Tuesday, February 28, 2006

Eitthvað um að vera
Jæja, þá er loksins eitthvað um að vera.
Vinkona mín er komin frá Norge. Tók með sér tvo norsara. Þetta átti að verða skemmtiferð fyrir hjónin (norsarana) en þau ösnuðust til að taka the child from hell með sér. Ég held að ég hafi minnst á þetta barn hér áður. Ég hitti það þegar ég fór til Norge síðasta ár. Gangandi getnaðarvörn. Ef þið eruð að hugsa um að eignast börn skuluð þið fá þetta lánað og sjá svo til. Það varð því mun minna úr ferðalagi þessara hjóna en til stóð. Það er þeirra missir.
Minn fyrrverandi, sem ég er með folald fyrir, kom að "temja" folaldið sitt. Var ofsa ánægður með hvað það gekk vel enda folaldið búið að fá góða umhirðu í vetur, og pínu frumtamningu. Vinkona mín fór að hafa það á orði að það kæmi henni ekki á óvart að eitthvað myndi þróast á milli okkar aftur. Ég er mjög ánægð hvað samband okkar er orðið "heilbrigt". En ég hafði ekki hugsað mér að það yrði neitt meir en það. Ég ætla samt að hafa sem fæst orð um það. Fæst orð bera minnsta ábyrgð. Hef brennt mig á því áður að segja of mikið og þurfa að éta orðin ofan í mig. Enda borgar sig aldrei að neita of sterklega.
Stærstu fréttirnar eru nú samt í mínum huga að ég er búin að ættleiða aftur eftir missinn. Ég kom heim með lítinn kisustrák í gær. Vona innilega að eigendur læðunar drullist til að taka hana úr sambandi. Ég er búin að bjarga tveimur kisum frá þeim áður. En ég ætla að eiga þennan. Þetta er nýi kistustrákurinn minn. Ég er að hugsa um að kalla hann Napóleón. Fyrst átti ég jú Jósefínu svo er ekki við hæfi að hann heiti Napóleón? Það er samt ansi stórt nafn, ég myndi líklega kalla hann Nappa. Hvað finnst ykkur? Þetta er ekki alveg meitlað í stein. Hann er hvítur og gulbröndóttur, auðvitað algjör dúlla.

|

Saturday, February 25, 2006

Hvað er þetta með mig?
Ég verð alltaf þekkt þar sem ég versla og það sem meira er þá fer afgreiðslufólkið alltaf að tala kumpánalega við mig. Það er ekki endilega slæmt en ég skil þetta ekki alveg.
Núna er ég orðin þekkt í fiskbúðinni í hverfinu. Mútta er með of hátt kólestról og þurfti að breyta um mataræði. Svo ég fékk loksins mínu framgengt og nú borðum við fisk þrisvar í viku. Núna á föstudaginn fór ég í fiskbúðina einu sinni sem oftar. Það var enginn annar að versla en ég. Þegar ég er búin að koma mér fyrir framan afgreiðsluborðið gellur við: "Þú verður 150 ára." Ég varð frekar hissa og spurði hvað maðurinn ætti við. Þetta var ekki sá sem var að afgreiða mig heldur annar sem var að fylla á hillurnar. "Nú, þú borðar svo mikinn fisk." Og þar með var ég búin að missa virðulegan stadus minn sem viðskiptavinur.
Þetta gerðist líka í Toyota umboðinu. Reyndar miklu stærri vinnustaður en einhverra hluta vegna þá varð ég þekkt sem "Hilux stelpan" um allt umboð. Ég mátti hvergi koma án þess að fá "Já, ert þú Hilux stelpan?" Ég var meira að segja eitt sinn á einhverri uppákomu í Fáksheimilinu þegar maður heilsaði mér kumpánalega. Það tók mig þó nokkurn tíma að átta mig á að hann vann hjá Toyota.
Ég veit ekki hvort mér á að þykja það gott eða slæmt þegar afgreiðslufólkið veit hvað ég ætla að kaupa. Í lúgusjoppunni í mosó þá kemur kaninn sem vinnur þar bara með kókdósina þegar hann sér bílinn. Hann hefur ekki einu sinni fyrir því að koma fyrst og spyrja hvað ég vil.
Spurningin er sem sagt, hvers vegna er ég svona eftirminnanleg eða kannast allir við þetta?

