Tuesday, November 29, 2005

Trú
Þetta er fyrirbæri sem ég velti ekki mikið fyrir mér dags daglega. Ég er trúleysingi og hamingusamur sem slíkur. Ég er ekki að boða trúleysi. Þetta er eitthvað sem hver og einn verður að ákveða fyrir sig. En "tvibbinn" startaði umræðu hjá sér um fermingar, jólahald og trúnna. Það eru ansi margir búnir að tjá sig og ég verð reiðari við hvert komment. Hreint út sagt eru það þykjustu trúleysingjarnir sem fara meira í taugarnar á mér en þessir trúuðu. Þessir trúuðu standa þó við sína sannfæringu, það er hægt að virða það.
Kirkjur eru hús. Bænir eru orð. Hafið þið aldrei logið neinu? Eða logið innandyra? Þið þurfið ekki að svara þessu, ég veit svarið. Þið hafið öll gert það. Að hverjum er sárast að ljúga? Þeim sem standa okkur næst. Ókunngum er alveg sama og okkur er sama um þá. Það særir hvorki þá né okkur að ómerkilegar lygar um einskisverða hluti fari okkar á milli. Við gerum það á hverjum degi. Hins vegar verður þetta allt í einu stórmál þegar lygin er bæn og húsið er kirkja. Þarna er fullt af ókunnugum sem skipta litlu máli og þeir nánustu vita sannleikan. Hvers vegna er þetta allt í einu siðferðilega rangt? Hlutur sem við gerum á hverjum einasta degi í mannlegum samskiptum?
Það kemur engum öðrum við hvers vegna þú fermist eða heldur jól. Þú þarft ekki að úskýra eða réttlæta eitt eða neitt. Þetta er þitt persónulega mál.
Rökin falla um sjálf sig. Ef þú ert trúaður þá er nú ekki stórmál þótt þú mætir í kirkju og játir það. Ef þú ert EKKI trúaður þá er það heldur ekki stórmál þótt þú mætir í kirkju og ferð með orð sem játa trú. Það er ekki hægt að ljúga að guði sem er ekki til.
Til þeirra trúuðu. Umburðarlyndi er dygð. Prófið það.
Til ykkar þykjustu trúleysingjana. Takið ákvörðun og standið með henni.
Til trúleysingja. Stay strong. Látið ekki aðra stjórna ykkur í þessum málum.

|

Monday, November 28, 2005

Life sucks
Ef það hefur farið framhjá einhverjum sem les þessa síðu, þá er Jósefína með krabbamein. Nú í haust byrjaði æxli á kviðnum að stækka hratt. Það kom fljótlega sár á það. Það hefur hingað til verið eins og skinskafningur sem hefur í mesta lagi vessað úr. Á sunnudaginn, í gær, hafði hún verið að sleikja þetta, eins og hún hefur verið að gera. En þetta sinn fór að blæða, mjög mikið. Hún var á fletinu sínu út á svölum, þar sem hún hefur viljað liggja mikið síðustu mánuði. Þar var blóðpollur. Það var blóðslóð alls staðar sem hún fór, sem var nú ekki víða því við tókum fljótt eftir þessu. Ég stökk til með pappír og sótthreinsandi. Náði að stoppa blæðinguna. En hún getur ekki misst svona mikið blóð oft án þess að það hái henni. Það er því komið að því óumflýjanlega. Ég verð að láta svæfa hana.
Ég ætlaði að fara í dag að tala við dýralækni sem ég ætla að láta koma heim. Mamma benti mér á að við eigum að hafa umsjón með litlu frænkunum þessa viku svo þetta væri ekki góður tími. Ég ætla því að bíða fram í næstu viku. Vona að það blæði ekki mikið á þessum tíma. Ég fór í dag og gerði gröfina klára sem ég var búin að taka. Mér er grátur efst í huga.
Eins og þetta sé ekki nógu slæmt þá er Kolfinna týnd. Kolfinna er yngsti meðlimur kattafjölskyldunar. Hún er tveggja ára og kom hingað upphaflega í pössun. Hún hefur ekki sést síðan á föstudag. Það stefnir því í að það verði helmingi færri kettir á heimilinu um jólin. Mig langar bara að liggja fyrir framan sjónvarpið og eta óhollustu.
Svona til að létta mér stundir þá ákvað ég að athuga hvað ætti að selja skjótt/litförótt merfolald á. Mig vantar nebbla fleiri hross. Á bara tíu og þar af fjögur undir tamningaraldri. Fékk svar í dag. Hæðsta tilboð í folaldið er 600.000kr!!! Er ekki í lagi með fólk? Ég seldi fulltaminn keppnishest á 500þús. Trúi ekki að folaldið fari á þessu verði. En það er ekki minn höfuðverkur. Ef eitthvað fífl vill borga svona mikið fyrir ættlaust folald, þá það um það.

