Sunday, November 26, 2006

Reipitog
Þar sem það er orðið haglaust á Kjalarnesinu ákvað ég að koma hrossunum bara inn sem fyrst. Það þýddi að ég þurfti að taka folöldin inn fyrst til að mæðurnar hætti að mjólka áður en ég tek þær inn. Svo ég ruddist á Kjalarnesið í gær með hestakerruna. Ég vissi að það væri töluverð bjartsýni að koma folöldunum ein á kerruna en ég ætlaði sko að reyna.
Það var lítið mál að koma liðinu inn í réttina og koma múlum á folöldin. Síðan ákvað ég að byrja á Ísadoru þar sem hún var svo samvinnuþýð þegar ég klippti á henni hófana og gaf ormalyf. Hún var ekki alveg jafn samvinnuþýð núna. Það upphófst mikið reipitog. Ég var með langan taum sem var festur í múlinn og með lykkju aftur fyrir rassinn á henni. Síðan var ég með tauminn aftur fyrir bakið á mér. Síðan spyrntum við við fótum í sitthvora áttina. Hún var ekkert á því að gefa sig og lét sig frekar detta á hausinn en að koma með mér. Ég tók mömmuna á kerruna og eftir mikil slagsmál tókst mér að koma litla villidýrinu á kerruna. Þá var að koma hinni inn líka. Ég fór eins að og var komin með hana að kerrunni. Þá birtist fólkið sem á hrossin í næstu girðingu og hjálpaði mér að ýta henni upp á kerruna. Ég var svo fegin. Ég hefði samt alveg klárað þetta ein sko!!!
Setti hörinn undir í gær og er spennt að sjá hvernig hann virkar. Leit vel út þegar ég gaf í morgun en ég sé best hvernig þetta virkar þegar ég fer að moka.
Mér finnst hún Gríma mín voðalega aum í fætinum enn þá og ef hún verður ekki farin að skána eitthvað þegar líður á vikuna þá fæ ég aftur dýralækni.
Annars er ég að reyna að vera voðalega jákvæð. Gengur þokkalega.

|

Thursday, November 23, 2006

Sjaldan er ein bára stök...
Í gær varð ég aðeins bjartsýnni. Karlinn var byrjaður að laga vatnslögnina. Fyrirtækið sem braut taðþrónna mína fyrir ári síðan var allt í einu mætt til að fjarlægja vegginn sem það braut. Ég fékk rúllu til að fara með í hrossin. Já, ég hélt að allt væri á réttri leið.
Já, nei, ekki alveg. Karlinn hringdi í mig í dag og sagðist vera að gefa hrossunum brauð á Kjalarnesinu og gamla skjótta hryssan mín væri eitthvað svo stirð og skrítin. Ég spurði hvort hún væri hölt eða bara stirð eða hvað hann ætti eiginlega við. Ég fékk engin frekari svör. Svo ég dreif mig upp eftir til að athuga málið. Það sást á löngu færi hún Gríma mín væri drag-hölt á vinstri afturfæti. Það var því ekki mikið annað að gera en að ná í hestakerruna og koma dömunni upp á Dýraspítala. Það gekk svo sem án mikilla vandkvæða og ég ákvað að taka Áru með því Gríma þyrfti mjög líklega að fara svo í hesthúsið og þar yrði hún ekki ein. Eftir nokkur hlaup og myndatöku kom svo í ljós að hún hefði líklega snúið sig við slagsmál um heyið og fékk hún bólgueyðandi og fyrirskipaða tveggja vikna hvíld.
Því næst trillaði ég mér upp í hesthús með dömurnar. Það var búið að tengja vatnið upp á nýtt í fjórum stíum svo ég hleypti vatninu á til að dömurnar fengju nú að drekka. Um leið og ég gerði það sprakk tappi í einni skálinni. Hann hefur líklega verið búinn að skemmast við frostið. En þetta hafði þau áhrif að ég varð að skrúfa fyrir vatnið aftur og vatna dömunum í fötum. Það er ekkert mál að skipta um þessa tappa, ég átti bara ekki auka tappa. Kaupi þá á morgun.
Ég ætlaði að nota daginn til að háþrýstiþvo því þetta virtist vera eini dagurinn sem yrði frostlaust. En ég þvæ ekki eftir að hrossin eru komin í hús. Það verður því skítugt hjá mér vetur, er að reyna að sætta mig við það.
Það er búið að brjóta niður vegginn en það var enginn á staðnum í dag til að halda áfram með verkið. Það er eins gott að þeir klári að laga þetta. Það hefði verið skárra að vera með brotinn vegg annan vetur en engan vegg.
Ok. Þetta er ekkert stórmál og allt á réttri leið. Ég þarf bara aðeins að fá að nöldra um hlutina til að fá útrás.

