Jæja, ég verð bara hafa svona vikulega pistla. Ekki að það sé að sjá að neinn hafi saknað mín.
Það sem ber kannski hæst þessa vikuna (ég á svo spennandi líf) er líklega frammistaða okkar í Eurovision. Hún var nú ekki glæsileg. Ekki það að við höfum átt mikla möguleika, vorum ekki með trommur. Fannst söngurinn alls ekki nógu kraftmikill, skilst nú reyndar að liðið hafi eitthvað verið að kvarta yfir tækniörðuleikum. En aðrar þjóðir skiluðu kraftmikilli frammistöðu. Búningarnir voru hörmung. Svona sumarútgáfa af jólasveinabúningi. Mér er alveg sama þótt það hefði ekki skilað okkur lengra, þeir voru ljótir.
Ég fór á nett eyðslufyllerí í dag. Það voru þvílík opnunartilboð í gangi í Húsasmiðjunni í Grafarvogi. Ég straujaði þangað rétt fyrir hádegi, áður en barnaskemmtanirnar byrjuðu. Gerði þvílíkt góð kaup. Fyrir rúmar þrettánþúsund krónur fékk ég: hjólsög, bútsög, stingsög og höggborvél. Og hvað ætla ég að gera við þessi ósköp gætuð þið spurt. Oh, well. Ég ætla að breyta í hlöðunni svo hjólsögin kemur að góðum notum. Bútsögina ætla ég að nota þegar ég fer að parketleggja heima hjá mér. Já, mikið rétt. Ég er orðin illa þreytt á að bíða eftir þessum blessaða smið. Svo þegar ég er búin að fá sýnikennslu í parketlögn, þess vegna er ég enn að bíða, þá ætla ég að gera þetta sjálf. Þótt ég hafi sjálf lagt parketið á kaffistofunni þá er ég ekki alveg sátt við hvað mér fannst þetta smelluparket mikið vesen. Vil fá það á hreint hvort þetta hafi verið rétt gert hjá mér eða hvort það sé eitthvað trix sem mér yfirsást. Stingsögina getur verið gott að grípa til enda kostaði hún svo til ekkert og höggborvél get ég töluvert notað. Get þá hætt að hanga a gömlu litlu vélinni sem ég hef notast við hingað til.
Ég er búin að bera á. Þvílíkt öflug. Keypti 160 kíló af áburði og skveraði þessu af á tveimur og hálfum tíma. Bara smá hluti sem ég á eftir en það verður ekki beitt strax svo það er í góðu. Fór frekar í Húsasmiðjuna að kaupa verkfæri en að kaupa girðingarstaura. Geri það í vikunni. Þá get ég farið að hólfa beitina niður.
Þetta er gott í bili. Ég ætla að fara að fylgjast með hver vinnur Eurovision.