Sunday, January 29, 2006

Suma daga á maður ekki að fara fram úr rúminu
Þetta var einn af þeim dögum
Eins og ég nefndi hér fyrir neðan var hringt í mig klukkan ellefu því það átti að fara að járna hest. Ég sagðist koma upp eftir "á eftir". Ég var svo komin upp eftir fyrir tvö, sem er bara nokkuð snemma á minn mælikvarða. En blessaður maðurinn lét ekki sjá sig allan daginn. Veit ekki hvort hann ætlaðist til að ég kæmi þarna klukkan ellefu eða hvað. Það var ekkert inn í myndinni.
Þegar ég kom í hesthúsið var vatnslögnin farin í sundur, einu sinni enn. Ég er orðin illa þreytt á þessari vatnslögn. Þessum rándýru plaströrum sem er ekki hægt að gera við nema með einhverri voða græju sem er alls ekki auðvelt að fá. Það voru náttla tvær stíur á floti sem ég þurfti að moka allt út úr. Urr... Ætla að láta setja nýja vatnslögn í sumar úr galvaniseruðu. Ég stend ekki í þessu annan vetur.
Síðan var ég að bögglast upp á geymsluloftinu, þar sem spænirinn er, og þá datt drast ofan á vísifingur vinstri handar. Þegar ég kom svo niður úr myrkrinu sá ég að það fossblæddi úr puttanum á mér. Mér hafði tekist að sprengja puttann við nöglina og það var ekki að hætta að blæða úr þessu. Plásturinn fylltist bara og losnaði af. Þá vafði ég grisju og heftiplástri nokkuð fast utan um fingurinn og þá hætti að blæða.
Ég var blaut, skítug og illa lyktandi í lok dagsins. Ég vil ekki eiga fleira svona daga. Yeah, right. Þetta á nebbla ekki eftir að gerast aftur.

|

Verð að fara að taka mér tak
Christe! Mér fannst svo leiðinlegt veður í gær að ég var ekkert að flýta mér að fara upp í hesthús. Rúmlega þrjú lagðist ég upp í sófa og fór að glápa á sjónvarpið. Ég vaknaði rétt um sex. Ég fór upp eftir þá og var lengur frameftir til að leyfa hestunum að vera úti. En mér finnst ég ekki vera að standa mig þegar ég kem svo seint að þeir þurfa að vera úti í myrkrinu. Hljómar hallærislega, I know, en ég er þess full viss að þeim líði betur ef þeir fara út í dagsbirtuna, alveg eins og okkur, sérstaklega í skammdeginu.
Í dag var svo hringt í mig klukkan ellefu. Það á að fara járna einn hestinn hjá karlinum sem ég losna ekki við. Hann á einn hest sem ég útvegaði honum og er drullu þægur. Ég var með þennan hest í sumar. Ég fékk leyfi til að láta járna hann og ætla að fara að ríða út á honum. Mér veitir ekki af að hafa þæg hross meðan ég er að jafna mig almennilega. Gríma er auðvitað algjör öðlingur en það er ágætt að hafa annan hest með og geta gefið henni frí. Ég þarf því að vera komin upp eftir á skikkanlegum tíma.
Svo er ég að fara í MEGRUN. I'm taking a stand. Nú skal gera eitthvað í þessum málum. Ég er að fara til Flórída og ætla að geta verið í stuttbuxum og ermalausum bol með góðri samvisku. Ég veit að að Bandaríkin eru fitubollu paradís en ég ætla ekki að nota það sem afsökun. Ég vil vera sátt við sjálfan mig og er það ekki núna. Þessi yfirvigt er búin að ná nýjum hámörkum og þetta gengur ekki lengur. Ég er ekkert að tala um neina anorexiu-stæla, mér er ekki eðlilegt að vera einhver spýta. Ég ætla bara að komast í mína kjörþyngd sem aðeins meiri en einhverjir tilbúnir staðlar segja til um. Ég er massi, því verður ekkert breytt, enda er ég mjög sátt við það. Og hananú!

