Thursday, April 28, 2005

Blaðran sem sprakk
Það er ég.
Hélt nú heldur betur að pistlarnir myndu flæða þegar ég væri komin með tölvuna aftur. En nei. Það var stungið á blöðruna og allt loftið lak út. Þrýstingurinn farinn.

Ég er hins vegar búin að vera með eitthvað hreingerningar æði. Þið lásuð rétt. Er að taka litlar skorpur hér og þar. Aðallega í eldhúsinu. Ég er nebbla búin að taka að mér matreiðslu fyrir hluta af þeim sem eru í megrunarátakinu. Já, mikið rétt. Ég á hluta af þessum kílóum sem tvibbinn er búinn að setja upp skema fyrir á sinni síðu. Það er alveg ómögulegt að komast ekki að í eldhúsinu. Ég er, by the way, bara ágætis kokkur. Það borgar sig að taka pínu sénsa. Auðvitað getur það klúðrast en oftar en ekki heppnast það mjög vel.

|

Monday, April 25, 2005

DV
Í einsemd minni í hesthúsinu þá hef ég tekið upp á því að kaupa DV. Ekki spyrja afhverju, ég get ekki svarað því. Af öllum þeim sorpritum sem eru til boða þá kaupi ég þetta.

Þetta er auðvitað afspyrnu lélegur snepill en það eru einstaka punktar sem eru skemmtilegir. Being the positive optimist I am þá ætla ég að tala um lélega hlutan.

Einhver hjá þessum sneppli hefur alveg ótrúlegan áhuga á mæðrum og öllu sem tengist legi kvenna. Það er búið að draga upp ótrúlegustu hópa mæðra til að fjalla um. Svona by the way, þá held ég að upphaflega eintalan af mæðrum hafi verið mæða en breyst í tímanna rás.
Nú síðast voru það seinfærar mæður. Þær verða víst fyrir miklum fordómum. Mínir einu fordómar sem hægt er tengja við þennan hóp kvenna eru fordómar gagnvart mönnum sem misnota konur sem eru seinfærar, og því miður er slatti af þeim.
Ég hef ekki svona mikinn áhuga á því sem gerist legi kvenna og þó hef ég eitt sjálf.

Það er búið að draga upp alls konar drullu dela og vitleysingja til að fjalla um á blöðum þessa blaðs. Nú síðustu daga hefur þeim tekist að finna rugludalla sem ég kannaðist við einhverntímann á lífsleiðinni, Dóra Dungal og Gúmbó.
Ég kannaðist aðeins lítillega við Dóra en Gúmbó man ég betur eftir. Guðmundur / Gummi feiti / Gúmbó hafði á sínum tíma verið greindur and-félagslegur. Hann hafði alveg óheyrilega þekkingu á efnafræði eiturlyfja (guð hjálpi mér hvað það var leiðinlegt). Hann lét þó fleyg orð falla á sínum tíma sem ég hef oft haft eftir. Gummi feiti var eins og viðurnefnið gefur til kynna töluvert betri í holdum en flestir dópistar. Enda sagði hann eitt sinn þegar hann og vinur hans voru að nota amfetamín að "Hann er sko dópisti, ég er bara í megrun."

|

YEEEESSSS!!! The bitch is back
Eins og tvibbinn var búinn að segja ykkur þá var ekkert að elsku tölvunni heldur var router-inn ónýtur. En ég er fyrir vikið búin að vera tölvulaus í meira en mánuð!!! Fyrir vikið er ég orðin illa haldin af blogg-fráhvörfum. Það er mikið sem ég þarf að bitch about.

Ég ætla samt að byrja á að segja ykkur hvað mér tókst að gera um helgina. Þar sem ég er svo ógurlega semitrísk, eins og Egill Ólafsson orðaði það, þá verða auðvitað báðar hliðar á mér að vera eins. Til að ná þessu markmiði þá "ákvað" ég að slíta liðband í hægri löppinni á mér eins og ég gerði á þeirri vinstri fyrir tæpum fimm mánuðum. Það passaði vel, ég var ný hætt að nota teygjuspelkuna á þeim vinstri, svo nú get ég nýtt hana á þá hægri þegar mesta bólgan er farin.

