Wednesday, July 26, 2006

Einhver deyfð í gangi
Ég er ekki alveg nógu hress þessa dagana. Ég er enn miður mín yfir því að það var keyrt á Nappa. Það hefur bara einhvern veginn frestast vegna ferðalaga. Svo kem ég heim og þá vantar eitthvað. Ég hef ekkert lést síðan að hann dó. Hef ekki þyngst en ekki lést. Ég hef verið að leyfa mér að borða meira því ég er trustespiser og líður ekki nógu vel. Svo líður mér enn verr yfir því að ráða ekki við átið. Það er svo gaman að koma sér í svona hringavitleysu. En ég ætla að reyna að brjóta það mynstur.
Er samt meðvitað að reyna að koma mér úr þessari andlegu ládeyðu. Er að panta tíma hjá tannlækni og lækni og ganga í aðra hluti sem ég þarf að gera. Þarf að finna nafnið á bæklunarlækninum sem ég fór til. Ég flaug á hausinn út í Norge. Er eitthvað léleg í ökklanum eftir að ég snéri mig og líklega sleit eitthvað. Löppin gefur sig bara ef ég stíg á misfellu. Þetta er samt í fyrsta sinn sem ég hreinlega dett. Fór út að ganga í dag og ætla að reyna að gera það á hverjum degi. Er líka búin að tala við strákinn sem járnar fyrir mig og hann ætlar að koma og redda dömunum. Þá get ég farið að ríða út. Það ætti nú að hressa mig aðeins. Það er hættulegt að liggja heima og leyfa svona ástandi malla. Það verður bara að sparka í rassinn á sjálfum sér og gera eitthvað.

|

Komin heim
Þá er ég komin heim frá Noregi. Þar var stanslaust fjör og lítið sofið. Ég er því búin að vera að sofa mig upp.
Það var aðeins of heitt fyrir minn smekk yfir daginn en það kólnaði með kvöldinu. Sem betur fer.
Brúðkaupið var glæsilegt og maturinn frábær. Dansað fram á nótt.
Ég er hreinlega ekki búin að jafna mig enn þá.

|

Sunday, July 16, 2006

Noregsferð framundan
Þá fer að styttast í það að ég verði á faraldsfæti aftur. Það er brúðkaup í Noregi næstu helgi. Ég fer af landi brott á þriðjudagsmorgun. Vona að starfsfólk í Leifsstöð verði ekki enn í "verkfalli". Ég sé fram á að þurfa vera mjög tímaleg. En það reddast.
Ég fékk að vita það að eitthvað var fólk að spá í hverju ég myndi klæðast í brúðkaupinu. Ég kom nú alveg af fjöllum og skyldi ekki hvaða máli það skipti. Sé fram á að þurfa að finna eitthvað annað en svartar buxur og strigaskó. Neeeei, ég ætlaði nú ekki að vera svo slæm. En það er ekki hægt að ætlast til of mikils af mér í þessum efnum.
Ég setti nú einhvern tímann fram lista hérna um fegrunarráð mín. Snyrtivörur mínar saman standa aðallega af vatni og sápu. Nefndi það einmitt þegar ég var úti í BNA að ég hafi klárað kremkvótann fyrir árið með sólarvörn og aftersun. En ég sá mig tilneydda til að kaupa sértækari snyrtivörur nú í vikunni. Ég hef nú reynt að hafa hárið á mér almennilegt. Það nær næstum niður á mitti og hefur aldrei kynnst háralit né öðrum efnum. Mér hefur nægt að nota sjampó og hárnæringu keypta í matvöruverslunum. En núna var hárið á mér þurrt og leiðinlegt eftir sólina. Ég keypti því hárvörur fyrir næstum fjögurþúsund krónur. Veit ekkert hvort það flokkist undir að vera dýrt eða ekki en það er mikið fyrir mig þegar kemur að snyrtivörum.
Annars fór ég á Íslandsmót í hestaíþróttum í dag. Þar varð hesturinn sem ég ætla að halda undir Íslandsmeistari í meistaraflokki í fjórgangi. Þarf líka að íhuga hvort ég haldi ekki einhvern tímann undir sigurvegarann í fimmgangi. Hann var helv... flottur.