|

Friday, January 27, 2006

Idol stjarnan mín
Ég hef hingað til viljandi ekki nefnt þessa idol krakka á nafn þar sem þau (og líklega fleiri) googla nafnið sitt. En nú ætla ég að gera undantekningu og tilkynna það að Idolið mitt þetta árið er Snorri Snorrason. Honum tókst að fara gjörsamlega framhjá mér í gegnum alla forkeppnina þar til í 35 manna úrslitunum. Ég heillaðist gjörsamlega yfir þessum rólega unga manni sem blóðið virðist ekki renna í en syngur eins rokkari. Eða eins og Palli sagði "Æðislegt, lifandi lík." Go Snorri. Þú fékkst mitt atkvæði.

|

Sjónvarpsþættir
Það eru nokkrir sjónvarpsþættir sem mér leiðast. Þeir virðast allir vera á stöð 2.
Strákarnir. Karlmenn á fertugsaldri, sumir komnir með konu og börn, hlaupandi um berrassaðir og kalla sig strákana. Er til eitthvað meira glatað? Og hverjir hafa svo gaman af þessu? Jú, börn. Væri ekki nær að hafa þetta fyrir fréttir í staðin fyrir að hafa þetta á primetime? Þegar ég er að koma heim úr hesthúsinu, kannski nýbúin að borða þá er þetta helvíti í kassanum.
Stelpurnar. Ekki mikið skárra. Þær eru í 99% tilvika ekki fyndnar. Ég get ekki neitað að eitt og eitt atriði hjá þeim fær mig til að brosa en það er líka allt og sumt. Þessu er troðið upp á mann á laugardagskvöldum. Svo er ekki einu sinni hægt að hafa eina almennilega bíómynd. Hverjir halda þeir eiginlega að séu heima á föstudags og laugardagskvöldum. Það eru við gamla fólkið sem vildum kannski sjá eina sæmilega ræmu áður en við förum að sofa.
Það var lagið. Ok, ég veit að söngvaþættir eru rosa vinsælir í skandinavíu. Það virðast ansi margir horfa á þetta. Ég hef oft kveikt á þessu meðan ég er í tölvunni. En það þurfti auðvitað að breyta því þannig að nú er verið að eyða tíma í það að Hemmi er að "tala" við fólkið fyrir þáttinn. Christe! Sleppa því strax. Bara hallærislegt.
The comeback. Finnst einhverjum varið í þennan þátt? Hef aldrei tekið eftir því áður hvað Lisa Kudrow er með langan háls. Manneskjan er eins og gíraffi. Svo þessi ömurlegi, næstum því vælandi svipur sem hún er alltaf með. Persónan er aumkunarverð. Ég hugsa um það allan tíma hvað hún er misheppnuð manneskja.
Ég er sjónvarpsmanneskja. Ég tek tarnir í því að lesa. Þess á milli fletti ég upp í handbókum og fræðslubókum. Mikið hestabókum. Ég vil horfa á sjónvarpið og ég vil hafa eitthvað almennilegt í sjónvarpinu. Það er nóg til af góðum bíómyndum. Ef þið eruð í vandræðum með sjónvarpsefnið skellið þá inn góðri bíómyndum.

|

Thursday, January 26, 2006

Æ, þarf bara að væla aðeins
Fór í hádeginu með klippurnar. Fékk nýjan kamb til að prufa. Prófaði hann svo þegar ég kom upp í hesthús seinni partinn. Það virkaði ekki. Svo ég brunaði aftur í gömlu MR-búðina. Lenti þá á verslunarstjóranum sem ætti að halda sig á skrifstofunni. Hefur ekki gott lag á viðskiptavinum. Og ég var mjög almennileg yfir þessu öllu saman, þar til hann kom. En það endaði með því að það var hringt í mig og ég á að fá nýjar klippur. Þetta kom mér samt allt í óstuð.
Síðan dröslaðist ég á bak á Grímu. Komst varla á bak ég er með svo miklar harðsperrur. Áttaði mig ekki á því hvað sat mikið á hækjum mér í gær þegar ég var að raka folöldin. Svo er ég aftur komin með verki í mjöðmina eftir reiðtúrinn. Spurning hvort ég verði að hvíla mig þar til þetta er komið í lag. Ætla að spyrja doctorinn. Ég er samt að spá í hvort þetta sé það að ég sé komin í svona slæmt form og þurfi æfinguna.
Svona ofan á allt saman þá sagaði karlinn, sem er með hrossin sín hjá mér, í puttann á sér. Það þýðir að enn seinkar því að hann taki hrossin, því hann getur ekki klárað húsið sitt. There is no justice in the world.

