu sleitulaust í þrjá mánuði. Mér hafa oft fallist hendur og verið við það að gefast upp. Ég hef fengið litla sem enga hjálp nema þá sem ég borga fyrir. Og eins og dyggir lesendur hafa séð þá er ég orðin ástfangin af smiðnum ekki síst fyrir það að hann hreinlega bjargaði hesthúsinu og geðheilsunni hjá mér. Nú er allt farið að líta svo vel út. (Ég veit að ég er búin að segja þetta nokkrum sinnum en þetta er mín síða og ég ætla bara að segja það aftur.) Þegar ég sá hvernig stían leit út eftir hrossið þá leið mér eins og ég hefði verið nýbúin að kaupa glænýjan bíl, sem ég hefði verið búin að vinna fyrir lengi, svo loks þegar ég fékk hann afhenntan og var að keyra hann út af planinu hjá bílasölunni hefði komið einhver asni í órétti og keyrt á bílinn minn, vippað sér svo út og sagt: "Hva!!! Afhverju ertu að keyra í veg fyrir mig?"

Mér finnst ég hafa fullan rétt til að vera reið, sár og orðljót. Ég ætla ekki að biðjast afsökunar á einu eða neinu. Viðkomandi aðili hefur tekið þann pól í hæðina að yfirgefa húsið með öll sín hross. Ég verð að segja að það er ákveðinn léttir. Ég er mjög fegin að vera laus við skemmdarvarginn. Fylgdist með henni í töluverðan tíma í dag og ég þori að veðja að þetta er ekki ný til komin löstur. Hún leitar í sífellu að stöðum til að naga og renna tönnunum eftir. Frekjustampurinn ákvað að kveðja mig með því að ryðjast á mig þegar ég var að hleypa út til að moka. Steig ofan á löppina á mér, þessa sem var í lagi, og núna er ég komin meðan marblett ofan á ristina rétt við tærnar.

Alltaf að horfa á björtu hliðarnar. Það er þremur hrossum færra sem ég þarf að moka undan. Ég reyndar leigi út plássin á verði sem miðast við að eigandinn moki, daglega, undan sínum hrossum og taki þátt í að gefa. Mér reiknast til að ég hafi mokað undan hrossum þessa leigjanda í 90% tilvika síðasta vetur. Var orðin frekar svekkt og pirruð yfir því en vildi ekki skapa leiðindi. Það þýðir ekkert að vera að trítla í kringum fólk, það bara veður yfir þig í staðinn.

Sannleikanum er hver sárreiðastur.

|

Vinur í nauð er vinur í raun
Ég hef heldur betur komist af því hverjir eru vinir mínir og hverjir ekki núna undanfarið ár. Ég er orðin lang þreytt á því að láta traðka á mér á skítugum skónum. Ég lét það koma í ljós hér og fékk aldeilis viðbrögð.
Ég sem sagt talaði of illa um hrossin. Viðkomandi líkaði ekki hvernig ég talaði hér um hrossin. Það er sem sagt dónalegt að kalla hross frekjustamp. Ég veit að merartussa er ekki fallegt orð en í alvöru. Hvað getur maður sagt. Hún er búin að eyðileggja stíuna. Mér finnst ég í fullum rétti að kalla hana hvað sem ég vil. Það er ekki eins og ég sé að ganga um í hverfinu og úthrópa hana. Það er ekki eins og lesendur hér þekki þetta hross né eigandann eða sé ekki skítsama hvað ég kalla þetta eða eitthvað annað hross.
En ég á að biðjast afsökunar á orðum mínum. Það var ekki beðist afsökunar á því sem hrossið gerði. Það var ekki boðið fyrir fram að borga skemmdirnar. Það var farið í fýlu. Orð mín voru rengd, og það ekki í fyrsta sinn. Og ég á að biðjast afsökunar á því sem ég skrifaði hér. Það kemur ekki til greina. Fyrir vikið ætlar viðkomandi að taka sín hross úr húsinu. Gott, þá verður húsið ekki fyrir frekari skemmdum. Þetta er ekki minn missir. Ég hef ekki átt vin í nauð og þar af leiðandi ekki vin í raun, svo hvað er ég að missa.