|

Thursday, July 13, 2006

Ég, um mig, frá mér, til mín
Þegar ég byrjaði að blogga þá ætlaði ég að tala um allt það gífurlega merkilega sem ég er að hugsa um. Það hefur hins vegar komið í ljós að það sem hringsnýst í mínu höfði er kannski ekki svo mikið né merkilegt. Færslurnar hafa færst yfir í það að vera röfl um mitt daglega líf og mínu helstu pælingar snúast um hrossarækt. Oh, well. Þetta er mitt blogg og ég get skift um skoðun. Svo hér fáið þið annan skammt af mínu stórkostlega lífi.
Það eru öll folöld fædd og allar hryssur sem eiga að fara undir stóðhest eru komnar á sinn stað. Það fór auðvitað eins og ég sagði. Ég var búin að fá tvö ættlaus merfolöld svo þá var alveg ljóst að ég myndi fá hestfolöld undan stórættuðu, fyrstu einkunna gæðingunum. Og ég fékk það. Það er búið að skíra allt liðið. Stelpurnar heita Ísadora og Embla, og drengirnir heita Gabríel og Viktor. Ég er sérstaklega ánægð með nafnagiftirnar þetta árið.
En svona í ljósi þess að ég þarf ekkert sérstaklega að sinna hrossunum eða réttara sagt ég er ekki jafn bundin yfir þeim, þá ákvað ég að það væri orðið löngu tímabært að þrífa litla burra. Þar sem ég gæti verið án hans hluta úr degi, enda bara að slappa af með tærnar upp í loft milli utanlandsferða.
Þeir sem hafa orðið þeirrar ánægju aðhljótandi að ferðast með litla burra vita að ég hef ekki sinnt honum í samræmi við allt sem hann gerir fyrir mig og það var löngu orðið tímabært að þrífa drenginn.
Litli burri er '97 árgerð að Toyota Hilux, vínrauður, með óþarflega stóra brettakanta, 33" dekk, fjögra dyra og með pallhús. Ég er yfirleitt ein á ferð en passa upp á að halda farþegasætinu frammí auðu til að geta keyrt mömmu eða tekið farþega. Aftursætið er yfirleitt fullt af dóti. Múlum, taumum, hófbítum, ofl. Auk þess sem þangað fljúga allar tómar umbúðir, svo sem, gosdósir, nammibréf og allar kvittanir. Ég hendi aldrei neinu út úr bílnum. Ég hef ekki trú á að henda rusli á götur borgarinnar né meðfram þjóðvegum landsins. Mér gengur hins vegar ekki nógu vel að koma ruslinu út úr bílnum og í ruslið. Skottið er svo annar kafli. Þar flyt ég hey, spæni, rafmagnsgirðingarstaura og fullt af rusli sem fellur til bæði heima og í hesthúsinu. Inn í farþegarýmið berst svo með mér fullt af heyi, hrosshárum, spæni, mold, möl, hrossaskít og allt annað sem fylgir mér. Þótt ég hafi reynt að tæma ruslið, stærri hlutina, út úr farþegarýminu annað slagið, þá hefur bílinn líklega ekki verið þrifinn að innan í circa tvö ár. Eruð þið farin að sjá fyrir ykkur hvernig bílinn hefur litið út að innan? Ég hins vegar þreif og bónaði bílinn að utan síðasta sumar. Aumingja litli burri. Þið getið ímyndað ykkur hvað hann hefur verið orðin sóðalegur. En það hefur orðið breyting á. Hann fór í alþrif í gær. Þið ættuð að sjá hvað hann er flottur núna. Hann nú bara býsna glæsilegur þótt hann verði tíu ára í janúar.
Í dag var ég svo mynnt á það að ég er að fara út á flugvöll á þriðjudagsmorgun og líklega verða þrír farþegar auk mín í bílnum. Fjórum manneskjum á leið til útlanda í viku fylgir svo auðvitað farangur. Skottið var ekki þrifið í gær, enda fullt af rusli. Ég tæmdi það í dag og notaði tækifærið að þrífa það upp í bústað. Mútta var nebbla að þrífa aðeins því "Tvibbinn" og nýja viðhengið ætla að koma í bæinn og þurfa stað til að vera á. Þegar ég var að sópa ógeðinu, það er besta orðið, út úr skottinu rakst ég á kónguló. Það var komið sjálfstætt lífríki í skottinu. En ekki lengur. Ég notaði sápu og spúlaði út úr skottinu.
Litli burri er því orðinn hreinn og fínn, jafn að utan sem innan. Þá er bara að halda honum þannig. Hehe.