|

Wednesday, January 25, 2006

Eitthvað jákvætt að gerast? Gæti verið.
Ungi maðurinn sem ætlar að koma með folaldið sitt til mín, hitti á mig í hesthúsinu í kvöld. Hann spurði mig í gær hvort hann mætti prófa Áru. Ég er í hálfgerðu lamasessi eftir Grímu svo ég legg ekki einu sinni í Áru. Ég sagði að hann mætti það alveg og hann gerði það víst í gær. Leist bara ágætlega á hana og fór á hana aftur í kvöld. Hann er ekki búinn að taka inn og langar að ríða út. Svo ég sagði að hann mætti bara sjá um að hreyfa hana. One problem solved.
Ég var núna rétt áðan að panta mér far to America. Ég sem ætlaði aldrei að fara þangað. En mér bauðst að fara með hluta af fjölskyldunni. Svo ég ákvað að skella mér með. Fæ sennilega ekki mörg tækifæri til að sjá "Nýja Heiminn". Á maður ekki að nota öll tækifæri til að forframa sig?
Hins vegar var ekki allt gott í dag. Ég fjárfesti í rafmagnsklippunum, 40þús. no less. Ég skellti mér svo í að raka folöldin. Fylgdi öllum leiðbeiningum skilmerkilega. Þegar ég átti svo eftir að raka kviðinn á síðasta folaldinu þá skeit græjan á sig. Hélt áfram að hreyfast en hætti að klippa. Varð ógeðslega fúl. Ætla sko að henda græjunni í hausinn á þeim á morgun og heimta bætur.

|

Tuesday, January 24, 2006

Same old, same old...
Það er ekki það að ég sé ekki að fylgjast með því sem er að gerast í kringum mig. Þegar ég sest niður við tölvuna er það bara allt á bak og burt. Svo ég ætla einu sinni enn að röfla um aumingja mig og hrossin.
Ég var að moka í dag. Ekki beinlínis fréttnæmt. Ég var að moka folaldastíuna sem ég hef ekki mokað síðan guð má vita hvenær. Er nú eitthvað að hressast eftir flensuna. Er ekki alveg jafn dáin eftir að gera eitthvað eins og ég var. Anyways... Það var a hole lot of shit í stíunni og ég var búin að fá svo leið á skítmokstinum að ég ákvað að skella mér á Grímu í reiðtúr. Ég settist í hnakkinn á laugardaginn og fór í korters fettúr til að losna við mesta skrekkinn. Ég fór svo í pínu reitúr í dag og komst að því að ég líklega tognuð eða eitthvað skemmtilegt í mjöðminni. Var hálf hölt þegar ég kom af baki og átti þá eftir að moka hinar stíurnar. Kom heim og tók íbúfen og paratabs. Er að bíða eftir að þær virki.
Á morgun er ég að hugsa um að fjárfesta í rafmagnsklippum til að geta rakað folöldin. Þær kosta reyndar hátt í 40þús. með auka kamb. En ég er með þrjú folöld sem ég þarf að raka í ár og verð líklega með 2-4 folöld á húsi næstu árin svo það ætti að borga sig upp. Kostar held ég 4þús. að láta raka hvert folald. Það þykir víst rosa gott að raka folöld, þá allt nema haus og lappir rakað. Þetta er svo mikil ull sem er á þeim og þau verða svo skítug og blaut. Þetta á að vera rosa sniðugt.