|

Tuesday, November 21, 2006

Skemmtileg heimkoma
Ég bjóst við að fyrsta færslan mín eftir að ég kæmi heim yrði um hvað var gaman og notalegt í Noregi en hún verður það ekki. Ég er búin að vera heima í sólarhring og er alveg hundfúl yfir öllu sem hefur farið úrskeiðis á þeim tíma.
Þegar ég kom heim í gær ákvað ég að leggja í innkeyrslunni til að þurfa nú ekki að bera töskuna mína og dótið of langt. Það var bara eitt stæði í innkeyrslunni, fyrir aftan bíl sem var lagt alveg fáránlega langt frá kantinum. Ég þurfti að setja í fjórhjóladrifið til að komast inn í stæðið. Síðan þurfti ég að stinga mér svo inn í stæðið að ég rakst utan í eldgömlu trégirðinguna sem er meðfram kantinum. Hélt að það væri nú ekki stórmál, þessi girðing svignar og bognar nú ekki þetta litla. En nei. Þessi helvítis lego dublo stuðari sem er á bílnum krullaðist eins og ég veit ekki hvað. Það er ekki mjög langt síðan ég lét setja þennan stuðara á því sá sem var, var einmitt allur boginn og beyglaður eftir hestakerruna og hitt og þetta. Ég ætlaði að fá rörastuðara en þá hefði ég þurft að skipta um dráttarbeisli líka og hefði ekkert fengið fyrir dráttarbeislið sem ég lét setja á bílinn á sínum tíma fyrir 60þús. Mér fannst það frekar blóðugt þar sem rörastuðari og dráttarbeisli hefði kostað annað eins. Svo það varð úr að ég lét setja nýjan drasl stuðara fyrir 30þús. Og nú er hann farinn til fjandans. Ég gæti gargað.
Í gær hringdi karlinn sem er búinn að leggjast upp á mig með hrossin sín til að segja mér að hrossin á Kjalarnesinu væru kominn úr girðingunni og upp í fjall. Ég gat nú ekki mikið gert enda stödd í lest út í Noregi. Hann hringdi svo aftur og sagðist vera búinn að redda þessu. Ég ákvað samt að skoða málið í dag. Kom við í hesthúsinu til að taka með mér hey fyrir hrossin. Var ansi hrædd um að það væri orðin lítil beit í þessum snjó. Þegar ég kom í hesthúsið sá ég mér til mikillar ánægju að nýja vatnsleiðslan var öll frostsprungin. Vei, það var allt sem ég þurfti. Þegar ég kom svo á Kjalarnesið voru öll hrossin komin aftur upp í fjall. Ég þurfti því að ná í hrossin. Á leiðinni upp í fjall sá ég hvers vegna hrossin voru að troðast út úr girðingunni. Það var orðið vita haglaust. Svo ég dró hrossin niður í sumarbeitina og gaf þeim hey þar. Verð svo að reyna að redda bagga fyrir þau á morgun. Vona að það verði sæmilegt veður til að ég komist.
Ég veit að þetta reddast en ég vildi að það væri ekki allt svona mikið vesen. Þarf að láta karlinn sem ég er að reyna að losna við laga vatnslögnina til að ég geti tekið inn hrossin og hann vinnur á hraða snigilsins. Helvítis, djöfulsins, helvíti.

|

Wednesday, November 15, 2006

Noregsferð 15.-20. nóvember
Þá er komið að því. Fer með SAS og fer í loftið kl. 18.50. Ferðafélagi minn virðist stressaðari en ég, hehe. Það fylgir því alltaf pínu stress að ferðast á milli landa. Ég held að ég sé búin að koma öllu niður í tösku. Ef ekki þá verður bara að hafa það. Það reddast. Finnst verst hvað við lendum seint, hefði viljað fá mér Peppes Pizza á flugvellinum. Oh well, kannski á leiðinni heim. Þá hef ég bara ekki meira að segja í bili.