|

Friday, July 07, 2006

Laaaaaaaangur dagur í gær
Eftir smá útréttingar um morguninn lagði ég af stað klukkan eitt. Þá var að sækja hestakerruna, keyra í Leirársveitina og sækja Kviku og dóttur. Ætlunin var að fara með dömuna undir Glampa frá Vatnsleysu. Kappinn sá er staddur á fæðingarbæ sínum, Vatnsleysu. Fyrir þá sem ekki vita þá er það ekki langt frá Sauðárkróki.
Ég búin að koma Kviku og dóttur á kerruna og var að leggja af stað úr Leirársveitinni klukkan korter í þrjú. Það tók fjóra klukkutíma, með stuttu stoppi, að keyra norður. Síðan aðra fjóra tíma að keyra heim, með kvöldmatarhléi. Þá var að keyra kerruna upp í bústað hjá vinkonu minni og svo heim. Ég var að skríða inn úr dyrunum klukkan tólf á miðnætti.
Ég þarf að sjálfsögðu að sækja dömurnar aftur eftir fjórar til sex vikur en að því undanskildu geri ég þetta aldrei aftur. Framvegis verður notast við hesta sem eru staðsettir nær.

|

Ísrael vs. Palestína
Ég var að horfa á Munich í gær, bíómyndina. Horfði reyndar á hana með hálfum hug. Var drulluþreytt eftir daginn og bara gat ekki sofnað. En myndin lét mig fara að hugsa um afstöðu mína eða afstöðuleysi gagnvart þessum tveimur þjóðum. Ég reyni að halda því fram að ég geti ekki tekið afstöðu í þessu máli en sannleikurinn er sá að ég er búin að taka afstöðu og hálf skammast mín fyrir hana þar sem hún er byggð á fordómum. Fordómum gagnvart múslimskum karlmönnum. Vegna þess get ég ekki fengið mig til að standa með Palestínumönnum þrátt fyrir að þeir eigi greinilega við ofurefli að etja í eigin landi sem var tekið af þeim. Ég hef verið að reyna að líkja þessu við andspyrnuhreyfingarnar sem börðust gegn nasistum. Í sögunni eru andspyrnuhreyfingarnar taldar hetjur. En er þetta sambærilegt? Þær beindu spjótum sínum að herliðinu sem hertók landið. Palestínumenn eru að drepa almenna borgara. En er Ísraelski herinn ekki að drepa almenna borgara líka? Það fer hins vegar í mig að fólk skuli binda á sig sprengjur, fara í strætisvagna og sprengja sjálft sig upp. Það er eitthvað svo geðveikislegt. Hvurslags fólk gerir svona lagað? Ég bara get ekki staðið með svona fólki. Mér finnst líka alveg óafsakanlegt að þeir hafi komið með stríð inn á ólympíuleikana. Jafnvel í fornöld var þetta friðartími. Veit að stríð hafa verið háð þótt leikarnir séu í gangi en þeir komu með stríð og morð inn á leikana. Mér finnst það móðgun við alþjóðasamfélagið. Svo er sýnt í sjónvarpi þegar palestínumenn kasta steinum í skriðdreka ísraelsmanna. Hvernig get ég sagt að ég standi með Ísrael?
En sannleikurinn er sá að ég er í raun aldrei afstöðulaus. Ég get alltaf tekið afstöðu byggða á þeim upplýsingum sem ég hef á þeim tíma. Síðan er ég tilbúin til að endurskoða þá afstöðu eftir því sem ég fæ nýjar upplýsingar. Í dag stend ég með Ísrael en ég ætla ekki að fara að út í neina baráttu fyrir þeirri skoðun þar sem mér finnst hún ekki vera byggð á nógu góðum forsendum.
Já, það er hægt að vera í stríði við sjálfan sig.