|

Saturday, January 21, 2006

Bráðum kemur betri tíð
-það bara hlýtur að vera-
Ég er að reyna að temja mér bjartari hugsun. Það gengur svona lala.
Ég dreif í því að halda saumaklúbb. Sú sem átti að halda er að flytja þannig að það stóð ekki vel á. Ég tók því að mér verkið með tveggja daga fyrirvara. Ef það er eitthvað sem ég get þá er það að skella saman hnallþórum og gúmmilaði með litlum fyrirvara. Því miður þá voru næstum tvær hálfar tertur eftir og þið getið rétt
imyndað ykkur hver kláraði þær. Mátti við því ofan í rúmleguna og allt annað. Það kemur ekki til greina að stíga á vigtina.
Ég er enn með kvef. Gæti reyndar verið með smá hitaslæðing. Alla vega er ég að drepast úr aumingjaskap. Var í vandræðum með tvo innkaupapoka. Yfirleitt get ég tekið tvo til þrjá í hvora hönd og skutlast inn. Rann af mér svitinn og læti. Lenti í sömu vandræðum að moka í hesthúsinu. Alveg að deyja bara.
Það var verið að athuga hvort maður nokkur vildi hafa hestakaup við mig á Glymjanda og 5 vetra hryssu. Hann kom að sjá hestinn en ég hefði tekið hryssuna óséða. Það varð því miður ekki af þessu. Ég er því að íhuga hvort ég eigi að láta einhvern taka Glymjanda í svona mánuð eða hvað ég eigi að gera. Ætla ekkert að flýta mér að taka ákvörðun. Það er bara janúar enn þá. Mér finnst bara svo mikið búið að gerast.
Ég losna ekki við aukahrossin úr húsinu. Karlinn sem tróð þremur hrossum inn á mig meðan hann var að klára húsið sitt er alveg hryllilega lengi að vinna. Hann sá svo um hrossin fyrir mig í tvo daga meðan ég var sem verst af flensunni. Það var bjarnargreiði. Hann jafnaði ekkert í stíunum og bar of lítið undir. Var hörku djob að moka út. Svo er skítaþróin orðin full og er enn brotin eftir verktakana sem voru að laga götunna. Ég rak því hendina á mér ítrekað í þrónna. Er öll blá og marin.
Ég druslaðist svo loksins núna seinnipartinn í örstuttan reiðtúr á Grímu. Fann að ég var orðin rög við að fara í hnakkinn eftir því sem tíminn leið. Ég er líka komin með nýjan verk í mjöðmina sem mér líst ekki á. En Gríma babe var auðvitað til fyrirmyndar og góð við mömmu sína svo það gekk allt vel.
Þetta hlýtur nú allt að fara að lagast. Er þakki?

|

Monday, January 16, 2006

Þetta ár byrjar ömurlega
Þetta er fáránlegt. Ég er búin að ná nýjum lægðum í sjálfsvorkunn. Eins það hafi ekki verið nóg að enda árið á því að missa Jósefínu. Byrja nýja árið á því að hrynja af baki og lenda á spítala, þá er ég komin með flensu ofan í allt saman. Mér tókst með herkjum að druslast út í apótek og kaupa paratabs, fyrir hitann, hóstasaft, strepsils, fyrir hálsinn og ákvað frekar að fá mér ofnæmisnefúðann en otrivin sem fer alveg hryllilega með slímhúðina í nefinu. Svo skrapp ég í bakaríið, því það er beint á móti apótekinu, og keypti fáránlega óhollustu, ég á svo bágt. Þar sem ég lifi í stöðugum ótta um að himnarnir hrynji á höfuðið á mér þá geri ég fastlega ráð fyrir því að eitthvað fleira fari til fjandans. Ég er samt sem áður að skána eftir fallið. Marið og bólgan er byrjað að fara, það verða jú tvær vikur á miðvikudaginn síðan ég flaug svo það er nú alveg kominn tími til.
Ég er enn að spá í hvað ég eigi að gera við Glymjanda. Það hvetja mig allir eindregið til að losa mig við hann. Það hljómar mjög skynsamlega og satt best að segja er ég hálf hrædd um að þessi hestur eigi eftir að valda mér varanlegum skaða ef ég reyni að eiga meira við hann. BUT!!! Ég er voðalega ósátt við að þetta endi svona. Mig langar að yfirstíga þetta mál. Þetta er nebbla mjög efnilegur hestur að öðru leiti. Það er bara þetta pínulitla vandamál með hrekkina:-/
Þess á milli sem þessar hugsanir leita á mig þá ligg ég undir sæng og vorkenni sjálfri mér. Snotra litla (köttur "Tvibbans") liggur hjá mér og reynir að hugga mig. Ég reyni líka að hugga hana, þar sem hún saknar "Tvibbans" ógurlega.