|

Wednesday, February 22, 2006

Það er ekkert Glymjandi við ástandið
What to do, what to do.
Það er kominn sá tímapunktur að ég verð að gera eitthvað í sambandi við Glymjanda. (Þessi sem henti mér af baki og stór slasaði mig) Ég er búin að vera að bíða eftir að heyra í manni sem ætlaði að hafa við mig hestakaup. Ég reyndi að hringja í hann í gær og náði ekki í hann. Svo ég fór þangað sem hann er með hesthús. Hitti ekki á hann heldur en fór inn í hesthúsið og skoðaði ástandið. Mér leist ekkert á það. Hestarnir voru hálf tuskulegir eitthvað. Reyndar ágætlega fóðraðir svona við fyrstu sýn en ókembdir og meira og minna með lús. Sá rauðskjótt tryppi sem gæti verið það sem ég átti að fá í staðinn og fékk sting í hjartað. Hitti manneskju á svæðinu sem ég þekkti og sagði mér að þessi maður væri endalaust að skipta út hrossum. Get ég sett Glymjanda í þetta? Ég veit það ekki. Ef ég geri það ekki er um tvennt annað að velja. Það er nebbla illa farið að þurfa að járna hann. Ég gæti rifið undan honum skeifurnar og hent honum út þar til hann fer í ss, hvenær sem það yrði, eða látið járna hann og sent í tamningu. Það kostar peninga í að senda hann í tamningu. Ég efast um að ég myndi þora á bak á honum þótt það gengi og það er ekkert víst að það myndi ganga. Það væri spurning hvort væri hægt að selja hann ef tamningin gengur, en það er stórt ef. Svo á ég að ganga á eftir þessum manni og reyna að láta hann í hestakaupum og vera með samviskubit í langann tíma á eftir? Senda hann í ss með tíð og tíma eða reyna tamningu? Ég hreinlega veit það ekki.

|

Sunday, February 19, 2006

Konudagurinn
Ég fór út og keypti blóm og köku ársins handa okkur mömmu. Ég tel daginn tilheyra öllum konum ekki bara þeim sem hafa karl upp á arminn. Svo ég hvet allar konur eindregið til að njóta dagsins og gera eitthvað fyrir sjálfar sig. Finnst allt í lagi að hafa svona daga. Íslenska daga ekki eitthvað útlenskt drasl. Kaka ársins stóð ekki alveg undir væntingum. Hefði betur farið í Sandholtbakarí, kakan þeirra hljómaði vel. Þessar kökur ársins eru ekki alveg að gera sig finnst mér. Þær hafa ekki verið það æðislegar að þær hafi staðist tímans tönn, hehe. Við ætlum að fá okkur eitthvað gott að borða í kvöld. Eitthvað sem við þekkjum.

|

Saturday, February 18, 2006

70.000 atkvæði!!!
Ég vissi að Silvía myndi vinna en 70þús. atkvæði, er ekki í lagi? Ég hélt í alvöru þegar ég heyrði að það væri svona mikið álag á símkerfinu að fólk væri að kjósa önnur lög. Hún fékk 40þús. fleiri atkvæði en næsta lag. Ég á ekki til orð.

|

Wednesday, February 15, 2006

Lítið um að vera
Djöfull er búið að vera kalt. Hef notað það sem afsökun fyrir því að fara ekki á bak. En ég er þó búin að koma einhverju í verk. Er að laga aðstöðuna fyrir hnakkana. Dreif loksins í að byrja á því. Reyna að halda hesthúsinu dálítið snyrtilegu. Það fer alltaf í mig þegar allt er í rúst. Það letur mig líka til að gera eitthvað almennt og yfir höfuð.
Ég prófaði að gera suduko þraut í fyrsta skipti í dag eða kvöld. Endaði á því að gera þrjár. Hafði bara gaman af. Á eftir að gera fleiri, það er ég nokkuð viss um. Væri ekki vitlaust að kaupa sér bók og taka með í flugið til America.
Og eitt enn. Ég vil almennt ekki draga persónuleg mál annara inn á þessa síðu (hef dregið inn mál milli mín og annara og biðst afsökunnar á því) en ætla að hafa stutta tilkynningu til vina og vandamanna. Ég var búin að segja nokkrum ykkar að það væri skilnaður í vinahópnum. Það virðist eins og það hafi eitthvað breyst.