|

Tuesday, July 04, 2006

Back from America
Já, ég er komin heim. Kom á sunnudaginn. Er bara búin að hafa nóg að gera síðan ég kom. Það yrði allt of langt mál að fara yfir alla ferðina svo ég ætla bara að stikla á stóru.
Fórum í Disney World. Það er tvo garða af sjö. Það var stórt og mikið af öllu. Gaman að versla Disneydót. Fór í Rock'n Rollercoster og svitnaði meira á einni mínútu en allan daginn í 35°c hita. Ég er ekki mikil hetja þegar kemur að rússíbönum.
Vorum svo í tvær vikur á Siesta Key sem þykir víst besta strönd í heimi. Sandurinn er ótrúlegur, eins og hveiti og hitnar ekki í sólinni. Hef greinilega aldrei verið jafn nálægt miðbaug og sólin ótrúlega sterk. Fyrsta daginn setti ég sólarvörn númer 20 á mig og skaðbrann samt á bakinu. Var í bol næstu daga. Náði samt þokkalegum lit, alla vega brúnni en ég er almennt.
Borðuðum mikið úti. Skammtarnir eru STÓRIR. Svo eru alltaf "sidedishes". Getur valið þér eitthvað með, eins og hitt sé ekki nóg. Er farin að skilja hvers vegna kanar eru svona feitir og það er töluvert af mjög feitu fólki.
Þeir eru samt bara almennt kurteisir kanarnir, þeir mega eiga það. Tala hins vegar með frekar þykkum hreim. Ég átti stundum í vandræðum með að skilja þá.
Rafmagnið virðist gamaldags. Kveikjararnir sneru allir öfugt miðað við það sem mér finnst eðlilegt. Meira að segja klósettin virðast öðruvísi og stærðin á klósettpapírnum var líka önnur en ég á að venjast.
Vorum með sjötíu sjónvarpsstöðvar. Meirihlutinn reyndar hundleiðinlegar. Allt of mikið af auglýsingarhléum og allt of löng.
Hraðbrautirnar ótrúlega skilvirkar. Hefðum reyndar aldrei ratað neitt ef við hefðum ekki verið með Never Lost í bílnum. Bráðsniðugt kerfi sem segir hvar þú ert og hvar á að beygja og hvert. Mjög sniðugt.
Já, það er margt öðruvísi í Ameríku. Gaman að hafa komið þangað en ég er nú alltaf fegin að koma heim.
Fór auðvitað srax að tékka á hrossunum. Kvika, hryssan sem ég á með "norsaranum" hehe, var köstuð. Hún fékk rauðskjótta hryssu. Ég er ekkert öfundsjúk. Hryssan mín kastaði svo á mánudaginn og það var auðvitað hestur. Reyndar rauðtvístjörnóttur með leista á öðrum afturfæti. Þá á bara Drífa eftir að kasta. Ég er alveg viss um að ég fæ hest undan henni líka. Ég er búin að fá tvær hálf-ættlausar hryssur svo ég fæ auðvitað hesta undan hátt dæmdu hestunum. Just my luck. Ég vil nebbla frekar hryssur.

|