|

Wednesday, January 11, 2006

Verkjatöflur
Mér fannst ég eitthvað undarleg í maganum af verkjatöflunum svo í gær ákvað ég taka þær ekki. Ég fékk heldur betur að súpa seyðið af þeirri ákvörðun.
Þegar klukkan var orðin átta gat ég hugsað um það eitt að koma einhverjum mat ofan í mig til að ég gæti tekið verkjatöflur. Bólgan og marið á mjöðminni hefur verið að hrekkja mig þegar ég hef hreyft mig eitthvað. Þess vegna hélt ég að verkjatöflurnar væru ekki að gera neitt mikið gagn. Þegar ég tek þær svo ekki er ég með stöðugan verk í mjöðminn og komst að því að mér er líka illt í hnéinu. Hafði nú ekki fundið fyrir hnéinu fyrr. Svo ég tek verkjatöflurnar núna. Ég er farin að kvíða því þegar ég klára parkódínið.
Þessar verkjatöflur eru að virka betur heldur en Nobligan-ið fyrr um daga. Það var þegar ég fékk brjósklosið. Þá mátti ég taka allt að fimm töflum á dag. Nobligan er kemur víst fljótlega á eftir morfíni í styrkleika. Það var ekki að slá mikið á verkina en það gerði það að verkum að mér var eiginlega alveg sama þótt ég væri með verki. Komst í eitthvað vímukennt ástand. Tók samt að jafnaði hámark þrjár, einu sinni fjórar og aldrei fimm.

|

Tuesday, January 10, 2006

Life sucks! Big time.
Lífið er ömurlegt þessa dagana. Það er allt ömurlegt.
Mér er illt í maganum út af verkjalyfjunum. Ætlaði að reyna að hætta að taka verkjalyfin í gær. Var skítsæmileg þegar ég vaknaði. Var sem sagt ekki alveg að drepast eins og undanfarið. Svo þegar leið á daginn og ég ætlaði að fara í hesthúsið var ég hætt að geta hreyft mig. Svo ég varð að taka verkjalyfin. Mér er enn illt í maganum. Er aftur að reyna að sleppa því að taka verkjalyfin. Kemur í ljós hvernig það gengur.
Snotra litla vefur sig um hálsinn á mér, hana vantar ástúð. Hún saknar "Tvibbans" og ég sakna Jósefínu. Við huggum hvor aðra. En ég veit að ég er second chause. Jósefína var stóra ástin í lífi mínu. Ég veit að ykkur finnst ég aumkunnarverð einmitt núna en hún var það nú samt. Lengsta samband sem ég hef átt í fyrir utan fjölskyldumeðlimi. Hún var félagi, barnið mitt, sálusorgari og yndislegasta vera sem ég hef kynnst.
Ég hef verið að skoða Kattholtssíðuna, til að leyta að Kolfinnu. Sá í gær að það er lítil tveggja mánaða kisustelpa nýkomin. Hef verið að spá hvort ég ætti að stofna til nýs sambands. Finnst það samt vera svik við Jósefínu eða eins og að setja plástur á holskurð. Veit heldur ekki hvernig ég get farið og sagt að ég vilji þessa en ekki einhvern annan. Get farið að gráta þegar ég skoða síðuna. Allir þessir kettir. Allir þessir kettir sem einhver hefur átt og hent út eða vilja ekki aftur. Hvernig getur fólk verið svona grimmt? Hvernig er hægt að fara svona með saklausar verur? En ég er að spyrja í heimi þar sem börn eru misnotuð og drepin, hverjum er ekki sama um nokkra ketti. Mig langar bara að fara að gráta. Þetta er ömurlegt líf.

|

Sunday, January 08, 2006

Sólarhringur í lífi Heljar
-Seinni hluti-
-Þeir sem vilja lesa fyrri hlutan fyrst er bent á að scrolla niður-