|

Innri ró
Dagurinn lofaði ekki góðu fyrst til að byrja með. Hélt ég ætlaði aldrei að komast fram úr. Ökklinn var alveg að drepa mig í gær. Small eitthvað undarlega í honum þegar ég gekk. Verkir eftir því, ekki meiriháttar sársauki, frekar svona stöðug eymsli og óþægindi. Ætla að athuga með stífari stuðninginn á eftir.
Þegar ég hafði mig í hesthúsið að gefa þá tókst mér auðvitað stíga á einhvern andskotann með fangið fullt af heyi. Ökklinn til hliðar, stingandi sársauki og féll svo fram fyrir mig. Það var sem betur fer mjúk lending, heyið tók af fallið. Beyglan auðvitað búin að raspa aðeins meira með tönnunum.
En vitið þið hvað? Það gerðist eitthvað undarlegt. Ég tók eftir dömunum mínum, hryssunum sem ég er með á húsi í vetur. Þarna stóðu þær allar þrjár, blíðeygðar og rólegar. Ég klappaði þeim öllum og áttaði mig á því að ég hef ekkert tekið eftir þeim síðan þær komu inn. Ég er búin að vera svo upptekin af öllu öðru að ég hef ekki tekið eftir því sem skiptir mestu máli, í þessu sambandi, hrossunum. Og allt í einu varð ég róleg.
Ég ætla að gefa skít í þessa merarbeyglu. Hún étur þá þessa einu stíu og eigandinn verður að eiga það við sína eiginn samvisku hvað hann vill gera.
Ég ætla að koma hesthúsinu mínu heim og saman og njóta þess að stunda mína hestamennsku á mínum hrossum. Þarna eru þær búnar að standa og bíða eftir að ég taki eftir þeim. Ég er búin að því og ætla ekki að gleyma þeim aftur. Ég ætla að meira að segja að eiga rúmlega 300kg gæludýrið mitt sem virðist ætla að verða mesta trunta sem um getur. Hún er yndislegur karakter. A dog got personality and personality goes a long way.

|

Tuesday, December 21, 2004

Útbrennt eldfjall
Pirringurinn náði nýjum hæðum í dag. Ég sat og gargaði í takt við jólalag í bílnum. Þóttist vera að syngja en var í raun bara að garga hástöfum til að reyna losa um spennu. Þegar ég var svo búin að vera pirruð út í allt og alla í allan dag langaði mig helst til að fleygja mér í rúmið og grenja, gerði það samt ekki. Núna er allur vindur úr mér og mig langar ekki að gera nokkurn skapaðan hlut.

Ég þoli ekki þennan árstíma. Hef aldrei gert. Finnst allir gera allt of mikið mál úr þessu öllu saman. Allir eru stressaðir, pirraðir og á háa cé-inu. Það á að þrífa allt, kaupa allt og gera allt. Og það sem verra er, er að ALLIR eru að gera ALLT á SAMA tíma. Umferðin byrjar að þyngjast strax um mánaðamótin og versnar svo og versnar. Síðustu daga fyrir jól tekur tvöfallt lengri tíma að komast leiðar sinnar. Allar verslanir eru pakkaðar af fólki. Það er ekki einu sinni hægt að fara út að kaupa sér mat í matvöruverslun, það er líka troðið þar. Samt eru allir veitingastaðir troðfullir. Ég verð bara að segja að ég skil ekki hvar þetta fólk er svona flesta aðra daga ársins. Ég verð alltaf jafn hissa að það sé svona mikið af fólki á skerinu.

Undafarinn áratug hef ég átt mér ágætis felustað á meðan á þessu gengur. Ég fer upp í hesthús. Ég legg af stað þangað áður en mesta umferðin byrjar á daginn og fer ekki heim fyrir en eftir kvöldmatatíma. Þetta hefur verið mér og minni geðheilsu til bjargar. Ég losna við allt stressið og lætin. Það er fátt meira afslappandi en að ríða út í ljósaskiptunum og myrkrinu. Hægt og rólega því hrossin eru ekki komin í neitt form. Mest á feti, hlusta á hófasláttin, horfa upp í stjörnubjartan himin og finna streituna líða út. Síðan eyða smá tíma í að bursta bangsalega hestana. Hlusta á þá mala heyið með sterkum jöxlunum. Setjast aðeins niður í góðum félagskap á hlýrri kaffistofu og fá smá yl í kroppinn aftur. Meira að segja skítmokstur verður afslappandi. Kemur blóðinu aðeins á hreyfingu og færir roða í kinnar.