|

Sunday, February 12, 2006

Ég reyni
Ég er að reyna komast yfir þetta andlega fall sem ég varð fyrir þegar ég datt af baki. Það hefur reynst erfiðara að jafna sig á því heldur en bólgunni og marinu.
Ég kom mér upp í hesthús á skikkanlegum tíma í gær. Hef verið að liggja upp í sófa og glápa á sjónvarpið um helgar og fara svo seint og síðar meir í hesthúsið. Ég meira að segja hafði mig á bak á Grímu og fór í reiðtúr. Gríma skilur reyndar ekkert í því hvers vegna hún má ekki bara vera stórt og feitt en æðislega sætt gæludýr. Ég er líka búin að fara með Áru í gerðið í tvo daga og láta hana hlaupa. Hún er svo mikil orkubomba að hún straujar alveg hringinn á harða stökki án þess að hún sé hvött áfram. Ég var svo að spá í að fara á bak henni gær en guggnaði á því. Mér finnst alveg hræðilegt að vera svona mikill ræfill. Það er ekki eins og ég hafi ekki dottið af baki áður. Ok, þetta er reyndar í fyrsta skipti sem ég var flutt með sjúkrabíl og þurfti að vera á spítala yfir nótt. Ef þetta er ekki merki um að maður sé að eldast og farinn að finna fyrir dauðleika mínum. In the old days fór ég á næstum hvað sem var og þótt ég dytti þá fór ég aftur á bak. En eftir brjósklosið og aðra skemmtilega kvilla sem hafa valdið verkjum þá er ég farin að hugsa mikið meira um það að ég gæti meitt mig. Það fyrsta sem ég hugsaði um eftir fallið var "ég get hreyft fæturna." Ég gat reyndar ekki staðið í þá en ég gat hreyft þá. Jæja, nú er ég farin að velta mér upp úr óttanum svo það er best að hætta áður en ég spóla mig svo upp að ég þori ekki einu sinni að koma nálægt hrossunum.

|

Wednesday, February 08, 2006

Raunir hugans
Það er eitthvað að. Ég er ekki alveg með sjálfri mér. Ég fer ekki á hestbak. Ykkur finnst það kannski ekki merkileg vandræði en það er stór mál fyrir mér. Ég á líka erfitt með að koma mér í hesthúsið. Ég fer á hverjum degi en það er vegna þess að ég þarf þess ekki vegna þess að mig langi svo til þess. Það hefur hvarflað að mér að kannski sé komin þreyta í mig á þessu hrossastandi. Þetta er jú fjórtánda árið sem ég hef hross á húsi. En hugurinn er enn til staðar. Sum kvöld er ég í vandræðum með að sofna því ég er að spá í eitthvað hrossastand. Ég fer ekki á netið án þess að skoða hestasíður og spá í stóðhesta fyrir næsta sumar. Er þetta allt tengt því að ég datt af baki? Ég hef ekki farið nema svona fimm sinnum á bak eftir að ég komst á annað borð aftur á bak. Ég veit það ekki en mér finnst þetta hvimleitt. Svo losna ég ekki við þessi aukahross úr húsinu. Nú er komið svo að spænirinn er að verða búinn. Veit ekki hvort ég treysti mér til að kaupa mikið magn aftur eða hvort ég eigi að vera að mjatla þessu í hverri viku. Svo komst loks niðurstaða í hvað við ættlum að gera við Glymjanda (sá sem henti mér af baki). Ég hringdi í SS á Selfossi. Þar er nokkra mánaða bið eftir að koma hrossum í slátur. Eitthvað verð ég að gera við hestinn þangað til. Það þarf alla vega að járna hann aftur. Svo er mér illt í mjöðminni. Finnst það vera að aukast aftur, var eiginlega farið. Held að það hafi hjálpað að fara á bak. Ekki nóg með það, heldur finnst mér verkurinn vera farinn að breiðast út. Nú held ég að ég sé farin að verða ímyndunarveik. Hvað er sem er í gangi er ljóst að það er einhver andleg lágdeyða að drepa mig.