|

Friday, November 25, 2005

1000. fanginn sem tekinn verður af lífi
Þessu merku tímamót standa nú fyrir dyrum í Bandaríkjunum. Mér finnst það sorglegt. Ég en nefnilega bæði hlynt dauðarefsingum og á móti þeim. Hvernig er það hægt? Jú, ég ætla að segja ykkur það.
Ég tel að þegar einhver hefur svipt aðra manneskju lífi af yfirlögðu ráði, og/eða á hrottafengin hátt, þá eigi viðkomandi skilið að vera tekinn af lífi. Ég tel að þessi síðustu augnablik, meðan að viðkomandi bíður eftir að vera tekinn af lífi, sé eina réttláta refsingin. Að láta morðingjan upplifa skelfinguna sem fórnarlambið upplifði. Að vita að þú ert að fara að deyja. Þetta er auðvitað hefnd og ég reyni ekki einu sinni að fela það. Morðinginn á þetta skilið. Þótt ég telji mig siðmenntaða, þá tel ég að fólk sem hefur sagt sig úr lögum við samfélagið með því að brjóta lög þess, eigi skilið að vera refsað á sama hátt.
En hvers vegna er ég þá á móti dauðrefsingum?
Hvenær er morð af yfirlögðu ráði? Það virðist vera töluvert á reiki. Ég myndi telja að það þýddi að einhver hefði ákveðið og skipulagt að myrða einhvern. En málið er ekki svo einfalt.
Það virðist ekki skipta máli hvort einn eða fleiri hafi verið myrtir. Hver sem drepur fleiri en einn mann ætti að vera tekinn af lífi, en þannig er það ekki.
Það hefur mikil áhrif hvernig verjanda þú hefur efni á. Fátækir eru mun oftar dæmdir til dauða en ríkir. Svartir mun oftar en hvítir. Hvernig er hægt að treysta kerfi sem starfar svona?
Þá hefur það komið fyrir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að menn hafi verið ranglega dæmdir. Það hefur sem betur fer þó nokkrum sinnum verið hægt að sýkna menn áður en aftakan fer fram. En hvað er þá búið að taka marga saklausa af lífi? Nú myndu kannski margir segja að betra sé að taka einn saklausan af lífi en að láta níu seka sleppa. En vildir þú vera þessi eini? Ég myndi ekki vilja það. Ef menn eru í ævilöngu fangelsi er enn séns að leiðrétta þessi mistök.
Það er dýrara að dæma mann til dauða en í ævilangt fangelsi. Þegar er búið að dæma mann til dauða þá getur hann áfrýjað endalaust. Allt þetta málavafstur er dýrara en að láta mann sitja ævilangt í fangelsi.
Rannsóknir hafa sýnt að aðstandendur fara hraðar í gegnum sorgarferlið ef morðinginn er dæmdur í ævilangt fangelsi. Hvers vegna? Jú, þegar maður er dæmdur í ævilangt fangelsi hefst refsingin strax að loknum dómi. Þegar dómurinn er dauði, líða nokkur ár áður en dómnum er framfylgt. Á meðan eru aðstandendur í biðstöðu og sorgarferlið þar með.
Ofan á allt saman eru þroskaheftir og geðveikir dæmdir miskunarlaust til dauða. Menn sem hefðu ekki verið hættulegir neinum ef þeir hefðu fengið rétta læknishjálp og umönnun. En því er ekki að heilsa í heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna.
Í hnotskurn er þetta mistækt kerfi sem kostar helling og hjálpar ekki einu sinni eftirlifendum. Þar af leiðandi mun ég stilla mér upp með þeim sem eru á móti dauðrefsingum þrátt fyrir að telja að dauðrefsing sé oft á tíðum viðeigandi dómur.

|

odin
You're Odin! The Allfather, the wise. You gave up
your eye in the pursuit of wisdom and hung for
days from the world tree to attain even more.
You feel that if you can just gain all the
wisdom in the world you will be able to prevent
Ragnarok.