Sú staðreynd að foreldrar virðast ekki bera neina ábyrgð á börnum sínum fer alveg ógurlega í taugarnar á mér.
Tvö nýleg dæmi, annað innlent hitt erlent.
Nokkrar mæður hér á landi fóru með börnin sín í fjöruferð. Tvö börn enduðu út í sjó og drukknaði annað en ein móðirin náði að lífga það við. Þetta þótti ógurleg frétt, það að konan hafi kunnað fyrstu hjálp og bjargað barninu. Er það bara mér sem finnst eitthvað athugavert við þessa frétt? Finnst engum athugavert að þessar mæður gátu ekki passað börnin sín betur en það að tvö þeirra, tveggja og þriggja ára, enduðu út í sjó og annað þeirra drukknaði? Ef ég hefði sýnt annað eins gáleysi og látið barnið mitt drukkna, þótt ég hefði náð að bjarga því, þá hefði ég ekki sagt nokkrum manni frá því.
Hitt dæmið var í Bandaríkjunum. Fimm ára barn var svo brjálað í leikskólanum að þegar móðirinn gat ekki komið og náð í barnið ákváðu skólayfirvöld að hringja í lögregluna. Lögreglan greip til þess ráð að handjárna barnið og keyra það heim. Nú ætlar móðirin að kæra lögregluna. Finnst engum athugavert að barnið, fimm ára, var svo illa upp alið að það þurfti að kalla til lögregluna? Ég skil vel að skólayfirvöld vildu ekki yfirbuga barnið, þótt þau hefðu líklega getað það, móðirin hefði þá kært þau. Ég held að þessi kona ætti bara að skammast sín fyrir að geta ekki alið barnið upp og þakka lögreglunni fyrir aðstoðina.

Smiðurinn er víst búinn að ná sér í kerlingu. Það útskýrir hvers vegna hann hefur ekki látið sjá sig í margar vikur, þrátt fyrir að eiga eftir nokkur verk. Það skiptir víst ekki máli hvort það eru vinir, vandamenn eða iðnaðarmenn, um leið og þetta fær að ríða reglulega lætur það ekki sjá sig. Ég er ekkert sár.

Fundust auglýsingarnar frá umferðastofu nokkuð fyndnar fyrst til að byrja með. Síðan áttaði ég mig á því að fólkið er að blóta mestu fíflunum í umferðinni. Fólkinu sem veldur slysunum. Fólkinu sem kann ekki umferðarreglurnar og fylgist ekki með skiltum, ljósum eða hvað þá öðrum bílum. Algjörlega eitt í heiminum. Hvernig væri að segja þessu fólki að vakna.
Fyrir nokkrum árum voru auglýsingar þar sem var verið að kenna fólki nokkrar grundvallar umferðarreglur. Óska hér með eftir að það verði gerðar auglýsingar þar sem fólki er kennt að keyra hringtorg. Það er búið að drita niður hringtorgum um allar trissur og meirihluti bílstjóra virðist ekki vita hvaða reglur gilda á hringtorgum.

Ætla að láta þetta duga í bili. Það er svo mikið sem ég þarf að tuða um að það er allt farið að snúast í hausnum á mér. Verð að reyna að greiða aðeins úr flækjunum áður en lengra er haldið.

|

Wednesday, April 13, 2005

Alveg hætt að lítast á þetta
Núna á föstudaginn eru komnar tvær vikur síðan ég fór með tölvuna mína í viðgerð. Ég reyndi í gær að hringja í fyrirtækið sem er með tölvuna og fá að tala við viðgerðarmanninn. Hann var upptekinn og ég ákvað hringja seinna sem ég auðvitað gleymdi. Mér líst ekkert á þetta. Ef tölvan kemst á annað borð í lag hef ég líklega ekki efni á viðgerðinni.
Þetta gæti farið að koma niður á bloggfærslum mínum til frambúðar. Það eru takmörk fyrir hvað vinir og vandamenn leyfa manni mikið að liggja á netinu þegar maður kemur í heimsókn.

|