|

Tuesday, November 14, 2006

Umræða er góð
Ég ætla að tjá mig aðeins meira um mál málanna, innflytjendur.
Ég verð samt að segja það að ég frekar hneyksluð á þeim sem vilja opið land. Ekki að ég sé hneyksluð á því að þeir vilji hafa landið opið heldur er ég hneyksluð á málflutningi þeirra. Þeir hafa upp til hópa úthrópað alla þá sem ekki eru sammála þeim sem rasista. Hverjir eru með fordóma og dómhörku? Þeir sem hafa getað haldið ró sinni og talað um málið hafa gert miklu meira gagn. Ég, og hinir rasistarnir, getum ekki skipt um skoðun ef við erum ekki frædd um málið á málefnalegum nótum. Persónulega er ég mjög ánægð með að þessi umræða hafi farið af stað er og tel mig nú þegar vita meira um málið en ég gerði áður. Fræðsla hlýtur alltaf að vera af hinu góða.
Eftir að þessi umræða fór af stað komst ég að því að það búa 4000 múslimar á Íslandi. Who knew? Hafði aldrei hvarflað að mér að þeir væru svona margir. Það sýnir hvað þeir hafa aðlagast illa, eða þannig.
Aðal ástæðan fyrir því að ég vil að einhverjar takmarkanir séu gegn því að fólk flæði inn í landið eru vandamálin sem hafa skapast í Evrópu. Fólk almennt er fordómafullt og ekki sérlega skynsamt. Það á bæði við innflytjendur og þá sem búa í löndunum fyrir.
Ég vil ekki sjá innflytjendagettó. Fólk verður að getað fengið vinnu og menntun.
Það er tjáningarfrelsi í landinu. Ef einhver vill gera grín að Múhammed eða Jesú þá má það. Live with it.
Við búum við kvenfrelsi. Það að konur gangi með blæjur fyrir andlitinu er kúgun. Það gerir konur persónulausar og þar með ekki sjálfstæða einstaklinga. Slæður yfir hárið og öll áberandi trúartákn eru í lagi. Það á ekki að þurfa að banna þau opinberlega.
Ég held að ég fari með rétt mál að það hafi verið í Bretlandi, að jólafrímerkin voru ekki með myndum af neinu sem tengist jólunum til að móðga engan. Er ekki í lagi með ykkur??? Ef þið haldið ekki jól þá kaupið þið ekki jólafrímerki. Leyfið þeim sem eru trúaðir og halda jól að fá jólafrímerkin sín.
Að öðru leiti er ég nokkuð sátt við að fólk flytji til landsins. En við verðum að læra af því sem hefur verið að gerast í kringum okkur og hafa vítin til varnaðar. Það er hellingur af vandamálum sem tengjast innflytjendum og það verður að hafa lausn á málunum.
Ekki neita umræðum á grundvelli þess að fólk eigi ekki að hafa fordóma. Fordómar byggjast yfirleitt af fáfræði. Fræðið fólk í staðin fyrir að uppnefna það.