Hesthúsið hefur ekki verið uppspretta þessarar endurnæringar núna.
Það hefur allt verið á síðasta snúning. Ég hef verið keyrandi fram og til baka að kaupa alls kyns efni. Heildarkostnaður þess er kominn yfir 200þús. Smiðurinn hefur verið mikill léttir en ég er búin að borga honum 150þús. og skulda honum samt slatta í viðbót. Svo hver tími sem hann er að vinna veldur líka vissum kvíða. Ég næ ekki að gera helminginn af því sem ég ætla að gera. Þótt ég setji mér markmið fyrir daginn þá fer það út í veður og vind. Stundum vegna stíflaðara vatnslagna, stundum vegna slysa, stundum vegna tímaskorts. Tíminn til að sinna hrossunum er enginn, hvað þá að ríða út.
Þetta mjakast nú samt áfram og nú nýlega er ég farin að sjá einhvern árangur af allri vinnunni og allri eyðslunni. Þetta er farið að líkjast draumsýninni úr hausnum á mér og fólk er farið að tala um hvað þetta lítur vel út. Ég var farin að eygja von og halda að þetta væri þess virði.
En nei.
Þegar ég kom í hesthúsið í gær þá varð ég reið. Þessi djöfulsins taugveiklaða merartussa. Það stórsá á einum veggnum og aðeins á tveimur öðrum. Ég ákvað samt að herða mig upp og reyna að redda þessu. Það tókst svona þokkalega að mér fannst. Ég ákvað líka að setja taugasterkara og rólegra hross sem ég á (hitt hrossið sem var með merinni var í eigu sama aðila) með henni í stíuna. Ég hafði makað slatta af lakki á alla veggi, í öllum stíum til að reyna að verja innréttingarnar. Það var auðvitað ekki fullkomnlega þornað þegar ég varð að setja hrossin inn. Það hefði samt ekki átt að koma að sök, hross eru ekki mikið fyrir að halla sér upp að veggjum. Þegar ég kom svo í dag, þá var merartussan búin að skafa annan vegg með tönnunum og hitt hrossið allt út atað í lakki, (eina hrossið by the way sem var út atað). Pottþétt út af því að tussan hefur verið með stæla og verið að ýta rassgatinu í það þegar það var að reyna snúa sér. (Og ég veit að það hefur verið þannig, því ef þið hafið fylgst með hrossum í stíum þá mynduð þið vita það líka). Þegar hér var komið var reið og sár. Ég lét svo eiganda merarbeyglunar vita þegar hann kom. Sagði eins og var, að annað hvort færi hrossið eða hann myndi bera kostnað af viðgerðum. Það virtist ekki hreyfa við neinu. Nema hvað að viðkomandi varð fúll og spurði: "Ertu viss um að það hafi verið hún?" Ég svaraði því játandi. Enda fannst mér hitt hrossið, sem er í eigu sama aðila, ekki líklegt þar sem ég hef fylgst með því á húsi í mörg ár og hef aldrei séð það hafa í frammi svona hegðun. Þá fékk ég: "Sástu hana gera það?" Ertu að grínast??? Hrossið þitt er á fjórum sólarhringum búið að valda skemmdum á efni að lágmarki að verðmæti 30þús. fyrir utan vinnu. Húsið er svo ný upp gert að það er ekki einu sinni fullklárað og ÞÚ ert í fýlu.
Mig langaði að fara að gráta. Ég hef sjaldan upplifað annað eins tilitsleysi og dónaskap. Hvað hef ég gert nákvæmlega til að eiga þetta skilið?

Mig langar ekki einu sinni út úr húsi, hvað þá upp í hesthús. Það er kvöð að fara þangað. Mér hryllir við tilhugsuninni. Mig langar ekki að horfa á allt sem ég á eftir að gera hvað þá það sem er búið að eyðileggja. Afdrep mitt og hvíldarstaður er orðin mín versta martröð. Þá er allt endanlega farið til helvítis. Kannski ég ætti bara að drífa mig þangað líka.

|

Monday, December 20, 2004

Getur einhver haldið undir himininn fyrir mig? Ég bara verð að tilla mér aðeins.
Þreytt. Það er eina orðið sem kemst nálægt því að lýsa hvernig mér líður.

Síðustu daga hef ég barist um á hæl og hnakka við að berja hesthúsið saman fyrir jólin. Það virðist samt ekki skipta máli hversu mikið ég geri, það er alltaf nóg eftir.

Smiðurinn kom á sunnudaginn og vann heilmikið. Síðasta heimsókn fyrir jól. Það er allavega ein jólagjöf sem ég fæ ekki þetta árið. Það er kannski bara eins gott. Ég er ekki barnagæla þótt ég geri mitt besta. "Má ég fara á hestbak, má ég fara á hestbak, má ég fara á hestbak, má ég fara á hes......." Ég var farin að verða pínu pirruð. Þótt samviskusamir feður séu heillandi á vissan hátt þá gera börnin þá fráhrindandi á allt annan hátt.