Which Norse God are You?
brought to you by Quizilla

|

Wednesday, November 23, 2005

Það er ekkert að gerast. Hvorki í kringum mig né í hausnum á mér.
Það á að halda árlegt jólaboð saumaklúbbsins um helgina. Mér hefur tekist, einu sinni enn, að gera nákvæmlega ekki neitt fyrir boðið. Ég tók reyndar að mér að fara að versla með tveimur öðrum. Þær búa hins vegar í Kópavogi og Garðabæ og ætluðu að versla í Bónus í Hafnafirði. Voru svo indælar að hringja og segja að þetta væri náttla langt úr leið fyrir mig og þær gætu alveg gert þetta tvær og skildu alveg ef ég nennti ekki að koma. Ég var ekki lengi að segja takk fyrir og ég kem þá ekki. Svo á að mæta klukkan svona tvö og hjálpast að við að undirbúa kvöldið. Ég er búin að taka inn hross og þarf að gefa kvöldgjöf svo ég mæti ekki fyrr en eftir sex.
Talandi um hesta. Ég er búin að taka inn tvö hross, hest og hryssu. Hesturinn er með stöðubjúg. Það lýsir sér þannig að skaufhúsið er bólgið og kalt og bjúgurinn nær aðeins fram eftir kvið. Klárinn er ekki sáttur við að komið sé mikið við þetta. Hlakka mikið til að setja hnakk á klárinn og fara að temja. Hann er nebbla ekki fulltaminn. Þar að auki er hann ekki járnaður því járningamaðurinn fékk ælupest, sé hann eftir viku. Svo ég er að fara með hann, ójárnaðan, út í hringgerði og láta hann skokka. Eina lækningin við þessu.
Parketið sem á að fara á stofuna kemur til landsins 1. des. Ég er að drepast úr ofnæmi. Tek tvær töflur á dag og er samt stífluð í nefinu á morgnana. Auk þess sem ég er þrútin í kringum augun fyrsta klukkutímann eftir að ég vakna. Bara aldrei lent í öðru eins.

|

Saturday, November 19, 2005

Sloppin og gripin
Þá er 18. nóvember liðinn án þess að krabbameinsfélagið hafi haft samband við mig. Ég tek því þannig að ég sé ekki með frumbreytingar í leghálsi sem er undanfari leghálskrabbameins. Það er töluverður léttir. Ég ætla hér með aldrei aftur að koma nálægt karlmanni.
Ég var hins vegar gripin fyrir of hraðan akstur í fyrsta sinn í tíu ár. Fór á laugardaginn fyrir viku í Leirársveitina að kíkja á ræktunina. Tók mömmu með mér í bíltúrinn. Á heimleiðinni í gegnum Hvalfjarðargöngin voru við mæðgur eitthvað voða mikið að spjalla saman þegur allt í einu er flassað framan í okkur. Ég trúði ekki mínum eigin augum. Hef fyrir löngu síðan misst tölu á ferðum mínum í gegnum þessi blessuðu göng. Veit vel að alltaf er hraðamyndvél einhversstaðar í göngunum. Eins og það sé ekki nóg er mjög erfitt að koma litla burra upp fyrir sjötíu í göngunum, alla vega á upp leið. En þarna hafði mér greinilega tekist það og það á upp leið. Ég fékk því rukkun senda heim í gær. Hafði mælst á 84km/kl, með frávik upp á 3km/kl sem gerir 81km/kl. Ég var sem sagt tekin á 81!!! Og fyrir það fæ ég segt upp á 5000kr sem lækkar í 3750kr ef ég borga strax. Fæ víst engan punkt fyrir þennan ofsa akstur. Ætla bara að borga sem fyrst og fara aldrei upp fyrir 70km/kl í göngunum framar.