|

Friday, November 10, 2006

Klukkan, baðolía, hvalveiðar, strokufolöld og Tímon
Blessuð klukkan sem ég sótti í viðgerð slær á hálftíma fresti allan sólarhringinn. Svo slær hún ekki einu sinni rétt. Hún slær alltaf tvö högg klukkan eitt. Er ekki búin að fylgjast nógu náið með henni en hún slær tólf högg klukkan tólf svo hún slær rétt á ákveðnum tímum. Við bíðum spenntar eftir að hún hætti að ganga. Það þarf að trekkja hana. Ég asnaðist til að spyrja hvernig ætti að trekkja hana, því það eru tvö göt til að trekkja, svo hann trekkti hana þegar ég sótti hana og sagði að það þyrfti að trekkja hana vikulega. Bíð spennt eftir næsta mánudegi.
Nú í vikunni tók ég mig til og keypti baðolíu. Hélt það væri sniðug lausn þar sem ég nenni ekki að nota kremdrullu að staðaldri. Var líka farin að verða pínu þur í kuldanum. Svo ég skellti mér í bað, passaði að setja hárið ekki ofan í olíuna. Stóð svo upp og þvoði á mér hárið og skolaði af mér. Það dugði nú ekki til. Mér fannst ég sliðrast áfram eins og snigill. Bjóst helst við því að skilja eftir mig olíuslóð hvar sem ég færi. Og nei, ég notaði ekki of mikla olíu. Setti bara pínu. Það verður bið á að ég noti hana aftur.
Ég var að mörgu leiti ánægð þegar við hófum hvalveiðar. Fannst bara í góðu lagi að gefa alþjóðasamfélaginu fingurinn. Þetta er okkar hafsvæði og við megum nýta það. Hef fulla trú á að vísindamennirnir okkar viti hvort þessir hvarlir séu í útrýmingarhættu eða ekki. Held að yfir 20þúsund dýr teljist ekki í útrýmingarhættu. Þoli ekki þessa vísindaveiða afsökun, finnst hún léleg. Svo var verið að tala um að þetta væru líklega 50-60 ára gömul dýr og sýnt þegar verið var að draga þau á land. Ég fékk nú bakþanka. Allt í einu fannst mér synd að vera að veiða þessa gömlu risa. Ekki það að ég telji hvali eitthvað gáfaðari eða merkilegri en önnur dýr. En ég fæ náttla sting í hjartað við að horfa á lömbin á sumrin. Annars hef ég borðað hvalkjöt og finnst það bara gott. Og núna er ég komin í þversögn við sjálfan mig einu sinni enn.
Þegar ég fór upp á Kjalarnes um daginn, til að tékka á hrossunum, voru litlu bínurnar mínar komnar út fyrir girðingu. Sem betur fer upp í fjall í almenninginn en ekki út á veg. Þær komu svo hlaupandi þegar hin hrossin komu niður á móti mér. Ég var með þykkt rafmagnsband í bílnum og gekk upp eftir til að athuga málið. Þær voru búnar að slíta úr neðri rafmagnsgorminn í hliðinu. Enda er ekkert rafmagn á girðingunni því geymirinn er ónýtur og ég tími ekki að kaupa nýjan fyrr en næsta sumar. Þau verða ekki nema fram í miðjan desember þarna upp frá. Svo ég flækti bandinu fram og til baka fyrir hliðið og setti gorminn aftur í. Svo fór ég aftur upp eftir á þrijudaginn. Litlu dömurnar aftur komnar út fyrir. Ég var viðbúin þessu og var með færanlega rafmagnsgirðingarstaura, meira band og litla batterísrafstöð sem ég á í skottinu á bílnum. Ég þurfti að arka tvær ferðir efst í stykkið, þar er komin töluverð brekka, og staurarnir voru nú ekki beinlínis léttavikt. Svo ég girti aukalega fyrir hliðið og upp efsta hlutan sem ég hef þau almennt ekki í, það er svo erfitt að girða þar almennilega út af grjóti og setti litlu stöðina bara á þann hluta girðingarinnar. Datt í hug að lillurnar vildu fá meira sprottið gras. Það er nóg beit en það ekki svona hátt, fallið gras eins og þarna efst. Þær voru sem betur fer á réttum stað á fimmtudeginum. Eins gott! Ég var með þvílíkar harðsperrur í handleggjunum eftir þetta að mig hreinlega verkjaði.
Síðan er það hann Tímon. Ég veit að ég sagðist ekki ætla að fá mér fleiri ketti en það er sem sagt kominn nýr. Systir vinkonu minnar átti hann. Síðan þurfti hún að flytja og gat ekki haft hann. Það var búið að spyrja mig og ég sagði nei. Það var svo önnur kona sem tók hann. Hún hins vegar gafst upp eftir tvær vikur. Það voru svo mikil læti í honum. Þegar ég var spurð aftur þá gat ég ekki sagt nei. Svo hann kom, fimm mánaða, fjörkálfur. Hann er auðvitað voða krútt og ofsalega líkur Jósefínu á litinn. En hann er ansi fjörugur og fyrirferðarmikill. Hrekkir gömlu kettina alveg miskunarlaust og er ekkert hræddur við þá. Hann fær ekki að fara út fyrr en eftir áramót. Þá vonum við að þetta ólukkans ár verði liðið.