Áður en mér var rúllað upp á gæsludeild fékk ég eina parkódín forte, eina 600mg íbúfen og eina paratabs. Maður hefði haldið að það ofan í morfínið þýddi að ég væri verkjalaus en því var ekki að heilsa.
Ég var sett á stofu með þremur öðrum, bara svona tjöld á milli en allt í góðu með það. Ég heyrði að við hliðina á mér var eldri kona. Á móti mér taldi ég að væri karlmaður miðað við hroturnar en við hlið hans var annar maður. Ég var spurð hvort ég vildi svefntöflu. Ég taldi það óþarfa, væri orðin þokkalega dópuð, auk þess að vera bæði andlega og líkamlega þreytt eftir áföll kvöldsins. Ég sá eftir því seinna um nóttina.
Sökum eðli meiðslana og þeirri staðreynd að ég gat mig lítið hreyft var ég látin liggja á bakinu. Vissi að það væri ekki gott. Ég get ekki sofið á bakinu. Áður en ég fékk að sofna var ég dregin fram á klósett til að skila þvagprufinni. Það tókst í þetta sinn og nú mátti ég fara að sofa.
Þar sem ég lá hálf dormandi, á bakinu, heyrði ég að karlinn lengst frá mér var með eitthvað vesen. Eitthvað nöldur og píp. Ég átti eftir að heyra þetta píp oft um nóttina. Blessaður maðurinn var með dripp í æð. Veit ekki hvað tækir heitir en það stjórnar hraðanum á drippinu. Þetta blessaða tæki pípti og pípti og pípti... Svo þegar það pípti fór hann að hamast á bjöllunni. Þá þurfti hjúkrunarfólkið að koma og laga ástæðu pípsins. Og ástæða pípsins var alltaf sú sama. Það var svo mikið vesen og brölt á manninum að það flæktist alltaf leiðslan á drippinu og þar með stoppaði drippið og tækið pípti. Ég veit ekki hvað þetta gerðist oft um nóttina en það gerðist oft.
Klukkan þrjú um nóttina fer karlinn svo að brölta fram úr rúminu, með tilheyrandi látum og pípi. Hjúkrunarfólkið kom hlaupandi til að athuga hvað hann væri að gera. Jú, hann var að fara að hringja, hann var með farsímann með sér. Þegar hann var spurður hvert hann ætlaði að hringja svona seint, stóð ekki á svarinu, Indónesíu. Hann virðist ekki hafa náð sambandi við Indónesíu á þessum tíma. Klukkan sex, hrekk ég upp við dynk. Þá hafði maðurinn misst símann í gólfið þegar hann ætlaði að reyna að hringja aftur til Indónesíu.
Klukkan hálf átta erum við svo vakin til að hægt sé að mæla hjá okkur hitann og blóðþrýstinginn. Ég mældist of lág í fyrstu tilraun svo það var náð í annan mæli en hann sýndi svipaðar tölur. Þá var ég rifin upp og látin drekka appelsínusafa.
Hálf níu kom svo morgunmatur. Ég sleppti hafragrautnum. Borðaði hins vegar brauðið og drakk mjólkina.
Ég komst þá að því að hrotukarlinn var alls ekki hrotukarl heldur kona og vinur minn fékk heimsókn. Reyndist vera bróðurdóttir hans. Hann hafði sem sagt verið tekinn af lögreglunni vegna undarlegs aksturlags. Læknarnir töldu það vera vegna þess að hann hafði verið að rugla lyfjunum sínum. Hann fær þau flokkuð frá apotekinu en svo setur hann þau sjálfur í lyfjaskammtarann sinn. Ef hann myndi bara sleppa því þá hefði ekki verið neitt rugl. Ofan á allt saman var hann á leið til Rúmeníu daginn eftir. Eitthvað hafði stúlkan áhyggjur af því hvernig karlinn kæmist á flugvöllinn. Hann var búinn að fá far hjá einhverjum manni. Stúlkan spurði þá hvort hann væri ekki flogaveikur. Og jú, mikil ósköp, hann var það. Ég get ekki neitað því að þótt hann hafi eyðilagt hjá mér nætursvefninn þá stytti hann, það er segja samskipti hans við annað fólk, mér töluvert stundir yfir daginn.
Ég komst svo heim þegar stóra systir sótti mig eftir vinnu hjá sér. Ég ét íbúfen og parkódín til að vera ekki rúmföst. Ég hökti nú um, varlega, og er meira að segja farin að fara upp í hesthús. Ég er samt ekki farin að fara á bak. Það bíður betri tíma.
Það verða líklega ekki mörg ævintýri næstu daga. En ég er samt að hressast, rólega.