|

Thursday, November 17, 2005

Eftir eins tíma sundferð hefur þú komist í snertingu við hálfan lítra af þvagi.
Á meðaldegi kemst þú í óbeina snertingu við 15 tippi, t.d. við að taka í hurðarhúna.
Árleg neysla meðalmanneskju á skyndibitamat inniheldur 12 skaphár
Á einu ári gleypir þú 14 skordýr í svefni.
Á einu ári heilsar þú með handabandi 11 konum sem hafa nýlega fróað sér og gleymt að þvo sér um hendurnar.
Á einu ári heilsar þú með handabandi 6 körlum sem hafa nýlega fróað sér og gleymt að þvo sér um hendurnar.
Flestir karlmenn þvo alls ekkert á sér hendurnar eftir að hafa verið á klósettinu. Veltu því fyrir þér næst þegar þú ert á barnum og færð þér hnetur úr skálinni á barborðinu.
Í meðalbrúðkaupi hefur þú hundrað möguleika á að smitast af frunsu frá einum gestanna.
Þú andar daglega að þér hálfum lítra af endaþarmsgasi frá öðrum.
Tannlæknar telja að tannburstar verði að vera í a.m.k. tveggja metra fjarlægð frá klósettskálinni til að sýklar í loftinu frá skálinni festist ekki á burstunum.
Þú eyðir sex mánuðum lífs þíns á klósettinu.
Ef þú nagar neglurnar innbyrðirðu meira magn sýkla en ef þú sleiktir hreina klósettskál.

Þessar skemmtulegu upplýsingar voru birtar á heimasíðu saumklúbbsins. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég sé þennan lista og ég hef ýmislegt við hann að athuga.
Þvag er sterilt. Það er t.d. notað sem fyrsta hjálp ef einhver brennir sig á marglyttu. Námuverkamenn sem hafa lokast inni í námum hafa haldið lífi við það að drekka sitt eigið þvag þar til hjálp barst. Mér finnst bara ekkert hræðilegt að synda í smá þvagi. Ég fer líka í sturtu á eftir.
Hvað er svona hræðilegt við að komast í snertingu við typpi? Ég hugsa að karlmenn almennt séu með færri bakteríur á typpinu en höndunum, svona í ljósi þess hvað hendurnar komast í snertingu við mun fleira á hverjum degi en typpið.
Ég leyfi mér að efast um þessa staðreynd með skapahárin. En er það í raun eitthvað verra en annað hár? Hugsa að skapahárin séu svipað hrein og önnur hár á líkamanum, svona miðað við það að fólk baði sig annað slagið.
Held nú að ég yrði vör við það að ég gleypti skordýr. En hvaða máli skiptir það nákvæmlega? Skordýr eru mjög próteinrík, þeir sem eru að eyða morðfjár í próteinstykki ættu kannski að athuga það. Veit ekki um að neinn hafi beðið skaða á því að gleypa eins og eina flugu.
Ég kalla það nú gott ef ég næ að heilsa með handarbandi að meðaltali einni manneskju á mánuði. Auðvitað fer það kannski eftir því við hvað fólk starfar en heilsið þið fólki mikið með handarbandi? Þar fyrir utan so what! Held að hér eigi það sama við og með typpi, kynfæri fólks hafi í raun færri bakteríur á sér að staðaldri en hendin sem það notaði til að fróa sér með. Hvers vegna er það eitthvað hræðilegra að einhver hafi klórað sér í klofinu en á bakinu? Þetta eru bara líffæri. Grow up!
Hef aldrei skilið þetta með barhneturnar. Hver borðar hnetur sem standa í skál á borði og allir geta káfað á? Ekki ég. Fyrir utan það að þetta er eitthvað Amerískt fyrirbæri, hef aldrei séð þetta hér á skerinu.
Ég smitaðist af frunsu af fyrrverandi kærasta, svo ég er komin með það. En þar fyrir utan. Ef þið viljið ekki smitast af frunsu, sleppið því þá bara að vera smella kossi á allt þetta lið. Ég heilsa engum með kossi ef ég kemst hjá því.
Meðal manneskjan, bæði konur og karlar, leysa vind fjórtán sinnum á dag. Þú átt líklega meirihlutan af endaþarmsgasinu sem þú andar að þér. Hverjum er líka ekki skítsama?
Tannburstinn minn er EKKI tvo metra frá klósetskálinni. Ég hins vegar dreg stórlega úr sýklum sem koma frá klósetskálinni með mjög einfaldri athöfn. Ég loka klósetinu áður en ég sturta niður og hef klósetið lokað þegar það er ekki í notkun. Kannarnir sanna að það minnkar sýkla í loftinu um meira en helming.
Við eyðum meira en þriðjungi ævinnar í að sofa. Sex mánuðir á klósettinu er nú ekki svo mikið.
Ég naga ekki neglurnar.

|Kaffihúsaspekingströll


Þú ert vanafastur, yfirvegaður innipúki.