Þetta varð til þess að ég er búin að vera standandi upp á endan eða röltandi um frá því á föstudaginn. Sem er aftur ekki gott fyrir ökklann á mér sem var orðinn helblár á föstudagskvöldið, að vísu er þá eitthvað í stíl við helminginn af andlitinu á mér...do you get it? Eftir það er mér bara búið að vera illt. Þegar ég kem heim á kvöldin er ég með þennan líka æðislega þreytuverk í fætinum að það er ekki fyndið. Ég er búin að fjárfesta í betri teygjustuðning, gat bara ekki séð að ég kæmist í skó með svona reimaða spelku. Prufaði það dæmi í dag. Þurfti að rjúka heim til að rífa það af mér og ná í teygjusokkinn. Er enn of bólgin til að vera með svona stífan stuðning.

Hélt svo að ég myndi flippa, eða ég reyndar flippaði, þegar ég kom upp í hesthús. Nýja hryssa vinkonu minnar er taugaveikluð beygla sem er með leiðinda húslöst. Hún rennir tönnunum eftir veggjunum. Það var ekki að fara neitt voða vel með glænýju timburklæðninguna mína. Það er ein hliðin í stíunni svo til ónýt og tvær aðrar markaðar. Ef ég hefði átt haglara hefði verið hrossakjöt á mínu jólaborði. Ég náði að láta þetta líta aðeins betur út með smá bæsi og helling af lakki. Setti svo hryssu á sama aldri með henni í staðin fyrir frekjustampinn sem var með henni. Er að vona að rólegri félagsskapur og þykkt, bragðvont lakk komi í veg fyrir frekari skemmdir. En þetta var ekki alveg það sem ég þurfti á halda einmitt núna.

Það eru í það minnsta tveir til þrír bloggpistlar í hausnum á mér sem bíða eftir að komast hér inn en ég get ekki meir í kveld. Góða nótt.

|

Friday, December 17, 2004

Það er alheimssamsæri í gangi og því er beint gegn mér!!!
Smá yfirlit yfir gærdaginn.

Var svo til nýbúin að slökkva á vekjaraklukkunni, sem ég læt hringja mjög tímanlega, þegar síminn hringir. Það var "tvibbinn". "Heyrðu, bílinn minn er stopp hérna á Reykjanesbrautinni, held að hann sé bara bensínlaus eða eitthvað. Get líka hringt á leigubíl en ég bara man ekki númerið. Geturðu svo komið og hjálpað mér með bílinn?" Gaf upp númerið hjá Hreyfil og drattaðist svo á fætur. Fór og hjálpaði "tvibbanum" með bílinn, alltaf svo gaman að standa í brjálaðri umferð.

Svona fyrst það var búið að ná klónnum í mig var ég spurð hvort að ég gæti farið í Kringluna og sótt gallabuxur á litlu frænku. Ég auðvitað gerði það (það er sem sagt hægt að sækja buxurnar heim til mín, by the way). Fyrst ég var nú á annað borð komin á þetta búðarrölt tók ég mig til og skveraði af 90% af jólagjafakaupum og keypti jólakort, sem ég skrifaði svo á í gær. Hafði annars ekkert gert í þessum málum og var farin að hallast að því að senda engin jólakort og gefa engar gjafir.