|

Sunday, February 05, 2006

Labamba
Það er verið að sýna Labamaba á skjá einum. Ég sá hana í bíó á sýnum tíma. Gvöð hvað tíminn líður. Átti kasettu, kasettu takið eftir, sem "Tvibbinn" tók upp fyrir mig með öllum lögunum úr myndinni. Kunni þau öll utan af og söng með af lífs og sálar kröftum. Já, ég var einu sinni ung. Það virðist svo langt síðan. Where did the time go?

|

Hitt og þetta
Jæja, þá er það nokkuð ljóst að Silvía Nótt verður framlag okkar til Eurovision. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það eiginlega bara gott á lagahöfunda landsins. Þessi lög sem ég hef heyrt, og ég hef reyndar ekki heyrt þau öll, eru vægast sagt ömurleg. Af þessum sem ég heyrði í gær kemur lagið með Birgittu helst til greina.
Ég hef töluvert að segja um múslima en ég held að það sé betur ósagt. Hegðun þeirra undanfarna daga segir allt sem segja þarf.
Það var mun skemmtilegra að horfa á Idolið á föstudaginn. Þessir krakkar eru bara öll að standa sig ótrúlega vel. Með fullri virðingu fyrir Húsvíkingum og nærsveitungum, þá á ekki að halda fólki sem er ekki að standa sig nógu vel inn í keppninni bara út af kunningsskap.
...og eins og alltaf þá er ég búin að gleyma meira en helmingnum af því sem ég ætlaði að blogga um. Svo þetta verður stutt.