|

Thursday, November 09, 2006

Innflytjendur og alþjóðlegt samfélag
Ef það hefur farið framhjá einhverjum fastagestum síðunnar þá er ég trúleysingi. Og hvers vegna er ég að ítreka það? Jú, ég er, þrátt fyrir það, mjög þakklát, sem kona, að hafa fæðst og búið í kristnu samfélagi. Og ég vil búa í kristnu samfélagi. Vestræn samfélög eru kristin. Yfir 90% mannkyns hefur þörf fyrir að trúa á æðri máttarvöld og hér er það kristni. Ég vil ekki að hér verði neitt aðþjóðlegt samfélag. Hér ríkir trúfrelsi og finnst mér eðlilegt að við leyfum þeim sem vilja að hafa aðra trú, eða trúleysi. EN, þeir verða að gera sér grein fyrir því að þeir hafa kosið að búa í kristnu samfélagi og verða að lifa eftir reglum þess. Mörg önnur samfélög, sem hafa aðra trú, nota trúnna til að halda konum niðri og jafnvel kúga þær og í sumum eru þær alveg réttlausar. Ég kæri mig bara ekkert um að við séum að taka tillit til þess þegar það flytur til landsins. Ef ég myndi flytja til lands þar sem væri t.d. öfgakennd múslimatrú þá myndi ég ekki fá að halda þar þeim réttindum sem ég hef í kristnu samfélagi. Hvers vegna eiga þá kristin samfélög að leyfa öðrum trúarhópum að traðka á konum í skjóli einhvers trúfrelsis þegar við myndum aldrei getað flutt okkar réttindi til þessara landa?
Ég geri mér alveg grein fyrir því að það eru alls ekki allir múslimar ofsatrúaðir og ekki eru allar múslimskar konur kúgaðar. Það eru líka ofsatrúaðir kristnir söfnuðir og sumir þeirra nota trúnna til að kúga konur. En það eru fleiri ástæður fyrir því að fólk er hrætt við múslima. Hryðjuverk eru þar efst á blaði. Og núna hrópa örugglega margir fordómar og sleggjudómar. Er það? Múslimar ættu ekki að skammast í okkur heldur í trúbræðrum sínum. Það eru jú múslimar sem eru fæddir og uppaldir í vestrænum samfélögum sem eru að taka sig til og fremja hryðjuverk í sínu eigin landi. Það eru mjög réttmætar forsendur fyrir því að fólk sé hrætt. Ofan á það kemur að í norðurlöndunum, okkar næstu nágrönnum, er búið að fremja nokkur heiðursmorð. Það er full ástæða til að óttast að þetta gerist hér ef múslimum fjölgar mikið. Og við viljum þetta ekki. Og við höfum fullan rétt á að vilja þetta ekki.
Síðastliðin 500 ár hefur verið félagsvísindatilraun í gangi í Bandaríkjunum. Þar hefur verið fólk af öllum kynþáttum og trúarbrögðum. Finnst ykkur það hafa gengið vel? Og þar eru allir innflytjendur. Alls staðar þar sem blandað hefur verið saman ólíkum hópum verða vandræði. Og þetta er ekki bara í hvítum samfélögum. Í einu Afríkuríki tóku blökkumenn sig til og hrökktu hvíta bændur af jörðum sem þeir höfðu átt í áratugi. Ef þeir fóru ekki þá voru þeir bara drepnir. Í Evrópu hafa verið framin þjóðarmorð á hópum sem höfðu ekki sömu trú og meirihlutinn og það sama hefur gerst í Afríku.
Það er engin að tala um að reka út fólk sem er komið til landsins. Það er verið að tala um að koma í veg fyrir að fjöldin verði svo mikil að vandamál skapist. Þjóðin er nú þegar farin að koma að þolmörkum. Kannanir sýna að yfir 80% þjóðarinnar er hlynnt því að eitthvað verði gert. Þingmenn geta ekki þagað þetta mál í hel. Það er miklu nær að stjórnmálaflokkarnir sem fyrir eru taki ábyrga afstöðu í þessu máli. Ef ekki þá munu koma fram hér flokkar sem hafa númer eitt á stefnuskrá sinni að halda úti innflytjendum og berjast gegn þeim. Og þeir munu ná miklu fylgi. Þeir hafa gert það alls staðar þar sem þeir hafa komið fram. Viljum við það? Ég vil það ekki. Ég vil ekki að það verði hér flokkur við völd sem líkist helst nasistaflokknum sáluga. Það er heimska að halda að okkur takist eitthvað hér sem hefur ekki tekist neinsstaðar. Þjóðin hefur nú þegar greinilega látið skoðun sína í ljós.
Þessi umræða sem hefur nú komið fram hefur reyndar verið aðeins á röngum forsendum. Nú er sú staða komin upp að aldrei hefur verið jafn mikið af útlendingum í landinu. Þetta eru í raun ekki innflytjendur, þetta er fólk sem er hér til að vinna og það vantar vinnuafl. Ég tel nú ekki að þetta fólk sé að taka vinnu frá neinum. Hins vegar er verið að brjóta á þessu fólki mörgu hverju. Það fær miklu lægri laun. Því er troðið í litlar íbúðir og látið borga allt of mikið fyrir að búa þar. Við erum greinilega ekki að ráða við þetta þegar við getum ekki tryggt réttindi þessa fólks. Þetta getur líka haft þau áhrif að þegar þennslan minnkar þá verði frekar teknir útlendingar á lágum launum í störf en íslendingar og auðvitað heldur það niðri lægstu laununum. Það er því að mörgu að hyggja.
Svo er nú annað sem fylgir þessu. Ég er búin að lenda í því nokkrum sinnum núna í sumar og haust að þegar ég er í göngutúrum fram hjá byggingarsvæðum, þá standa saman í hópum útlendir byggingarverkamenn og glápa á mig glottandi og hlæjandi. Kalla jafnvel á eftir mér með tilheyrandi hlátursköllum. Þetta er ekki þægilegt og er ekki til þess fallið að ég sé hlynt erlendu vinnuafli. Ég myndi ekki vilja lenda í þessum mönnum drukknum niður í bæ um helgar.
Þetta er nú stórum dráttum það sem er búið að vera snúast í hausnum á mér um þetta mál. Ég tel mig nú ekki vera með neina fordóma í þessu sambandi. Það eru auðvitað einhverjir ekki sammála mér og hafa fullan rétt á því. En ég hef rétt á minni skoðun og má viðra hana á minni bloggsíðu. Ef þið viljið tjá ykkur eitthvað um málið, með eða móti, þá bið ég ykkur um að vera málefnaleg. Ég áskil mér líka rétt til að taka út þau komment sem mér líka ekki, af hvaða ástæðu sem er. Það er bara ég sem hef óskorðað málfrelsi á minni síðu.