|

Friday, January 06, 2006

Sólarhringur í lífi Heljar
-ég skora á ykkur að slá þessu við-
Við skulum byrja klukkan rúmlega fjögur miðvikudaginn 4. janúar 2006. Ég var nýlega komin upp í hesthús. Var búin að setja hrossin út en veðrið var ekki sérlega spennandi svo ég ákvað að kíkja í kaffi til nágranna míns. Það skilst betur við framvindu sögunnar en ég vil taka fram að ég var, þegar hér var komið, bara búin að borða hafragraut búin til úr einum dl af hafragrjónum og tveimur dl af vatni yfir daginn og ekkert annað. Hjá nágranna mínum þáði ég kók og nokkra mola af konfekti sem voru til eftir jólin.
Rétt um fimm tek ég þá ákvörðun að skella mér í einn stuttan reiðtúr áður en dýralæknirinn verður með opið hús í Hindisvíkinni, en ég átti eftir að láta raspa tennur í tveimur hrossum. Ég tek þá ákvörðun að það sé kominn tími til að reyna Glymjanda í reiðtúr. Ég er búin að vera að vinna með hann í gerði og fara stuttan fettúr um hverfið og allt gengið eins og í sögu. Glöggir lesendur muna kannski að ég talaði um þetta skref sem tilraun til sjálfsvígs hér áður. En ég læt til leiðast og legg á Glymjanda, sem er orðinn með eindæmum blíður og góður í umgegni. Það er mistur og hálf blaut svo ég skelli mér í regnstakk. Þar með er ég ekki með neina almennilega vasa og skil því lykkla og gsm símann eftir í hesthúsinu til þeir týnist ekki. Síðan fer ég á bak og feta af stað út úr hverfinu. Fer viljandi óupplýsta leið sem ég tel að verði rólegri þar sem upplýsta leiðin liggur meðfram íbúðarhverfi og meiri hætta er á flugeldum og veseni. Allt gengur vel og eftir að hafa fetað smá spotta förum við upp á brokk. Það gengur allt eins og í sögu og ég hægi aftur niður á fet. En allt í einu, og er mér ástæðan enn ókunn, stekkur Glymjandi af stað á harðarstökki og í þvílíkum stungum (ef þið hafið séð ródeó þá er það svipað nema að hesturinn heldur meira áfram). Ég veit að þetta getur ekki endað vel, ég fæ hann ekki til að hlusta á mig og það kemur að því óumflýjanlega. Ég finn að ég missi jafnvægið og fljótlega fell ég af. Ég er ekki viss um hvernig en ég skell í götuna. Ég sé ekkert hvert hesturinn fer. Ég er með hræðilegan verk í mjöðminni. Ég þakka fyrir að hafa verið með hjálminn þótt höfuðið hafi ekki skollið í. En nú er komið upp annað vandamál. Ég er ein nokkur hundruð metra frá hverfinu, engin lýsing, enginn annar virðist vera í reiðtúr og ég er ekki með símann. Ég reyni því að standa á fætur til að ganga til baka. Ég hef áður dottið af baki og jafnvel þurft að ríða hestinum heim eftir byltuna. En því er ekki að heilsa núna. Ég er rétt búin að hafa mig á fætur þegar mér sortnar fyrir augum af sársauka. Það eina sem ég get gert er að láta mig falla aftur niður á fjóra fætur. Ég bið þess innilega að nágrannar mínir sjái hestinn og komi að leyta að mér. Ég íhuga möguleikann á því að skríða til baka. En það er ljós í myrkrinu, í orðsins fylstu merkingu, það er bíll að koma. Ég get ekki lýst hvað mér létti. Þegar ég sé að hann er að nálgast skríð ég aftur á fætur og veifa. Ég þekki hvorki bílinn né bílsjtórann en hann kemur strax til mín og spyr hvað hafi gerst og hjálpar mér inn í bílinn. Hann keyrir mig aftur upp í hverfið og segir mér að hann og nokkrir aðrir hafi séð hestinn, sem fór ekki alla leið heim, helvítið á honum. Ég get mig hvergi hreyft fyrir sársauka svo þessi maður auk tveggja kvenna ákveða að fara með mig á heilsugæslustöðin í Mosó. Nágrannar mínir voru nú komnir inn í málið og fullvissuðu mig um að þeir myndu sjá um hestana.