Þegar ég rúllaði svo upp í hesthús var ég heldur betur ánægð með mig. Nú skildi ég byrja að járna og það skildi ekkert koma í veg fyrir það. Allt annað gæti beðið. Ég ætlaði sko að byrja að ríða út um helgina.
Ég trítlaði svo léttfætt á rósrauðu skýi inn í hesthús, opnaði fyrir tilvonandi reiðhrossunum og dansaði svo lipurlega inn fyrir að folaldastíunni. Opnaði, steig tígurlega innfyrir til að reka þau út, steig ofan á kantinn á mottunni sem ég hafði ekki nennt að ganga frá eftir vatnsausinn daginn áður, lagði allan þungann á fótinn sem skekktist til hliðar datt næstum á hausinn um leið og það heyrðist hávær smellur í ökklanum, fleygiðst utan í vegg og hékk þar eins og ræfill til þess að detta ekki á hausinn ofan í hrossaskít þar sem það var að líða yfir mig af sársauka. Tókst fyrir eitthvað kraftaverk að haltra/hoppa inn á kaffistofu þar sem ég skellti mér niður og setti löppina upp á borð. Þegar mesta yfirliðstilfinngin var liðin hjá og ég var farin að ná áttum byrjuðu að leka tár niður vanga mína af sársauka. Ég segi ykkur það satt gott fólk, þrátt fyrir að hafa fengið gat á hausinn og ýmislegt fleira í millitíðinni, þá hef ég ekki grátið af sársauka síðan 1998 þegar ég vaknaði upp með brjósklosverkinn í fyrsta skipti. Þegar brjóskið í bakinu á mér ákvað að skjótast út á milli liða og þrýsta beint á taugina niður í fót. Sem er, þrátt fyrir þetta síðasta atvik, versti verkur sem ég hef á ævi minni fundið.
Ég launaði "tvibbanum" greiðan frá því um morguninn og lét hann fara með mér niður á slysó. Þá er ég búin að fara þangað tvisvar núna á circa mánaðartíma. Þar var ég úrskurðuð óbrotin en illa tognuð. Var svo hennt út aftur með teygjusokk, verkjatöflur og upplýsingabækling. Ég er samt fegin að sjá að tognun á ökla getur verið það slæm að þeir hafa séð ástæðu til að gefa út bækling. Því þótt fóturinn hafi verið óbrotinn er ekki alveg hægt að segja það sama um stoltið, sem var næstum farið að vona að ég væri fótbrotin til að réttlæta þennan aumingjaskap.

En hrossin eru enn ójárnuð og verða það líklega áfram um einhvern tíma. Allaveg meðan ökklinn á mér lítur út eins það sé appelsína að reyna að ryðjast þar út og göngulagið eftir því.
Þetta er samsæri, ég veit að þetta er samsæri. I will find you!

|

Wednesday, December 15, 2004

Stundum, þá bara fara hlutirnir ekki eins og þeir eiga
Það gerðist í dag.

Fyrst ég fann nýjan tannlækni þá ákvað ég að smala mömmu til hans. Hún er búin að vera að kvarta eitthvað yfir tönnunum í sér í marga mánuði. Ég hef ekki nennt mikið að spá í það. Hún talar stundum um að hún sé bara að fá hjartaáfall eða heilablóðfall eða þetta eða hitt, pínu dramadrottning. (Það er gott að gamla kann ekki einu sinni að kveikja á tölvu hvað þá meir.) Ég er nefnilega svona eins og "tvibbinn" og "tvibbinn" kallar "go getter". Ég nenni ekki mikið að hlusta á sama vælið aftur og aftur. Þú mátt létta á þér eftir slæman dag en ef þú ætlar bara endalaust að væla yfir sömu hlutunum og ekki gera neitt í þeim skaltu finna einhvern annan. Ef þú kemur til mín með vandamál þá reyni ég að finna lausn. Ég var marg búin að stoppa gömlu af með því að segja henni að tala við tannsa (þennan 72 ára) eða finna sérfræðing. En núna var ég búin að finna tannlækni sem mér leist vel á svo ég bara pantaði tíma fyrir gömlu. Það auðvitað hafði í för með sér að ég varð að fara með gömlu líka. Það var reyndar eins gott því gamla var ekki bara að kalla úlfur, úlfur. Ég fór svo með gömlu í annað sinn í dag. Ég hélt að það myndi bara taka svona klukkutíma. Það var nefnilega ýmislegt sem ég ætlaði að koma í verk í dag. Þetta tók auðvitað næstum tvo. Meðan ég sat á biðstofunni heyrði ég gömlu tala heilmikið við tannsa. Ég var einmitt að spá í það þegar ég var hjá honum að mér fyndist alveg hræðilega óþægilegt að geta ekki tjáð mig. Ég tala rosalega mikið. Mér finnst alveg hræðilegt að getað ekki talað. En þetta er útidúr.