Kaffihúsaspekingar eyða minni tíma á kaffihúsum en viðurnefni þeirra gefur til kynna. Þeir drekka ekki einu sinni allir kaffi. Þeir eru ekki einu sinni allir spakir. Af hverju kallast þeir þá kaffihúsaspekingar? Svarið er einfalt. Speki þeirra minnir oft á kaffi latte. Hún er froðukennd. Kaffihúsaspekingurinn nýtur sín best í góðra vina hópi og stundum segir hann eitthvað gáfulegt - þótt það sé ekki nema bara út af því að hann talar svo mikið.


Hvaða tröll ert þú?

|

Geri ekki neitt
Andleysið er að drepa mig. Sit fyrir framan sjónvarpið í óþægilegum stól öll kvöld, og daga þegar ég get. Finn heilasellurnar drepast þegar ég horfi á þrefaldan skammt af sápuóperum fyrir fréttir. Þetta hægfara sjálfsmorð.
Heimilið er í rúst og smiðurinn kemur ekki með gluggakisturnar. Þar af leiðandi er ekki hægt að klára að mála og allt situr fast.
Ég tók mig saman í andlitinu í gær og sótti tvö hross. Það er skömminni skárra að moka skít á daginn en að horfa á sápur. Þetta gengur ekki lengur. Hef bara gott af því að vera úti í kuldanum.

|

Sunday, November 13, 2005

Your Brain is 46.67% Female, 53.33% MaleYour brain is a healthy mix of male and female

You are both sensitive and savvy

Rational and reasonable, you tend to keep level headed

But you also tend to wear your heart on your sleeve


|

Friday, November 11, 2005

Nei, ég er ekki drukknuð í baðinu
Ég sem sagt náði að halda einhverju niðri á sunnudaginn, ekki miklu en samt. Á mánudaginn hélt ég niðri öllu sem ég borðaði, sem var reyndar ekki mikið. Á þriðjudag gat ég borðað nokkuð eðlilega. Var samt ómótt og lagði mig í þrjá klukkutíma um miðjan daginn eins og hina dagana. Á miðvikudag var ég svo komin á fullt, eins og orkan leyfði. Ælupestin er BÚIN.
Hef bara ekki haft tíma til að blogga. Er búin að vera að vera að rífa upp gólfteppi og henda og ýmislegt fleira. Það á að fara að mála hjá múttu um helgina.

|

Sunday, November 06, 2005

Ég á svo bágt
Ég byrjaði að æla á miðvikudagskvöldið og hef ekki hætt síðan. Hef ekki haldið neinu niðri, ekki einu sinni vatnssopa. Held að ég sé að stefna í að þorna upp. Get ekki hætt að hugsa um eitthvað að drekka. Langar að þamba í eitthvað kalt. Kók, djús, vatn, hvað sem er. Langar í appelsínu, eitthvað sem inniheldur vökva. Ef mér fer ekki að skána þá er ég alvarlega að íhuga að drekkja mér í baðinu. Þá ætti ég að fá nóg af vökva.