Þegar komið er á heilsugæslustöðina er komið með hjólastól og ég kemst með naumindum í hann. Síðan er ég keyrð inn, hent upp á bekk og læknirinn skoðar mig. Það er ekki um neitt annað að ræða, það verður að taka myndir, ég þarf að fara á slysavarðstofuna. Verkirnir eru orðnir verri og það er hringt á sjúkrabíl. Á meðan er beðið eftir honum er hringt í systur mína og hún ættlar að hitta mig á slysó.
Þegar sjúkrabíllinn kemur er ég frosin á bekknum, ég get ekki hreyft mig. Það er náð í bakbretti, þetta harða appelsínugula sem sjúkrafluttningarmenn eru með. Ég er hreinlega skafin upp af bekknum á brettið. En ég er ekki alveg nógu vel upp á brettinu. Ég finn að ég hreyfist þegar við förum fyrsta hringtorgið af mörgum á leið úr Mosfellsbænum. Sem betur fer kemur önnur ókunna konan með mér og styður við mig í öllum beygjum. Ég veit að það hljómar ekki merkilega en það hafði alveg ógurlega mikið að segja, ég er mjög þakklát.
Við komumst klakklaust á slysó og þar bíður stóra systir eftir mér, það er mikill léttir. Það er alveg nauðsynlegt að hafa einhvern hjá sér þegar aðstæðurnar eru svona.
Læknirinn á slysó hefur ekki mikla samúð með mér. Hann byrjar á því að spyrja hvort sjúkraflutningamennirnir þurfi ekki bakbrettið sitt. Þeir neita því, þeir geta alveg tekið annað í staðinn. En nei. Læknirinn ákveður að rífa undan mér bakbrettið með látum. Ég veina af sársauka en það hefur ekkert að segja, brettið skal burt. Honum er sem betur fer hjálpað og ég kemst af brettinu. Því næst á að skoða mig og fötin eru fyrir. Ég var í gamalli, sjúskaðri og renndri hettupeysu sem mér þykir mjög vænt um. Rennilásinn var bilaður. Ég tafsa eitthvað um að það sé hægt að klæða mig úr peysunni seinna en allt kemur fyrir ekki. Ljóti læknirinn rífur upp rennilásinn á peysunni. Það er hins vegar hægt að rífa niður um mig buxurnar. Ég þakka fyrir að hafa ekki verið í reiðbuxum, þær hefðu verið klipptar. Eftir skoðun er loksins ákveðið að gefa mér verkjalyf, morfín, no less. Það er ekki jafn áhrifaríkt og sögur fara af. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum.
Ég er því næst send í myndatöku. Það gekk vonum framar og því fólki tókst ótrúlega að færa mig án þess að ég fyndi mikið til, það var ekki bara morfínið. Myndirnar sýndu blessunarlega að ég væri óbrotin. Reyndar var ég farin að skammast mín svo mikið fyrir hvað ég var mikil aumingi að ég var farin að telja að brot væri það eina sem réttlætti þennan ræfilshátt.
Þegar ég er komin aftur niður á slysó er komin spurning um hvað eigi að gera við mig. Læknirinn telur reyndar að það ætti að láta mig liggja inni yfir nótt, ég væri reyndar búin að missa af matnum en ég væri með nægan varaforða svo það ætti nú að vera í lagi. Við skulum hafa það alveg á hreinu að ég hefði sparkað í manninn ef ég hefði getað það. Ég ætlaði hins vegar að fara heim. Ég ætlaði að fara heim og fá mér pizzu og kók. En til þess þurfti ég að komast út af slysó. Ég átti hins vegar í vandræðum með það eitt að setjast upp. Eftir þó nokkrar tilraunir og yfirlýsingar um að ég væri fagurgræn tókst mér að standa upp. En ekki mikið meir. Þá fyrst fékk ég að vita það að ef ég ætlaði að heim yrði ég að skila þvagsýni til að hægt væri að gá hvort ég hefði hlotið nýrnaskaða. Ég hélt að það yrði ekki mikið mál. Ég hef alltaf getað pissað. Ég er ein af þessum sem pissa alltaf áður en ég fer út, áður en ég fer á hestbak og á öllum stoppistöðum þegar ég fer í ferðalög, just in case. Svo ég kemst í hjólastólinn og læt keyra mig á klósettið. En.... Þrátt fyrir að hafa fengið lítra af vökva í æð, hafa drukkið nokkur lítil glös af vatni, vatnið væri látið renna og ég hafi þráast við í heilt korter þá gerðist ekkert. Ekki neitt, ekki deigur dropi. Ég var þar með sigruð, ég yrði að eyða nótt á spítalanum.

Þetta er orðið nokkuð langt svo ég ætla að vera með framhald seinna.

|