Loksins þegar ég komst upp í hesthús þá var ég alveg búin að slá það út af borðinu að fara að járna. Ég ætlaði hins vegar að reyna að sniffa dálítið meira, (bæsa og lakka), þannig að plöturnar yrðu til áður en smiðurinn kemur á morgun.
Smá útskýring: Ég lét smíða milligerði sem ég var búin að hanna. Þau voru viljandi hönnuð með það í huga að krossviðarplata sem væri 120cm x 274cm og 21mm breið myndi passa. Þetta skýrði ég skilmerkilega fyrir manninum sem ætlaði að smíða grindina fyrir milligerðin. Svo þegar ég ætlaði að prófa að setja saman eitt milligerði í gær þá kom í ljós að grindin 2cm of lág. Hún er 118cm x 274cm. Það þýðir að það þarf að saga 2cm ofan af fjórum plötum sem eru 274cm langar og 21mm þykkar. Það er helvíti mikið mál með handsög. Svo ég hringdi í smiðinn og spurði hvort hann gæti litið við með hjólsög. Hann ætlar að gera það þessi elska.
En ég komst ekki í þetta í dag og ekki geri ég það á morgun því plöturnar mega ekki vera nýlakkaðar og klístraðar þegar hann kemur til að saga.
Ástæðan fyrir því að ég komst ekki í þetta er enn skemmtilegri. Ég ætlaði bara aðeins að smúla þegar ég var búin að moka. Svo stóð ég í innri stíunni að smúla í rólegheitum þegar ég heyri undarlegt hljóð. Vatnið var byrjað að frussast upp úr niðurfallinu í fremri stíunni. Það var alls ekki nógu sniðugt þar sem ég var nýbúin að setja nýjan og þurran spæni í þá stíu. Ég auðvitað stekk til og skrúfa fyrir vatnið. Næsta skref var svo að losa stífluna. Það tók tvo klukkutíma að reyna og tókst samt eiginlega ekki. Þurfti að ausa vatninu yfir ganginn og í annað niðurfall. Þá var ég búin að vera með hendurnar í köldu skítadrullugu vatni með slöngu og orðin rennandi blaut í fæturna líka. Það er skemmst frá því að segja að ég kom engu öðru í verk.

Ég pantaði pizzu á heimleiðinni. Ég átti það skilið.

|

What a wonderful world we live in
Er að reyna að bæta mbl.is aftur inn á netrúntinn minn. Var mjög ósátt við nýja útlitið sem fól í sér allt of mikla hreyfingu fyrir mig. Þarf að vera vel stemd til að þola breytingar og allt sem felur í sér mikla hreyfingu og læti legst bara almennt illa í mig.
Oh well. Ég fór inn á mbl.is núna áðan en hefði betur sleppt því.

Það féll enn einn dómur í kynferðisbrotamálið á Íslandi. Það var maður dæmdur í þriggja mánaða fangelsi en dómurinn skilorðsbundinn til tveggja ára. Það þótti einkar svívirðilegt að maðurinn hafi notað sér fjölskyldutengls við systurdóttur sína. Og í hverju sínu við svívirðu okkar? Jú, við skilorðsbindum dóminn.
Það var einhver maður sem ég heyrði í, í útvarpinu sem sagði að hann væri farinn að halda að það væri einhver vírus í tölvukerfi dómstólanna sem svona sjálfkrafa gerði alla dóma skilorðsbundna. Ég held að ég sé sammála honum.
Ég heyrði líka á Bylgjunni var verið að tala við saksóknara. Það útskýrir margt. Hef bara sjaldan heyrt í öðru eins fífli. Hef þetta er maðurinn sem á að halda uppi rétti fórnarlambanna þá er ekki skrítið að allt sé að fara til helvítis.

Síðan var það fréttin um nítján ára stúlkuna í Íran. Það er búið að dæma hana til dauða fyrir ósiðsamlega hegðun. En fyrst á að hýða hana. Hún er svo sem vön því. Hún var hýdd þegar hún var níu ára og nýbúin að eiga sitt fyrsta barn og svo aftur fjórtán ára eftir að hún eignaðist tvíbura. Hún var reyndar neydd út í vændi þegar hún var átta ára og búin að ganga manna á milli síðan með tilheyrandi nauðgunum og svívirðingum. En hún er auðvitað búin að haga sér ósiðsamlega og á skilið að deyja. Það er spurning hvort það væri ekki blessun fyrir stúlkuna. Hver vill lifa undir þessum kringumstæðum? Vona í það minnsta að ef bresku mannréttindasamtökunum tekst að bjarga lífi hennar að þau komi henni frá þessu skíta landi líka.

Mig langar bara að fara og láta heilaga reiði mína bitna á þessu liði prívat og persónulega. Hell has no fury like...