|

Monday, November 06, 2006

Lífið heldur áfram
Ég er búin að bæta við tenglum á nokkra vini. Þær eru allar í hestunum en bloggin eru ekki eingöngu um hesta.
Fór með bróa í Ikea í dag. Ætluðum að kaupa nýja stóla á kaffistofuna í hesthúsinu. Þeir voru ekki til svo að við fórum í smávörudeildina og keyptum fullt af öðru dóti. Allt saman bráðnauðsynlegt, eða þannig. En peningurinn fyrir videovinnuna var svona "auka" þannig það er alveg óþarfi að spara hann neitt, bara eyða honum í eitthvað skemmtilegt.
Nú er heldur betur farið að styttast í Noregsferðina. Ég er bara farin að verða spennt. Hef reyndar áhyggjur að ég eigi engin almennileg föt fyrir alvöru vetur til fjalla í Noregi. Það leynist nú reyndar ýmislegt á mínu heimili eins og reyndar víða í kringum mig. Á bara eftir að skoða dálítið betur í skápana.
Fór líka að sækja klukku í viðgerð. Fór með hana í viðgerð fyrir rúmu ári síðan fyrir "Tvibbann". Fyrst gleymdi ég henni, bara til að komast að því að úrsmiðurinn gleymdi henni líka. Síðan gleymdi hann henni aftur. Svo var loksins hringt í mig í morgun. Ég dreif mig því að sækja klukkuna. Ég vissi að hún myndi dingla eitthvað á hálftíma fresti en ekki að það heyrðist svona hátt í henni. Mútta rak mig með hana inn til mín. Vildi ekki hafa þennan hávaða inni í stofu. Ég ætla nú samt að læðast með hana aftur inn í stofu í kvöld. Sé ekki fram á að sofa mikið með hana inni hjá mér.
Ég ætla ekki að taka inn hross fyrr en ég kem aftur til landsins. Allt búið að taka meiri tíma en ég bjóst við. Tíminn bara flýgur áfram. Það er ágætt, nema að það er farið að auglýsa fyrir jólin. Hef nú engan tíma fyrir það strax. Margt annað sem kemur fyrst.