|

Friday, February 03, 2006

Jósefína 3/2 1990 - 28/12 2005
Það var á laugardegi fyrir nákvæmlega 16 árum að hún Jósefína fæddist. Kleópatra, læða stóru systur, hafði vakið stóru systur klukkan fimm um morguninn því hún var að fara að gjóta. Milli fimm og átta um morguninn gaut hún fimm kettlingum. Sá fjórði í röðinni var lítil læða sem var líkust móður sinni, það var Jósefína.
Stóra systir hringdi í okkur um hádegið til að færa okkur fréttirnar. Ég og "Tvibbinn" vorum ekki lengi að mæta á svæðið. Ég var tólf ára, á þrettánda ári, og sem hreinræktað borgarbarn hafði ég aldrei áður séð nýfædda kettlinga. Stóra systir leigði litla risíbúð í hlíðunum þegar þetta var. Ég gleymi því seint þegar við komum að þá lá Kleópatra í körfunni sinni, undir handklæði, þannig að það sást bara í annað augað á henni. Svo fengum við að sjá litlu krílin, öll hangandi á spena, sjúgandi af áfergju.
Það er óhætt að segja að við "Tvibbinn" vorum fastagestir hjá stóru systur næstu vikur. Þegar krílin voru farin að stækka var mikið líf og fjör hjá þeim. Eitt skiptið þegar við komum lá Kleópatra fremst á stigapallinum, frekar þreytuleg. Þegar við komum lengra voru allir kettlingarnir á fullu að leika sér inn á herbergi. Mútta hafði staðsett sig þar sem þau gátu komið sér mest á voða og lá bara þar.
Jósefína var circa átta vikna þegar við "Tvibbinn" fórum að sækja hana og komum með hana heim. Jósefína skildi ekkert hvað var um að vera og lá mjög undrandi í fanginu á mér í framsætinu. Við komumst að þeirri niðurstöðu að þetta væri næsti bær við kidnapping og var talað um þessa ökuferð sem "The catnapping" framvegis.
Þegar heim var komið fékk litla krílið að skoða nýja heimilið. Henni fannst alveg bráðsnjallt að hún gat hlaupið hringinn í stofunni bak við öll húsgögnin. Þegar hún var búin að hlaupa hringinn nokkrum sinnum, snarstoppaði hún allt í einu og snéri við og hljóp hinn hringinn, rosa sniðugt. Þessa fyrstu nótt skildi daman eftir smá stykki bak við gardínu en það var líka í eina skiptið sem það gerðist. Það skipti engu máli hvað hún var orðin gömul og veik, eða væri að jafna sig eftir svæfingu, frökan Jósefína meig aldrei undir, hún fór í kassann þótt hún þyrfti að leggjast niður og taka pásu á leiðinni.
Jósefína var mjög hrifin af skálum. Það var brún keramik skál út í glugga hjá okkur. Eitt skiptið eftir mikla leit fannst krílið sofandi í þessari skál og hvarf hún alveg ofan í skálina. En eftir því sem hún stækkaði sást alltaf meira og meira í hana. Fyrst rófuna, svo hausinn, síðan meir og meir af henni allri. Að lokum kom að því að eitt skiptið þegar hún ætlaði í skálina endaði skálin niður á gólfi. Eftir það reyndi hún ekki að fara aftur í skálina. Þessi skál er enn til hér heima.
Jósefína var fjörug sem kettlingur. Hún klifraði í gardínunum og lék sér mikið. Hún var hins vegar fljót að vaxa upp úr kettlinga leik og lék sér lítið sem fullorðin. Að tvennu undanskildu. Annað var kóngulóin. Það var lítil plastkónguló sem við festum í spotta og handfang af flugdreka. Var þetta leikfang svo vinsælt að við mannfólkið vorum farin að fela það. Það var ótrúlegt. Hún sótti handfangið og kóngulónna í tíma og ótíma. Þá áttum við að hlaupa um íbúðina með kóngulónna í eftirdragi. Síðan var hlaupið inn í svefnherbergi og kóngulónni slengt fram og til baka um rúmið og Jósefína þeyttist á eftir henni. Eftir því sem tíminn leið hætti hún að nenna þessu og leikurinn fór að snúast um það að hún lá í rúminu og við áttum að slengja kóngulónni til hennar. Hinn leikurinn var prívat á milli okkar mæðgnanna. Þá sat ég hjá henni á gólfinu og hún veiddi mig með rófunni. Ég kleip í rófuendann og hún reyndi að ná á mér hendinni. Það skipti engu máli hversu mikið fjör færðist í leikinn, Jósefína hvorki klóraði mig né beit. Jafnvel þegar hún var að drepa á mér hendina þá ekki svo mikið sem rispaði mig og ef hún vildi hætta þá sleikti hún á mér hendina.