Á öðrum en tengdum nótum.
Konur í Hollandi vilja efnismeiri undirfatnað en þær fá gefins frá karlmönnum. Big surprice.
Hver fann upp sjálfskeinara og hvaða konum datt í hug að fara að kaupa þetta til að viðhalda framleiðslu?

|

Monday, December 13, 2004

Á á á á...
Var voða kalt í gærkveldi svo ég skreið upp í rúm undir sæng, svona aðeins til að hlýja mér. Kveikti á litla ca. 20 ára gamla imbanum sem ég ákvað að tengja inn í svefnherbergi nú á haustmánuðum. Voða notalegt á köldum kvöldum. Ætlaði sko að sjá SVU, mér finnst Munch brilliant karakter. Það fór eitthvað fyrir ofan garð og neðan. Man heldur ekki hvernig eða hvenær ég slökkti á kassanum.
Ég vaknaði svo í morgun með svona svaf of mikið en samt enn þreytt hausverk. Hann ætlar að vera þrálátur helvítið á honum. Var alveg viss um að ferskt loft og matur myndi bjarga þessu. Það hefur ekki gert það enn og ég verð víst að komast í apótek. Það voru auðvitað allar verkjatöflur búnar eftir tannviðgerðaprógramið.
Hoho hafði það samt gott, bara að döö úr hungri eins og alltaf.

|

Sunday, December 12, 2004

Thank god...
...að þessi helgi er að verða búin.
Ég er búin að fara tvisvar í Leirársveitina, einu sinni út í Garð á Reykjarnesi, tvisvar á Kjalarnesið og tvisvar undir Úlfarsfellið. Í öllum tilfellum var verið að keyra hross fram og til baka. Er búin að opna og loka þessum níðþunga hlera á kerrunni oftar en ég kæri mig um að muna. Búin að fljúga á hausinn í hálkunni (eða næstum því, hékk í bílhurðinni). Eitt folaldið sem ég var að keyra ákvað að fleygja sér yfir þilið í kerrunni og endaði á bakinu ofan á varadekkinu. Var sem betur fer ekki komin út á flugvallarleiðina þegar við föttuðum þetta. Það nógu gaman samt að draga folaldið út á bakinu í vegkantinum.
Var algjörlega á síðasta snúning að mæta í jólaboðið hjá saumaklúbbnum í gærkvöldi og úðaði á mig ilmvatni til að fela hrossalykt. Persónulega hefði ég valið hrossalyktina, er ekki hrifin af ilmvatnssulli. Það var hræðilega léleg mæting sem ég skil ekki því ég skemmti mér konunglega í fyrra. Auk þess sem mér fundust afsakarnirnar frekar lame. Maturinn var reyndar frábær og ég skemmti mér vel fram eftir kveldi. Loka hnykkurinn var því miður ekki alveg að mínu skapi, ég skil stundum ekki þankaganginn hjá fólki. (En það var varðandi málefni sem er efni í aðra færslu.)
Í morgun (sunnudag) skreið ég fram úr með erfiðis munum að ganga tíu. Samt fór ég heim úr jólaboðinu klukkan hálf-eitt enda búin að vera geispandi allan tímann. En það var ekki um annað að ræða, fyrstu hrossin eru komin í hús og þau vilja sína morgungjöf hvort sem það er sunnudagur eða ekki. Ég var svo bara áfram upp í hesthúsi. Þurfti að tína eitthvað upp. Þetta er á þessu stigi að þetta er svona við það að fara að smella en það er allt út um allt. Svo fékk nú heimsókn og smá up date á því hvað er að gerast í heiminum. Það þurfti líka að moka þó nokkrar hjólbörur að hrossaskít. Ykkur til upplýsinga þá skíta hross alveg extra mikið fyrstu dagana eftir að þau koma í hús og fyrstu vikuna eru þau yfirleitt með drullu út af fóðurbreytingum. Loks kom svo smiðurinn aðeins til að taka til hendinni en aðallega til að leyfa dætrum sínum (það var pabbahelgi) að sjá hestana. Ég var búin að segja að þær mættu koma þegar hestarnir væru komnir. En það endaði eiginlega með því að allur seinni-hluti dagsins hjá mér fór í það að hafa ofan af fyrir börnunum. Það var svo sem allt í lagi.
En nú er ég orðin svo þreytt að ég bíð eftir að detta í rúmið og deyja drottni mínum. Þar til í fyrramálið, þegar ég þarf að fara aftur að gefa hrossunum.

|

Monday, December 06, 2004

Heilabráðnun
Var að bíða eftir smiðnum í dag. Það var búið að setja mér fyrir verkefni sem ég átti helst að klára áður en hann kæmi. Ég átti bæsa og lakka plöturnar á veggnum. Ég náði að klára það en núna líður mér eins og heilinn í mér sé að bráðna og fari bráðum að leka út um nefið á mér. Það er óneitanlega sterk lykt af sprittbæsinu og bátalakkinu. Er ekki viss hvort það sé bara eiturgufurnar eða hvort flensuslæðingurinn sé að spila inn í.
Smiðurinn kom reyndar ekki. Þurfti að vera lengur í föstu vinnunni sinni. Svo sem ágætt, ég get þá verið stonde heima.

