Ég, um mig, frá mér, til mínÞegar ég byrjaði að blogga þá ætlaði ég að tala um allt það gífurlega merkilega sem ég er að hugsa um. Það hefur hins vegar komið í ljós að það sem hringsnýst í mínu höfði er kannski ekki svo mikið né merkilegt. Færslurnar hafa færst yfir í það að vera röfl um mitt daglega líf og mínu helstu pælingar snúast um hrossarækt. Oh, well. Þetta er mitt blogg og ég get skift um skoðun. Svo hér fáið þið annan skammt af mínu stórkostlega lífi.
Það eru öll folöld fædd og allar hryssur sem eiga að fara undir stóðhest eru komnar á sinn stað. Það fór auðvitað eins og ég sagði. Ég var búin að fá tvö ættlaus merfolöld svo þá var alveg ljóst að ég myndi fá hestfolöld undan stórættuðu, fyrstu einkunna gæðingunum. Og ég fékk það. Það er búið að skíra allt liðið. Stelpurnar heita Ísadora og Embla, og drengirnir heita Gabríel og Viktor. Ég er sérstaklega ánægð með nafnagiftirnar þetta árið.
En svona í ljósi þess að ég þarf ekkert sérstaklega að sinna hrossunum eða réttara sagt ég er ekki jafn bundin yfir þeim, þá ákvað ég að það væri orðið löngu tímabært að þrífa litla burra. Þar sem ég gæti verið án hans hluta úr degi, enda bara að slappa af með tærnar upp í loft milli utanlandsferða.
Þeir sem hafa orðið þeirrar ánægju aðhljótandi að ferðast með litla burra vita að ég hef ekki sinnt honum í samræmi við allt sem hann gerir fyrir mig og það var löngu orðið tímabært að þrífa drenginn.
Litli burri er '97 árgerð að Toyota Hilux, vínrauður, með óþarflega stóra brettakanta, 33" dekk, fjögra dyra og með pallhús. Ég er yfirleitt ein á ferð en passa upp á að halda farþegasætinu frammí auðu til að geta keyrt mömmu eða tekið farþega. Aftursætið er yfirleitt fullt af dóti. Múlum, taumum, hófbítum, ofl. Auk þess sem þangað fljúga allar tómar umbúðir, svo sem, gosdósir, nammibréf og allar kvittanir. Ég hendi aldrei neinu út úr bílnum. Ég hef ekki trú á að henda rusli á götur borgarinnar né meðfram þjóðvegum landsins. Mér gengur hins vegar ekki nógu vel að koma ruslinu út úr bílnum og í ruslið. Skottið er svo annar kafli. Þar flyt ég hey, spæni, rafmagnsgirðingarstaura og fullt af rusli sem fellur til bæði heima og í hesthúsinu. Inn í farþegarýmið berst svo með mér fullt af heyi, hrosshárum, spæni, mold, möl, hrossaskít og allt annað sem fylgir mér. Þótt ég hafi reynt að tæma ruslið, stærri hlutina, út úr farþegarýminu annað slagið, þá hefur bílinn líklega ekki verið þrifinn að innan í circa tvö ár. Eruð þið farin að sjá fyrir ykkur hvernig bílinn hefur litið út að innan? Ég hins vegar þreif og bónaði bílinn að utan síðasta sumar. Aumingja litli burri. Þið getið ímyndað ykkur hvað hann hefur verið orðin sóðalegur. En það hefur orðið breyting á. Hann fór í alþrif í gær. Þið ættuð að sjá hvað hann er flottur núna. Hann nú bara býsna glæsilegur þótt hann verði tíu ára í janúar.
Í dag var ég svo mynnt á það að ég er að fara út á flugvöll á þriðjudagsmorgun og líklega verða þrír farþegar auk mín í bílnum. Fjórum manneskjum á leið til útlanda í viku fylgir svo auðvitað farangur. Skottið var ekki þrifið í gær, enda fullt af rusli. Ég tæmdi það í dag og notaði tækifærið að þrífa það upp í bústað. Mútta var nebbla að þrífa aðeins því "Tvibbinn" og nýja viðhengið ætla að koma í bæinn og þurfa stað til að vera á. Þegar ég var að sópa ógeðinu, það er besta orðið, út úr skottinu rakst ég á kónguló. Það var komið sjálfstætt lífríki í skottinu. En ekki lengur. Ég notaði sápu og spúlaði út úr skottinu.
Litli burri er því orðinn hreinn og fínn, jafn að utan sem innan. Þá er bara að halda honum þannig. Hehe.