|

Friday, November 03, 2006

Haustmyrkrið er komið
Allt í einu skall það bara á mér. Drungalegt og þrúgandi. Fjölskyldan varð fyrir áfalli í vikunni og allir eru hálf niðurdregnir. Myrkrið var ekkert að hrella mig fyrir það.
Ég hef haft grun um það lengi að ég væri með áreynsluasma eins og hálf fjölskyldan. Ég ákvað um daginn að það væri komin tími til að bæta þolið. Óð út í allt of miklum kulda og kom inn í asmakasti. Fékk púst hjá múttu til að geta andað. Svo fór ég upp í hesthús seinni partinn í dag. Var ekkert að gera að ráði. En fékk þetta netta asmakast. Hóstaði svo svakalega að ég fékk sárindi í hálsinn og er rám niður í rassgat. Þurfti aftur að fá púst hjá múttu. Held ég verði að finna lækni við tækifæri.
Ég kom samt við í að kaupa ofnalykil til að hleypa lofti af ofnunum, þótt ég væri í andnauð. Mútta var búin að kvarta mikið yfir því að ofnarnir hitnuðu ekki og við þyrftum að gera þetta. Þetta telst í mínum verkahring. Ég varð fyrir hálfgerðum vonbrigðum, átti von á merkilegra verkfæri. Það var hins vegar ekki mikið loft á ofnunum þegar á reyndi. En mútta er alla vega hætt að tuða.
Ég er farin að telja niður að Noregsferðinni. Ég og brói ætlum að fara í skemmtiferð og hitta liðið betur. Það var pínulítið upptekið í sumar, snérist allt í kringum brúðkaupið, ótrúlegt nokk, hehe. Það stóð til að það væri reiðnámskeið en það er svo mikill snjór að það dettur líklega upp fyrir. Það var allt í lagi þar til brói fór að tala um skíði og fjórhjól. Ég hef ekki farið á skíði í fjórtán ár og ég er ekki að ýkja. Var nú aldrei nein skíðadrottning þá heldur. Svo ég er farin að hafa áhyggjur af því að fótbrjóta mig eða hafði áhyggjur af því þar til fjórhjólin voru nefnd. Þá fór ég að hafa áhyggjur af því að hryggbrjóta mig. Bróðir vinkonu minnar datt af fjórhjóli í sumar og hryggbraut sig og hann er ekki sá eini sem ég veit um. Ég gæti líka verið að mála skrattann á vegginn út af því að ég er í svartsýniskasti.
Aldrei þessu vant lét ég glepjast af auglýsingum. Langaði alveg voðalega að smakka svona mini brownies eins og alltaf er verið að auglýsa. Gerði mér ekki alveg grein fyrir því að þær eru alveg mini, mini, mini. Þær eru heldur ekkert voðalega góðar.
Hringdi loksins í yfirmann verslunarinnar sem ég kaupi spæni af fyrir hesthúsið. Það kom í ljós að hann verður ódýrari en ég hafði búist við. Sá fram á að eyða 300þús. í spæni í vetur. Hann sagði mér líka að þeir væru komnir með hör sem undirburð. Var einmitt að lesa grein um það og það hljómar vel. Ekkert ryk og á jafnvel að þurka betur en spænirinn. Er að hugsa um að prófa það, sérstaklega í ljósi þessa asmakasta sem ég er að fá.

|