Hún svaf hjá mér í rúminu lungan úr ævinni. Stundum fór hún á undan mér inn í rúm og kom jafnvel og sótti mig. Fyrst til að byrja með svaf hún við hliðina á mér en svo fór hún að færa sig á koddann. Fyrst til að byrja með var ég ekki sátt við að hún lægi á koddanum. Ég reyndi ýmislegt. Annan kodda en hún vildi liggja á sama kodda og ég. Ef ég reyndi að einangra koddann þá lagðist hún á hausinn á mér. Með tímanum gafst ég upp á að reyna og sætti mig við 1/4 af koddanum. Eitt skiptið vaknaði ég við það að ég heyrði að hún var að sleikja eitthvað. Ég lá í smá tíma og skildi ekkert hvað hún var að sleikja. Svo áttaði ég mig á því að hún var að sleikja á mér hárið. Það var rennandi blautur blettur blettur ofan á hausnum á mér. Eina skiptið sem hún kaus að sofa í rúmi hjá öðrum var þegar pabbi var veikur. Meðan hann var á spítalanum svaf hún hjá mömmu. Þegar pabbi kom svo heim svaf hún hjá honum í rúminu. Hún var meira að segja inni hjá okkur þegar hann dó. Eftir það svaf hún aftur í rúminu hjá mömmu fyrst til að byrja með.
Ef ég ætlaði að rifja allt upp sem tengist henni Jósefínu þyrfti ég að skrifa heila bók. Þegar hún var að leika við litlu frænkurnar. Við eigum myndir af því þegar stærri litla frænka var að skríða á eftir henni. Þá lá Jósefína kjur þar til sú litla var komin alveg að henni og færði sig þá. Þegar yngri litla frænka var að reyna að fá einhvern köttinn til að leika við sig og sá eini sem gerði það var Jósefína sem var löngu hætt að leika sér eins og ég nefndi áður. Hvernig hún skynjaði alltaf þegar einhverjum leið illa og fór til viðkomandi og lá þar. Hvernig hún vildi alltaf sýna gæsku sína með því að kyssa mann, helst á nefbroddinn. Hvernig hún þekkti bílinn minn þegar ég kom heim. Settist þá niður á stéttina og beið meðan ég lagði og svo fórum við saman inn.
Hún var ellefu ára þegar það fannst fyrst æxli við spena hjá henni. Það var fjalægt en læknunum láðist að nefna að þetta væri afleiðing af því að hún var á pillunni. Hefðum við vitað það hefðum við strax látið taka hana úr sambandi. Nú er ég farin að gleyma tímasetningum en það var líklega rúmu ári seinna sem það fannst annað æxli og þeir á dýraspítalanum vildu ekki skera hana því þeir fundu æxli í kviðarholinu. Einu og hálfu ári seinna fór ég með hana til Helgu Finns sem taldi að æxlið væri í leginu. Svo reyndist vera og var legið fjarlægt ásamt tveimur litlum æxlum við spena. Það voru svo tekin æxli við spena líkleg tvisvar í viðbót. Rétt eftir áramót 2005 fór ég svo með hana í blóðprufu til að athuga með nýrun ofl. Þá var blóðið orðið mjög dökkt og storknuninn léleg. Dýralæknirinn sagði mér að búast við því að þurfa að kveðja hana með haustinu. Þegar líða fór á haustið fór að draga af henni og sár kom á æxli sem var byrjað myndast á kviðnum. Þrátt fyrir að hún vildi meira sofa ein eftir að legið var tekið úr henni þá breytist hún lítið alla tíð, jafnvel síðustu vikurnar var hún alltaf trú sjálfri sér. Hún svaf hjá mér síðustu næturnar enda verulega dregið af henni. Hún var svo svæfð hér heima þar sem hún lá í fagnginu á mér. Við grófum hana upp í sumarbústað við hliðina á Kleópötru, mömmu sinni, sem náði fimmtán ára aldri en var þá farin að þjást að því sama og Jósefína.
Það er með mikilli sorg en einnig miklu þakklæti sem ég kveð þessa yndislegu litlu veru sem ég varð þeirrar ánægju aðhljótandi að eyða næstum sextán árum ævi minnar með, og meirihluta ævi minnar enn sem komið er.

|

Wednesday, February 01, 2006

Stundum, en bara stundum...
...þá raðast nokkrir óheppileg tilvik saman á heppilegan hátt. Það hefur gerst núna.
Eins og glöggir lesendur muna, þá er vatnslögnin í skralli. Fína plastdraslið fæst ekki lagað fyrr en í fyrsta lagi á sunnudag. En þannig vill til að karlinn sem ég losna ekki við með hestana úr hesthúsinu er lærður pípari. Og já, ég ákvað að taka tilboði hans um að leggja nýja vatnslögn úr galvaniseruðu járni upp í leiguna sem hann skuldar mér. Hún hefur það tvennt fram yfir hina vatnslögnina að vera sterkari og það sem er enn betra, það getur hvaða pípari sem er gert við hana. Það þarf ekki eitthvað rándýrt skrapatól sem örfáar hræður eiga til að gera við. Það er byrjað að leggja nýju lögnina og verður líklega búið að leggja hana fyrir sunnudag. Þá get ég hætt að vatna 12 hestum sem hver drekkur að jafnaði 20 lítra af vatni á dag.

|