|

Thursday, November 03, 2005

Kvikmyndagagnrýni
Fyrst ég er búin að liggja heima hvort sem er, og vona innilega að ólgan í maganum á mér skili ekki ristaða brauðinu, ákvað ég að horfa aftur á Batmans Begins.
Ég fór um daginn og keypti nokkrar DVD myndir. Svo var það ekki nóg svo ég fór líka á videóleiguna. Ég hef ekkert að gera, eða nenni ekkert að gera, meðan hestarnir eru í fríi. Ég hef einhvern veginn meiri orku til að koma hlutum í verk ef ég hef mikið að gera en þegar ég hef lítið að gera og á allt í einu að gera eitthvað. Svo ég ákvað að hafa nóg að horfa á meðan ég gerði ekki neitt.
Kingdom of heaven er bara langdregin og leiðinleg. Flokkast ekki sem ævintýramynd þótt hún gerist fyrir löngu síðan. Mæli ekki með henni.
Batman Begins var skárri í seinni sýningu. Nennti að fylgjast betur með henni. Finnst hún samt vera komin frekar langt frá teiknimyndasögu uppruna sínum. Veit ekki hvort mér finnist það slæmt. Voru greinilega að reyna að gera söguna trúverðugri í raunveruleikanum. En veit ekki hvort það sé endilega gott. Veit sem sagt ekkert hvað mér finnst, sem er ólíkt mér. Það er alla vega allt í lagi að glápa á hana en hún er ekkert stórkostleg.
Sin City er mjög trú teiknimyndasögu uppruna sínu. Myndin öll er eins og beint úr blaðinu. Persónur eru mjög ýktar. Verð þó að viðurkenna að ég hafði gaman af karlpersónunum. Kvenpersónurnar falla náttla ekki alveg að hugmyndum mínum um góðar kvenímyndum en það fór samt ekkert í taugarnar á mér meðan ég horfði á myndina. Vara samt viðkvæma við að hún er svona frekar, mjög, blóðug.
Tombstone keypti ég svona til að rifja upp gamlar minningar. Hún kostaði líka innan við þúsund karl. Hún stóð alveg undir væntingum. Ágætis ræma. Mæli alveg með henni.
The woodsman. Veit ekki alveg hvað mér á að finnast. Þeim tókst að láta mig fá sammúð með barnaníðing. Það verður að segjast að það þýðir að Kevin Bacon hefur skilað sínu vel. En ég er ekki alveg sátt við að hafa fengið sammúð með barnaníðing.
Kinsey kom skemmtilega á óvart. Mjög áhugverð umfjöllun um kreddurnar sem voru um kynlíf fyrir alls ekki svo löngu. Hafði heyrt af þessum Kinsey áður. Sá einhverja heimildarmynd fyrir mörgum árum. Þar var reyndar gefið í skyn að þessar niðurstöður væru kannski ekki alveg réttar. Þar var sagt að fólkið sem hann talaði við hefði líklega verið það fólk sem var mjög opinskátt miðað við tímann og þetta hefði kannski ekki verið þverskurður af þjóðinni. En myndin er alveg ágæt enga síður. Ég hafði mjög gaman af henni og meira að segja flissaði á tímum eins og asni.

|

Update
Ég er ekki svona hryllilega mikill aumingi, ég er veik. Um það bil hálftíma eftir að ég postaði færsluna hér á undan var ég komin á hnéin fyrir framan posturlínsguðinn og skilaði öllm kvöldmatnum. Og ég sem var svo dugleg að borða grænmetið mitt.

|

Wednesday, November 02, 2005

Í kjólinn fyrir jólin
Það kom að því að ég gæfist upp og segði aukakílóunum stríð á hendur. Vegna þess tók ég þá ótrúlegu ákvörðun að fara á átta vikna átaksnámskeið með vinkonu minni. Ég fór í fyrsta tímann í morgun. Guð minn góður, hvað hef ég komið mér í? Í fyrsta lagi komst ég að því að ég er algjörlega ófær um að hreyfa hendurnar í takt við fæturna. Í hvert skipti sem ég reyndi að bæta handarhreyfingum við missti ég algjörlega takt og mátti þakka fyrir að detta ekki á hausinn. Eins og það væri ekki nógu flókið, þá var sífellt verið að bæta við sporum og handarhreyfingum. Þrátt fyrir að ég hreyfði handleggina ekki mikið tókst mér að svitna svo mikið að mig var farið að svíða í augun vegna svita. Og þetta átti að vera létt byrjun. Herre gud! Síðan voru teknar nokkrar styrktaræfingar. Mér er enn illt í maganum. Ég er svo mikill aumingi að mér líður líkamlega illa eftir þetta. Mér er kalt. Ég er með skjálfta. Og ég er með yfirliðs tilfinningu. Ég vona að mér verði farið að líða betur fyrir föstudaginn, þá á ég að fara í tíma tvö.

|