Ert þú orðin 18?
Litlu frænku tókst að skera sig á glerbroti í gær. Pínu, pínu skurður en það þótti betra að fara á slysó þrátt fyrir það. Það er voða mikið að gera fyrir ameríkuferðina og smá stress í gangi svo ég bauðst til að fara með hana. Það reyndist allt í góðu með skurðinn. Var sett lím í hann til að loka honum. Eitthvað svona humanglue. Hins vegar, þegar við vorum að skrá hana inn kom auðvitað í ljós að hún er undir lögaldri og verður að vera í fylgd með fullorðnum. Svo unga hjúkkan horfði á mig og spurði: "Ert þú orðin 18?" Ég get ekki neitað að þetta kitlaði hégómagirndina aðeins, svona þegar ég á ekki eftir nema rúmt ár í þrítugt. Þegar við vorum komnar inn og önnur hjúkka var að skoða skurðin var ég spurð hvort ég væri systir hennar. Ég brosti og svaraði að bragði að ég væri móðursystir hennar.
Í gær kom svo yndæli ungi maðurinn sem ætlar að passa múttu og kettina hennar stóru systur. Við kíktum því yfir til stóru systur til að sýna honum aðstæður. Ég hafði ekki séð kettina þar síðan áður en Nappi dó. Þær mæðgur eru nebbla amma og móðursystir Nappa. Ég var ekki búin að taka eftir því að það er nákvæmlega sama mynstrið á móðursystur hans og var á honum. Alveg nákvæmlega eins bröndótt. Það minnti mig á stórt kattarauga. Ég kallaði það Eye of the tiger.