|

Sunday, December 05, 2004

Digital DRASL!!!
Held að þetta sé mesta klúður stöðvar 2 frá upphafi. Ef þetta er framtíðin erum við í djúpum skít.
Múttan er M12 áskrifandi. Af þeim sökum var sendur maður með afruglarann til gömlu og hann tengdur fyrir hana. Þetta gekk allt voða vel...fyrst til að byrja með.
Síðan fór allt til helvítis og ekkert virkaði. Gamla reyndi ítrekað að hringja til að fá aðstoð en ekkert gekk. Ég gerði heiðarlega tilraun til að skoða apparatið en það eina sem var að sjá var eitthvað voðalega fínt smartcard. Ég reif út kortið og mér til mikillar furðu þá snéri hliðin upp sem var greinilega merkt "Þessi hlið niður". Ég snéri kortinu við en það dugði ekki til.
Þegar hér var komið var greinilega um það eitt að ræða, að mæta bara á svæðið. Það kom ekki á óvart að fleira fólk hafði brugðið á það ráð að mæta bara á svæðið. Eftir pínu bið og svo stutt samtal við þjónustufulltrúa rölti ég svo út með nýtt smartcard. By the way, ástæðan fyrir því að allt virkaði svona fínt fyrst til að byrja með var sú að þeir voru ekki byrjaðir að trufla útsendinguna. Þegar heim var komið smellti ég nýja smartcardinu í, með hliðina sem á stóð "Þessi hlið niður" niður. Nú virkaði dæmið.
Það var skammgóður vermir. Á föstudeginum fór allt í hakkabuff aftur. Það náðist ekki í stöð 2 fyrir en á laugardeginum, ég nennti ekki fyrir mitt litla líf að fá mér annan bíltúr. Þá var afruglaranum sent nýtt merki og hrökk hann þá inn. Hann hangir inni enn þá. En það er líka bara sunnudagskvöld.
Þetta er nú ljóta draslið. Digital my ass.

|

Thursday, December 02, 2004

Bjartari tíð með bló...eee...frostrósir á gluggum
Jæja, þá er ég að klöngrast upp úr þessum öldudal og vona að það verði lygnari sær fram undan.
Litli fingur er gróinn, þótt ég fái reyndar fáránlega stórt ör miðað við upphaflega skurðinn. En það er ekkert nýtt. Ég græ alveg ótrúlega illa og er með skaðræðisör eftir minnstu sár. Oh well. Ég get ekki verið fullkomin, þótt ég sé vissulega nálægt því, hehe.
Var í síðasta tímanum hjá tannsa í dag, í bili. Það er búið að rótfylla og ganga frá öllum tengdu þeirri tönn. Finn ekki til og meira að segja búin með pencilínið, maganum á mér til ómældrar ánægju. Hins vegar þar sem fyrrverandi tannlæknirinn minn, ég hef ákveðið að skipta, er kominn á áttræðis aldur þá lét ég þennan nýja yfirfara tanngarðinn. Ég er með eina greinilega holu í næstu tönn og tvær litlar niðri hinum megin. Eru á móti hvor annari, svona eiginlega á milli tanna (ef það væri nú hægt), ef þið skiljið hvað ég á við. Svo ég þarf að fara aftur eftir helgi að láta laga það en þá á ég nú að vera í góðum málum.
Hesthúsið mjakast áfram. Nú er ég loksins farin að sjá einhvern árangur á allri þessari vinnu. Krossviðarplöturnar eru komnar á vegginn að stórum hluta. Um helgina á svo að fara að klessa upp hvítu álklæðningunni á efri hlutan. Bíð spennt eftir að sjá draumsýnina rætast. Smiðurinn er yndislegur. Mér er alveg sama þótt ég sé að borga honum. Hann er algjörlega búinn að bjarga helvítis kofanum og vetrinum. Sá fyrir mér að sitja uppi með ónothæfan, fokheldan hjall sem ég myndi þurfa að selja með tapi. Fyrir utan það að vera með slatta af hestum sem vantaði húsnæði í vetur. Hann ætlar meira að segja að fá lánaða einhverja græju til að gata vaskinn til að ég hægt sé að tengja hann. Ef það er ekki above and beyond the call of duty. Mér finnst maðurinn bara æðislegur. Allt sem ég nefni er hægt og vel það. Hann nennir að útskýra allt sem ég spyr um og kenna mér hitt og þetta. I'm in love.

|